25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4954 í B-deild Alþingistíðinda. (3410)

294. mál, utanríkismál

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Nú þegar fulltrúar allra flokka hafa talað þykir mér rétt að koma inn í umræðuna og mun ég leitast við að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir, er hún kannski ekki í húsinu lengur? (Forseti: Hv. 13. þm. Reykv. var hér rétt á þessu augnabliki. Það skulu verða gerðar ráðstafanir til þess að vekja athygli hennar á því sem hér er að fara fram.) Ég mun þá koma að ræðu hv. þm. þegar hún hefur birst. Ég hefði einnig viljað svara hæstv. samgrh., en ég spyr: Er hann í þinghúsinu? (Forseti: Hæstv. samgrh. virðist ekki vera í þinghúsinu sem stendur.) Ég mun þá síðar koma inn á ummæli hans. Ég tel ákaflega mikilvægt að greiða úr því sem þar kom fram um atkvæðagreiðslur hjá Sameinuðu þjóðunum og er tilbúinn að rekja þær lið fyrir lið. Hins vegar vil ég líka láta koma fram að ég kann því illa að menn komi hér með gagnrýni og séu svo ekki við til að taka við svörum. En ég mun láta það bíða þess tíma að hæstv. ráðherra er hér við.

Hv. þm. Júlíus Sólnes kom að athyglisverðum málum í skýrslu minni. Reyndar er þar ekki um mörg atriði að ræða sem ég þarf að svara. Ég get tekið undir með hv, þm. það sem hann sagði um Evrópubandalagið og viðskiptahagsmuni okkar í þessu sambandi. Hv. þm. nefndi að viðskiptasamningur við Bandaríkin gæti komið til greina og vissulega er það rétt. Ég hygg hins vegar að viðskiptasamningur svipaður og Kanada og Bandaríkjamenn gerðu sé alls ekki í myndinni. - Ég hef reyndar gleymt að spyrja að því hvort þessi hv. þm. sé hér. En hvað um það, þetta er almenns eðlis. Ég vil þó undirstrika að slíkur samningur er að mínu mati alls ekki í myndinni. Hann er miklu víðtækari en við getum þolað. T.d. leyfir hann fullt frelsi á fjármagnsflutningum og ýmsu fleiru sem ég hygg að við getum verið sammála um að er varla um að ræða fyrir okkur. Hins vegar getur vel komið til greina að leita eftir nánari viðskiptum við Bandaríkjamenn þó ég taki undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að með öllu móti er eðlilegra fyrir okkur að snúa okkur til Evrópu og tengjast þeirri þróun sem þar virðist vera fram undan.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir er gengin í salinn og ég ætla þá að snúa mér að því að svara ýmsu af því sem kom fram hjá henni. Það er rétt hjá hv. þm. að ég sá ekki ástæðu til að telja upp ferðir sovéskra flugvéla um íslenska lögsögu. Mér sýnist það ekki vera erindi í skýrslu utanrrh. til Alþingis, en það er hins vegar því miður ekki svo að þessum ferðum sé lokið. Mér er tjáð að þær séu margar enn.

Hv. þm. fjallaði nokkuð um það sem nefnt er í minni skýrslu, sem mikilvægi þessa samnings að ekki hafi Sovétríkjunum tekist að reka fleyg í röð Atlantshafsbandalagsríkjanna með kröfu sinni sem áður var um það að kjarnorkueldflaugar Breta og Frakka yrðu einnig fjarlægðar. Ég er ekki að meta það hvort Bretar eða Frakkar eigi að hafa sínar eldflaugar, en Bretar og Frakkar lögðu á það mjög mikla áherslu að þeir gætu ekki fallist á að Sovétmenn og Bandaríkjamenn semdu um þeirra eldflaugar og þetta var mikill ásteytingarsteinn. En Sovétríkin gengu það langt að þau lögðu þessa kröfu sína til hliðar. Vonandi nást síðar samningar um að fjarlægja einnig þessar eldflaugar. Ég lýsi því sem minni skoðun.

Hv. þm. gerði einnig athugasemd við setningu á bls. 9: „Nokkuð hefur verið rætt um það undanfarna mánuði hvaða leiðir Atlantshafsbandalagið gæti farið til að bæta sér upp þann missi þeirra flauga sem upprættar eru með samningnum.“ Og hv. þm. virtist lesa út úr þessu stuðning minn við viðleitni sem hjá báðum stórveldunum er örugglega mjög ákveðinn í þessa átt. En hv. þm. hefði mátt lesa einni setningu lengra, með leyfi forseta, því þar segi ég: „Ég hef margoft lýst því að gegn slíku beri að standa.“

Þetta er töluvert margslungið mál. Að sjálfsögðu á sér stað stöðug þróun í þessum hernaðartækjum og hún verður eflaust ekki stöðvuð. Hún fylgir annarri tækniþróun. Hins vegar er því ekki að neita að mörgum þykir að hjá stórveldunum báðum gæti mjög þeirrar tilhneigingar að fylla það gat sem verður með því að fjarlægja meðaldrægar eldflaugar.

