26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4996 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

294. mál, utanríkismál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans vil ég ræða um tiltekinn kafla í skýrslunni og málefni sem honum tengjast. Það varðar samstarf Evrópuríkja, en neðst á bls. 18 í skýrslu hæstv. ráðherra segir í kaflanum um Evrópuráðið að Alþingi fari með málefni ráðgjafarþingsins og því séu störf þess ekki nánar rakin í skýrslunni.

Nú er það svo að oft hafa verið lagðar fram af hálfu Alþingis sérstakar skýrslur um starfsemi ráðgjafarþings Evrópuráðsins og ég tel að það sé mjög æskilegur háttur að hafa á hlutunum, en til þess hefur raunar ekki verið ráðrúm að þessu sinni af tveimur ástæðum, annars vegar vegna þess að nefndin var skipuð á nýjan leik með örlítið breyttri samsetningu nú í ársbyrjun og svo að svo skammur tími er liðinn frá því er seinasta ráðgjafarþingi lauk að þingskjöl að því loknu hafa ekki enn komið til úrvinnslu. En þetta stendur til bóta og sjálfsagt er að hafa þennan hátt á eins og áður var.

Þegar menn ræða um samstarf Evrópuríkja er það ljóst að mönnum hefur í seinni tíð verið efst í huga annars vegar Evrópubandalagið og hins vegar EFTA eða Fríverslunarbandalagið fyrir svo utan náttúrlega Norður-Atlantshafsbandalagið sem starfar að varnar- og öryggismálum, en um þau mál fjallar Evrópuráðið ekki. Því vík ég að þessu að ég verð þess mjög vör að menn rugla stundum saman Evrópuþinginu og Evrópuráðsþinginu. Það er ósköp eðlilegt, þegar svo litlu munar í nöfnum þessara stofnana, en þó er þarna um þýðingarmikinn mun að ræða.

Nú segja menn sem svo að þar sem ráðgjafarþing Evrópuráðsins hefur ekki löggjafarvald og er fyrst og fremst stefnumarkandi um ýmis efni og ráðgefandi, annars vegar fyrir ráðherranefndina og svo fyrir þjóðþingin, hafi það e.t.v. ekki sömu þýðingu og stofnanir sem hafa meira vald gagnvart hinum sjálfstæðu aðildarríkjum eins og t.d. Evrópubandalagið. Ég undirstrika það sérstaklega að Evrópuráðið er vettvangur sem við eigum að nýta okkur eins og við getum einmitt og ekki síst nú þegar visst mótunarskeið stendur yfir í samstarfi ríkja Evrópu. Við sjáum fram á að það geta orðið mjög verulegar breytingar í samstarfi Evrópubandalagsríkjanna sem geta haft afgerandi þýðingu fyrir framtíð okkar hér á landi og möguleika okkar í milliríkjaviðskiptum. Þess vegna held ég að ekki verði of mikil áhersla lögð á það að það hefur þýðingu að vinna okkur bandamenn, bæði í Norðurlandaráði eins og hæstv. ráðherra nefndi, í EFTA eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi og einnig í Evrópuráðinu þar sem þm. allra þessara bandalaga vinna á einum og sama vettvangi. Þess vegna er það að slíka möguleika til óbeins samstarfs, ef ég má kalla það svo, er sjálfsagt að nýta sér.

Reyndar hefur það stundum verið svo að tillögur og samþykktir hafa snert viðskiptahagsmuni okkar beint þegar þær voru samþykktar einmitt á Evrópuráðsþingi í stað þess að vera einvörðungu innan EFTA eða þá Evrópubandalagsins. Svo var t.d. um tillögu sem ég hygg að hv. þm. Kjartan Jóhannsson hafi átt nokkurt frumkvæði að og samþykkt var í október sl., en hún var einmitt um fríverslun að því er varðar fisk og sjávarafurðir og þessi tillaga fól það m.a. í sér að skorað var á þau lönd sem eiga aðild að Evrópubandalaginu og EFTA, svo og var nefnt þar Finnland, að vinna sérstaklega að því á ýmsum aðgengilegum vettvangi eins og í GATT, OECD, Evrópubandalaginu og EFTA að sem fyrst yrði komið á frjálsri verslun með fiskafurðir og sérstaklega að veitt yrðu sömu viðskiptafríðindi í sambandi við unninn fisk eins og gert er við aðrar iðnaðarafurðir. Þetta er dæmi um það hvernig nota má þennan vettvang beinlínis til þess að undirbúa stöðu okkar og styrkja eins og hún þarf að vera sterk þegar að því kemur að við stöndum e.t.v. andspænis því að innri markaði Evrópubandalagsins hefur verið komið á og Norðmenn og Svíar eru hugsanlega orðnir þar aðilar.

