25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4879 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera örstutta athugasemd við málflutning hv. 2. þm. Norðurl. e., sem fram kom áðan, að ég hafi lagt til að málefni fiskvinnsluskóla á Dalvík verði slegið á frest. Ég sagði: Miðað við þann undirbúningstíma sem mér finnst menntmrh. hafa þurft að taka sér miðað við að þál. var samþykkt hér 1973, athugun fór ekki fram fyrr en 1984, gerði ég ekki ráð fyrir að skóli mundi rísa á Dalvík fyrr en 2010. Það væru þær tímaáætlanir sem mér virtust vera uppi í þessum efnum. Ég fagnaði síðan þeim undraverðu og skjótu viðbrögðum sem uppi höfðu verið í sambandi við þennan skóla á Dalvík og samfagnaði mínum fjórðungsbræðrum á Norðurlandi, Dalvíkingum, að þessi skóli skyldi rísa þar.

En ef hv. 2. þm. Norðurl. e. talar um samstöðu finnst okkur á Norðurlandi vestra aðeins skorta á að þeir hafi staðið rækilega með okkur hinum megin við Tröllaskaga hvað snertir uppbyggingu skóla á Siglufirði og ég vænti þess að hann standi að því með okkur betur en áður.