25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4880 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni að það sé með öllu ástæðulaust að við þm. Norðlendinga förum að gera þessa uppbyggingu framhaldsskólans á Dalvík að þrætuepli. Ég hygg að allir sem þekkja til aðstæðna við innanverðan Eyjafjörð séu sammála um að það sé mjög tímabært að á því svæði, sem er vaxandi útgerðar- og fiskvinnslusvæði, komist slíkt nám á fót og það er eðlilegt að það sé byggt upp innan starfandi framhaldsskóla eins og nú stendur til og sé uppbygging sem ekki er nokkur ástæða til að gera neitt annað með en fagna.