26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5015 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

294. mál, utanríkismál

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það er einkum tvennt sem ég kýs að gera hér að umræðuefni í beinum tengslum við skýrslu hæstv. utanrrh. til Alþingis um utanríkismál. Hið fyrra varðar afstöðu okkar Íslendinga til þróunarmála á meginlandi Evrópu, hagsmuni okkar Íslendinga í viðskiptum og öryggismálum gagnvart þeirri þróun, afstöðuna til Efnahagsbandalagsins og þeirrar umræðu sem fram fer með grannþjóðum okkar um það mál. Hið síðara varðar fyrst og fremst hagsmuni okkar og grannþjóða okkar á Norðurlöndum að því er varðar þróun vígbúnaðarmála á höfunum í kringum okkur.

Áður en ég sný mér að umræðunni um Ísland og Efnahagsbandalagið er rétt ég fari nokkrum orðum um þau viðbrögð sem ræða mín á fundi með leiðtogum jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum hefur vakið. Menn hafa sagt ýmislegt í hita leiksins mismunandi fljótfærnislegt. Það er ástæðulaust að kippa sér upp við það. Þetta er mál sem verður á dagskrá í íslenskri þjóðmálaumræðu, ekki bara næstu daga, ekki næstu vikur heldur næstu mánuði og næstu ár. Hefðbundinn skotgrafahernaður af því tagi sem við höfum mátt venjast í umræðum um íslensk utanríkismál skiptir þar litlu máli. Það vísar aftur til fortíðarinnar en ekki til framtíðarinnar.

Það er ekkert undarlegt og ósköp einfaldlega við því að búast, þegar vakin er upp spurningin um samhengið milli viðskiptalegra hagsmuna og hagsmuna í öryggis- og varnarmálum, að þá vekist upp nokkrir fortíðardraugar. Það virðist koma við einhverja sektarkennd og einhvern tvískinnung hjá stjórnmálamönnum þegar slík umræða á sér stað. Þetta er reyndar oft einkenni hjá smáþjóðum, ber vott um ákveðið öryggisleysi, minnimáttarkennd sem er því miður af hinu vonda en snertir lítið kjarna málsins. Það er hins vegar mikilvægt ef okkur hefur tekist að brjótast í gegnum þagnarmúr sem hefur umlukið umræðuna um Ísland og Efnahagsbandalagið. Sú umræða hefur staðið lengi með grannþjóðum okkar og er orðið tímabært að við förum að skerpa okkar hugsun í þeirri umræðu, taka afstöðu, hugsa fram í tímann. Ég segi fyrir mig að ég hygg að till. sú sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson reifaði í umræðunni um að sett verði á fót sérstök samstarfsnefnd t.d. milli ráðuneyta af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar til að kerfisbinda það með hvaða hætti við fylgjumst með þessari umræðu og þeirri þróun sé að sjálfsögðu af hinu góða.

Ef við hefðum dregið miklu lengur að koma þessari umræðu af stað hefðum við einfaldlega verið að bregðast skyldum okkar að vekja máls á þýðingarmestu hagsmunamálum morgundagsins, ekki gærdagsins. Það hefur hins vegar komið í hlut ýmissa forustumanna í íslensku atvinnulífi að ýta þessari umræðu af stað og vísa ég þá sérstaklega til athyglisverðs viðtals sem nýlega birtist í einu dagblaðanna við Magnús Gunnarsson þar sem hann setti fram mjög afdráttarlausa skilgreiningu á þeim kostum sem við eigum völ í þessum málum.

Í samningum okkar við grannþjóðir hefur hvað eftir annað birst sérstaða okkar á landakortinu og samstaða okkar með grannþjóðum okkar í varnarmálum. Við höfum ekki hingað til, og þurfum þess ekki í framtíðinni eftir því sem ég fæ best séð, sett einhvern verðmiða á landið í því samhengi. Við höfum ekki gert það hingað til og það er ástæðulaust að ætla að við þurfum þess. Ég vek hins vegar athygli á því að það er mikill barnaskapur að ætla að það sé ekki ákveðið samhengi milli viðskiptahagsmuna og hagsmuna þjóða í öryggis- og varnarmálum. Í Bandaríkjunum t.d. hafa ráðuneyti varnarmála, viðskipta og utanríkismála nána samvinnu sín í milli í verslunar- og viðskiptasamningum við aðrar þjóðir. Í Evrópu er sami háttur á hafður. Á Íslandi birtast þessi þrjú verkefni okkur í einni og sömu persónunni, hæstv. utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra, sem flytur okkur þessa skýrslu. Það væri mikill barnaskapur að ímynda sér að sérstaða okkar í Norður-Atlantshafi og samstaða okkar með lýðræðisríkjunum í Atlantshafsbandalaginu hafi ekki haft margvísleg áhrif á milliríkjasamninga hér á undanförnum árum. Eru menn búnir að gleyma þorskastríðum? Eru menn búnir að gleyma því hvaða þátt aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu átti í lyktum þeirra mála? Man ég það ekki rétt að hæstv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson hafi notað tækifærið og kynnt Bandaríkjamönnum skoðanakönnun sem hér var um afstöðuna til varnarliðsins þegar menn deildu um hvali? Man ég það ekki einnig rétt að hæstv. utanrrh. hafi notað tækifærið og lýst yfir að hann vildi fresta framkvæmdum á vegum varnarliðsins og tengja það beint þeim deilumálum?

Í ræðu minni í Stokkhólmi benti ég á hvernig utanríkisviðskipti Íslands við Evrópubandalagið hafa þróast frá því á seinasta áratug þannig að nú er svo komið að ríflega helmingur af útflutningi og innflutningi okkar er til og frá Evrópubandalagsríkum og fjallaði um þær afleiðingar sem það kann að hafa fyrir samkeppnisstöðu okkar á Evrópumarkaði ef Norðmenn ganga í bandalagið og þá óvissu og þau vandamál sem tollamál bandalagsins geta skapað í utanríkisviðskiptum Íslendinga í framtíðinni. Ég komst, eins og flestir aðrir Íslendingar sem um þessi mál hafa fjallað, að þeirri niðurstöðu að aðild Íslands að bandalaginu kæmi ekki til greina hefði hún í för með sér hindrunarlausan aðgang Evrópubandalagsríkja að fiskveiðilögsögunni. Í framhaldi af því leitaði ég svara við ákveðnum spurningum um hverra kosta við ættum völ og benti á þann möguleika að efla samstarf við Evrópubandalagsríkin á sviði öryggis- og varnarmála. Það er algjör misskilningur ef menn halda að ég sé hér með að ræða um sérstök herstöðvaréttindi handa Evrópubandalaginu hér á landi. Eins mætti orða það á þann veg að með því að tengja þetta tvennt saman værum við að styðja útfærslu á þeirri stefnu sem hófst í utanríkisráðherratíð Geirs Hallgrímssonar, sem Alþfl. studdi á sínum tíma, þ.e. að auka virkari þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu m.a. með auknu samstarfi við Evrópuríkin á sviði öryggis- og varnarmála. Þessi stefna íslenskra stjórnvalda hefur m.a. komið fram í auknum tvíhliða tengslum við ýmis Evrópuríki innan Atlantshafsbandalagsins, svo sem eins og t.d. að hér á landi er nú staðsett hollensk kafbátaleitarflugvél ásamt áhöfn.

