26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5055 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

294. mál, utanríkismál

Sigríður Lillý Baldursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans um utanríkismál sem hér er til umræðu. Skýrslan er að mörgu leyti ágætlega unnið plagg, en við lestur hennar fann ég þó ekki stafkrók um þá hættu sem fylgir umferð kjarnorkuknúinna báta, skipa og kafbáta um hafið umhverfis landið. Hins vegar minnist ég þess að við umræður á Alþingi 8. febr. sl., um þáltill. um mótmæli gegn kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay, hafi spunnist nokkur umræða um þetta atriði. Þá sagði m. a. hv. 3. þm. Norðurl. e., með leyfi forseta:

„Ég hef haft af því vaxandi áhyggjur eftir því sem ég hef fengið meiri upplýsingar m.a. um ferðir kjarnorkuknúinna skipa um Norður-Atlantshafið að þar gætu orðið slys sem væru af þeirri stærðargráðu að efnahagsafkomu íslenskrar þjóðar, færeyskrar þjóðar og grænlenskrar þjóðar yrði ógnað í mjög verulegum mæli. Ég hef oft spurt eftir því þegar ég hef verið á fundum með herfróðum mönnum hversu mikil hætta væri á árekstrum t.d. kafbáta og annarra herskipa, sem m.a. sigla um Norður-Atlantshafið, hvað mikil hætta gæti verið á því að þessi skip misstu út geislavirkt kælivatn. Ef slíkt gerðist í nágrenni við gotstöðvar eða hrygningarstöðvar t.d. þorskstofns, sem við byggjum að verulegu leyti afkomu okkar á, þá er ekki að sökum að spyrja því að þá er sá stofn ónýtur til næstu 100 ára eða svo. Mér finnst andvaraleysi okkar Íslendinga gagnvart þessum málaflokki vera alveg ótrúlegt. Herfróðir menn hafa tjáð mér að það sé lítil hætta á þessum slysum. Hins vegar átti ég kost á því fyrir mjög stuttu að ræða við fyrrverandi skipherra á breskum kjarnorkukafbáti. Ég spurði hann þessarar spurningar og spurði hann hvort það væri rétt að engin hætta væri á því að geislavirkt kælivatn færi út t.d. við árekstur tveggja skipa eða árekstur skips á rif, neðansjávarfjallgarð eða eitthvað slíkt og sagði honum jafnframt að ég hefði ævinlega fengið þau svör að slíkt gæti ekki gerst. Þessi skipherra var nú aldeilis á öðru máli. Hann sagði það fullum fetum að það gæti gerst mjög einfaldlega að kjarnorkuknúið skip missti út geislavirkt kælivatn við árekstur. Og hans orð tek ég auðvitað trúanleg.“

Síðar við sömu umræður sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

„Síðasti ræðumaður spurði mig að því hvort ég hefði upplýsingar um ferðir kjarnorkuknúinna kafbáta og skipa á Norður-Atlantshafinu. Það hef ég ekki og eftir því sem ég best veit hefur gengið ákaflega erfiðlega að fá slíkar upplýsingar frá stórveldunum. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um hættu þá sem þessu fylgir. Hins vegar hefur mér verið tjáð, þegar ég hef spurt um þessi mál, að hún væri lítil sem engin eða að það hafi verið gert ákaflega lítið úr þessari hættu og ég veit að sömu sögu hafa aðrir að segja. En ég hef tilhneigingu til að trúa betur þeim skipherra sem hv. þm. ræddi við.“

Hæstv. utanrrh. ber augljóslega ekki mikið traust til þeirra mörgu Atlantshafsbandalagsmanna sem hann hefur aðgang að. Hann hefur frekar tilhneigingu til að trúa betur þeim skipherra sem hv. 3. þm. Norðurl. e. vitnaði til. Hvað hyggst hæstv. utanrrh. gera til þess að bægja þessari miklu hættu, sem hann telur stafa af umferð kjarnorkuknúinna báta, frá íslensku hafsvæði? Ég gerði mér vonir um að fá svar við þessari spurningu í skýrslu hæstv. utanrrh., en þar er eins og ég sagði áðan ekki fjallað sérstaklega um þetta.

