25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4940 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

294. mál, utanríkismál

Kjartan Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé tvímælalaust að tvennt beri hæst í utanríkismálum Íslendinga um þessar mundir. Annars vegar á ég þá við öryggis- og afvopnunarmál og þá þróun sem þar hefur átt sér stað og hins vegar þróunina í Evrópu með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um að koma á sameiginlegum innri markaði fyrir árið 1992.

Ég tel að þessi mál beri hæst og séu mikilvægust af því að í þessum tveimur málaflokkum eiga sér stað miklar breytingar frá því sem áður gilti. Í öryggis- og afvopnunarmálum var ástand mála nokkuð svipað ár eftir ár á liðnum árum. Það ástand einkenndist af vígbúnaðarkapphlaupi og samskiptaleysi stórveldanna. Nú er þetta breytt. Við göngum því nýjum tímum á hönd, en jafnframt fetum við um ókomna stigu. Í Evrópu og evrópskum markaðsmálum hafði á sama hátt ríkt samstarfs- og samskiptastöðnun um nokkurt árabil. Þessu fylgdi vissulega ákveðin tegund af stöðugleika. Einnig á þessu sviði göngum við nýjum tímum á hönd. Með nýjum ákvörðunum Efnahagsbandalagsins eru róttækar breytingar í aðsigi. Breytingar sem vissulega eru mjög áhugaverðar en fela jafnframt í sér óvissu umfram það sem við höfum vanist. Báðir þessir málaflokkar snerta okkur Íslendinga sérstaklega og þótt margt annað mætti gera að umræðuefni í þessari umfjöllun hér og nú um utanríkismál tel ég þessi tvö svo langmikilvægust að ég mun eingöngu fjalla um þau.

Sú þróun sem nú á sér stað í Evrópu með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað 1992 gerir að mínum dómi kröfu til skýrrar stefnumörkunar af Íslands hálfu. Sú stefnumörkun á að mínum dómi að byggjast á eftirfarandi sex meginþáttum:

1. Tryggja verður viðskiptahagsmuni Íslands gagnvart bandalaginu og aðlaga íslenskt efnahagslíf að þeim breytingum sem fram undan eru en aðild að bandalaginu er ekki á dagskrá.

2. Kappkosta á að fylgjast vel með þeim ákvörðunum sem fram undan eru hjá bandalaginu og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri og vinna þeim stuðning jafnharðan eftir því sem kostur er.

3. Aðild Íslands að EFTA á að nýta til hins ýtrasta til að tryggja hagsmuni Íslands í samningaumleitunum og viðræðum EFTA og EB um afnám viðskiptahindrana. Ísland á að hvetja til þess að EFTA verði eflt og stutt til að sinna þessum verkefnum.

4. Sett verði á fót samstarfsnefnd ráðuneyta til þess að tryggja örugga miðlun upplýsinga og samræmi í ákvarðanatöku varðandi Evrópumálin. Jafnframt verði komið á reglulegu samráði við aðila atvinnulífsins um þessi mál.

5. Haldið verði áfram viðræðum við Evrópubandalagið um samskipti og samstarf Íslands og Evrópubandalagsins þar sem sérstaða Íslands verði sérstaklega kynnt, jafnframt því sem leitað verði eftir samstarfi á völdum sviðum.

6. Gerð verði sérstök athugun á því hvernig íslensk hagstjórn verði aðlöguð hinum nýju aðstæðum og færð til betra samræmis við það sem gerist í helstu samskipta- og viðskiptalöndum okkar með það að markmiði að auka hagvöxt og stuðla að auknum stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Á grundvelli þessarar stefnumörkunar tel ég að setja eigi á fót nefnd til þess að taka sérstaklega til athugunar þá þróun sem nú er að eiga sér stað í Evrópu, kanna áhrif hennar á viðskipta- og efnahagsstöðu Íslands og koma með frekari ábendingar um hvernig æskilegt sé að tryggja hagsmuni Íslands og standa að stefnumörkuninni í framkvæmd. Nefndinni verði gert að skila skýrslu um athuganir sínar fyrir árslok 1988 þannig að almenningi og hagsmunaaðilum gefist kostur á að kynna sér málið með aðgengilegum hætti og traustur grundvöllur væri lagður að frekari umræðum og umfjöllun um málið.

