25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

268. mál, endurgreiðsla á söluskatti til erlendra ferðamanna

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir ágæt svör. Það er alveg ljóst að málið er á því stigi að það er tregt um svör og erfitt að gefa fullnægjandi svör við þessum spurningum. Þá er einnig ljóst að það er gífurlegt fjármagn í kringum erlenda ferðamenn og tekjutap er áætlað 50–60 millj. kr. af söluskatti. Hins vegar má kannski benda á að það hirða ekki allir, og í rauninni kannski ekki nema brot af ferðamönnum, um það að krefjast þessarar endurgreiðslu þannig að ég held að tekjutapið verði minna.

Svar við spurningunni um bundna lágmarksupphæð kom mér reyndar svolítið á óvart því að ég er því ósammála að hafa ákveðna lágmarksupphæð. Ég held að við eigum að endurgreiða söluskattinn af öllum vörum sem fara út hvað sem þær kosta. Og þá stærsta málið, það er mín skoðun að þetta eigi að vera í höndum einkaaðila og ef til þess þarf löggjöf þá erum við hér til þess að setja hana. Fari þetta yfir á einkaaðilana þá taka þeir náttúrlega að sér þessa kynningarherferð sem ég er að tala um þannig að sá baggi yrði tekinn af íslenska ríkinu.