29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Óli Þ. Guðbjartsson:

Herra forseti. Enginn efast um að okkur ber að halda uppi stjórn á fiskveiðiheimildum, setja og framkvæma fiskveiðistefnu. Jafnvíst er að á þessu viðkvæma sviði verða menn að leggja sig í líma við að ná fram svo miklu réttlæti og því jafnræði sem frekast er kostur. Þess vegna hlýtur það að vera mönnum ofarlega í sinni, eins og raunar hefur hér komið berlega fram og er í rauninni tilefni til þessarar utandagskrárumræðu, að við endurskoðun laganna frá 20. des. 1985, um stjórn fiskveiða fyrir 1986 og 1987, og reglugerðar þeim tengdri er verið að sníða þá helstu agnúa af sem reynslan hefur leitt í ljós og kom ekki síst fram í ræðu síðasta ræðumanns hverjir eru. Mér sýnist augljóst að stærsti ókosturinn, mesta ranglætið hefur komið fram vegna ákvæðis 2. gr. þessarar reglugerðar um skiptingu landsins í tvö veiðisvæði, frá Eystrahorni, fyrra veiðisvæðið, vestur og norður um að Bjargtöngum og annað veiðisvæðið frá Látrabjargi norður og austur að Eystrahorni, og síðan misskiptingar þorskaflahámarks togara, þ.e. sóknarmarksskipa, á grundvelli þessarar svæðaskiptingar.

Vandinn sem hér er einkum gerður að umtalsefni hvað Reykjanes varðar á að mörgu leyti líka við um Suðurland. Ég get nefnt að frá einni verstöð, Þorlákshöfn, hafa á undanförnum árum verið seld skip eins og Bjarni Herjólfsson, Gissur ÁR 6, Ísleifur IV, Friðrik Sigurðsson, allt skip með mikinn kvóta sem hafa farið á Akureyri, Vopnafjörð, Hornafjörð og Ólafsfjörð. Hvers vegna? Vegna þessarar heimildar í reglugerðinni. Og hvað þýðir þetta í „praxis“? Það þýðir að aflamunurinn á skip, 500–550 tonnum meira sem menn fá á norður-austur svæðinu, er ca. 16 millj. kr. í aflaverðmæti á skip upp úr sjó. Tveir togarar í byggðarlagi: 32 millj. Í unnu verðmæti: 55–60 millj. kr. Ætli það muni ekki um það í viðkomandi byggðarlögum og ætli það muni ekki um það þaðan sem það fer?

Þó uppbætur á karfa og ufsa hafi e.t.v. verið grunnástæðan fyrir því að svæðaskipting þessi var tekin upp er sú tíð löngu liðin. Og ég fagna því alveg sérstaklega sem kom fram í orðum ráðherra í lokin. Þar var viljavottur til að breyta þessu. Og hafi þessi utandagskrárumræða orðið til að laða fram þennan viljavott, sem síðan kemur í framkvæmd frá þessu Alþingi, þá er vel.