25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4867 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

266. mál, afnám bankastimplunar við innflutning

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Á þskj. 565 er ég með fsp. til viðskrh. um afnám bankastimplunar við innflutning sem er svohljóðandi:

„Hvenær er gert ráð fyrir því að afnema bankastimplun almennt hjá innflytjendum svo að þeir sitji allir við sama borð hvað varðar greiðslusamninga við erlenda umbjóðendur?"

Herra forseti. á sl. vetri afnam hið háa Alþingi með lagabreytingu skyldu fyrirtækja til að leggja fram stimplaða vörureikninga til tolls sem sýndu að vörukaup voru greidd eða um greiðslu samið á þeim vörum sem kaupa má með skammtímavörukaupalánum. Þó er enn í gildi reglugerð sem mismunar milli vöruflokka. Um 70% alls innflutnings eru keypt með lántökuheimild, en 30% og þá allar helstu neysluvörur almennings er óheimilt að kaupa með slíkri skammtímalántöku og þarf því að staðgreiða við innlausn vörunnar.

Nú er það svo að vörukaup til landsins eru gerð vegna þess að fólk vill kaupa. Til þess að geta afgreitt vörur eru gjarnan komnar til landsins vörur sem geymdar eru hjá flutningsaðila með ærnum kostnaði þar til sala hefst. Talað er um að leigugjald pr. fermetra sé svipað og á dýrustu lúxushótelum.

Innflutningsverslunin þarf sannarlega að greiða hæsta fjármagnskostnað atvinnurekstrar landsmanna. T.d. eru viðskiptavíxlar keyptir á gengi ásamt áföllnum kostnaði sem nemur samtals ca. 50–55% á ári. Það leikur ekki nokkur vafi á að þessi fjármagnskostnaður ásamt geymslukostnaði fer beint út í verðlagið. Þegar skoðað er helsta verkefni núverandi og reyndar fyrrverandi ríkisstjórna, sem er að ná niður verðbólgu til jafns við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, sætir mikilli furðu að vilji Alþingis með afnámi bankastimplunar og afskipta af skammtímaviðskiptasamningum skuli ekki hafa náð fram að ganga.

Með skammtímaviðskiptasamningum er átt við vörukaupalán. Með leyfi til slíkrar lántöku mætti lækka vöruverð um allt að 4-5% sem að viðbættum lækkandi geymslukostnaði gæti orðið 5–7%. Engin haldbær rök hafa verið lögð fram gegn heimild til skammtímavörukaupalána. Þó hefur hæstv. viðskrh. borið fyrir sig þensluáhrif. Þensluáhrif að þessum heimildum fengnum hafa verið ríflega áætluð ca. 1,5 milljarðar króna sem þó skiptist á eitt og hálft til tvö ár. Þetta er aðeins lítill hluti þeirra þensluáhrifa sem komu fram við heimild til notkunar krítarkorta og upptöku fjármögnunarleiga.

Benda má á að yfirdráttarheimildir á tékkareikningum eru taldar geta aukið þenslu um allt að 1,8–2,5 milljarða kr. á einu ári. Þessi tegund lána hefur andstæð áhrif á verðbólgu og eykur eftirspurn meðan skammtímavörukaupalán mundu fyrst og fremst lækka vöruverð. Það var skynsamleg tímamótaákvörðun þegar Alþingi ákvað að hætt skyldi eftirlitshlutverki því, sem verið hefur í gildi, að ríkisvaldið væri að fylgjast með því að íslenskir borgarar stæðu við viðskiptasamninga við erlenda aðila.

Nú er tímabært að hv. Alþingi stígi skrefið til fulls og sneiði af þá annmarka er standa enn í vegi fyrir að íslensk verslun og íslenskir neytendur fái notið bestu kjara. Það mun auka kaupmátt þeirra sem mest þurfa á að halda með lækkandi vöruverði á mörgum nauðsynjavörum og lækkandi framfærsluvísitölu er gæti á skömmum tíma breytt stöðu okkar í baráttunni við verðbólguna. Síðast en ekki síst gæti heimild til skammtímavörukaupalána aukið svigrúm á útvegun lánsfjár til t.d. húsbyggjenda sem þurfa oft skammtímalán til þess að komast yfir erfið greiðslutímabil. Ætla má að vilji Alþingis sé ekki að mismuna milli vöruflokka eða atvinnugreina en að atvinnuvegir landsmanna eigi allir sama möguleika á verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið.