25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4858 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

280. mál, rannsóknarnefnd umferðarslysa

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör sem ég verð að viðurkenna að komu mér nokkuð á óvart og valda mér vonbrigðum vegna þess að mér hefur fundist hæstv. dómsmrh. gera sér ljósa grein fyrir þýðingu þessara mála og sýnt þeim mikinn áhuga.

Hann talaði um að þetta væri ekki sambærilegt við flugslys og sjóslys. Ég er ekki alveg sammála vegna þess að ég tel að slík rannsóknarnefnd umferðarslysa hljóti einmitt að beinast fyrst og fremst að þessum alvarlegu slysum í umferðinni, stóru slysunum ef við getum kallað svo. Slík nefnd, skipuð sérfræðingum eins og gert er ráð fyrir í lögunum, hlyti að vera dómbær á það að gera skilgreiningu á því hvenær þörf er slíkra rannsókna og hvenær ekki. Það er einmitt það að ekki er tryggt að upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum, liggi fyrir eftir rannsókn slíkra slysa sem hlýtur alltaf að verða með frekar fljótu yfirbragði hverju sinni. Þess vegna held ég að það sé í raun og veru borðliggjandi að það sé ástæða til að skipa þessa nefnd.

Ég vil benda á að það er stjórnskipuð nefnd um varnir gegn slysum að vinna að því núna að koma á samræmdri slysaskráningu fyrir landið allt varðandi öll sjúkrahús og heilsugæslustöðvar þar sem sú skráning fer öll inn á slysadeild Borgarspítalans til að einfalda þau mál.

En ég vil endurtaka að hæstv. ráðherra hefur sýnt þessum málum skilning og áhuga, m.a. með því að bregðast skjótt við og skipa nefndina um þjóðarátakið í umferðaröryggi sem einmitt er að byrja að sýna árangur af sínum störfum núna um gildistöku nýju umferðarlaganna og hófst í fyrrakvöld með beinni útsendingu í sjónvarpinu sem væntanlega margir hafa séð, sem Ómar Ragnarsson stóð fyrir, en markmiðið með því átaki er einmitt að þeim umferðarslysum verði nánast útrýmt sem rekja má til vankunnáttu, þjálfunarleysis og tillitsleysis við aðra vegfarendur.