Áður en ég vík nánar að þessari stefnumörkun er rétt að rifja upp í fáeinum dráttum hvað felst í ákvörðun Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað og hvaða öfl búa þar að baki. Stefnumörkun Evrópubandalagsins felur í rauninni í sér að sem næst þurrka út landamærin milli bandalagsríkjanna, einkum í viðskiptalegu tilliti. Hugmyndin að baki er ekki síst sú að með þessu megi tryggja aukinn hagvöxt og ná nægjanlega stórum heimamarkaði til þess að fyrirtæki innan bandalagsins geti staðið sig vel í samkeppni við fyrirtæki frá efnahagsstórveldunum Bandaríkjunum og Japan. Útþurrkun landamæranna í þessum skilningi krefst þess hins vegar að afnumdar verði þær tæknilegu og fjárhagslegu hindranir viðskipta sem gera landamæraeftirlit nauðsynlegt. Á sama hátt verður að samræma efnahagsstjórn og efnahagsstefnu til þess að raunverulega myndist eitt markaðssvæði og landamærin verði óþörf. Af þessu leiðir krafan um frjálst flæði fjármagns og mannafla og fasta gengistengingu innan bandalagsins. Þá hefur bandalagið sett sér að þjónustuviðskipti skuli njóta sama frelsis og viðskipti með vörur. Þetta er vitaskuld gert í ljósi þess að þjónustuviðskipti gerast sífellt stærri og mikilvægari hluti þjóðarkökunnar.

Ef við víkjum hins vegar að áhyggjum Evrópuríkja, sem ekki eru í Evrópubandalaginu, af þessari þróun eru þær áhyggjur fyrst og fremst af tvennum toga. Ég held að gott sé að við gerum okkur grein fyrir því. Í fyrsta lagi varða þessar áhyggjur aðgang að mörkuðum Evrópubandalagsins en í öðru lagi, og það er rétt að það verði sérstaklega undirstrikað, varða þær samkeppnisstöðu fyrirtækja landa utan Evrópubandalagsins við fyrirtæki innan þess og reyndar samkeppnisstöðu t.d. fyrirtækja í EFTA almennt á heimsmarkaði við hinar nýju aðstæður. Þar við bætast svo pólitísk atriði sem ég skal ekki rekja nánar í þessu samhengi.

Stefnumótun Evrópubandalagsins snertir mörg svið. Þau verða ekki rakin hér öll en meðal þeirra má nefna tæknilegu viðskiptahindranirnar, opinber innkaup, ríkisstyrki til fyrirtækja, upprunareglur, vísindarannsóknir, menntamál, hugverkarétt, einkarétt, umhverfismál, flutningamál, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, neytendavernd, samræmingu skatta, frelsi í þjónustuviðskiptum, frjálst flæði fjármagns og mannafla, festu í gengismálum, samræmda efnahagsstefnu og sameiginlega pólitíska stefnumörkun.

Í stað þess að fara frekari orðum um þessi svið held ég að gagnlegt sé að flokka hin helstu þeirra í þrjá flokka eða meginþætti því að slík skipting auðveldar okkur að átta okkur á viðfangsefninu eins og það snýr að okkur og skil ég þá eftir mörg málasvið þar sem leita ber eftir samstarfi.