M.ö.o., ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Kjartans Jóhannssonar um þetta efni, að við athugum vel okkar gang, séum við öllu búin og látum gera á því ítarlega og sérfræðilega úttekt hvað þurfi til að koma til þess að hagsmunir okkar verði ekki fyrir borð bornir í Evrópu sem e.t.v. lítur öðruvísi út að þessu leyti nú innan mjög fárra ára. Ég held að það sé afar óhyggilegt að gefa yfirlýsingar um það að aðild komi aldrei til og ég held líka að óhyggilegt sé að segja að við skulum strax gerast aðilar. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að búa okkur undir að geta orðið það þannig að okkar löggjöf og öll aðstaða sé þannig að við getum gert það án þess að hagsmunir okkar bíði nokkurt tjón af.

Ég vil hins vegar taka það fram eins og fleirum kann að vera gjarnt að ég tel það afar óheppilegt og óviðfelldið að nefna í sömu andránni að á móti geti komið möguleikar annarra til þess að taka að sér varnir Íslands. Í fyrsta lagi veit ég ekki til að menn séu að bjóðast til þess þannig að það komi til greina að slíkt gæti verið skiptimynt í þessu sambandi og ég verð að segja að mér finnst það alveg óskiljanlegt að hæstv. fjmrh. landsins, sem gerir margt skynsamlegt, skuli svo sem eins og að bjóða það fram á erlendum vettvangi að við kunnum að láta umsjón með vörnum landsins koma í staðinn fyrir auðlindir í hafi. Það er einhvern veginn afar skringilegt að blanda þessu tvennu saman. Þetta eru óskyldir hlutir sem er bæði órökrétt og óviðfelldið að blanda saman. Ég held að það sé óþarft að fara nánar út í það en þetta verður að vera alveg ljóst. Og ég er ekki ein um þessa skoðun. Ég vona bara að sem fæstir hafi tekið eftir þessum ummælum hæstv. fjmrh. Ég hygg að þetta hafi verið sagt í einhverju ógáti eða menn misskilji e.t.v. þetta í þýðingunni. Það má vel vera. Þó að sænska, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi talað á fundinum, sé lík íslensku er það oft svo að kannski er þýðandinn sérstaklega lærður í dönsku eða öðru máli norrænu og hefur misskilið einhvern mun á milli hinna norrænu tungumála og hefur kannski ekki haft við hendina hinn fræga bækling „Likt og ulikt i de nordiske språkene“. En hvað sem þessu líður vonum við að þessi orð verði svona lögð til hliðar og geymd eins og hvert annað „kúríósum“ en ekki til að fara eftir.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, víkja aðeins að ráðgjafarþingi Evrópuráðsins, en það vill nú svo til að það er svolítið sérkennilegt að beina máli sínu um þetta efni til hæstv. forseta sem er sá hv. þm. sem hefur manna besta þekkingu á þeirri stofnun og lengsta reynslu. Mér líður því í raun og veru eins og skólastúlku sem er að fara með lexíu sína fyrir kennara sínum í efninu og sú er í raun og veru staðreyndin að því er þetta varðar. En hvað sem því líður, það skiptir máli að upplýsingar um stofnanir sem þessar liggi fyrir og séu gefnar og það á vel við í sambandi við umræður um utanríkismál því að Evrópuráðið er svo sannarlega vettvangur þar sem mörgum málum er hægt að koma að og mörgu góðu er hægt að þoka til leiðar.

