29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég fæ ekki séð að hv. 2. þm. Reykn. geti með neinum rétti talað um að við séum eitthvað að skera okkur út úr þingmannahópi Reykjaneskjördæmis. Við höfum sýnt fullan samstarfsvilja í þessu máli og það er hin mesta fjarstæða að það skaði eitthvað hagsmuni þessa máls þótt því sé hreyft hér á Alþingi. Ég held að það hefði verið tímabært fyrir löngu að tala um þetta mikilvæga mál með hliðsjón af því að nú er starfandi ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu þar sem allt virðist vera í háalofti og ekkert gengur eða rekur að komast að neinni niðurstöðu.

Mig langar til að minna á að þetta er ekki ný saga. Það er búið að vera sama ástand undanfarin fimm eða sex ár, að hvert skipið á fætur öðru hefur verið selt frá Reykjanesi. Ég held því að það sé löngu orðið tímabært að fara að tala um það í sölum Alþingis. Ég minni á að þegar Ingólfur var seldur frá Suðurnesjum til Hornafjarðar þurfti að færa þessa margfrægu norður-suður línu til þess að Hornafjörður yrði með í norðursvæðinu og togarinn fengi þar viðbótarkvóta. Það væri gaman að fá skýringar hæstv. sjútvrh. á því máli, hvernig stóð á því að þá var línan skyndilega sveigð frá Djúpavogi og suður fyrir Hornafjörð.

Það er fyrst og fremst norður-suður línan sem er að hleypa öllu í bál og brand og hana viljum við burt. Við viljum að það sé sams konar kvóti fyrir skip hvaðan sem þau eru gerð út á landinu. Ég held að þetta misræmi verði að leiðrétta hið fyrsta því annars fer allt á skjön. Hvernig er hugsunin hér á bak við? Á það að verða þannig að öll útgerð færist norður fyrir þessa línu? Á bara að leggja af útgerð á öllu Suðurlandi? Það hafa haft samband við okkur menn bæði af Suðurlandi, frá Vestmannaeyjum og víðar. Ég er ekki aðeins að tala fyrir munn útgerðarmanna af Suðurnesjum. Þetta varðar alla þá sem búa fyrir sunnan þessa línu. Þeir spyrja eðlilega: Á það að gerast á næstu árum að öll útgerð færist norður fyrir þessa línu? Eigum við þá kannski að sinna þjónustustörfum og verslunarstörfum? Svo er einhver að tala um byggðaröskun. Er það kannski það sem við viljum, að öll útgerð verði fyrir norðan þessa línu, en öll þjónusta og verslun þá hér á þessu svæði? Ég spyr: Er það það sem hæstv. sjútvrh. er að stefna að?