Ef ég skipti þessu með þessum hætti í þrennt tel ég til fyrsta þáttarins tæknilegar hindranir og reyndar aðrar viðskiptahindranir sem yfirleitt eru af fjárhagslegu tagi. Þessar tæknilegu hindranir varða gæði vöru og staðla og þar með jafnvel hluti eins og dýraverndunarlög og atriði sem varða innflutning á plöntum. Hvort tveggja það síðastnefnda gæti orðið viðkvæmt mál fyrir okkur. Hins vegar eru svo aðrar viðskiptahindranir, yfirleitt af fjárhagslegu tagi, svo sem varðandi opinber innkaup og ríkisstyrki til fyrirtækja. Þetta eru atriði sem ég vil í heild sinni nefna tæknilegs eðlis. Mín skoðun er sú að þau séu auðveldust, pólitískt og efnahagslega séð, fyrir hvaða þjóð sem er og þá einnig fyrir okkur. Ég tel enn fremur að varðandi þessa þætti eigum við að vinna í gegnum EFTA og með EFTA. Að þeim er þegar unnið á þeim vettvangi og fáein hafa þegar komist í framkvæmd. Þetta er flókið og fjölþætt svið sem ég tel að vel sé tekist á við í EFTA en, eins og ég sagði áður, þessi atriði ættu ekki eða að mjög litlu leyti að valda okkur neinum sérstökum efnahagslegum erfiðleikum.

Í annan flokkinn samkvæmt þessari niðurflokkun set ég þá landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Þessi mál hafa mikla sérstöðu innan Evrópubandalagsins og reyndar hér hjá okkur líka og ekki síður. Hættan er sú að því er sjávarútveginn varðar að stjórnunaraðgerðir í sjávarútvegi innan Evrópubandalagsins muni mótast mjög af sams konar viðhorfum og eru í landbúnaðarmálum. Á þessu sviði verðum við að vera mjög vel á verði. Ég er þeirrar skoðunar að samhentur hópur hagsmunaaðila haldi í rauninni utan um stefnu Evrópubandalagsins í sjávarútvegsmálum. Þessi hópur stendur fast að baki hinni samræmdu sjávarútvegsstefnu bandalagsins og henni er erfitt að hnika. Það er rétt að benda á að það eru miklir styrkir til sjávarútvegsins innan bandalagsins og sjávarútvegshópur Evrópubandalagsins er vitaskuld að starfa fyrir sinn hag og vernda sinn fiskiðnað. En það er einmitt á þessu sviði sem við eigum sérlega mikla hagsmuni. Ég held að um þennan málaflokk gildi að við getum ekki gert ráð fyrir að þessi málaflokkur leysist með neinum öðrum þeim hætti en að við tökum hann sjálfir í okkar hendur og varðandi þessi mál verðum við að snúa okkur að Evrópubandalaginu til viðræðna við það, bæði til þess að kynnast þeirra viðhorfum betur í sjávarútvegsmálum en við höfum gert og eins til þess að kynna okkar sjónarmið og fikra okkur áfram með það hvaða stöðu við höfum. Við þurfum sem sagt að halda uppi viðræðum og samræðum beint við Evrópubandalagið að því er sjávarútvegsmálin varðar.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minna á viðleitni okkar til þess að ná fram fríverslun á fiski og fiskafurðum innan EFTA en ég tel slíka ákvörðun á þeim vettvangi styrkja mjög stöðu okkar, samningsstöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu að því er þetta málefni varðar.

Þá kem ég að þriðja þættinum eða þriðja flokkinum en til þess þáttar tel ég það sem sumir hafa nefnt fullveldisskilyrði. Þessi atriði varða sameiginlegan vinnumarkað, sameiginlegan frjálsan fjármagnsmarkað, fast gjaldmiðilskerfi, samræmda skattastefnu o.fl. af því tagi. Ég segi það fyrst að ég tel að óttinn við hinn sameiginlega vinnumarkað sé að verulegu leyti ástæðulaus á Íslandi. Því veldur tungan og veðurfarið að hættan á miklum innflutningi vinnuafls, t.d. frá suðrænum löndum, er áreiðanlega ekki í þeim mæli sem margir Íslendingar ímynda sér. Ég veit hins vegar að í hugum Íslendinga er einmitt þetta mjög viðkvæmt atriði.