Mjög hefur verið rætt m.a. um svonefndar stýriflaugar í þessu sambandi og var m.a. nýlega upplýst í ræðu, sem varnarmálaráðherra Noregs flutti, að Sovétmenn munu vera að útbúa sín skip með slíkum stýriflaugum sem geta borið kjarnorkuodda. Þessum stýriflaugum, sem fljúga mjög lágt og eru að sumu leyti líkari flugvélum en eldflaugum, er ákaflega erfitt að fylgjast með. Mjög erfitt er að hafa eftirlit með þeim. Þær geta hvort sem er verið með kjarnorkuodd eða ekki kjarnorkuodd. Þetta hefur verið eitt af þeim málum sem einna erfiðast hefur reynst að finna lausn á og þá sérstaklega hvernig á að hafa eftirlit með. Þessa hina tæknilegu þróun hefur borið á góma á fjölmörgum alþjóðlegum fundum um samdrátt í kjarnorkuvopnum.

Hv. þm. ræddi nokkuð um þátttöku okkar í kjarnorkunefndinni svonefndri. Þátttaka okkar er þar þannig að við erum áheyrnaraðili. Það er misskilningur að þessi nefnd taki allar ákvarðanir, sem ég hygg að hv. þm. hafi orðað svo, um kjarnorkuvæðingu. Hún gerir það ekki. Hún er ráðgefandi fyrir ráðherranefnd eða æðstu nefnd Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar taldi fyrirrennari minn, og ég er honum sammála, æskilegt að við gætum fylgst með þeirri umræðu sem þarna fer fram og látið koma fram álit okkar á þeim hugmyndum sem þar er hreyft. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það sem þarna fer fram er skráð sem mesti leyndardómur og ég er ekki frjáls að skýra frá því sem ég hef séð frá þessari nefnd, en það vil ég segja að mér hefur þótt það mjög upplýsandi og fróðlegt og m.a. gefur það mér nokkra innsýn í það hvernig fulltrúar einstakra ríkja hugsa í þessum málum. Ég hef því talið þetta mjög gagnlegt.

Hv. þm. spurði um framkvæmd á tillögu Ólafs Ragnars Grímssonar, eða ég tók það svo, um ráðstefnu um norðurhöfin. Ég sagði við umræðu um þá tillögu að ég tel hana að mörgu leyti athyglisverða. Hún er enn þá hjá utanrmn. og hefur ekki verið afgreidd þaðan svo að hún er ekki komin í mínar hendur En ég hef líka sagt að ég hygg að framkvæmd á þessari tillögu kunni að ýmsu leyti að vera erfiðleikum háð. T.d. er ljóst að til þess að svona fundur yfirleitt hefði nokkra þýðingu, þá yrði að tryggja góða aðsókn að honum og m.a. frá stórveldunum sem, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráða að sjálfsögðu langmestu í þessum málum.

Þá talaði hv. þm. nokkuð um fælinguna og fælingarkenninguna. Ég hef áður í ræðu lýst efasemdum mínum um fælingarkenningu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar nú, eftir að ég hef kynnst þessum málum betur, að sú ákvörðun sem tekin var fyrir allmörgum árum hjá Atlantshafsbandalaginu, að mæta eldflaugauppbyggingu Sovétríkjanna í Evrópu með eigin hervæðingu á þessu sama sviði, eigi þátt í því að nú er sest niður og samið um fækkun kjarnorkuvopna. Mér finnst, eftir að ég hef haft tækifæri til að ræða við ýmsa fróða menn um þessi mál, þetta í raun vafalaust. Ég tek undir það sem sagt var hér áðan, ég hygg af hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að þarna á einnig stóran hlut stefna í Sovétríkjunum og sú augljósa niðurstaða að efnahagslega væri þeim í raun ofviða að taka þátt í þessu mikla kapphlaupi, og hef reyndar hvað eftir annað heyrt, og hv. þm. eflaust einnig, svipuð sjónarmið í Bandaríkjunum. Þannig að ég held að þótt þetta kjarnorkuvopnakapphlaup sé af hinu illa, þá hafi það þó opnað augu manna fyrir tilgangsleysi þessa kapphlaups og þeirri endaleysu, ef ég má orða það svo, sem í því felst. Fælingin hefur að þessu leyti haft nokkur áhrif.

En ég verð jafnframt að vekja athygli á því að við Íslendingar erum þátttakendur í grundvallarsamþykkt Atlantshafsbandalagsins sem öll ríkin hafa staðið samhljóða um og byggir m.a. á fælingu. Þar er undirstrikað að Atlantshafsbandalagið muni aldrei beita kjarnorkuvopnum, en hins vegar að það muni verða reiðubúið að beita þeim til varnar verði á það ráðist. Í þessu felst fælingin. Við eigum áreiðanlega mjög erfitt með að hlaupa frá þessari samþykkt. Okkar von liggur í því að sú þróun haldi áfram sem nú er og þannig verði horfið frá nauðsyn fælingar ef menn vilja kalla það svo.

