25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4888 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

270. mál, leigukjör Stöðvar 2

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fyrir sig get ég ekki svarað einhverju því sem menn hafa heyrt. Fyrirspurnum sem er beint til mín reyni ég að svara eftir þeim upplýsingum og vitneskju sem ég hef. Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi sagði síðast, þá kom fram í mínu svari að það væri unnið að því að leggja ljósleiðarastrengi víða um landið. Þetta er gert til að auðvelda öðrum að njóta sömu þjónustu og Póstur og sími veitir í dag þeim aðilum sem reka sjónvarpsstöðvar, hvort sem þeir leigja miðað við hátíðni eða ekki. Ég er ekki eins vel að mér og verkfræðingur til að svara því, en allt er þetta gert til þess að þeir sem vilja sinna þessum sjónvarpsstöðvum, reka þessar sjónvarpsstöðvar geti allir haft sömu aðstöðu. Það er að sjálfsögðu það eðlilega og, ég sagði í lok míns svars, til að reyna að fá fram lækkanir á gjöldunum með eins mikilli samnýtingu og mögulegt er.