Ef við lítum á næsta atriðið í þessum þætti, sameiginlegan frjálsan fjármagnsmarkað, erum við vitaskuld komin að einu því hagstjórnartæki sem menn hafa beitt mjög hér á landi á undanförnum árum. Með þátttöku einhvers ríkis í hinum sameiginlega frjálsa fjármagnsmarkaði eru einstakar þjóðir náttúrlega að hluta til að afsala sér þessu hagstjórnartæki. Hugtakinu sameiginlegum fjármagnsmarkaði fylgir réttur til þess að stofna til eða kaupa fyrirtæki hindrunarlaust í einstökum löndum innan þess svæðis þar sem þetta skipulag gildir. Hér erum við komin að sviði sem við Íslendingar þurfum að skoða vel með tilliti til þess að aðlaga okkur að því sem gerist í helstu grannlöndum okkar.

Annar málaflokkur er gengið og gengisstefnan. Ef við færum inn á þá braut að festa gengi íslensku krónunnar miðað við evrópska gjaldmiðla og vera þannig aðilar að gengisskráningu evrópumynta værum við líka að fást við hagstjórnartæki sem mjög hefur verið beitt hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Ég held að það sé augljóst að fast gengi íslensku krónunnar, t.d. gagnvart evrópskum myntum, hefði það í för með sér að það hrikti í víðs vegar í íslensku atvinnulífi. Að hinu leytinu geta menn velt því fyrir sér hvort við höfum ekki verið of undanlátssöm í gengismálum og það hafi ekki verið að öllu leyti til góðs fyrir íslenskt atvinnulíf. En aðalatriðið er að menn geri sér ljóst að gengisbinding af þessu tagi hefur í för með sér ákveðna áreynslu ef ég má orða það svo.

Þriðja atriðið sem ég vil minnast á af þessu tagi er samræmd skattastefna. Þar er auðvitað líka á ferðinni mikilvægt hagstjórnartæki og auðvitað sneyðist um möguleika í fjáröflun ríkis og ríkisfjármálum hjá þeim ríkjum sem undirgangast að fylgja samræmdri skattastefnu hvernig svo sem hún er. Að hinu leytinu má segja að skattaleg aðlögun sé hafin hér á landi með nýgerðri breytingu á söluskatti og ákvörðun ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka um að tekinn verði upp virðisaukaskattur um næstu áramót.

Ég gæti að sjálfsögðu talið upp fleira eins og t.d. frjálsræðið í þjónustustarfsemi, en spor í þá átt væri auðvitað nýjung ef upp væri tekið í íslensku atvinnulífi.

Þetta eru vandasöm mál, allt saman, og eiga það sameiginlegt að vera af því tagi að þar tel ég að við þurfum að taka upp vinnu í okkar eigin hóp. Þessi atriði sem ég hef talið í þessum flokki snúa að okkur sjálfum og að mínum dómi þurfum við að skoða þau gaumgæfilega og átta okkur á því hvað við getum, hvað við viljum, hvað við þorum og hvað við þolum.

Menn segja að við höfum frest til ársins 1992 eða kannski svolítið lengur en það þýðir líka að við verðum að vera viðbúin árið 1992 eða um það leyti, við þurfum þá að vita vel hvað við viljum og hvað við ætlum okkur. Um sumt þurfum við reyndar nú þegar að taka ákvarðanir og má segja að við séum í raun byrjaðir að taka ákvarðanir um það. En varðandi þetta allt saman er rétt að benda á að það er auðvitað aðeins um aðlögun að ræða nema hjá þeim aðilum sem gerast aðilar að Evrópubandalaginu til þess að hafa áhrif.

Þær viðræður sem eiga sér stað milli EFTA og Evrópubandalagsins eða á milli þjóða utan Evrópubandalagsins við það eru fyrst og fremst af því tagi að menn eru að bera saman bækur sínar. Þetta eru ekki eiginlegar samningaviðræður þó að sú nafngift sé gjarnan notuð, heldur er um samráð að ræða.

Varðandi stöðuna gagnvart Evrópubandalaginu má kannski líta svo á að við stöndum frammi fyrir þrem meginvalkostum, þ.e. lítilli aðlögun, mikilli aðlögun og aðild. Um aðildina vil ég segja það að ég tel ekki að hún sé á dagskrá.

Lítil aðlögun er sú sem snertir eingöngu eða fyrst og fremst hinar tæknilegu hindranir og aðrar skyldar hindranir, m.a. fjárhagslegs eðlis, í meira eða minna mæli. Það mundi vera bærileg skilgreining á lítilli aðlögun að aðlaga sig einungis á því sviði.

Önnur leiðin er það sem kalla mætti mikla aðlögun. En í því felst að samræma okkar hagkerfi flestu því sem er að gerast í löndum Evrópubandalagsins, þar á meðal á sviði gengismála, fjármagnsmarkaðar, vinnumarkaðar og skattastefnu.

Hvar við lendum á þessum stiga get ég ekki beinlínis dæmt um að svo komnu en ég held að það sé hollt fyrir okkur að líta á málin út frá þessum sjónarhóli. Sá fyrsti, með lítilli eða takmarkaðri aðlögun, er tiltölulega auðveldur. Mikil aðlögun er erfiðari en um þriðja möguleikann, aðild, hef ég tekið fram að ég tel ekki að hann sé á dagskrá.

Hvað sem þessu líður held ég að það sé meginmál að við þurfum meiri og ítarlegri umræðu um þessi málefni en átt hefur sér stað. Við þurfum sem sagt að vita meira og við þurfum að láta fara fram úttekt á stöðu okkar, bæði inn á við og út á við, hverju verður að fórna og hverjir ávinningarnir eru í hverju tilviki. En þá þurfum við líka mannafla til að sinna þessum málum og a.m.k. að leggja fram það fé sem þarf til þess að fylgjast með því sem er að gerast utan lands og fylgja því eftir á innanlandsvettvangi og í öðru lagi til þess að afla vitneskju og gera þá úttekt á stöðu okkar sem ég minntist á hér að framan.

Þetta verkefni á m.ö.o. að mínum dómi að vera þríþætt. Í fyrsta lagi að vinna í gegnum EFTA hvað varðar þann þátt sem ég nefndi fyrst, tæknilegar hindranir og því um líkt. Í öðru lagi tel ég að við verðum að halda uppi viðræðum við Efnahagsbandalagið um sjávarútvegsmálin og um samvinnu á ýmsum öðrum sviðum. Og í þriðja lagi verðum við að snúa okkur að því að skoða hug okkar sjálfra varðandi atriði eins og fjármagnsmarkaðinn, mannaflið, skattamál, gengismál og annað það sem er af þeim toga.

Sú stefnumörkun sem ég gerði grein fyrir í upphafi málsins felur í sér þessa þríþættingu. Jafnframt er nauðsynlegt að gerð verði og birt úttekt á stöðunni eins og ég gerði að tillögu minni hér áðan líka og ég vil benda á að Norðmenn, Svíar og Svisslendingar hafa þegar unnið og birt skýrslu af þessu tagi.

Víkjum þá að hinum þættinum sem ég sagðist mundi gera að umræðuefni, öryggis- og afvopnunarmálum. Ég minni á að mörg undanfarin ár einkenndust af hinu sama ár eftir ár. Vígbúnaðarkapphlaupið hélt sínu striki, sífellt var bætt í vopnabúrin, samskipti stórveldanna í austri og vestri einkenndust fyrst og fremst af samskiptaleysi og stóryrðin flugu á víxl. Leiðtogar þeirra hittust ekki árum saman. Þetta var í sjálfu sér ákveðin tegund af stöðugleika því við máttum ganga að þessu ástandi sem vísu. Við könnuðumst við þetta allt, ekkert kom okkur í rauninni á óvart og okkur hafði lærst að lifa við þetta ástand, hversu sátt eða ósátt sem við vorum við þetta. Nú er þetta breytt. Leiðtogar stórveldanna hafa hist æ tíðar og ætla sér enn einn fund í vor eða sumar, einungis hálfu ári eftir að þeir hittust síðast, og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hittast mánaðarlega um þessar mundir. Breyting er tæplega nægilega sterkt orð yfir þessi umskipti. Þetta er nánast bylting í samskiptum.