Hv. þm. spurði mig um þróun ratsjártækni, þessarar „yfir sjóndeildarhringinn“-tækni eða hvað við eigum að kalla það. Ég er ekki vel að mér um það. Ég veit að slíkar ratsjár eru reistar og eru umdeildar á milli stórveldanna, en þær ratsjár, sem hér eru, eru örugglega ekki af þeirri gerð. (GHelg: Nei.) Er það ekki öruggt? (GHelg: Það er öruggt, en í riti upplýsingaþjónustunnar er hitt talið æskilegt.) Mér er vel kunnugt um að til eru þeir hernaðarsinnar sem vilja gjarnan sjá slíkan radar hér á landi, en um það varð full samstaða í fyrri ríkisstjórn að það kæmi ekki til greina og ég hef ekki heyrt neinn mann hér, sem einhverju ræður í þessum málum, mæla með slíkum ratsjám. Þau ratsjártæki sem búið er að bjóða út eru ekki þessarar gerðar.

Enn einu sinni er rætt um þessa stjórnstöð sem á að þjóna kjarnorkuárás. Ég ræddi þetta svo ítarlega í morgun að ég vil helst ekki ræða það svo mjög nú aftur. Hún þolir alls ekki kjarnorkuárás. Hún getur þolað kjarnorkusprengju einhvers staðar á svæðinu. Hún fer úr öllu sambandi við öll fjarskipti því að fjarskiptaloftnet mundu hrynja, en mennirnir gætu lifað í sjö daga. Einhver sagði, hvort það var ekki hv. þm., að víkingasveitin ætti að hafa þar aðsetur í sjö daga. Ég verð að upplýsa hana um að hún er allt of lítil til þess að rúma þessa víkingasveit og verkefni hennar eru skráð nákvæmlega þau sömu og eru nú í járngrindahúsi því sem stjórnstöðin er í.

Um varaherflugvöll hefur ekkert verið rætt í minni tíð og hann kemur ekki til greina. Ég neita því ekki að ég hef alltaf haft áhuga á almennum varaflugvelli, en varaherflugvöllur er ekki á dagskrá.

Ákvörðun tekin um liðsforingjana blessaða frá hinu og þessu NATO-ríki. Ég á líklega erfitt með að svara því, en mér er tjáð að það hafi viðgengist nokkurn tíma að liðsforingjar frá öðrum Atlantshafsbandalagsríkjum komi og dvelji hér nokkurn tíma. Við vitum að það koma líka nefndir eða hópar frá þessum löndum í heimsókn. Þetta er gagnkvæmt. Ég held út af fyrir sig að þetta sé ekki nema af því góða. (GHelg: Það stendur nefnilega: Í yfirstjórn hersins.) Já, ég hefði getað kannað það á milli ræðna, en mig minnir að einn sitji í æðsta ráðinu hjá þeim þannig að þeir hafi verið teknir þar inn. Æðsta stjórn hersins er að sjálfsögðu í höndum aðmírálsins, en hann er með við hlið sér ráð sem í situr, ef ég man rétt, einn slíkur maður.

Víkingasveitin. Það hefur löngu verið upplýst stefna hjá Atlantshafsbandalagsríkjunum að í ýmsum ríkjum eru þjálfaðar sveitir sem grípa má til ef til átaka kemur í einhverju Atlantshafsbandalagsríkinu. Einhverjar þessar sveitir eru í Bandaríkjunum. Eðlilegt þótti og hefur verið gert fyrr að fylgjast með þjálfun þessarar sveitar til að vita sem nánast um t.d. til hvers er ætlast af þeim eins og öðru sem við kemur Íslandi. Ég verð hins vegar að viðurkenna að það eru langt frá því að vera sérfræðingar sem þar voru. Það voru tveir ungir menn, sem hafa starfað í varnarmáladeildinni, sem fengu að vera viðstaddir til að sýna a.m.k. lit að þessu leyti.

Hv. þm. ræddi nokkuð um íbúðir sem stendur til að byggja á svæðinu. Þær eru til endurnýjunar á gömlum íbúðum og m.a. til þess að geta betur fullnægt þeirri ósk okkar að í hernum sé fyrst og fremst fjölskyldufólk, en ekki er nægjanlegt íbúðarými til að það verði að öllu leyti. En ástæðan fyrir því að þær eru ekki á skrá núna er sú að þær voru á skrá hygg ég í síðustu skýrslu og það sem birtist í skýrslunni núna eru framkvæmdir sem hafa að vísu verið samþykktar, sumar fyrir einu ári, sumar fyrir tveimur, ég held ein 1985 eða fyrr en hafa ekki komist til framkvæmda. Þannig eru samþykkt verk töluvert fram í tímann og koma síðan smám saman inn í framkvæmdaröð. Þarna eru tíundaðar framkvæmdir sem nú er samið um við Aðalverktaka og því komnar til framkvæmda, en hafa verið samþykktar áður.

Ratsjárstofnunin er nú nánast deild í varnarmálaskrifstofunni. Ég tel að stofnun sem er svona umfangsmikil og kann að vaxa mjög, ef við tökum að okkur í enn stærra mæli rekstur ratsjárstöðvanna, eigi að vera sjálfstæð og óháð stofnun og ætti að hafa sérstaka stjórn o.s.frv. en ekki að vera deild í skrifstofu. Mér finnst hún stefna í að geta orðið of viðamikil til þess.

Hv. þm. spurði um lækkun opinberra gjalda sem nefnd er. Þetta mun vera í því sambandi að lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli innheimtir opinber gjöld fyrir fjmrn. eins og aðrir slíkir og þessi innheimta var nokkru lægri á síðasta ári vegna þess að skattar sem á Aðalverktaka voru lagðir voru lægri, ekki vegna þess að þeir voru lækkaðir í hlutfalli heldur vegna þess að tekjur Aðalverktaka voru minni á skattaárinu 1986 en þær voru 1985 svo skattlagningin varð af eðlilegum ástæðum lægri.

