25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4866 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

273. mál, málefni loðdýrabænda

Fyrirspyrjandi (Ríkharð Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og ég vænti þess að sú nefnd, sem hann sagði að menn frá stjórnarflokkunum væru að vinna núna með til að finna einhverja lausn á vanda refabænda, vinni vel og ötullega og láti ekki frjálshyggjusjónarmið leiða sig á glapstigu. Það er nefnilega einu sinni svo að þeir sem eru í refaræktinni núna fengu mjög ákveðna hvatningu, beina og óbeina, til að hefja refarækt í stað hefðbundins búskapar og það að hlaupa frá málinu nú væri einfaldlega ekki sæmandi gagnvart þeim sem urðu við hvatningunni og lögðu bókstaflega álit sitt undir.

Í öðru lagi má áætla að beint fjárhagslegt tjón verði afar mikið ef ekkert verður gert, ekki bara fyrir bændurna heldur verði væntanlega að afskrifa verulegan hluta af þeim lánum sem á refabúunum hvíla.

Í þriðja lagi held ég að við verðum að hafa í huga að það hvernig tekið er á málefnum refaræktarinnar núna er býsna mikilvægur prófsteinn á það sem við höfum stundum verið að kalla byggðastefnu því að þetta mundi væntanlega hafa nokkuð niðurdrepandi áhrif á alla nýbreytni í dreifbýli. Það hefur verið hvatt til uppbyggingar í fiskeldi, ferðaþjónustu og hverju því sem mönnum gæti dottið í hug, smáiðju úti í sveitum. Ég held að viðbrögðin við vanda refabænda séu býsna mikilvægur prófsteinn á hvernig menn einfaldlega ætla að standa að þeim málum í framtíðinni.

Hvað snertir seinni lið fsp., um það hvernig leyfin eru veitt, geri ég mér alveg ljóst að þegar leyfi er veitt í upphafi til loðdýraræktarinnar voru menn einfaldlega með vanda hinna hefðbundnu búgreina á bakinu og var þess vegna ekki mjög hægt um vik, en ég held að það sé full ástæða til að vera strangari nú í reglum við úthlutanir, bæði hvað varðar hina tæknilegu og fjárhagslegu hlið mála og þá sérstaklega þá menntun og þá reynslu og þekkingu sem væntanlegir nýir loðdýrabændur hafa.