29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fagna því að hér skuli vera hafin og opnuð umræða um fiskveiðistefnuna þó það sé kannski með svolítið sérstökum hætti. Ég kom upp fyrst og fremst vegna ummæla hæstv. ráðherra um að það sem hér er verið að ræða um væri ekki að kenna þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við. Ég held að hv. ráðherra hafi sannað það best með sinni eigin ræðu þar sem hann í fyrsta lagi sagði að við þyrftum að skilgreina af hverju vandamál útgerðar á Suðurnesjum væru slík sem þau væru. Og hann upplýsti einnig í ræðu sinni af hverju þau væru á þann veg. Hann sagði það: Ástand þorskstofnsins okkar er á þann veg í dag að nú veiðist ekki nema smáfiskur. — Hvað er þá verið að segja Suðurnesjamönnum? Það er verið að segja að það sé búið að ofveiða þann stofn sem Suðurnesjamenn hafa fyrst og fremst fiskað. Og hvernig er útkoman út úr því kerfi og þeirri fiskveiðistefnu sem við höfum búið við sl. fjögur ár? Hún er þannig að veiðin umfram tillögur fiskifræðinga er rúmlega ársveiði. Útkoman er sú, sem ráðherra lýsti, að það er eingöngu smáfiskur sem við veiðum af þorski. Meðaltalsþyngd á þorski á síðasta ári frá því í september til áramóta var innan við 2 kg. Skyldu Suðurnesjamenn hafa þekkt slíka fiskstærð? Ég held að það sé af og frá. Við sem höfum fengist við útgerð og fiskverkun á undanförnum árum sjáum hver þróunin er. Sú þróun er ískyggileg. Það er verið að boða okkur núna að á komandi ári þurfum við að draga úr fiskveiðisókninni. Hvað hefur mistekist ef það er ekki fiskveiðistefna sem hefur verið í gildi undanfarin fjögur ár ef við eftir þessi fjögur ár þurfum að fara að draga úr þeim afla sem við flytjum að landi?

Ég skal upplýsa þm. um að sl. fjögur ár hefur verið aflað 366 þús. tonnum meira en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Það er sem sagt svipaður afli og berst að landi í ár eða tæplega það. Það er búist við því að í ár verði það 390 þús. tonn, þ.e. um 60 þús. tonnum umfram það sem ráðuneytið lagði til. Fiskveiðistefnan hefur mistekist. Þess vegna eru vandamálin eins og þau eru á Suðurnesjum í dag.