25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4859 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

280. mál, rannsóknarnefnd umferðarslysa

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja örfá orð um ábendingar hv. 13. þm. Reykv. Ég skil vel áhyggjur hennar og þakka ábendingarnar. Ég held þó að það sé ástæðulaust að óttast, að upplýsingar skili sér miður í hinu nýja kerfi en því sem verið hefur. Reynsla annarra þjóða, sem hafa tekið þetta lag upp, þ.e. að ökumenn sem verða fyrir slysum í umferðinni, sem ekki valda neinu tjóni á fólki en eingöngu á munum eða bílum, skili sjálfir þessum skýrslum, hefur sýnt þetta og sannað, enda er það beinlínis hagsmunamál tryggingarfélaganna að halda um þetta sem bestar skýrslur og koma þeim á framfæri. Það er ekkert síður þeim í hag en ökumönnum að hættulegir staðir í umferðinni séu greindir og upplýsingum um þá komið til skila við gatnagerðar- og vegagerðaryfirvöld. Ég mun fyrir mitt leyti leggja á það mjög ríka áherslu að þarna verði upplýsingum skilað þannig að umferðarlagabreytingin verði alls ekki til þess að við vitum minna en áður um hætturnar í umferðinni. Ég ítreka það, og fullvissa reyndar hv. 13. þm. Reykv. um það, að gengið verður ríkt eftir þessu. Ég er sannfærður um það að upplýsingakerfið mun ekki bila við þetta.

Í öðru lagi vildi ég segja örfá orð um það sem fram kom í athugasemdum hv. 6. þm. Reykn. Ég fullvissa hv. þm. um það að minn áhugi er alveg óbilaður á þessu máli. Þótt hv. 6. þm. Reykn. hafi lýst vonbrigðum með það sem ég sagði í byrjun og hún segði sig ekki sammála mér um það sem fram kom þar, þá heyrðist mér reyndar þegar ég hlustaði eftir að við værum í reynd algerlega sammála. Ég fagna því að í máli þm. kom fram að hún teldi að takmarka ætti verkefni slíkrar nefndar, ef skipuð yrði, við alvarlegustu slysin. Ég er einmitt að láta huga að reynslu annarra nánar og lengur en gert hefur verið til að skilgreina sem best verkefni slíkrar nefndar þannig að enn verði ekki hrundið af stað nefnd með almennt erindi, erindi sem ekki er hnitmiðað við það sem máli skiptir, því við eigum auðvitað að nýta þá starfskrafta, þær skýrslugerðir og rannsóknir sem hvort sem er fara fram á vettvangi dóms- og umferðarmála, ekki setja alltaf upp eitthvað nýtt. Ég er þess því fullviss að þjóðarátaksnefndin, sem nýlega hefur verið skipuð, hafi gert ákaflega mikið gagn. Það gagn mun þó koma enn betur í ljós síðar. En ég bið hv. 6. þm. Reykn. að sýna nokkra biðlund í þessu máli. Ég er viss um að á endanum verðum við alveg sammála.