Staðreyndin er sú að varnarsamningurinn við Bandaríkin gefur svigrúm til að efla þátttöku annarra ríkja í vörnum Íslands og þá um leið Norður-Atlantshafsins. Það sem gefur til kynna áhuga Evrópuríkja á slíku samstarfi ætti að vera augljóst öllum þeim sem fylgst hafa með þróun í samskiptum Evrópu- og Bandaríkjamanna á undanförnum árum. Ég bendi þar sérstaklega á augljósan áhuga fyrir því meðal Evrópuríkja Atlantshafsbandalagsins að auka vægi álfunnar innan Atlantshafsbandalagsins til að geta haft meiri áhrif á stefnu þess en raunin hefur á orðið frá stríðslokum hingað til. Ég rifja upp að í viðtali við Morgunblaðið þann 10. júní 1986 benti Willy de Clercq, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, á að hann hefði tilkynnt ríkisstjórn Íslands að Evrópubandalagið sé reiðubúið að taka upp alhliða viðræður við íslensku ríkisstjórnina um alla þætti samstarfsaðilanna. Ég rifja upp að í ályktun flokksstjórnar Sjálfstfl. frá því í nóvember 1986 er rætt um nauðsyn þess að samskipti Íslands við Evrópubandalagið verði grandskoðuð frá víðtækara sjónarhorni en því einu er lýtur að verslun og viðskiptum. Mér er spurn: Um hvað ætta menn að ræða í alhliða viðræðum sem einblína ekki aðeins á verslun og viðskipti? Hvaða önnur mál geta verið mikilvægari í slíkum alhliða viðræðum en öryggis- og varnarmál? Öryggispólitík miðar að því að viðhalda fullveldi og sjálfstæði þjóðar og tekur ekki einungis til hernaðarlegra þátta heldur einnig pólitískra og efnahagslegra. Utanríkisviðskiptamál eru þar með hluti af öryggispólitík en ekki einangruð frá henni.

Herra forseti. Það er ástæða til að fara heldur betur ofan í saumana á þeim kostum sem okkur eru búnir að því er varðar viðskiptamálin og Efnahagsbandalagið. Þeir sem svartsýnastir eru, og þá vísa ég til t.d. viðtalsins við Magnús Gunnarsson, hafa sagt sem svo að e.t.v. gætum við lent í því að eiga aðeins tveggja vondra kosta völ. Sjálfsagt er þetta sagt með nokkurri dramatík til að skerpa athygli manna. Annars vegar væri sá kostur að sitja uppi sem hráefnisaflandi eða framleiðandi fyrir fiskiðnað Norður-Evrópuríkjanna eða hinn kosturinn, eins og einhver hefur orðað það, að gerast 52. fylki í Bandaríkjunum.

Það er ósköp eðlilegt að menn sperri við eyrun þegar hlutirnir eru settir fram á þennan hátt og ósköp eðlilegt að menn segi sem svo: Er nú ekki verið að mála þetta einum of svarthvítum litum? Það skal tekið fram að ekkert af því sem ég hef sagt um þessi mál er af því taginu að mála myndina svo afdráttarlausum og öfgakenndum litum. En við skulum hafa í huga að þróun mála á meginlandi Evrópu getur fyrr en varir orðið sú að ef við ekki höfum gát á okkur, fylgjumst ekki vel með henni og undirbúum afstöðu okkar og aðgerðir fyrir fram gætum við lent í mjög þröngri stöðu þar sem fárra góðra kosta væri völ.

Þróunin í átt til Bandaríkja Evrópu verður að mínu mati ekki stöðvuð úr þessu. Hún kann að taka langan tíma, en það verður ekki aftur snúið. Það kann að vera spurning hvort ríkisstjórnum Efnahagsbandalagsins tekst að standa við dagsetninguna sem þær hafa sett sér, 1992, til að tryggja hindrunarlausan innri markað bandalagsþjóðanna. Ef miðað er við reynslu um hvernig dagsetningar hafa nú ekki náðst í fjölþjóðlegu samstarfi þessara þjóðríkja má vel vera að því verði ekki slegið föstu. Samt sem áður er að þessu stefnt. Það er margt sem bendir til þess að innan fárra ára muni það fríverslunarbandalag, sem við eigum aðild að, EFTA, leysast upp.

Það er vissulega stór spurning hvort hlutlausu ríkin innan EFTA, Svíþjóð, Finnland, Sviss, Austurríki, koma á eftir knúin af nauðung viðskiptahagsmuna sinna og muni að lokum leita inngöngu í Efnahagsbandalagið. Hingað til er því neitað, jafnvel afdráttarlaust með vísan til hlutleysisstefnu þessara ríkja. En nú erum við ekki að hugsa til morgundagsins. Við erum að hugsa fram yfir árið 1992 og fram undir aldamót. Og hver er sá sem hér er reiðubúinn til að slá því föstu að ekki geti orðið svo afdráttarlausar breytingar, bæði í afvopnunarmálum og í samskiptum ríkja, breytingar á þeirri ríkjaskipan sem varð upp úr rústum heimsstyrjaldarinnar síðari, að þær aðstæður kynnu að skapast að jafnvel þessi hlutlausu ríki létu það ekki lengur aftra sér að ganga að fullu inn í samstarf Evrópuríkjanna? Sannleikurinn er sá að þeir eiga líka þar harða kosti fyrir höndum.

Ef menn fylgjast með umræðunni í Noregi, þá tala Norðmenn varfærnislega, en þeir draga ekki á það neina dul að það eru taldar yfirgnæfandi líkur á því að Noregur gangi í Efnahagsbandalagið á næsta áratug. Þá gæti svo farið að Ísland yrði eina Vestur-Evrópuríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem stæði utan hins nýja stórveldis á meginlandi Evrópu. Þá er spurningin: Getum við þá ekki slegist í hópinn? Getum við yfirleitt staðið fyrir utan, sérstaklega eftir að Norðmenn væru komnir inn fyrir dyrnar? Þar með hefðum við t.d. glatað hugsanlegum bandamanni í samningum við Efnahagsbandalagið um að tryggja fríverslun með fiskafurðir. Auk þess stæðumst við eftir það verr samkeppni á Efnahagsbandalagsmarkaðnum þar sem við stæðum frammi fyir ytri tolli en þeir ekki. Þar með yrði reyndar Efnahagsbandalagið sjálft sjálfu sér nægt með fiskafurðir og nettóútflytjandi á fiskafurðum sem gæti haft hinar afdrifaríkustu afleiðingar fyrir okkur. Í fljótu bragði sagt virðast þess vegna viðskiptahagsmunir Íslendinga mæla með inngöngu ef svona færi.