Á ráðgjafarþinginu sem haldið er þrisvar á ári eiga sæti 170 þingmenn frá 21 ríki. Samkvæmt starfsreglum Evrópuráðsins eru fulltrúar Íslands þrír. Jafnmargir varamenn eru skipaðir af Íslands hálfu. Sendinefndin eins og hún er nú á nýbyrjuðu kjörtímabili var skipuð formlega í janúar sl. og eru aðalfulltrúar hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, Kjartan Jóhannsson og sú sem hér stendur, en varafulltrúar eru hv. þm. Ragnar Arnalds, Hreggviður Jónsson og Kristín Halldórsdóttir. Allir þessir þm. sitja í nefndum þótt aðeins þrír þeirra eigi í senn seturétt á sjálfu þinginu, en nefndirnar vinna að ýmsum sérverkefnum og undirbúa mál fyrir þingið. Með því að hafa þennan hátt á að skipta öllum mönnunum, bæði aðal- og varamönnum, niður á nefndirnar er tryggð þátttaka þm. frá öllum flokkum á Alþingi í störfum Evrópuráðsins. Ég verð að játa það að mér þótti þessi aðferð sérkennileg fyrst þegar mér varð þetta ljóst því að þetta er annar háttur en hafður er á um nefndir sem kosnar eru t.d. á Alþingi því að þá eru varamennirnir frá flokkum í sömu hlutföllum og með sama hætti eins og aðalmennirnir. Hitt er annað mál að ég hef komist á þá skoðun að þetta sé skynsamleg aðferð. Ég tel að skynsamlegt sé að þm. úr flokkum sem eru í minni hluta á Alþingi eigi líka kost á að því að kynna sér verkefni í samstarfi eins og þessu og taka beinan þátt í störfum.

Sú aðferð sem hér hefur verið höfð um val á fulltrúum er skipun samkvæmt tilnefningu þingflokka og er nú einn frá hverjum þeirra samkvæmt venju og samkomulagi. Starfsreglur ráðsins kveða hins vegar ekki á um ákveðna aðferð við val á fulltrúum eins og gildir t.d. um Norðurlandaráð, en nokkuð mismunandi er hins vegar landa í milli hvort okkar aðferð er höfð eða kosið hlutfallskosningu á þjóðþingunum eða jafnvel skipað úr hópi þingmanna af ríkisstjórnunum. Íslensku þingmennirnir skiptast í nefndir sem hér segir: Hv. þm. Kjartan Jóhannsson er í landbúnaðarnefnd, sem einnig er sjávarútvegsnefnd, og í heilbrigðis- og félagsmálanefnd, svo og vísinda- og tækninefnd. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er í menningarmálanefnd, byggða- og sveitarstjórnanefnd og í flóttamannanefnd. Ragnhildur Helgadóttir er í laganefnd og stjórnmálanefnd, auk fastanefndar sem tekur ákvarðanir fyrir hönd þingsins á þeim tímum sem það situr ekki. Hv. þm. Ragnar Arnalds er í efnahagsmálanefnd svo og fjárlaganefnd. Hv. þm. Hreggviður Jónsson er í nefnd um upplýsingar og almannatengsl þingsins. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir er í nefnd um málefni þeirra ríkja sem utan Evrópuráðsins eru og um samstarf við þau.

Hæstv. forseti Sþ. hefur setið ráðgjafarþing Evrópuráðs í fullan aldarfjórðung og oft sem varamaður áður. Mestan hluta þessa tíma hefur hann einnig verið formaður sendinefndarinnar. Mér þykir ástæða til þess nú að þakka honum sérstaklega mikilsverð störf á þessum vettvangi og geri mér ljóst að það er ekkert vandalaust að taka við af svo reyndum manni í þessu efni en slíkt er nú einu sinni lífsins gangur. Við njótum auðvitað ágætrar aðstoðar skrifstofustjóra Alþingis sem er ritari nefndarinnar svo að ekki er í kot vísað um aðstoð við sendinefndina, en hitt er aftur á móti athugunarefni hvort ekki er tímabært að Alþingi ráði sérstakan alþjóðaritara til þess að þingið geti betur sinnt milliríkjasamskiptum þeim sem það hefur skuldbundið sig til að gera. Það er alveg ljóst að að þessu leyti og kannski að ýmsu öðru leyti þarf að búa betur að skrifstofu Alþingis, bæði um aðstöðu og mannafla. Ég nefni þetta sérstaklega því ég tel að vönduð vinna við þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi ráði miklu um það hver áhrif við höfum á erlendum vettvangi. Ég tel að við þurfum að taka beinan þátt í störfum og sýna nokkurt frumkvæði og það sé ljóst að við séum virk sem þátttakendur. Við þurfum á því að halda, ekki síður en aðrir, að nota þann pólitíska vettvang sem við höfum til að vinna annars vegar að okkar sérstöku hagsmunamálum og hins vegar einnig og ekki síður að þeim málum sem varða þjóðirnar sameiginlega. Undan því megum við ekki skorast og falla í þá freistni að sinna einungis þeim málum sem e.t.v. snerta okkar sérhagsmuni.

