25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4885 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

240. mál, hernaðarframkvæmdir

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hygg að allir, nema þá e.t.v. hv. þm., viti að á Norður-Atlantshafinu hafa átt sér stað mjög miklar breytingar og afar alvarlegar breytingar. Allir vita að á Kola-skaga hefur verið byggð sú mesta hernaðarstöð sem líklega er til í heiminum. Ekki fer leynt að hún er ekkert síður til árása en varnar. Sömuleiðis hygg ég að öllum sé ljóst að í allri þessari þróun er eftirlit með umferð, hvort sem það er á sjó eða í lofti, eitt það mikilvægasta í þeirri viðleitni sem nú er til að draga úr vígbúnaði. Mér er það satt að segja hulin ráðgáta hvers vegna hv. þm. getur ekki sætt sig við að hér sé sæmilega útbúin eftirlitsstöð. Hvers vegna verða byggingar að vera þannig á Keflavíkurflugvelli að þær hrynji við fyrstu árás? Hvern skaðar það þótt radarstöðvar séu byggðar sem fylgjast með þeirri umferð sem er í háloftunum? Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta óskiljanlegt og mér virðist að með því að hafa sæmilega vel útbúna eftirlitsstöð séum við að stuðla að því að samkomulag geti náðst um að draga úr þessu vitfirrta árásartækja- og vígbúnaðarkapphlaupi sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum.