29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það eru ummæli hv. 2. þm. Reykn. sem komu mér upp í ræðustól nú. Ég er honum sammála og þakklátur fyrir að hann skuli vera á þeirri skoðun að málið, sem hér er til umræðu, eigi að vera á dagskrá Alþingis þó það sé ekki tímabært að hans mati að það komi á dagskrá nú. Hann telur að það þjóni ekki kjördæminu. Ég tel að því sé þveröfugt farið. Hér þjóni það kjördæminu og hefði átt að koma á dagskrá fyrir lifandi löngu. Það þjónar ekki Sjálfstfl. sem hv. þm. hefur sofið fyrir í Reykjaneskjördæmi. Sjálfstfl. er að missa forustu í kjördæminu eins og hann er að missa forustu um land allt vegna aðgerðarleysis, eins og fram hefur komið í málflutningi hv. 2. þm. Reykn. Nú er hann á þeirri skoðun að sú stofnun sem hann stýrir, Byggðastofnun, skuli spurð og beðin um upplýsingar um eigið kjördæmi. Hvar hefur maðurinn sofið? Hefur hann sofið í kjördæmi eða hefur hann sofið í Byggðastofnun? Hann er forstöðumaður og formaður stjórnar Byggðastofnunar. (ÓE: Ég er það alls ekki.) Þú varst það. (ÓE: Ég hef aldrei verið það.) Nú, fyrirgefðu. Þá bið ég afsökunar. En þú ert í stjórn Byggðastofnunar. Er það rangt líka? (ÓE: Nei, nei.) Þá ertu í stjórn. Hvar hefurðu þá sofið? Það er sama hvort þú hefur sofið í Byggðastofnun eða í kjördæmi. Þú hefur sofið fyrir hönd Sjálfstfl. í starfi.

Og ég spyr: af hverju hafa þessar upplýsingar ekki komið fram fyrr? Að deila á Borgarafl. nú fyrir frumhlaup er rangt og á sér enga stoð. Flokkurinn er með nýjum og vakandi þm. að þjóna kjördæminu en ekki þörfum annarra flokka. Við komum hér upp sem sjálfstæðir menn og tökum vandamál þjóðarinnar sem við teljum rétt að ræða hverju sinni og við teljum þörf á að gera að umræðuefni. Rödd okkar mun heyrast. Hún heyrist í þessu máli og það fer í taugarnar á þeim sem hafa sofið. Þeir sem hér hafa talað og þá helst hv. 2. þm. Reykn. hafa ekki talað um vandamál kjördæmisins heldur hefur hann deilt á þm. Borgarafl. sem er aukaatriði í málinu. Atvinnuvandamál kjördæmisins er það sem hér er á dagskrá. Ég vísa á bug fullyrðingum og aðdróttunum hv. þm. Ólafs G. Einarssonar í þessu máli.

-