Tilgangur Evrópuráðsins er að auka samstöðu Evrópuþjóða um þær grundvallarhugsjónir sem eru sameiginleg arfleifð þeirra og greiða fyrir efnahagslegum og félagslegum framförum. Varnarmál þátttökuríkjanna eru hins vegar ekki á verksviði Evrópuráðsins. Ráðgjafarþingið er í raun valdastofnun Evrópuráðsins og tekur frumkvæði í aðgerðum sem oft eru stefnumarkandi, en verkefni ráðherranefndarinnar er að koma ákvörðunum þingsins í framkvæmd meðal þjóða sinna. Vinnan í Evrópuráðinu hefur m.a. borið þann árangur að gerðir hafa verið Evrópusáttmálar sem hafa haft mikil áhrif um margvísleg efni í löggjöf landanna. Flest þau efni varða með einhverjum hætti hversdagslíf einstaklinganna í löndum ráðsins en eru sjaldnar stórpólitísk deilumál.

Sáttmálarnir eru grundvöllur samræmingar og samstarfs og auðvelda því samskipti manna þjóða í milli. Þeir eru til aðhalds og stuðnings á sviði mannréttinda, menningar og velferðar. Frá því er Evrópuráðið var stofnað 1949 og til þessa dags hafa verið gerðir 127 sáttmálar. Mikilvægastur er mannréttindasáttmálinn sem undirritaður var 1950. Ákvæði mannréttindasáttmálans hafa verið lögfest í heild í mörgum aðildarríkjum en með fullgildingu hans undirgengust ríkin þá skyldu að löggjöf landanna væri í samræmi við sáttmálann. Að mínum dómi er það athugunarefni fyrir okkur að láta sáttmálann og viðbótarbókanir hans öðlast lagagildi í heild sinni og með formlegum hætti svo að hann verði prentaður í íslenskri þýðingu meðal annarra laga landsins, aðgengilegur almenningi sem hann vissulega snertir svo mjög. Samkvæmt sáttmálanum starfar mannréttindanefnd sem tekur við kærumálum einstaklinga og velur úr þau sem ganga til dómstólsins. Dómur getur leitt til þess að ríki sé skyldugt til að breyta lögum eða lagaframkvæmd til betra samræmis við sáttmálann. Málsmeðferð í þessum tveimur stofnunum er tímafrek og þung í vöfum. Í laganefnd ráðgjafarþingsins fer nú fram umræða um athugun á því hvort sameina ætti þessar tvær stofnanir. Við íslensku þingmennirnir höfum ekki tekið afstöðu til þess máls en að því kemur væntanlega á næstu mánuðum þegar frekari athuganir hafa farið fram.

Aðrir sáttmálar Evrópuráðsins eru m.a. um félagslegt öryggi, menningu, náttúruvernd, vernd gamalla mannvirkja, brottvísun úr landi, lækningar, jafngildi prófa og skírteina, sjónvarpsvernd, ættleiðingar o.fl. Einnig má nefna sáttmála um varnir gegn hryðjuverkum, um réttindi farandverkafólks og um framsal fanga. Meðal nýrri sáttmála má nefna sáttmála um vernd einstaklinga gegn sjálfvirkri dreifingu persónuupplýsinga, um bætur til fórnarlamba ofbeldisglæpa, um ofbeldi áhorfenda á íþróttakappleikjum, sérstaklega fótbolta, og loks sáttmála gegn pyndingum.