Ég ætla ekki að ræða hér um hvalveiðarnar en vil þó taka það fram að þó að ég telji að áherslur okkar hafi ekki verið eins og æskilegast er og við getum haldið á okkar málum á annan máta betur út á við, er ég þeirrar skoðunar að vísindaveiðarnar séu fullkomlega löglegar með tilliti til Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég vildi leiðrétta þann misskilning sem mér fannst koma fram hjá hv. þm.

Ég sé að hæstv. samgrh. er genginn í salinn og vil því koma að afgreiðslum hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég vek athygli á því, sem ég hefði átt að geta um í upphafi að sjálfsögðu, að skýrslu um þátttöku Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum var dreift hér með skýrslu minni og þar koma fram miklu ítarlegri upplýsingar um afstöðu okkar Íslendinga til tillagna hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar er m.a. þess getið, ég vona í öllum tilfellum, ég a.m.k. óskaði eftir því, hvar við hefðum breytt um afstöðu. En almennt, áður en ég kem að þessu, því ég mun rekja atkvæðagreiðslur, finnst mér satt að segja ekki mikil rökhyggja, svo að ég noti orð hæstv. samgrh., felast í því sem fram kom í ýmsum afstöðum okkar til tillagna með hliðsjón af samþykkt Alþingis í maí 1985. Það er kjarni málsins. Í samþykkt Alþingis segir:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnorkuvopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni, jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga“ o.s.frv. sem ég veit að allir hv. þm. þekkja.

Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að vísa til þess ágæta manns Ólafs Jóhannessonar og þess sem hann lét frá sér fara fyrir mörgum árum. Hefur ekkert breyst í heiminum síðan? Mikið hefur breyst, meira en við fáum lýst í ræðum á tveimur dögum. Það hefur orðið gerbreyting í heiminum síðan. Við Íslendingar værum sem nátttröll ef við skildum það ekki og ef það kæmi ekki fram í okkar afstöðu. Ég vísa því á bug að í dag gildi það sem vísað var til í ræðum Ólafs heitins Jóhannessonar. Ég vek athygli á því að önnur Norðurlönd, m.a. þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu, hafa talið sér fært að greiða atkvæði með svonefndri frystingartillögu. Það er að vísu rétt að málið var afgreitt á þjóðþingum þessara landa. Ég er tilbúinn að láta fara hér fram atkvæðagreiðslu um afstöðu okkar til þessarar tillögu ef þeir sem efast eða vefengja mína afstöðu, halda því fram að hún sé í andstöðu við vilja Alþingis, vilja samþykkja það. Það er sjálfsagt.

Mér er sagt í utanrrn. að það hafi ekki fyrr verið farið svo ítarlega í tillögurnar eins og nú. Ég varði í það mörgum dögum að sitja yfir þessum tillögum. Ég spurði eftir því hvað hefði ráðið afstöðu okkar til ýmissa mála. Ég fékk lítið af svörum. Ég mun standa við allar þær breytingar sem ég hef gert á afstöðu okkar og tel að hún sé í samræmi við það sem Alþingi Íslendinga hefur ákveðið. Ég skal svo fara yfir þessar tillögur, en til að lengja ekki álit of mikið mál mitt gera það nokkuð hratt.

Í þeirri bók sem hv. alþm. hafa fyrir framan sig er fyrsta tillagan um stöðvun allra kjarnorkuvopnatilrauna. Við Íslendingar sátum hjá við afgreiðslu þessarar ályktunar á 41. allsherjarþingi. Öll Norðurlöndin greiddu atkvæði með henni og við gerum það líka núna. Bandaríkjamenn greiddu atkvæði á móti.

Þá er tillaga nr. 42/35, bann við þróun á framleiðslu nýrra gereyðingarvopna. Reyndar kemur ekki fram í ritinu hvernig greitt var atkvæði síðast og ég hef ekki tíma til að afla mér upplýsinga um það, en tillagan var samþykkt með 135 atkvæðum, einn sat hjá og 18 voru á móti. Á móti voru Bandaríkin. 18 sátu hjá, Ísland, Noregur, Danmörk og flest Vesturlönd. Finnland og Svíþjóð greiddu atkvæði með ályktuninni. Ég satt að segja velti mikið vöngum yfir því hvers vegna við ættum ekki að greiða atkvæði með þessari tillögu, en ég treysti mér ekki til að við skerum okkur svo algerlega úr frá öðrum okkar félögum innan Atlantshafsbandalagsins. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, efni tillögunnar:

„Afvopnunarnefndinni er falið með fullu tilliti til þeirra verkefna er bíða úrlausnar að herða á viðræðum með aðstoð sérfræðinga með það fyrir augum að semja uppkast að samningi er banni hönnun á framleiðslu nýrra gereyðingarvopna.“

Ég hefði miklu frekar búist við gagnrýni á það að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa tillögu. Ég á erfitt með að skýra það. En ég skoðaði þessa tillögu mjög vandlega og ég varð var við andstöðu annarra ríkja. Skýringin sem ég fékk var sú að útilokað væri að fylgjast með þessu og það lægi ekki fyrir nein leið til þess eða neitt samkomulag og þess vegna væri tillagan óraunhæf.

