25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4865 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

273. mál, málefni loðdýrabænda

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Um fyrsta lið fsp. hv. 4. þm. Vesturl. og fleiri er það að segja að í síðasta mánuði þegar ljóst var að verð á refaskinnum mundi verða mjög lágt þriðja árið í röð, þá kallaði ég saman til fundar þá aðila sem helst tengjast þessum málum, frá Stéttarsambandi bænda, Samtökum loðdýrabænda, Búnaðarfélagi Íslands, Stofnlánadeild, Framleiðnisjóði, Byggðastofnun ásamt ráðuneytinu, þar sem rætt var um þessa stöðu. Þar var lagt fram erindi frá SÍL um það hvernig þeir mátu stöðuna og út frá því var síðan málið athugað af fulltrúum þessara stofnana. Skömmu síðar kom annað erindi frá SÍL þar sem gengið var heldur lengra í mati þeirra á hvað þyrfti að gera til þess að refabændur gætu haldið áfram búrekstri sínum þetta árið.

Með tilliti til þeirra upplýsinga sem fengist höfðu með þessari vinnu og þessara erinda ákvað ég að fá fulltrúa frá öllum stjórnarflokkum til að skoða þessi mál og nefnd sú sem þar var tilnefnd hefur svo verið að fara yfir þessi erindi og ég á von á því núna alveg næstu daga að þar komi niðurstöður um hennar tillögur.

Í þessu sambandi höfum við lagt áherslu á að sem mest verði reynt að styrkja þarna undirstöðurnar eins og fóðurstöðvarnar og reyna að lækka fóðurverð, en lágt fóðurverð var talinn einn helsti kosturinn fyrir því að fara út í loðdýrarækt hér á landi þar sem gott fóður er hér fyrir hendi í miklum mæli.

Um annan lið fsp., um reglur fyrir úthlutun leyfa, þá er það svo að sérstök nefnd fjallar um umsóknir, um leyfi. Í henni eiga sæti fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda, Búnaðarfélagi Íslands og landbrn. Hún óskar eftir þeim upplýsingum sem lög og reglugerðir kveða á um og metur síðan málið eftir því sem þær upplýsingar gefa tilefni til.

Við fyrstu leyfisveitingar í upphafi var erfitt að gera sér grein fyrri því hvernig loðdýraræktin mundi dreifast og þá var veitt leyfi til þeirra sem voru nálægt þeim stöðum þar sem fóðuröflun var fyrir hendi. En smátt og smátt hefur þetta dreifst allmikið. Í sumum tilvikum má vera að rétt sé að það hafi verið of mikið en þó var það reiknað út að á meðan kaup frá fóðurstöðvum eru mjög lítil þá getur það verið ávinningur fyrir fóðurstöð að fá viðskipti þó um alllanga flutningaleið sé að ræða og flutningskostnaði útjafnað. T.d. var það reiknað út að fyrir fóðurstöðina á Sauðárkróki var ávinningur að því að fá viðskipti í Vestur-Húnavatnssýslu þó það væri nokkur spölur frá síðasta kaupanda áður vegna þess að hinn fasti kostnaður fóðurstöðvarinnar er það mikill.

Að hinu leytinu er síðan Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það hefur verið lagt fyrir hana að áður en hún samþykkir lánsloforð geri hún kröfur til ítarlegrar stofnkostnaðar- og rekstraráætlunar og meti þannig möguleika viðkomandi aðila til að fara út í þessa starfsemi. Hins vegar má viðurkenna að æskilegt hefði verið að gerðar hefðu verið meiri kröfur um menntun og kunnáttu til þeirra sem fengu þessi leyfi í upphafi, en það voru má segja engir sem hér höfðu kunnáttu á þessu sviði, og í öðru lagi að það eru ekki til neinar reglur í gildi um hvaða kröfur á að gera til bænda þegar þeir fara út í búrekstur. Það mál er hins vegar nú til umræðu og meðferðar og að mínu mati er það ákaflega þýðingarmikið að þess sé gætt að þeir sem fá lánsfé niðurgreitt og þar með aðstöðu til að hefja búskap hafi lágmarksþekkingu.

Þannig er það að sjálfsögðu ýmislegt sem rétt er að endurskoða og taka til athugunar í sambandi við þessi mál, bæði að fenginni reynslu og vegna breyttra aðstæðna á ýmsan hátt.