Ég leyfi mér að óska eftir því við hæstv. utanrrh. að hann gefi Alþingi, ekki nauðsynlega nú við þessa umræðu, en fljótlega, yfirlit um þá sáttmála sem við Íslendingar erum ekki aðilar að og í þeim tilvikum sem svo er, þá hvers vegna það sé svo.

Auk sáttmálanna og annarra samþykkta beitir Evrópuráðið sér fyrir sérstökum verkefnum til styrktar ákveðnum einstökum málefnum. Þannig helgar það tilteknu efni hvert ár. Við getum minnst á kvikmyndaár, tónlistarár, ár gamalla húsa o.s.frv. Síðasta ár var dreifbýlisár og þetta ár er helgað átaki til samstarfs norðurs og suðurs.

Á síðasta þingi Evrópuráðsins í janúarlok ýtti Jóhann Karl Spánarkonungur úr vör svonefndu norður-suður átaki sem hæstv. utanrrh. vék að í skýrslu sinni. Þetta felur í sér viss markmið í þróunaraðstoð undir kjörorðinu: við lifum öll í aðeins einum heimi.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að við getum náð betri árangri í þróunaraðstoð með miðlun þekkingar en með beinum peningasendingum. Hér getur verið um að ræða þátttöku í einstökum sérhæfðum framkvæmdum, verkkennslu eða þá skólakennslu í grunngreinum svo og ýmiss konar heilbrigðisaðstoð. Á öllum þessum sviðum hafa Íslendingar fundið að þeir geta lagt lóð á vogarskálarnar og orðið miklu fleirum að liði en með takmörkuðum fjárlagasamþykktum. Ákvarðanir um aðferðir í þessu skyni þurfa að taka mið af samstarfi og verkaskiptingu þjóða og stofnana sem aðstoðina veita.

Nýliðið janúarþing í Strasbourg varð styttra en efni stóðu til samkvæmt áður undirbúinni dagskrá þess. Ástæðan var samþykkt þingsins á ályktun sem fól í sér mótmæli gegn þeirri ráðstöfun ríkisstjórnar Frakklands að krefjast vegabréfsáritunar frá ýmsum ríkjum Evrópuráðsins. Talsmaður pólitísku nefndarinnar sem flutti tillöguna kvaðst skilja og meta viðleitni Frakka til að verjast hryðjuverkamönnum en honum þótti lítið samræmi í reglum þeirra um vegabréfsáritun og móðgun við þær þjóðir sem í hlut eiga. Ríkisborgarar Evrópubandalagsríkjanna geta hins vegar ferðast óhindrað til Frakklands og raunar borgarar Lichtenstein og Sviss en komi aftur á móti fólk frá Austurríki, Svíþjóð, Noregi eða Íslandi þykir Frökkum ástæða til þess að hafa allan varann á og gera sérstakar ráðstafanir vegna þeirra skelfinga sem þeim kynnu að vera búnar af völdum hins varasama fólks frá þessum löndum! Slíku vilja þjóðir Evrópuráðsins ekki una og þinginu lauk í skyndingu í mótmælaskyni við þessar ráðstafanir og við það að þessu skuli ekki enn hafa verið breytt. Ákveðið var að halda fundi nefndanna utan Frakklands þar til þessu hefði verið létt af. Jafnframt var ákveðið að halda ekki í Strasbourg þing sem neinar efnisákvarðanir tækju fyrr en þarna hefði verið breytt um. Reglur ráðsins skylda þó ráðið til að halda þing og ganga frá vissum þingskapaákvörðunum í Strasbourg, þingmenn eru bundnir við það. Síðan verður samkvæmt ályktuninni ekki Evrópuráðsþing í Strasbourg nema Frakkar breyti þessum hætti gagnvart þjóðunum utan Evrópubandalagsins. Þessi ályktun getur valdið umtalsverðum tekjumissi fyrir Strasbourg nema breyting verði á.