Margir hafa orðið til þess að láta í ljós efasemdir varðandi samkomulag stórveldanna um eyðingu meðaldrægra kjarnorkuflauga. Einn hópurinn hefur látið í ljós ótta um að með eyðingu þeirra sé öryggi Vestur-Evrópu stefnt í voða. Annar hópurinn hefur gert lítið úr samkomulaginu af því að fækkun í heildarvopnabúrum samkvæmt því sé svo smávægileg;

Ég held að báðir aðilar hafi á röngu að standa. Vígbúnaðarjafnvæginu í Evrópu var ekki raskað Vestur-Evrópu í óhag. Og heildarfækkunin í vopnabúrinu er ekki réttur mælikvarði á gildi samningsins. Vissulega er af nógu að taka en það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er að samningarnir skyldu vera gerðir. Kjarni málsins er að þeir skyldu jafnframt vera gerðir með tilliti til gagnkvæms eftirlits samningsaðila. Þessum samningum um niðurskurð kjarnavopna á reyndar einmitt að framfylgja með sama hætti og Alþingi tiltók í ályktun sinni í maí 1985, nefnilega á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti.

Nú er unnið að undirbúningi nýs samnings um helmingsfækkun langdrægra vopna. Margir tortryggja það. Aðrir spá því að þessi viðleitni muni renna út í sandinn eða „stranda“ eins og það er venjulega nefnt. Ég leyfi mér á hinn bóginn að vera bjartsýnn á að þessir samningar um langdrægu vopnin verði gerðir. En ég vil benda á að eins og fyrr er meginatriðið ekki hversu mikill niðurskurðurinn verður í prósentum talið, heldur samningurinn sjálfur og þá jafnframt að hann verði í góðu jafnvægi og afvopnun á einu sviði eða svæði leiði ekki til aukningar í vopnaburði á öðru sviði eða á öðru svæði. Lít ég þá sérstaklega til Norður-Íshafsins í þessu sambandi og hafsvæðisins umhverfis Ísland.

En eins og ég segi: Mikilvægasti þáttur samninganna er ekki umfangið á niðurskurði vopnanna. Samningaumleitanirnar sjálfar eru nefnilega tæki til þess að draga úr undirrót vopnakapphlaupsins, tortryggninni. Samningaumleitanirnar eru tilefnið og tækifærið til samskiptanna sem eru helsta leiðin til að draga úr tortryggninni. En það er tortryggnin sem er undirrót og orsök vopnakapphlaupsins. Þess vegna er mikilvægi samninganna fyrst og fremst fólgið í þeim sjálfum en ekki í magni niðurskurðar eða takmarkana. Þess vegna er líka betra að ætla sér ekki um of í hverju þrepi heldur taka frekar minna fyrir hverju sinni og forðast þannig vonbrigði eða strand í samningum.

Sú ánægjulega þróun, sem nú á sér stað í vopnatakmörkunum og minnkun spennu, er árangur af stefnufestu Atlantshafsbandalagsins annars vegar og hins vegar af breyttum viðhorfum í Sovétríkjunum. Segja má að enn einu sinni hafi Atlantshafsbandalagið sannað gildi sitt. Öllum aðildarþjóðum bandalagsins ætti nú að vera enn betur ljóst en áður að þær hafa verið og eru á réttri leið. Þeim ætti líka að vera enn betur ljóst en fyrr að önnur leið er ekki færari til þess að ná árangri.

Sumir kalla sífellt eftir einhliða aðgerðum, einhliða afvopnun eða vopnafækkun eða yfirlýsingum af ýmsu tagi. Ég hef áður í umræðum um utanríkismál varað við slíkum aðgerðum. Ég geri það enn. Sú leið er ekki fær. Sérhver tilraun af því tagi mun fara út um þúfur. Á hinn bóginn höfum við nú sannanir fyrir því að staðfesta, krafa um gagnkvæmni og öruggt eftirlit jafnframt því að sýna ekki á sér neinn bilbug, sú leið skilar einmitt árangri.