Utanríkisverslun er gríðarlega stór þáttur í okkar þjóðarframleiðslu, yfir helmingur. Um 75% útflutningsins eru enn fiskafurðir. Árið 1987 voru rúmlega 57% af útflutningi okkar til Evrópubandalagsríkja og 52% af innflutningi og þessi viðskipti hafa farið hraðvaxandi á undanförnum árum. Það stafar m.a. af fjölgun aðildarríkja Efnahagsbandalagsins með inngöngu Spánar og Portúgals og hins vegar að nokkru leyti af gengisþróun, en að öðru leyti af þróun sem ég hygg að eigi sér aðrar skýringar. Á sama tíma hafa viðskipti okkar við Bandaríkin dregist verulega saman hlutfallslega. Útflutningurinn hefur t.d. minnkað úr 30 í 20% og innflutningurinn hefur til skamms tíma einnig minnkað og var um 8% á síðasta ári. Viðskipti okkar við Austur-Evrópuríkin hafa líka dregist saman og um viðskipti okkar við önnur ríki Norðurlanda er það að segja að þau einkennast af því að vera í allt of miklum mæli einstefna, þ.e. við flytjum býsna mikið inn frá þeim, 28% af heildarinnflutningi okkar á síðasta ári, en þeir kaupa tiltölulega mjög lítið af okkur. Það eru aðeins um 8–9% af okkar útflutningi sem beinast að Norðurlöndum. Það er ekkert sem bendir til þess að á þessu verði nein veigamikil breyting.

Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji: Verða Íslendingar þá ekki nauðugir viljugir af hreinum og klárum viðskiptahagsmunum að fylgja á hæla öðrum Evrópuþjóðum inn fyrir tollmúra Efnahagsbandalagsins, og nú vek ég athygli á því að ég er ekki að tala um þessa hluti sem eru að gerast í dag eða á morgun heldur vekja athygli á því sem er líkleg þróun eftir árið 1992 eða m.ö.o. á næsta áratug. Verðum við að borga það verð sem upp er sett? Það er spurningin. Kjarni málsins í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram er sá að okkur þykir það verð sem upp er sett, aðgöngumiðinn að Efnahagsbandalaginu, vera of hátt. Og hvað kostar þessi aðgöngumiði? Efnahagsbandalagið býður aðgang að stórum tollfrjálsum markaði með mikilli og vaxandi kaupgetu, en krefst í staðinn gagnkvæmni, þ.e. aðgangs fyrir fiskiflota bandalagsþjóðanna í fiskveiðilögsögu okkar Íslendinga. Þeir heimta m.ö.o. aðgang að þeirri einu auðlind sem íslenska þjóðin lifir á og hefur ekki talið til skiptanna.

Það er ekki langt síðan við Íslendingar unnum þrjú þorskastríð við vestur-evrópsk stórveldi, stórveldi á okkar mælikvarða, þ.e. Bretland og Þýskaland, og áður hafa menn komist að orði á þá leið að það hafi verið til lítils að vinna þessi þorskastríð ef niðurstaðan yrði síðan sú að við töpuðum ávinningnum af þessum stríðum við samningaborðið í Brussel.

Við skulum gæta að því að sérstaða okkar meðal þjóða Evrópu er býsna mikil. Norðmenn eru 20 sinnum fleiri en við. Þeir stunda umfangsmiklar fiskveiðar þó að fiskveiðar séu lítill þáttur í þeirra þjóðarbúskap. Þeir geta borgað það verð sem Efnahagsbandalagið setur upp fyrir aðgöngumiðann. Þeir lifa nú í býsna iðnþróuðu samfélagi. Þeir hafa miklar og vaxandi tekjur, þrátt fyrir sveiflur, af olíuauðlindum sínum. Efnahagsbandalagið er ekki sjálfu sér nógt í olíuvörum. Það er mikill áhugi af hálfu Efnahagsbandalagsþjóðanna á að fá Norðmenn inn í bandalagið.

Ef við berum okkur saman við Norðmenn er augljóst mál að við erum í allt annarri og erfiðari stöðu. Hættan er m.ö.o. sú að við yrðum þá aftur hráefnisaflendur fyrir fiskiðnaðinn í Bretlandi og Norður-Evrópu eins og fyrr á þessari öld. Hlutskipti þriðja heims nýlendu er ekki aðlaðandi framtíðarsýn fyrir þjóð sem hefur háð sjálfstæðisbaráttu í 700 ár.

Við þetta bætast síðan kvaðir um frjálsan tilflutning fólks og fjármagns innan hins útvíkkaða Evrópubandalags. Þannig óttast margir að erlent fjármagn gæti eignast eða náð tangarhaldi og eignarréttindum á íslenskum sjávarútvegi gegnum bakdyrnar. Þegar menn vilja spyrja hvort sá ótti sé ástæðulaus vek ég athygli á og rifja upp þær eldheitu deilur sem urðu með Norðmönnum árið 1972 þegar þeir lögðu þetta mál fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu og höfnuðu því, þetta miklu stærri þjóð og öflugri. Hafi Norðmenn óttast þetta svo mjög árið 1972 er ástæða til að spyrja: Hvers vegna skyldum við þá ekki fremur óttast þessa framtíðarsýn? Engu að síður gætu varfærnir menn sagt sem svo: Er þessi mynd ekki dregin upp í óþarflega svarthvítum litum? Spurning: Geta t.d. Norðmenn og Íslendingar snúið bökum saman og tryggt hindrunarlausa fríverslun með fiskafurðir innan EFTA? Þeir geta það ekki, segir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem er þessum hnútum býsna kunnugur. Geta Norðmenn og Íslendingar náð fram sams konar samningum? Ef þeir gætu nú náð þessu fram innan EFTA, væri það leiðin að fara EFTA-leiðina að samningaborðinu við Efnahagsbandalagið eftir að tryggt væri að EFTA hefði viðurkennt fríverslun með fiskafurðir og náð þannig samningum með samstöðu EFTA-ríkjanna við Efnahagsbandalagið? Hv. þm. sagði nei og hann hefur veigamikil rök fyrir sínu máli. Það er t.d. athyglisvert að Svíar hafa hingað til staðið gegn því að við næðum þessum árangri. Það væri t.d. spurning fyrir þá íslenska stjórnmálamenn sem sækja heim Norðurlandaþing og taka hvað mestan þátt í norrænu samstarfi: Geta þeir fengið einhverju því áorkað að breyta afstöðu Svía í þessu efni? Geta þeir náð einhverjum meiri árangri í því en í viðræðum sínum við keppinauta okkar eins og t.d. Norðmenn að því er varðar niðurgreiðslur á sjávarafurðum sem hafa verið miklar í Noregi, að vísu minnkað nokkuð á seinustu árum?