Þá er það næst tillaga nr. 42/38,d sem er um tvíhliða viðræður um kjarnorkuafvopnun og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fagnað er samkomulagi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um að undirrita samning um niðurskurð á skammdrægum og meðaldrægum eldflaugum og að vinna ötullega að samkomulagi um 50% niðurskurð á árásarvopnum innan ramma viðræðnanna og hefja viðræður um bann við kjarnorkuvopnatilraunum fyrir 1. des. 1987. Biður [þ.e. allsherjarþingið] ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um að láta afvopnunarnefndina fylgjast með árangri.“

Ísland sat hjá á 41. allsherjarþingi. Ég gat ómögulega fundið nokkra skýringu á því. Ég held að við hljótum öll að fagna því samkomulagi sem þá blasti við. Ég gat ekki varið það fyrir sjálfum mér að greiða atkvæði á móti eða sitja hjá við þessa tillögu. Norðurlöndin greiddu öll atkvæði með ályktuninni, en af einhverjum ástæðum sátu t.d. Bandaríkin hjá. Ég held að þau hefðu átt að fagna þessu mest.

Þá kem ég að tillögu nr. 42/38.j, um framkvæmd ályktana Sameinuðu þjóðanna um afvopnun. Það er sú tillaga sem mest hefur verið umdeild, þ.e. tillaga Úkraínu og Tékkóslóvakíu:

„Öll aðildarríkin eru hvött til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að auðvelda framkvæmd ályktana Sameinuðu þjóðanna á sviði afvopnunar og sýna þannig vilja sinn til þess að ná því takmarki að koma á gagnkvæmum, aðgengilegum afvopnunaraðgerðum sem unnt er að sannprófa.“ Sem er undirstöðuatriði. „Þá er aðalframkvæmdastjórinn beðinn um að leggja árlega fyrir allsherjarþingið skýrslu um þróun afvopnunarmála og öll ríki beðin um að aðstoða hann við það.“

Þetta er ný tillaga og það lá ekki fyrir nein afstaða. Við fórum töluvert ítarlega í hana, ég og mínir samstarfsmenn, og mér fannst strax að eðlilegt væri að styðja þessa tillögu. Við fréttum síðan að önnur Vesturlönd hefðu setið hjá. Bandaríkin og Ísrael voru á móti. Ég bað um upplýsingar um hvernig stæði á þessari hjásetu, en þær upplýsingar komu seint og tillagan var þá afgreidd á allsherjarþinginu.

Þetta er líklega ein af þessum áróðurstillögum sem hæstv. ráðherra talaði um. Ég var að velta því fyrir mér hvernig aðrar þjóðir mundu líta á okkar tillögur. Eru þær flokkaðar sem áróðurstillögur af öðrum þjóðum? Ég vil ekki flokka neina tillögu sem áróðurstillögu. Ég vil skoða hana málefnalega og taka afstöðu til hennar málefnalega. En það er að sjálfsögðu ekki von að vel fari ef litið er á tillögurnar þannig. Ég veit að hæstv. samgrh. fer með rétt mál, því miður. Þannig er þetta hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er litið á þetta sem áróður frá einni blokkinni á hina og menn eru að reyna að komast í alþjóðlegt áróðurssviðsljós, ef ég má orða það svo. Frá því hefði ég helst viljað hverfa.

Þá er tillagan um frystingu kjarnorkuvopna sem ég þarf ekki að fara um mörgum orðum. Hún hefur verið ítarlega rædd. Ég hef lýst því hér áður í ræðu minni að ég er tilbúinn að láta Alþingi skera úr um hvort ég fari þar að vilja þingsins eða ekki og fari þar að í samræmi við samhljóða samþykkt Alþingis frá maí 1985.

Þá er hér önnur tillaga um frystingu kjarnavopna, sem Indland og Rúmenía flytja, sem er svona: „Enn á ný er skorað á þjóðir sem hafa kjarnavopn að samþykkja samtímis frystingu á framleiðslu þeirra og framleiðslu á kjarnakleyfum efnum til vopnaframleiðslu.“

Við sátum hjá á 41. allsherjarþingi. Þá greiddu ýmsar þjóðir, eins og Bandaríkin, atkvæði á móti. Norðurlöndin greiddu öll atkvæði með ályktuninni.

Þá er tillaga nr. 42.a sem fjallar um að beita ekki kjarnorkuvopnum og koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld. Mér þykir rétt, með leyfi forseta, að lesa upp efni þeirrar tillögu:

„Í sjöunda sinn er yfirlýsing tveggja kjarnorkuvelda um að verða ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum í styrjöld talin spor í rétta átt og skorað á önnur kjarnorkuvopnaveldi að gefa sams konar yfirlýsingu. Jafnframt er lagt fyrir afvopnunarnefndina að athuga með gerð alþjóðasamnings gegn beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði.“

Við greiddum atkvæði á móti þessari tillögu á 41. allsherjarþingi. Ég gat ekki fengið nokkra skýringu á því. Mér er það satt að segja hulin ráðgáta því að það er yfirlýst stefna Atlantshafsbandalagsríkjanna að beita ekki kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Hvernig í ósköpunum getum við greitt atkvæði á móti slíkri tillögu?