Þessi staðreynd minnir okkur á nauðsyn þess að treysta samheldni Atlantshafsbandalagslandanna því að slík samheldni er lykillinn að áframhaldi þeirrar þróunar sem nú er hafin í minnkun spennu og afvopnun. Í þeim efnum tel ég að Íslendingar eigi að leggja sitt af mörkum og hvetja aðrar bandalagsþjóðir til slíks hins sama. Um þetta eigum við að reka virka stefnu, innan bandalagsins sem utan, og feimnislaust því að hlutverk okkar í NATO er mikilvægt fyrir NATO, fyrir aðrar bandalagsþjóðir og fyrir okkur sjálf með sama hætti og NATO er okkur mikilvægt.

Það er í samræmi við þetta sem við höfum tekið þátt í ákvörðunum um endurnýjun og uppbyggingu eftirlitsaðstöðunnar hér á landi. Sumir, einkum alþýðubandalagsmenn, hafa haft horn í síðu þessarar endurnýjunar, vilja hefta hana og tefja. Á flótta sínum frá gömlu stefnunni um „Ísland úr NATO og herinn burt“ hafa þeir staðnæmst við það stefnumið að takmarka og draga úr umsvifum varnarliðsins eins og það heitir á þeirra máli. Þetta ætlunarverk hefur þeim ekki tekist heldur hefur verið unnið markvisst að endurnýjun og uppbyggingu, enda bæði sjálfsagt og nauðsynlegt. Grundvallarstaðreyndin er nefnilega sú að sú varnar- og eftirlitsstöð sem ekki svarar kröfum tímans er ekki trúverðug en trúverðugheitin eru undirstaða gagnsemi í viðleitninni til að tryggja frið.

Það er reyndar rétt að benda á í þessu samhengi að á sama tíma og þessi uppbygging og endurnýjun hefur átt sér stað hér hjá okkur þá hefur samband okkar við Sovétríkin farið batnandi og samskipti aukist. Þetta er vitaskuld vísbending um það að Sovétríkin viðurkenna hlutverk okkar og hvernig við rækjum það.

Sambúð okkar við varnarliðið er góð og nánast snurðulaus. Allar spár um annað hafa ekki ræst, allur ótti um hættu fyrir íslenska menningu af veru varnarliðsins hér á landi hefur reynst ástæðulaus. En í þessu samhengi hlýt ég hins vegar að víkja að þeirri mengun vatnsbóla af olíuleka sem átt hefur sér stað og láta þá eindregnu skoðun í ljós að þeir aðilar sem vatnsbólunum spilltu eigi afdráttarlaust að greiða kostnað af öflun nýrra vatnsbóla að fullu með tilheyrandi vatnslögn sem afhent verði Keflavíkurbæ og Njarðvík til fullra umráða.

Herra forseti. Annað veifið og úr ýmsum herbúðum heyrist gagnrýni á varnarbandalög. Er þá gjarnan höfðað bæði til Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins og látin í ljós ósk um að þau verði leyst upp, frekar fyrr en síðar. Auðvitað geta menn látið sig dreyma um slíkt en ég held að það sé beinlínis rangt að gæla við slíkar hugmyndir eða gera þær að nærtæku markmiði. Sannleikurinn er nefnilega sá að bandalögin eru afleiðing ástands en ekki orsök þess. Og bandalagsfyrirkomulagið er líklegra til að tryggja öruggan og skipulegan samningsvettvang um afvopnun og minnkun spennu heldur en bandalagsleysið og sú óvissa sem því fylgdi. Upplausn bandalaganna er því ekki raunhæfur undanfari árangurs á því að bæta ástand heimsmála, en hugsanlega afleiðing. Og heldur vil ég viðhalda bandalögunum áratug lengur eða svo ef nauðsyn kynni að krefja en að stefna að ótímabærri upplausn þeirra og þeim afleiðingum sem það kynni að hafa.