Sumir segja sem svo: Höfum við Íslendingar ekki þegar náð fríverslunarsamningi við Efnahagsbandalagið? Hann var gerður 1972, kom til framkvæmda 1976 eftir að þorskastríðin voru til lykta leidd. Getum við ekki við unað í stórum dráttum, nægir hann okkur, tryggir hann okkar viðskiptahagsmuni? Auðvitað er þessi samningur ákaflega mikilvægur og hefur skipt sköpum varðandi viðskiptahagsmuni okkar í verslun við þessi ríki. En það er valt að treysta á þennan samning. Að nokkru leyti er þarna um að ræða að samningurinn byggist á kvótum. Við getum að sjálfsögðu engu slegið föstu um það, þar sem við stöndum utan dyra, að ekki verði brugðist við samkvæmt aðstæðum sem geta skapast snögglega af misvægi framboðs og eftirspurnar á fiskmörkuðum í Evrópubandalaginu, að þeir gætu ekki gripið til þeirra ráða að hækka tolla eða breyta kvótum eftir því sem þeirra eigin hagsmunir segja til um á hverjum tíma. Ég hygg að flestir komist að þeirri niðurstöðu að þótt samningurinn sé mikilvægur muni hann ekki einn og sér nægja. Hann tryggir ekki okkar hagsmuni nægilega vel. Við getum m.ö.o. ekki gengið fram hjá því að Efnahagsbandalagið hefur mótað sér samræmda fiskveiðistefnu þar sem gagnkvæmni um aðgang að auðlindinni er skilyrði fyrir aðgangi að markaði.

Við skulum ekki sniðganga það í þessari umræðu að Efnahagsbandalagsríkin sjálf eru stórveldi í fiskveiðum og fiskvinnslu. Í löndum Efnahagsbandalagsins eru gerð út 77 þús. fiskiskip. Þau eru mönnuð 270 þús. fiskimönnum. Þeir eru fleiri en íslenska þjóðin öll. Yfir 1 milljón manna byggir afkomu sína á þessum fiskveiðum á tilteknum svæðum innan Evrópubandalagsins, sem hafa þó nokkur pólitísk áhrif innan dyra, í samanburði við 5 þús. fiskimenn á Íslandi sem veiða um það bil 11/2 millj. tonna á ári. Fiskneyslan innan Efnahagsbandalagsins nemur nú um 6–7 millj. tonna sem að hluta til fer ekki til manneldis og skilar lágu verði, en í reynd er Efnahagsbandalagið líka útflytjandi á fiskafurðum. En eins og ég sagði áðan: Aðild Norðmanna að bandalaginu gæti þýtt að Efnahagsbandalagið yrði sjálfu sér nægt á fiskmörkuðum.

Það er svo annað mál og eitt út af fyrir sig að öll er þessi útgerð og vinnsla stórlega niðurgreidd og ríkisstyrkt rétt eins og landbúnaður Efnahagsbandalagsins sem á undanförnum árum hefur hvað eftir annað verið að því kominn að ríða að fullu fjárhag þessa verðandi efnahagsstórveldis. Í raun og veru má það heita nokkuð hlálegt að öll þau mjólkurstöðuvötn, kjötfjöll og ostafjöll sem þar hafa hlaðist upp hafa að verulegu leyti verið notuð til að ala Rauða herinn á tiltölulega miklu ágætisfæði en niðurgreiddu af skattborgurum bandalagsins.

Við þennan ríkisstyrkta sjávarútveg verðum við Íslendingar að keppa. Það hefur gengið bærilega fram að þessu í skjóli fríverslunarsamningsins, en það er full ástæða til þess að efast um hvernig okkar viðskiptahagsmunum reiðir af ef við allt í einu þyrftum að standa frammi fyrir ytri tolli, jafnvel þótt hann yrði ekki hár, eða óvissu um að hvenær sem væri gæti bandalagið notað ytri tollinn sem vopn til að tryggja eigin hagsmuni.

Spurningin er þá: Hver er þá samningsstaða okkar Íslendinga ef við göngum út frá því að Norðmenn væru gengnir í bandalagið? Hún er ekkert allt of góð ef við erum sammála um að við höfum ekki efni á að borga hið uppsetta verð fyrir aðgöngumiðann, veita aðganginn að okkar auðlind. Að þessu leyti erum við sem fámenn þjóð með mjög einhæft atvinnulíf í annarri og lakari stöðu en flestar ef ekki allar aðrar meginlandsþjóðirnar og mun lakari samningsstöðu en Norðmenn. Og spurningin er þá þessi: Eigum við einhverra annarra kosta völ?

Sumir hafa nefnt til sögunnar annan kost, nefnilega þann að við færum að dæmi Kanada og freistuðum þess að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin þar sem við höfum sterka markaðsaðstöðu sem hefur staðið nokkuð lengi, sérstaklega ef við hefðum von til þess að geta náð slíkum fríverslunarsamningum án óaðgengilegra skilyrða um gagnkvæmni. Það er staðreynd að allt frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar hafa Bandaríkin axlað ábyrgðina af öryggi Vestur-Evrópu og reyndar borgað reikninginn að langsamlega stærstum hluta. Það hefur komið í hlut Bandaríkjanna að tryggja líflínuna milli gamla og nýja heimsins sem liggur um Atlantsála, en þar er Ísland í skurðpunktinum. Svo lengi sem varnarsamstarf Vestur-Evrópuríkja og Bandaríkjanna helst mun Ísland gegna þar mikilvægu hlutverki fyrir bæði stórveldin, hið gamla og hið nýja. Tollfrjáls aðgangur að fiskmörkuðum sýnist vera tiltölulega lágt verð fyrir ómetanlega aðstöðu sem skiptir sköpum fyrir varnarsamstarf ríkjasamsteypa á meginlöndunum beggja megin Atlantshafsins. Og hver er þá samningsstaða okkar Íslendinga? spyr ég. Og ég rifja upp að í gamla daga lásum við það á íslenskum skólabókum að Danir hefðu einhvern tíma selt Bretum aðgang að íslenskri fiskveiðilandhelgi fyrir tollfrjálsan aðgang þeirra fyrir egg og beikon á breska markaðnum sem danska þjóðin lifði á áratugum saman. Og ég bæti við að Danir hafa löngum haft þó nokkuð gott vit á „bisness“.