Á þinginu í janúar voru samþykktar mjög fáar aðrar ályktanir, en ég vil sérstaklega nefna þó að samþykkt var ályktun um varnir gegn kjarnorkuslysum. Sú ályktun kvað mjög fast að orði en í henni fólst að þeir sem byrjaðir væru eða ætluðu að stofna til nýrra kjarnorkuvera í friðsamlegum tilgangi skyldu hætta þeim framkvæmdum og hafast ekki að fyrr en fyrir lægju annaðhvort alþjóðlegir staðlar eða þá Evrópustaðlar um öryggisbúnað við kjarnorkuverin til þess að þau mættu verða byggð. Af tveimur ástæðum kann þetta að vera vafasamt. Fyrst og fremst af einni ástæðu en hún er sú að þegar allar þjóðirnar hafa samþykkt sín á milli slíka staðla geta menn gengið út frá því að kröfurnar verða í því algjöra lágmarki sem þeir sem minnstar varúðarráðstafanir hafa núna vilja. Þess vegna tel ég talið að skynsamlegra hefði verið að menn héldu sér við þau skilyrði sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin telur að æskilegust séu og létu við það sitja. Hins vegar gerði tillagan ráð fyrir að menn stöðvi framkvæmdir í öllum tilvikum þangað til slíkir staðlar væru tilbúnir sem menn geta gert ráð fyrir að verði ekki fyrr en eftir mörg ár. Þá er það ekki heldur sanngjarnt því að það kunna líka að vera framkvæmdir á döfinni sem fullnægja ýtrustu varúðarskilyrðum sem menn yfirleitt hafa þekkingu til að setja. Í hlut kunna að eiga svæði sem eru alfarið háð þessari orkulind til raforkuframleiðslu. Að mínu mati var það því ekki alveg einsýnt að þetta atriði í ályktuninni næði tilganginum eins vel og vera þyrfti, en að öðru leyti eru mjög margir góðir hlutir í þessari ályktun sem ráðherranefndin hefur nú fengið til meðferðar.

Í nefnd sem ég á sæti í eru til meðferðar mál sem varða réttarstöðu ungra barna, skýrslugerðir um aðstöðu og umönnun smábarna í aðildarríkjum Evrópuráðsins og einnig er þar til meðferðar mjög vandasamt mál um réttarstöðu þegar fóstur eru notuð í læknisfræðilegum tilgangi ef svo má segja. Það er í raun og veru eitt af þeim alvarlegu siðfræðilegu málum sem til umfjöllunar hafa verið víða og koma upp núna einmitt vegna mikilla framfara í læknisfræði. Þetta eru hlutir sem Evrópuríkin þurfa að taka á og þurfa að hafa samræmdar reglur um.

Enn fremur eru til meðferðar reglur um samræmingu aðgerða gegn alnæmi og fleiri mikilvæg atriði á sviði heilbrigðismála en ég mun ekki fara út í það, hæstv. forseti, að telja upp einstök mál á þessu stigi. Eins og ég vék áður að bíðum við þess að við fáum frekari gögn í hendur og munum þá vinna úr þeim þannig að unnt verði að leggja fyrir Alþingi nánari grg. um þau mál sem unnið hefur verið að á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins á sl. ári og vænti ég þess þá að fá góðar upplýsingar frá hæstv. forseta einnig.

Ég undirstrika það í lok þessarar grg. að við skulum taka slíkt milliríkjasamstarf alvarlega og gera okkur grein fyrir því að þarna er einmitt vettvangur sem við getum notað töluvert til þess að undirbúa hina breyttu stöðu sem kann að verða þegar Evrópubandalagið hefur komið á sínum innri markaði og Evrópuríkjum hefur fjölgað í þeim hópi. Aðalatriðið er þetta að við stöndum vel að þeim málum sem Evrópuráðið hefur gert að grundvallaratriðum sem er vernd þeirra mannréttinda sem við göngum út frá og þeirrar sameiginlegu menningararfleifðar og viðhorfs til laga og siðgæðis sem Evrópuríkin hafa og evrópsk menning byggist á. Evrópuhugsjónin má segja að hafi fyrst fundið framrás í stofnun Evrópuráðsins þegar það var stofnað á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar og við það bundu menn vonir að þar væri enn ein stofnun þar sem fyrrum fjendur sameinuðust og færu með friði og vináttu til þess sameiginlega að efla menningu og velferð ríkja sinna.