Á þinginu núna greiddum við að sjálfsögðu ekki atkvæði gegn þessari tillögu. Nú sátum við hjá við tillöguna. Ég var í erfiðleikum með að ákveða að sitja hjá við þessa tillögu. Það er að vísu rétt að Danmörk og Noregur greiddu atkvæði á móti tillögunni, en Svíþjóð og Finnar greiddu atkvæði með tillögunni. E.t.v. getur hæstv. samgrh. upplýst mig um hvers vegna við greiddum atkvæði gegn slíkri tillögu.

Þá er tillaga nr. 42.c, stöðvun kjarnorkuvopnakapphlaupsins og kjarnorkuvopnunar, stendur í þýðingunni. Þessi tillaga er flutt af Argentínu og ýmsum fleirum. Efni hennar er þannig, með leyfi forseta:

„Staðfest að fælnistefna með kjarnorkuvopn hafi aukið hættu á kjarnorkustyrjöld og leitt til meira öryggisleysis í alþjóðamálum. Afvopnunarnefndinni er falið að stofna sérstaka nefnd í byrjun árs 1988 til að gera tillögur um hvernig afvopnunarnefndin geti best komið á marghliða samningaviðræðum um að stöðva alla framleiðslu kjarnavopna og kjarnakleyfra efna til vopnaframleiðslu og stórfelldan niðurskurð á núverandi kjarnavopnabúrum með það fyrir augum að þau verði að lokum eyðilögð.“

Við sátum hjá um þessa tillögu. Ég treysti mér ekki til að greiða þessari tillögu atkvæði vegna þess að við Íslendingar höfum samþykkt innan Atlantshafsbandalagsins að fælni sé veigamikill þáttur í okkar varnarstefnu. Ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þessari tillögu. Sama gerðu Danmörk og Grikkland t.d. sem eru líka í Atlantshafsbandalaginu. Ég vildi hins vegar ekki undirstrika þessa fælnikenningu með því að greiða atkvæði á móti tillögunni og taldi því best að sitja hjá. Finnland og Svíþjóð greiddu atkvæði með tillögunni.

Þá kem ég næst að tillögu um alþjóðlega samvinnu um afvopnun. Tillagan hljóðar svo: „Öll ríki eru hvött til þess að vinna ötullega að afvopnunarviðræðum á grunni gagnkvæmni, jafnræðis og öryggis í alþjóðasamskiptum og lögð er áhersla á að efla hlutverk Sameinuðu þjóðanna við afvopnun. Þá er ítrekað að útgeiminn eigi ekki að nota til hernaðar heldur aðeins í þágu mannkyns.“

Við Íslendingar höfum að vísu held ég ekki opinberlega tekið afstöðu til geimvarnaáætlunar Bandaríkjamanna. Sumar aðrar Atlantshafsþjóðir hafa gert það. T.d. Norðmenn sem hafa látið bóka sérstöðu sína þar. Við greiddum á 41. allsherjarþingi atkvæði á móti þessari tillögu, en við sátum hjá nú. Ég lýsi því fyrir mitt leyti að ég hef ekki nokkra trú á þessari áætlun um geimvarnir. Viðurkennt er af öllum sérfræðingum að slíkt getur aldrei náð nema til takmarkaðs fjölda flugskeyta. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að hernaðarátök eigi ekki að færa út í geiminn. Hins vegar fannst mér eðlilegt að sitja hjá við tillöguna þar sem þessi hugmynd hefur hlotið samþykki meiri hlutans hjá Atlantshafsbandalaginu.

Síðan kemur tillaga sem er nokkuð athyglisverð. Þetta er tillaga sem er mjög svipaðs eðlis og sú nýja tillaga sem hefur verið nokkuð umdeild. Efni þessarar tillögu er að öll ríki, sérstaklega kjarnorkuveldin, eru hvött til þess að gera átak í því að framfylgja ályktunum og ákvörðunum 10. aukaþingsins um afvopnunarmál. Þá er afvopnunarnefndin enn hvött til að ná árangri í störfum sínum. Við greiddum atkvæði á móti þessari tillögu á 41. allsherjarþinginu. Nú greiddu Ísland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland atkvæði með tillögunni enda: Hvað er rangt við að skora á lönd heims að framfylgja samþykktum um afvopnun?

Þá vil ég loks geta einnar tillögu sem er í fjórðu nefndinni og tæmi þá þessa upptalningu. Það er tillaga um Vestur-Sahara. Tillagan hljóðar svo efnislega, með leyfi forseta:

Lýst er ótvíræðum rétti íbúanna á þessu landsvæði, sem enn lýtur nýlenduyfirráðum, til að njóta sjálfsákvörðunarréttar og öðlast sjálfstæði. Enn sem fyrr er skorað á deiluaðila, þ.e. Marokkó og Polisario, samtök frelsisbaráttumanna í Vestur-Sahara, að ganga til beinna samningaviðræðna án milliliða um vopnahlé og þjóðaratkvæðagreiðslu með friðsamlegum hætti og undir eftirliti Einingarsamtaka Afríkuríkja og Sameinuðu þjóðanna. Nýlendunefndinni er falið að halda áfram að fjalla um málið og láta 43. allsherjarþinginu í té skýrslu um það.

Við studdum þessa tillögu nú ásamt Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Danir sátu hjá. Við sátum hjá á 41. allsherjarþingi. Þessi tillaga er í samræmi við yfirlýsta stefnu okkar um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ég gaf fyrirmæli um að gera grein fyrir okkar atkvæði því að á það hefur verið deilt að eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna hafi ekki fengið aðgang að svæðinu eins og þeir þurfa. Ég lét gera grein fyrir því að við legðum áherslu á að úr því yrði bætt. Þessi sárfátæka þjóð á að sjálfsögðu að fá að njóta síns réttar og sjálfsákvörðunarvalds. Það getur varla sakað nokkurn að skora á deiluaðila, þ.e. þessa þjóð og Marokkóbúa, að setjast niður og ræða málin. Mér þykir satt að segja undarlegt að ýmsar þjóðir hafa lagst gegn slíkri málsmeðferð.

Ég vona þá að ég hafi bætt úr því, sem vantaði í mína skýrslu og nefnt allar tillögur, sem að vísu er gert í fylgiriti, og gert nokkra grein fyrir þeim breytingum sem ég ákvað í atkvæðagreiðslum á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það.

Ég hef áður komið nokkuð að ræðu hv. þm. Júlíusar Sólnes. Það voru að vísu ekki margar spurningar sem hann bar fram til mín. Ég tek undir með honum að það beri að aðstoða íslenska tækniráðgjafa erlendis. T.d. nefndi ég það í minni ræðu að Þróunarstofnun hefur samþykkt að veita 1 millj. kr. til slíks tæknistarfs, við skulum segja frumstarfs, til að skoða hverju megi koma til leiðar á þessu sviði í Kenýa. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það, en ég tek undir það sem hann hefur sagt um þetta.

Það er rétt að áreiðanlega vita engir betur um grunnvatn á Reykjanesskaga en íslenskir aðilar. Hins vegar kom í ljós þegar samið var um framkvæmd á þeirri rannsókn sem hér er um að ræða að þau tæki sem Háskóli Íslands á til athugunar á snefilefnum eru ákaflega ófullkomin, enda gömul. Háskólinn getur því miður ekki framkvæmt allar slíkar athuganir sem ákveðið var að gera og því óhjákvæmilegt að fá erlendan aðila með. Jafnframt mun það vera skilyrði hjá Bandaríkjaher, þegar um slíkar rannsóknir er að ræða, að amerískur aðili sé með í ráðum.

Hv. þm. spurði um olíuleit. Það hefur lítið borið á henni upp á síðkastið. Engan áhuga hef ég heyrt. Eflaust er það tengt því að olía hefur lækkað í verði.

Hv. þm. minntist á okkar verslunarhagsmuni í Austurlöndum fjær og kom með ágæta hugmynd, sem sannarlega væri vert að skoða, hvort einhver sameiginleg skrifstofa Norðurlanda gæti sinnt þeim heimshluta. Norðurlöndin hafa öll lagt mikla áherslu á þennan heimshluta og öll komið þar upp sendiráðum, bæði í Tókýó, Peking og víðar. Ég veit ekki hvort þau yrðu mjög ginnkeypt fyrir slíkri hugmynd, en þess vil ég þó geta að t.d. í Peking hafa sendiráð Norðurlandanna oft orðið okkur að liði. Hugmyndin um tæknifulltrúa við sendiráðin er góðra gjalda verð. Ég vildi gjarnan að við hefðum fjármuni til að framkvæma það því ég er sammála hv. þm. um að það mætti mikið læra þó ekki væru nema einn eða tveir slíkir menn staðsettir á réttum stöðum.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti ítarlega ræðu um þróun viðskipta og markaðsmál í Evrópu og get ég tekið undir hvert orð sem hann sagði um það og mikilvægi þess að fylgjast með þeim málum sem allra best. Ég skal ekki hafa um það fleiri orð.

Ég tek undir það með honum sem hann sagði um afvopnunarmálin. Svo sannarlega hefur orðið bylting. Ég held að það sé ekki annað orð til. Það hefur orðið bylting á örfáum árum, svo stór að hún hlýtur að kalla á endurskoðun á viðhorfum þjóða, m.a. okkar eins og ég hef komið inn á.

Áreiðanlega er rétt að það er sú tortryggni sem ríkir á milli þjóða sem er bölvaldurinn í þessu. Enginn vafi er á því. Mér þykir ánægjulegt bæði að heyra og sjá í skýrslum, t.d. Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hve mikil breyting virðist vera að verða á þessu sviði. Þó að það sé víst einhvers staðar skráð sem leyndarmál get ég varla verið að rjúfa neina leynd þó að ég segi, sem mikið var umtalað í Brussel eftir fundinn hans í fyrradag, að hann hafi ekki fyrr haft hástemmdari lýsingarorð um þær breytingar sem eru að verða í Sovétríkjunum. M.a. ráðlagði hann mönnum að lesa bókina Perestrojku sem hann sagði að væri merkilegt rit og væri hreint og beint ótrúlegt að leiðtogi eins ríkis gæti opinberlega látið fara frá sér þá gagnrýni sem þar kemur fram. Það fer nú að blikna það sem ég hef sagt um Gorbatsjov. (GHelg: Hann var líka söluhærri en ég hér í vetur.) Það þykir mér leitt. - En ég met þetta svo að kaldastríðshugsunarhátturinn sé a.m.k. víða mjög á undanhaldi og ég vona að hann boði betri tíma. Shultz segir hins vegar í umsögn sinni að um árangurinn af þessari viðleitni geti hann ekkert sagt og hvort þetta takist eða takist ekki. Það er áreiðanlega rétt. Það veit held ég enginn á þessari stundu.

Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. að við þurfum að beita okkur vel á mannréttindasviðinu. Ég hygg að við höfum ætíð gætt þess að láta það fylgja með, en vel má vera að við þurfum að undirstrika það enn betur en við höfum gert.

Hv. 12. þm. Reykv. kom ekki með miklar spurningar, sem ég skildi svo, til mín. Þó voru það nokkur atriði sem ég vil koma inn á. Ég tek heils hugar undir með henni að vonandi þarf ekki að vera hér her til frambúðar og ég vona að hans verði ekki þörf og það fljótt. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að við erum þar ósammála þar sem ég tel að Atlantshafsbandalagið hafi gegnt mikilvægu hlutverki á undanförnum áratugum. Við megum þakka þeirri samstöðu sem þar hefur verið að stórum hluta þann árangur sem nú hefur náðst. Ég tel að á meðan ötullega er unnið að því að draga úr tortryggni á milli þjóða og ná þannig verulegum árangri í afvopnun væri ekki skynsamlegt af okkar hálfu t.d. að segja upp varnarsáttmálanum. Ég tel að það mundi valda slíkum óróa í samskiptum stórveldanna að ekki verði séð fyrir endann á því. Því miður er staðreynd að Norður-Atlantshafið er orðið ákaflega mikilvægt. Við vildum eflaust mörg sjá mikilvægi þess miklu minna í hernaðarlegu tilliti og eins og það var áður fyrr, en sú ósk rætist ekki.

Enn verð ég að leiðrétta að byggingar á Keflavíkurflugvelli, eins og flugskýli, þoli kjarnorkuárás. Ég hef skoðað þessi flugskýli. Þau þola sprengjufall einhvers staðar í nágrenninu. Hins vegar má t.d. benda á að flugbrautir yrðu ónýtar svo að flugvélar kæmust að öllum líkindum ekki á loft og fleira má benda á í þessu sambandi. T.d. eru dyrnar rafknúnar og ef rafmagnið fer er erfitt að ná flugvélunum út o.s.frv. Rétt er að þær eiga ekki að eyðileggjast þótt sprengja falli einhvers staðar fjær á svæðinu.

Hv. þm. ræddi töluvert um viðskiptabann á Suður-Afríku. Ég hef hreyft þeirri hugmynd í ríkisstjórninni að setja viðskiptabann á með lögum, en um það er ekki samstaða. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Við Íslendingar höfum lagst gegn viðskiptaþvingunum. Við eigum ákaflega mikið undir frjálsum viðskiptum. Vissulega má spyrja að því: Hvar endar slíkt? Erfitt er að sjá fyrir endann á því. Margar þjóðir, því miður, haga sér ekki á þann máta sem okkur líkar. En þó að ég hafi talið að mörgu leyti koma til greina að fylgja hinum Norðurlöndunum með lögbundið viðskiptabann verð ég að viðurkenna að á fundinum í Arusha þótti mér nóg um það sem ég heyrði frá ýmsum um framkvæmd á þessu viðskiptabanni. Enn eru miklir flutningar með norskum skipum og sænsk fyrirtæki starfa í Suður-Afríku eins og ekkert hafi í skorist. Það sem mér þótti einkennilegast þó er að svo að segja öll eða langmest af viðskiptum landamæraríkjanna, Afríkuríkjanna, er við Suður-Afríku. Þau sjálf treysta sér ekki til að framkvæma viðskiptabann. Ég hef reynt að fylgja þeirri stefnu, sem hér hefur verið fylgt, að draga úr viðskiptum með úrtölum og hef skrifað bréf, eins og fyrrv. viðskrh. gerði, bæði til útflytjenda og innflytjenda og til verkalýðshreyfingar og núna alveg nýlega til ferðaskrifstofa og mælst til þess að viðskipti verði engin við Suður-Afríku. Ég er ekkert viss um að þetta gefist verr.

Svo er hitt, sem vel má vera, að þetta liti eitthvað betur út í samanburði við aðrar þjóðir ef við setjum á lög, en þá verða þau líka að vera framkvæmd.

Að lokum vil ég með ánægju taka undir það sem hv. þm. sagði um ýmsa friðarviðleitni kvenna. Ég held að hún sé mikilvæg. Ég hef aldrei verið haldinn neinum annarlegum skoðunum í sambandi við friðarhreyfingar sem eru ópólitískar. Þær verða að vera þannig til að vera trúverðugar. Ég tel að vilji almennings í þessu sambandi eigi að vera velkominn. En til að vera trúverðugur má hann ekki tengjast pólitískum öfgaflokkum. Það er ég þó alls ekki að segja að þær friðarhreyfingar, sem hér hafa verið nefndar, geri.

Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem fram komu, en er að sjálfsögðu tilbúinn að svara fleirum á morgun ef þm. óska.