Íslendingar þurfa tollfrjálsan aðgang að mörkuðum stórvelda beggja vegna Atlantshafsins fyrir fiskafurðir. Það er ekki nóg að stilla þessu upp sem annar kosturinn, að okkur nægi að ná fríverslunarsamningum við Bandaríkin ein. Hvað höfum við að bjóða í staðinn annað en aðgang stórvelda að auðlindinni sem við lifum á ef það er ófrávíkjanlegt að það sé ekki að vænta neinna sérstakra breytinga á hinni samræmdu fiskveiðistefnu sem krefst aðgangs að auðlindinni? Ég hef leyft mér að varpa fram þeirri spurningu: Ef við ætlum að ræða við Evrópubandalagið í alhliða viðræðum um annað en fisk og fiskafurðir, aðgang að mörkuðum, sé það umræðugrundvöllur ekkert síður en annað að ræða um samstarf í öryggis- og varnarmálum.

Hið nýja efnahagsbandalagsstórveldi, Bandaríki Evrópu, þegar þar að kemur, snýst nefnilega ekki bara um mjólkurstöðuvötn, kjötfjöll, ostafjöll, niðurgreiddan fisk eða egg og beikon. Það snýst um pólitík. Og pólitík er líka um samstarf þjóða á sviði öryggis- og varnarmála, sérstaklega þeirra þjóða sem hafa frá stríðslokum átt með sér býsna náið samstarf á því sviði. Stórveldi þurfa að sjá ögn lengra en nef þeirra ná. Spurningin er hvort hið nýja Evrópustórveldi með Skandinavíu innanborðs þurfi ekki út frá eigin hagsmunum að fylgjast með gangi mála á Atlantshafinu. Verði það niðurstaðan, sem ég gef mér reyndar sem sjálfgefið, munu þeir þurfa að ræða við Norðmenn og okkur Íslendinga um annað en fisk og markað.

Samningar um fækkun kjarnavopna á meginlandi Evrópu kalla á aukið pólitískt samstarf Evrópuríkja um varnar- og öryggismál. Sennilega mun það þegar fram líða stundir líka kalla á breytta varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Það er e.t.v. of mikið sagt að öll Evrópubandalagsríkin verði þegar fram líða stundir aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu, en líkurnar á því að svo verði eru hreint ekki litlar. Á það er síðan að líta að margt bendir til þess að Bandaríkin muni smám saman á næstunni draga úr nærveru sinni í Evrópu. Það er margt sem bendir til þess að þau hafi öðrum hnöppum að hneppa á Kyrrahafssvæðinu þar sem stórveldi næstu aldar eru að vakna til vitundar um mátt sinn og megin og Evrópa verði þess vegna að beina sjónum sínum í auknum mæli að hafinu sem tengir þessi tvö stórveldi saman, þessar tvær meginríkjasamsteypur lýðræðisríkja sem við höfum átt samstarf við frá stríðslokum og reyndar lengur.

Fækkun kjarnavopna á meginlandi Evrópu kann að leiða til aukins vígbúnaðar í hafinu. Ör uppbygging og vaxandi umsvif sovéska norðurflotans er sameiginlegt áhyggjuefni lýðræðisríkjanna beggja vegna Atlantshafsins. Það er fátt sem bendir til þess að Sovétríkin muni draga úr hernaðarumsvifum sínum á Atlantshafi þótt til lengri tíma sé litið. Bandaríkin stefna að því samkvæmt sínum núverandi áætlunum að auka nærveru eigin flota á svæðinu og efla æfingar til varnar þeim ríkjum sem eiga strendur að Noregshafi. Það er út frá þeirra bæjardyrum séð nauðsynlegt hvort tveggja í senn til að sýna fram á trúverðugleik þessara varna og til þess að koma í veg fyrir að norðurhöf verði einungis vettvangur sovéskra flotaumsvifa, eins konar Mare sovéticum. Sú þróun sem á sér stað ber þess jafnframt merki að vígbúnaðarkapphlaupið á svæðinu er að færast í aukana. Má þar nefna t.d. þá þróun á sviði langdrægra stýriflauga sem beina má gegn landi og vakið hefur athygli undanfarið vegna þess að kafbátar Sovétmanna hafa verið búnir slíkum flaugum. Þessi þróun getur hæglega leitt til þess að höfin fái enn aukið mikilvægi í vígbúnaðar- og afvopnunarmálum.

Frá sjónarhóli Íslendinga og Norðmanna og reyndar fleiri Norður-Evrópuríkja er það augljóst hagsmunamál að ekki komi til aukinnar spennu og vígvæðingar í norðurhöfum. Leiðir til að efla traust og takmörkun vígbúnaðar á höfunum hafa ekki verið tilefni afvopnunarviðræðna enn sem komið er nema að mjög takmörkuðu leyti þótt sagan geymi mörg dæmi um það. Tiltölulega nýlegt dæmi um leiðir til að efla traust á höfunum sem hefur borið góðan árangur er samkomulag sem tókst á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna um aðgerðir til að koma í veg fyrir slys á höfunum frá árinu 1972. Það er spurning hvort ekki væri hugsanlegt að við Íslendingar beittum okkur fyrir því í samstarfi við grannþjóðir sem eiga hagsmuna að gæta að Atlantshafinu, sérstaklega kannski Norðmenn í þessu tilviki, að gerður verði sérstakur fjölþjóðlegur samningur á svipuðum nótum sem Bandaríkin, Sovétríkin og Evrópubandalagsríkin ættu aðild að.

Við Íslendingar höfum valið aðild að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin sem leið til þess að tryggja öryggi okkar á viðsjárverðum tímum. Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé tímabært að ríki Vestur-Evrópu sem hafa vaxandi hlutverki að gegna innan Atlantshafsbandalagsins telji sér ekki sjálfum nauðsynlegt að auka þátttöku sína í þessu varnarsamstarfi og þar með nærveru sína á norðurslóðum. Um það má ræða ekkert síður en tollfrjálsan aðgang að mörkuðum fyrir auðlindanýtingu.

Þegar menn leiða hugann að umræðunni sem nú á sér stað meðal grannþjóða okkar, þeirra sem standa utan Efnahagsbandalagsins, um afstöðuna til þess og þróun mála í þá átt skilst manni, sérstaklega á Norðurlöndum, að þar sé efst á baugi að fylgjast vel með, að komast með í sem flestar ákvarðanir sem verið er að taka, að laga sig sem fyrst að þeim kerfisbreytingum sem eiga sér stað innan bandalagsins, hafa m.ö.o. áhrif á þá þróun án þess að gerast beint aðili eins og stendur. Jafnframt vakir það í umræðunni að fyrr en síðar muni flest þeirra telja sér lífsnauðsynlegt að stíga skrefið til fulls. Þar er viðkvæðið að það liggi alla leið upp til Brussel. Sennilega erum við 1slendingar þeir einu þessara þjóða sem vegna landfræðilegrar legu og sérstöðu þurfa að spyrja sjálfa sig annars konar spurningar. Munum við verða tilneyddir að velja milli austurs og vesturs? Munum við leita samstarfs annaðhvort við gamla heiminn, þaðan sem við komum, eða nýja heiminn sem við fundum? Við erum ekki búnir að fá endanleg svör við þessum spurningum, en fyrsta atriðið er að spyrja sjálfan sig þessara spurninga og niðurstaðan ræðst síðan af því hvaða svör við fáum við spurningum af þessu tagi í því samstarfi sem við ástundum á vettvangi Norðurlandaráðs, innan EFTA og í viðræðum okkar við bandalagsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og í viðskiptalegum viðræðum okkar við fulltrúa Evrópustórveldisins.

