29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft máli sem ræða ber á Alþingi. Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum undanfarin ár, og alveg sérstaklega nú síðustu vikurnar, veldur miklum áhyggjum. Það kemur æ betur í ljós að við óbreyttar reglur um framkvæmd kvótakerfisins verður ekki búið áfram. Ég ætta hins vegar ekki að rökstyðja þá fullyrðingu mína hér og nú. Í fyrsta lagi er ekki tími til þess á tveimur mínútum. Í öðru lagi er það ekki tímabært vegna þess að nú eru starfandi nefndir sem vinna að tillögugerð um framtíðarskipan þessara mála. En í þriðja lagi tel ég það ekki þjóna hagsmunum Suðurnesjamanna á nokkurn hátt að fara með þetta mál í umræðu á Alþingi með þeim hætti sem hv. þm. Borgarafl. gerir hér. Hann verður hins vegar að meta það sjálfur hvort það þjónar hagsmunum hans.

Ég vil skýra frá því að þm. Reykjaneskjördæmis hafa í sinn hóp rætt þau vandamál sem upp koma vegna sölu fiskiskipa frá Suðurnesjum. Við höfum rætt leiðir sem mögulegar kunna að vera til að aðstoða Suðurnesjamenn í þeirri viðleitni þeirra að reisa sjávarútveginn við á því svæði. Í þeim tilgangi höfum við mætt á fundum þeirra þar sem vandamálin hafa verð rædd. Í sameiningu höfum við þm. komist að niðurstöðu um fyrstu aðgerðir af okkar hálfu.

Sl. þriðjudag áttum við fund með undirbúningsnefnd að stofnun útgerðarfélagsins Eldeyjar. Á þeim fundi var ákveðið að skrifa hæstv. viðskrh. bréf og óska upplýsinga um hvort hagsmuna ríkisins hefði verið að fullu gætt við sölu togarans Dagstjörnunnar til Akureyrar. Þá var einnig ákveðið að biðja Byggðastofnun að taka saman upplýsingar um ýmis atriði sem fækkun fiskiskipa hefur í för með sér á þessu svæði. Fundinn með forustumönnum Eldeyjar hf. sátu m.a. þm. Borgarafl. í Reykjaneskjördæmi. Þeir þögðu hins vegar um það að þeir hefðu þá þegar beðið um utandagskrárumræðu um það mál sem við vorum í sameiningu að ræða og reyna að finna bestu leiðir til stuðnings við.

Við þm. kjördæmisins höfum á fundi í gær átalið þessi vinnubrögð Borgarafl. í kjördæminu og ég átel þau hér fyrir okkar hönd. Við höfum sagt þeim að þessar aðferðir séu nýjar í okkar hópi. Þær eru líklegar til að valda sundrung í stað sameiningar. Ef framhaldið hjá þessum hv. þm. verður í líkingu við upphafið á starfi þeirra í okkar hópi er ekki von á góðu. Ég vona samt að þetta frumhlaup þeirra skaði ekki þann málstað sem við hinir erum að berjast fyrir.