Ég vék að þeirri alkunnu staðreynd hér áður að tortryggnin væri frumrót vígbúnaðar og þess kapphlaups sem þar ríkir. Ég sagði líka að samningar um afvopnun væru tæki til þess að auka samskipti ríkjanna og draga þannig úr tortryggni. Hin hlið þessa máls er sú að eðlilegum samskiptum og gagnkvæmu trausti verður ekki komið á milli austurs og vesturs nema almenn mannréttindi séu fyllilega virt og landamæri ekki gerð að óyfirstíganlegum þröskuldi. Þetta verða leiðtogar Evrópuþjóða og þá einkum Sovétríkjanna að láta sér skiljast. Það má ekki gleymast að þessi ríki tóku á sig ótvíræðar skuldbindingar í mannréttindamálum í Helsinki-sáttmálanum. Þeir samningar eiga ekki að vera orðin tóm. Sá hluti sáttmálans er ekki síður mikilvægur en aðrir hlutar hans. Svo lengi sem hann er ekki virtur, svo lengi sem mannréttindi eru fótum troðin næst ekki gagnkvæmt traust. Svo lengi sem lönd eru lokuð inngöngu eða útgöngu, svo lengi sem ferða- og flutningsfrelsi er ekki virt næst ekki það traust landa á milli sem er undirstaða varanlegs og öruggs friðar.

Þennan sannleika mættu leiðtogar Íslands og sendiboðar oftar reiða fram. Rödd Íslands um mannréttindamál er ekki síður áheyrslu verð en annarra þjóða sem eru stærri og öflugri. Ég held reyndar að einmitt í þessu máli sé frekar hlustað á Ísland en ýmsar aðrar þjóðir. Því beini ég því til utanrrh. og utanríkisþjónustunnar að hyggja sérlega að mannréttindamálunum og hlutverki þeirra í auknu trausti milli austurs og vesturs, og að hlutverki og skyldu Íslendinga við að koma þeim sjónarmiðum sterklega á framfæri.

Herra forseti. Ég hef hér á undan takmarkað mig eingöngu við tvo málafokka og ætla að halda mig við það. Takmarkað mig við málaflokka sem ég tel rísa hæst í utanríkismálum um þessar mundir. Annars vegar Evrópumálin og hins vegar afvopnunar- og öryggismálin. Ég hef fjallað um þau sitt í hvoru lagi, enda tel ég að ekki eigi að blanda saman öryggismálum Íslands og samskiptum okkar við Evrópubandalagið.

Öryggismálunum höfum við skipað með farsælum hætti með aðild okkar að NATO og samningum við Bandaríkin um dvöl varnar- og eftirlitssveitar hér á landi. Þessi skipan hefur gefist vel. Ekkert bendir til þess að því verði betur komið með öðrum hætti. En við eigum að leggja rækt við hlut okkar í NATO og leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að starfsemi Atlantshafsbandalagsins treysti öryggi okkar heimshluta og stuðli að afvopnun og slökun spennu skref fyrir skref.

Málefni Evrópu og samskipti okkar við hana eru hins vegar af efnahagslegum og viðskiptalegum toga og þess vegna allt annars eðlis. Og þau verður að nálgast í samræmi við það. Ég tel brýnt að Ísland móti skýra stefnu í málefnum Evrópu og samskiptum sínum og Evrópubandalagsins eins og ég vona að komið hafi fram hér í máli mínu.

Ég hef reifað þá meginþætti sem ég tel að þessi stefnumörkun eigi að fela í sér og bent á nauðsyn þess að koma upp nefnd til að vinna að athugunum og skýrslugerð um þessi mái.

Ég legg áherslu á að íslenskir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sameinist um þessa stefnumörkun gagnvart Evrópu og Evrópubandalaginu. Við skulum halda á þessum málum af reisn, en jafnframt þurfum við að sýna snerpu því við megum ekki einangrast eða dragast aftur úr. Hér er mikið í húfi og því skulum við leggja okkur vel fram. Ég er bjartsýnn á stöðu okkar og efast ekki um að við munum ná farsælli niðurstöðu ef við bregðumst nú vel við og sameinum kraftana.