Þetta eru í stórum dráttum þær spurningar sem ég hef fyrst og fremst vakið upp og eins og menn heyra af mínu máli er þeim engan veginn svarað. Þetta er tilraun til þess að skilgreina hvaða vanda við stöndum frammi fyrir og áheit um það að byrja að taka þessi mál alvarlega og setja þau í einhverja hnotskurn.

Það er fullkominn misskilningur ef menn vilja túlka þessi orð mín á þann veg að ég sé að leggja til einhverja verslun með öryggis- og varnarmál Íslands. Það er algjörlega út í hött. Það sem gengið hefur undir nafninu aronska hér á landi hefur venjulega vísað til þess hvort gera eigi varnarsamstarfið við Bandaríkin að féþúfu í einu eða öðru formi. Sá flokkur sem ég er formaður fyrir hefur alla tíð verið því mótfallinn og ég bendi á það að ef menn vilja rekja saman fjárhagsleg hagsmunatengsl einhverra stjórnmálaflokka eða stjórnmálalegra afla eða aðila vegna framkvæmda á vegum varnarliðsins er þeirra einhvers staðar annars staðar að leita heldur en í mínum flokki.

Það sem ég er að segja er ósköp einfaldlega þetta: Evrópubandalagið er okkar mikilvægasti markaður og það bendir margt til þess að mikilvægi þess fari vaxandi. Menn skulu bara hugsa það til enda þegar Norðmenn og fleiri EFTA-þjóðir væru komnar inn hver væri þá hlutdeild stækkaðs Evrópubandalags að því er varðar okkar útflutning og innflutning. Við verðum að tryggja þennan markað í framtíðinni. Við höfum ekki þann kost að gerast aðilar að bandalaginu, a.m.k. ekki meðan bandalagið gerir þá kröfu að fá aðgang að fiskveiðilögsögu okkar. Um þetta virðist ekki vera ágreiningur. Spurningin er þá um það hvaða kosti við eigum aðra. Við lifum í alþjóðlegu samfélagi sem hvort tveggja í senn fer minnkandi vegna þróunar í fjarskiptum og flutningatækni og þar sem þjóðríkin verða sífellt háðari hvert öðru innbyrðis vegna fjárfestingar, vegna tilflutnings fjármagns og fjármagnsflæðis, vegna aukinnar verkaskiptingar, vegna nánari samvinnu. Það eru þessi innbyrðis tengsl sem fyrst og fremst ákvarða það hvort önnur ríki taka tillit til okkar og þá að hve miklu leyti. Varnarsamningurinn hefur skapað okkur slík tengsl við Bandaríkin og hver eru áhrifin? Láta menn sér virkilega detta það í hug að Bandaríkjamenn hlustuðu jafngrannt og þeir gera eftir okkar rödd og okkar málflutningi og tækju tillit til okkar í ágreiningsmáli, hvort heldur er um hvali eða um lendingarleyfi á hinum ýmsu stöðum í Bandaríkjunum, ef ekki væri vegna þess að þessi innbyrðis tengsl eru fyrir hendi? Ég efast um að nokkur mundi neita því sem til þekkir hvaða áhrif varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur haft á alþjóðasamskipti okkar við þau. Hingað til hefur enginn séð ástæðu til þess að kenna þetta við aronsku. Menn hafa einfaldlega kennt þetta við gagnkvæma hagsmuni af því tagi sem gilda í samskiptum ríkja á okkar dögum. Það eru þessi innbyrðis tengsl sem ég tel að sé nauðsynlegt að koma á í vaxandi mæli við Evrópubandalagsríkin til þess að við getum tryggt hagsmuni okkar betur gagnvart þeim í framtíðinni.

Þetta verður ekki gert á einum degi, ekki á einu ári. Þetta er tilraun til þess að spá fram í tímann. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka tillit til þegar við metum stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og hugsum einn áratug fram í tímann eða svo. Ég fæ ekki séð að svo lengi sem við hvorki getum né viljum veita Evrópubandalaginu aðgang að fiskveiðilögsögunni eigum við margra kosta völ. Ég bendi hins vegar á þann möguleika að skapa aukin innbyrðis tengsl með auknu samstarfi við Evrópuríkin á sviði öryggis- og varnarmála. Það er þróun sem þegar er hafin og var byrjuð í utanríkisráðherratíð Geirs Hallgrímssonar. Með slíkri stefnu værum við að reyna að skapa forsendur fyrir samskiptum við Evrópubandalagsríkin sem eru nauðsynleg til þess að við getum jafnframt og í kjölfarið tryggt betur efnahagslega hagsmuni okkar gagnvart þeim í framtíðinni.

Ef menn vilja enn halda sig við það heygarðshornið að kenna þessi viðhorf til aronsku minni ég á það að íslensk utanríkismálasaga, ekki síst eftirstríðsáranna og þá vísa ég mönnum á að kynna sér rannsóknir prófessors Þórs Whitehead, ber þess glöggt vitni að íslenskir stjórnmálaleiðtogar hafa alla tíð miðað að því að samræma utanríkisstefnuna hagsmunum okkar á sviði öryggis- og varnarmála, efnahagsmála og stjórnmála. Nægir í því efni að minna á afstöðu fyrrv. forsrh. okkar Íslendinga, Hermanns Jónassonar, á örlagaríkum tímum við upphaf seinni heimsstyrjaldar. Menn hafa m.ö.o. jafnan reynt að hafa heildarmyndina í huga, en ekki einungis einstaka þætti einangraða hvern frá öðrum. Með Evrópubandalagið sem okkar stærsta markað stöndum við að vissu marki á krossgötum í utanríkismálum. Við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvernig við getum tryggt hagsmuni okkar gagnvart því í framtíðinni. Við höfum hingað til byggt tvær brýr í utanríkismálum okkar fram til þessa, annars vegar til Norðurlandanna og hins vegar til Bandaríkjanna. Og það er kominn tími til að hefja þriðju brúarsmíðina, þ.e. brú í átt til Evrópubandalagsins. Hvernig? Mitt svar er það að við gerum það með því að skapa aukin tengsl innbyrðis við Evrópubandalagsríkin í öryggis- og varnarmálum og tel það vera raunverulega rökrétta afleiðingu af þróun alþjóðamála, þróun stjórnmála sem eru að gerast í Evrópu þessi missiri og mun gerast í auknum mæli á næstu árum. Ég tel ástæðulaust af okkar hálfu að ætla að stinga höfðinu í sandinn. Við þurfum að byrja þessa umræðu hér heima. Við höfum enn sæmilegan tíma til stefnu, en við eigum ekki að neita staðreyndum eða vekja upp gamlan skotgrafahernað sem vísar til fortíðarinnar og hefur ekkert gildi í þessu samhengi.

