25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

258. mál, Menningarsjóður útvarpsstöðva

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég fagna því að það kom skýrt fram hjá menntmrh. að hann metur það svo að það sé ekki dagskrárgerð Ríkisútvarpsins sem hafi hlotið dóm með þeirri útdeilingu sem átt hefur sér stað, enda hefði ég talið dóminn fráleitan ef svo væri, heldur sú skýring að þeir hafi ekki staðið í skilum og þess vegna hafi þeir ekki fengið úthlutun eins og eðlilegt má teljast. Hins vegar finnst mér það dálítið djörf ákvörðun, ef hún er aðeins hjá sjóðstjórninni en ekki fyrirmæli frá menntmrh., að það skuli miðað við hvort stöðvar standi í skilum því að spurningin um vanskil hlýtur í hverju tilfelli að vera þá spurning um upphæð. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um að sinni.