25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4881 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

269. mál, Rás 2

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 568, 269. mál, Sþ. leyfi ég mér að leggja fram fsp. til hæstv. menntmrh. um Rás 2 hjá Ríkisútvarpinu. Fsp. er svohljóðandi:

„Hyggst ráðherra stuðla að því að Rás 2 verði seld eða starfsemi hennar hætt?"

Herra forseti. Það er staðreynd að einkaaðilar hafa sýnt að þeir geta sinnt því hlutverki Rásar 2 mjög vel að vera með afþreyingartónlist, fréttir og upplýsingar. Tveir stærstu aðilarnir ná nú þegar til 80% landsmanna og hafa fullan hug á að ná til þeirra allra.

Hvað varðar Rás 2 tel ég ljóst að auglýsingatekjur stöðvarinnar nægja ekki til að standa undir rekstri hennar og afborgunum og hlýtur því að vera fjárhagslegur baggi af því að halda rásinni úti sem skattgreiðendum er væntanlega gert að bera. Ég er þeirrar skoðunar að selja eigi Rás 2 eða leigja þar sem einkaaðilar eiga þá að sjá um afþreyingarútvarp, enda tel ég það betur komið í þeirra höndum. Ríkisútvarpið á hins vegar að vera með eina rás sem snýr að menningarlegu efni, fréttum, þjónustu, upplýsingum, leikritum o.s.frv. og ætti að efla það verulega, en láta einkageirann um afþreyingarútvarpið. Það má benda á að hluti af dagskrá Rásar 1 hefur verið flutt yfir á Rás 2 og nýtur þar lítillar ánægju hlustenda þar sem annað afþreyingarefni næst ekki.

Með þessum orðum vil ég spyrja ráðherra þess flokks sem hvað mest boðar frelsi einstaklingsins og frelsi einkaframtaksins hvort ekki komi til álita að framkvæma þá hugmynd sem núv. hæstv. forsrh. setti fram, þá hugmynd að selja Rás 2?

Hvað varðar lið spurningarinnar um það hvort til greina komi að hætta starfseminni, þá er það í beinum tengslum við þá skoðun mína að slík útvarpsstöð og slíkur rekstur á að vera í höndum einkaaðila. Ríkið á ekki að standa í samkeppni við þá á þessu sviði.