Herra forseti. Ég vil, eins og ég sagði í upphafi, víkja nokkrum orðum að öðrum kafla í skýrslu utanríkisráðherra, um takmörkun vígbúnaðar á hafinu. Til að byrja með vil ég taka undir þá afstöðu hæstv. ráðherra sem fram kemur í skýrslunni, að Íslendingar eigi að beita sér fyrir, í samstarfi við aðrar þjóðir, takmörkun vígbúnaðar á höfunum. Hagsmunir okkar í þeim efnum eru augljósir. Staðreyndin er sú að takmörkun vígbúnaðar á höfunum hefur fengið litla athygli allt frá stríðslokum. Þó hafa það einmitt verið höfin sem í 150 ára sögu afvopnunarviðleitni hafa oft verið í miðpunkti samningaviðræðna og á það bæði við um árin fyrir heimsstyrjöldina 1914–1918 og eftir hana og fram á seinni heimsstyrjöld. Samningar risaveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, um kjarnorkuvígbúnað hafa vissulega haft áhrif á vígbúnað á höfunum. Fjöldi eldflaugakafbáta og þeirra kjarnorkuflauga sem þeir hafa innanborðs er takmarkaður í SALT-samningnum, gagneldflaugasamningnum frá 1972, sem nær einnig til búnaðar í hafi. Hafsbotnssamningurinn bannar staðsetningu kjarnavopna á hafsbotni og samningurinn um takmarkað bann við kjarnorkutilraunum bannar tilraunir með kjarnavopn neðansjávar. Sjóherir hafa hins vegar ekki nema að mjög litlu leyti verið meginefni samningaviðræðnanna. Einna helst mætti nefna viðleitni til friðunar Indlandshafs á seinasta áratug sem, eins og reynslan sýnir, hefur að vísu ekki borið mikinn árangur.

Að ýmsu leyti er þetta mjög skiljanlegt. Þar til hafréttarsáttmálinn kom til sögunnar var réttarlegur grundvöllur samninga um vígbúnað á höfunum það veikur að erfitt var að festa hönd á því hver hafði rétt til að samþykkja hvað. Hafréttarsáttmálinn frá árinu 1982 breytir þessu og skapar ramma sem gerir stefnumótun auðveldari í framkvæmd. Því fer þó fjarri að það nægi til að gera samning um vígbúnað á höfunum eða jafnvel að koma af stað samningaviðræðum. Flotaumsvif eru þess eðlis, m.a. vegna hreyfanleika sjóherja, mismunandi uppbyggingar og landfræðilegra aðstæðna, að erfitt er að búa til mælikvarða sem eru aðgengilegir til að koma á samningum.

Þá ber ekki hvað síst að nefna að fjölmargar hugsanlegar leiðir til að takmarka vígbúnað eða efla traust á höfunum mundu skerða frelsi siglinga um höfin, en sú hefð á sér djúpar rætur í hugum manna.

Herra forseti. Varnarviðbúnaður í Noregi og á Íslandi er að stærstum hluta til miðaður við flotaumsvif Sovétríkjanna í norðurhöfum. Það er augljóst hagsmunamál Norðurlanda að stemma stigu við auknum flotaumsvifum Sovétríkjanna á þeim slóðum og hamla gegn auknu vígbúnaðarkapphlaupi. Undanfarin ár hefur athygli manna beinst í auknum mæli að vígvæðingu norðurhafa vegna uppbyggingar sovéska flotans á Kola-skaga, breytingar á stefnu og styrkleika bandaríska flotans, tæknilegra nýjunga í sjóhernaði, einkum langdrægra stýrieldflauga sem beina má gegn mannvirkjum á landi og margs fleira. Ýmsir hafa óttast aukna spennu og vígbúnaðarkapphlaup á norðurslóðum af þessum sökum og ekki hvað síst í kjölfar árangurs í samningum um gagnkvæma afvopnun að því er varðar kjarnavopn á meginlandi Evrópu.

Það segir sig sjálft að Norðurlöndum hlýtur að vera hagsmunamál að stemma stigu við þessari þróun. Það er hins vegar ljóst að það er ekki sama hvernig að þessum málum er staðið eða hvernig við berum okkur að. Þó að ýmsum kunni að finnast það einkennileg fullyrðing er Norðurlöndum t.d. lítill akkur í því að jafnvægi ríki í hefðbundnum skilningi í vígbúnaði á Norður-Atlantshafi. Höfin hafa engin landamæri og því ræður flotastyrkur miklu um pólitísk áhrif á hafsvæðum og þeim landsvæðum sem eiga strendur að þeim. Ísland var á áhrifasvæði Breta um langan aldur í krafti flotaveldis þeirra. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr var það einfaldlega söguleg staðreynd. Flotajafnvægi í bókstaflegum skilningi í Norður-Atlantshafi þýddi að víglína sovéska flotans lægi sunnan Íslands. Landið væri þar með á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Flotajafnvægi á Norður-Atlantshafi væri því hvorki í þágu Atlantshafsbandalagsins né heldur Norðurlandanna. Fullyrðingar af þessu tagi kunna að bera keim af því að nauðsynlegt sé að efla sem mest vígvæðingu vestursins í Atlantshafi. Það er hins vegar ekki mín skoðun, heldur er ég einungis að benda á þá staðreynd að það er ekki einhlítt að hernaðarjafnvægi sé æskilegt á öllum sviðum. Nauðsynlegt væri að taka tillit til aðstæðna í hverju tilviki.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er vikið að tillögum Gorbatsjovs um norðurheimskautið og norðurhöf. Johan Jörgen Holst, varnarmálaráðherra Noregs, benti á það í viðtali í Morgunblaðinu 22. okt. sl. að ræða Gorbatsjovs í Murmansk væri mikilvæg í fyrsta lagi vegna þess að hann flutti hana sjálfur og í öðru lagi vegna þess að henni væri beint til þeirra þjóða sem byggja okkar heimshluta. Þá sjaldan sem sovéskir ráðamenn ræddu sérstaklega þróun mála á norðurslóðum væri ástæða til að hlýða á málflutning þeirra.

Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna sovéskir ráðamenn beina orðum sínum til Norðurlandaþjóða en ekki Bandaríkjanna milliliðalaust. Þeim er það fullkomlega ljóst að það eru ekki Norðurlöndin sem standa fyrir flotaumsvifum við Norður-Atlantshaf, heldur eru það Sovétríkin og Bandaríkin. Það væri því eðlilegra að þeir beindu tillögum sínum til Bandaríkjanna fremur en Norðurlanda. Svarið við því er hins vegar tvíþætt: Í fyrsta lagi er Sovétríkjunum það ljóst að Bandaríkjamenn eru ekki líklegir til að taka slíkum hugmyndum vel. Bandaríkin eru þrátt fyrir allt enn ótvírætt mesta flotaveldi heims. Sovéski flotinn er geysilega öflugur á ákveðnum hafsvæðum eins og á hafsvæðunum norðan Íslands, þ.e. Noregshafi, Grænlandshafi og Barentshafi. Ef viðmiðið er hins vegar tekið af heimshöfunum í heild er greinilegt að bandaríski flotinn hefur yfirburði. Af þessu leiðir að Bandaríkin sjá ekki sérstaka ástæðu til að gera samning um takmörkun vígbúnaðar á höfunum, en það má m.a. skoða í ljósi þess að slíkum samningum má að ýmsu leyti líkja við vöruskiptaverslun. Hafi annar aðilinn minna til að versla með er venjulega ekki um samningsgrundvöll að ræða. Þau skilyrði sem gert hafa samninga um kjarnorkuvígbúnað mögulegan eru fyrst og fremst þau að bæði risaveldin hafa litið svo á að jafnvægi hafi ríkt á því sviði. Samningarnir um kjarnavopn í Evrópu sem þeir Reagan og Gorbatsjov undirrituðu í Washington á sl. ári hefðu ekki verið gerlegir ef Atlantshafsbandalagið hefði ekki tekið ákvörðun sína um að staðsetja ný vopn í Evrópu til mótvægis við SS-20 eldflaugar Sovétríkjanna. Án þess hefðu þessi vöruskipti hreinlega ekki getað átt sér stað.

Sovétmenn gera sér enn fremur grein fyrir því að á Norðurlöndum hefur gætt vaxandi áhuga á takmörkun vígbúnaðar á höfunum á undanförnum árum og gera sér væntanlega vonir um að sá áhugi sé nægilega mikill til að þau vilji hafa frumkvæði á þessu sviði. Atlantshafsbandalagið er sá vettvangur sem Ísland, Noregur og Danmörk hafa aðgang að og jafnframt sá vettvangur sem mestu máli skiptir frá sjónarhóli Sovétmanna. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að hafa þetta í huga án þess að ég sé þar með að hafna hugmyndum um samstarf á því sviði.

Í ræðu Gorbatsjovs í Murmansk kom fram yfirlýstur vilji Sovétmanna um samvinnu á norðurslóðum, um takmörkun vígbúnaðar, nýtingu auðlinda, samræmingu vísindarannsókna og umhverfisvernd. Þær hugmyndir sem þar koma fram um takmörkun vígbúnaðar eru út af fyrir sig ekki nýjar og þær þarf ekki endilega að taka bókstaflega, heldur sem dæmi um það hvað það er sem Sovétmenn eru tilbúnir að semja um. Þær endurspegla að sjálfsögðu fyrst og fremst hagsmuni Sovétríkjanna fremur en að vera hugmyndir sem samræmast hagsmunum Atlantshafsbandalagsríkjanna eða Norðurlandanna fimm. Þannig er bann við æfingum á helstu siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi hugmynd sem er fullkomlega óaðgengileg. Norður-Atlantshafið er lífæð Atlantshafsbandalagsins sem tengir saman aðildarríkin í Evrópu og Ameríku og án æfinga á liðsflutningum til Evrópu eða norðurslóða er tómt mál að tala um trúverðugar varnir.

Þróun hugmynda um takmörkun vígbúnaðar á höfunum er enn, því miður, skammt á veg komin. Þó er greinilegt og má m.a. marka af ræðu Gorbatsjovs að áhuginn fer vaxandi og að öllum líkindum má gera ráð fyrir aukinni umræðu um þau mál á næstu árum. Ein fyrstu merkin um þetta eru skýrsla sérfræðingahóps á vegum Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út árið 1985. Þar er m.a. bent á að ein af höfuðforsendum afvopnunar á höfunum sé sú að hún sé jöfn og skerði ekki öryggi hlutaðeigandi ríkja á nokkurn hátt. Skýrslan sem er niðurstaða af tillögum Svíþjóðar og fleiri ríkja, þar á meðal Íslands, var samin með það markmið í huga að kanna mögulegar leiðir til að auka traust og takmarka vígbúnað á höfunum. Hún ber þess merki hversu viðkvæmt og flókið mál er hér um að ræða og þó að ýmsar hugmyndir hafi komið þar fram eru raunverulegar tillögur fáar. Hér er verk að vinna, að þróa þessar hugmyndir betur og ég tel það sjálfsagt mál af hálfu okkar Íslendinga að leita eftir samvinnu, bæði við grannþjóðir okkar annars staðar á Norðurlöndum og innan Atlantshafsbandalagsins, til þess að ýta á eftir frumkvæði um að slíkar samningaviðræður byrji og þróist.

Ein tillaga sem þarna er þó sett fram er sú að Norðurlöndin beiti sér fyrir að ná fjölþjóðlegum samningi á líkum nótum og samkomulag Bandaríkjanna og Sovétríkjanna frá 1972 um aðgerðir til að koma í veg fyrir árekstra og slys á höfunum. Þetta samkomulag hefur borið góðan árangur sem m.a. kemur fram í því að yfir 100 alvarlegir árekstrar eða slys vegna flotaumsvifa á höfunum áttu sér stað ár hvert á seinni hluta sjöunda áratugar, en frá því að samkomulagið var gert hefur þessum slysum fækkað verulega. Þau eru nú um 40 talsins og er þó nóg. Það er margt sem mælir með því að Íslendingar taki undir þessar hugmyndir, t.d. í samstarfi við önnur Norðurlönd, hugmyndir um það að gert verði fjölþjóðlegt samkomulag um aðgerðir til að koma í veg fyrir árekstra og slys á höfunum sem Bandaríkin og Sovétríkin og hugsanlega fleiri Evrópuríki ættu aðild að. Ég nefni tvennt í því sambandi: Í fyrsta lagi það hversu mikið hagsmunamál það er fyrir okkur að vernda umhverfi sjávarins. Í öðru lagi þá staðreynd að jafnviðkvæm og flókin mál og takmörkun vígbúnaðar og leiðir til að efla traust á höfunum þarf að nálgast af varfærni, einkum á meðan menn eru að venjast nýjum hugmyndum um það. Samkomulag um árekstur og slys hefur þann kost að fyrir því er fordæmi sem menn þekkja. Af þessu leiðir að það gæti verið upphafspunktur sem flestir gætu sameinast um en um leið skref í átt til frekari þróunar sem beindist að því að hamla gegn auknu vígbúnaðarkapphlaupi á höfunum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.