25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4882 í B-deild Alþingistíðinda. (3394)

240. mál, hernaðarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ber fram árlega fsp. mína um hernaðarframkvæmdir. Þessi fsp. hefur af minni hálfu undanfarin ár sem og núna þjónað þeim tilgangi að draga fram sérstaklega þau miklu hernaðarumsvif og þá miklu uppbyggingu á þessu sviði sem hafa átt sér stað í landinu undanfarin ár.

Það er í öðru lagi spurt um hina miklu stjórnstöð á Keflavíkurflugvelli sem er í byggingu eða a.m.k. stendur til að reisa þar, hvaðan á að stjórna hernaði, jafnvel kjarnorkuhernaði, á norðurslóðum í allt að sjö sólarhringa þó allt sé rjúkandi rúst á yfirborði jarðar á Íslandi. Hæstv. ráðherra svarar því e.t.v. hvort það standi til að stöðva þær framkvæmdir eða fara t.d. fram á að þessi áform verði endurskoðuð með það í huga að stjórnsýsla hersins fari fram í venjulegu húsnæði sem mundi sæta sömu örlögum og annað húsnæði í landinu ef til þess kæmi.

Og í þriðja lagi spyr ég hæstv. utanrrh., sem gjarnan vill nú gerast kyndilberi friðarins, a.m.k. á alþjóðavettvangi, og hefur haft um það býsna fögur orð undanfarna mánuði, hvort til standi af hans hálfu að beita sér fyrir því að hætt verði við eða a.m.k. stöðvuð þau miklu áform um hernaðaruppbyggingu sem hér hafa verið í ljósi breyttra aðstæðna og breyttrar þróunar í alþjóðamálum. Það er yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda, að manni skilst, að gera allt sem hægt er til að draga úr vígbúnaði hér á norðurslóðum og reyna að koma í veg fyrir það t.d. að samningar um fækkun kjarnorkuvopna á landi leiði til aukinnar vígvæðingar í hafinu. Eru þá ekki nærtæk og hæg heimatökin hjá okkur Íslendingum að sjá a.m.k. til þess að vígbúnaður á norðurslóðum aukist ekki á því afmarkaða svæði sem við höfum ráðrúm yfir, sem er Ísland og landhelgin og lögsagan umhverfis landið? Þess vegna finnast mér mikil rök fyrir því að spyrja nú hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn: Eru ekki á dagskrá áform um að endurskoða þessa miklu hernaðaruppbyggingu í þessu ljósi? Enn fremur vegna þess að ýmislegt bendir til að þau áform, sem við höfum enn séð framan í, séu ekki þau einu sem hernaðarmaskínan hefur á prjónunum varðandi Ísland og nægir að minna þar á margnefndan varaflugvöll og einnig áform um ýmsar frekari framkvæmdir á sviði radarmannvirkja en enn hafa verið leyfð og nýlegar vísbendingar hafa komið fram um.

Þess vegna vænti ég og vona sannarlega að hæstv. utanrrh. geti fært okkur þau gleðitíðindi að nú verði brotið í blað og þeirri gífurlegu hernaðaruppbyggingu sem stóð allan þann tíma sem hæstv. núverandi utanrrh. var forsrh. verði nú hætt.