25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4858 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

280. mál, rannsóknarnefnd umferðarslysa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er ljóst að menn hafa nú af því nokkrar áhyggjur eftir gildistöku nýju umferðarlaganna hvort upplýsingar um umferðarslys muni skila sér þangað sem þær ættu helst að koma eins og áður hefur verið. Nú mun hæstv. ráðherra vera með reglugerð í smíðum og eftir að tjónsaðilar eiga sjálfir í mörgum tilvikum að skila skýrslu um óhöpp hafa menn nokkrar áhyggjur af því að tryggingarfélögin muni ekki hirða um sem skyldi að skila upplýsingum. Þeir sem stjórna umferð, t.d. á þéttbýlissvæðunum og raunar hvar sem er, hafa komið að máli við mig hver eftir annan og dregið í efa að eins auðvelt verði að fylgjast með hættulegum stöðum í umferðinni. Ég vil því fara þess á leit við hæstv. dómsmrh. að að því verði hugað við gerð þeirrar reglugerðar sem við eigum von á hvort ekki er einhver möguleiki á því að gera tryggingarfélögunum beinlínis skylt að skila tjónskýrslum án þess að þar með þurfi að fylgja upplýsingar um persónur og bílnúmer og annað slíkt, heldur fái bæði Vegagerðin og sú stofnun hér í Reykjavík sem fjallar um umferð á Stór-Reykjavíkursvæðinu þessar upplýsingar frá tryggingarfélögunum. Ég væri þakklát fyrir að fá að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um þetta.