25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

266. mál, afnám bankastimplunar við innflutning

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra veit nákvæmlega muninn á bankastimplun og greiðslufresti og gang mála í ríkisstjórn. Þessi tillaga um að fella niður bankastimplun til að gera samskipti manna þó af ólíku þjóðerni séu frjáls og háð því einu að traust hefur myndast á milli tveggja viðskiptaaðila var borin fram af mér á sínum tíma í ríkisstjórn og alls ekki gert ráð fyrir að greiðslufrestur yrði á annan hátt skilinn á milli þeirra sem bera traust hver til annars þó af ólíku þjóðerni séu en viðskiptin sem eiga sér stað milli verksmiðju og heildsala eða innflytjenda annars vegar og hérlendra. Það er enginn munur á þó að menn búi í tveimur löndum eða þó að menn búi í sama landinu, þó að menn tali annar íslensku en hinn eitthvert annað tungumál. Traust getur ríkt á milli manna fyrir því. Það er hrein hártogun og misnotkun á samþykkt Alþingis og hugmynd sem kemur frá ríkisstjórninni á sínum tíma að stöðva það sem átti að losa um með því að fella niður bankastimplun ásamt heimild til greiðslufrests sem Seðlabankinn hefur. Þetta er rangtúlkun og illa farið með gott mál. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert svo góða grein fyrir málinu að ég held að það sé alveg ljóst að það er stórsparnaður fyrir viðskiptin almennt, almenning og það opinbera, ef viðskipti fái að vera frjáls.