Hugsanleg geislamengun úthafa hlýtur að vera mikið áhyggjuefni okkur sem eigum allt undir fiskveiðum. Því hljótum við að velta sérstaklega fyrir okkur hversu mikil hætta er á slíkri mengun og með hvað hætti megi koma í veg fyrir hana. Til þess þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvernig mengunin gæti orðið. Geislamengun sjávar má flokka í mengun vegna meðvitaðrar losunar kjarnorkuúrgangs í hafið, mengunar þegar kjarnorkuúrgangur rennur í hafið frá endurvinnslustöðvum eða úr kjarnorkuverum, mengunar þegar slys verða með geislavirk efni í kjarnorkusprengjum herskipa og kafbáta eða þegar slys verða í meðferð geislavirkra efna í kjarnaofnum kjarnaknúinna skipa og kafbáta og síðast og vonandi síst verða höfin fyrir geislamengun í kjölfar kjarnorkustyrjaldar þar sem sprengjum er beint að skotmörkum á hafi.

Allir eru, vænti ég, klárir á þeirri stórkostlegu hættu sem fólgin er í sprengingu kjarnorkusprengju, hvort sem um er að ræða tilraunasprengingu eða árásarsprengingu. Albert Einstein sagði einhvern tímann, með leyfi forseta: „Allt breyttist 1945 nema hugsun okkar.“ Þekking aldanna dugir skammt í heimi fullum af gereyðingarvopnum. Menn verða að breyta hugsunarhætti sínum og vonandi er nú svo komið 43 árum síðar að valdamönnum er að verða það ljóst. Alla vega virðist rifa í einhvern skilning þegar tíðindi sl. ára eru skoðuð.

En er mönnum kunn sú hætta sem fólgin er í svokallaðri friðsamlegri notkun kjarnorku? Þar held ég að sé nokkur misbrestur á. Raunar hef ég aldrei fellt mig við orðið „friðsamleg“ í þessu sambandi því ég er þeirrar skoðunar að sú notkun á kjarnorku, sem þá er átt við, sé í raun ekki friðsamleg heldur segi hún umhverfi okkar stríð á hendur þar sem við erum hreint ekki búin að leysa það hvernig megi koma fyrir geislavirkum úrgangi þannig að ekki hljótist mengun af í bráð eða lengd.

Vissulega hefur gætt aukins skilnings á hættunni vegna meðvitaðrar eða slysalosunar kjarnorkuúrgangs í sjó eða eins og segir í skýrslu hæstv. utanrrh. á bls. 8, með leyfi forseta: „Brýna nauðsyn ber til að kjarnorkuiðnaði verði gert að skyldu að hlíta ströngu eftirliti og öryggisreglum. Það er Íslendingum sérstakt áhyggjuefni að allar líkur benda til þess að stjórnvöld á Bretlandseyjum hyggi á stórfellda stækkun á kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay á Norður-Skotlandi.“

Hins vegar hafa menn almennt ekki gert sér næga grein fyrir hættunni sem fólgin er í umferð báta og kafbáta sem hafa kjarnorkuvopn innanborðs eða eru einungis knúnir kjarnorkuvél. Við fyrstu sýn virðist raunar ekki geta verið veruleg hætta á stóru kjarnorkuslysi þó eitthvað misfarist í slíkri vél. En skoðum þetta nánar. Í einum kafbáti geta verið 200–300 kjarnaoddar sem hver um sig hefur nokkra tugi kílóa af hreinsuðu úrani eða plútoni. Í kjarnaofni skipa og kafbáta eru nokkrir tugir eða hundruð kílóa af hreinsuðu úrani og þegar líður frá eldsneytisskiptum verulegt magn geislavirkra dótturefna sem myndast við kjarnaklofnun. Litlar líkur eru á því að slys komi af stað kjarnorkusprengingu í oddunum. Því er mengunarhætta sem stafar af kjarnorkuvopnum herskipa og kafbáta einkum fólgin í dreifingu óklofins úrans og hugsanlega plútons út í umhverfið. Plúton er mjög hættulegt efni, en mengunarhætta af völdum úrans er ekki talin eins mikil. Hins vegar eru geislavirk dótturefni, sem myndast við kjarnaklofnun í kjarnorkuvél þessara farartækja, mörg hver ákaflega hættuleg. Má þar nefna m.a. sesíum, strontíum, joð og baríum. Hætta á geislamengun frá skipum og kafbátum er því fyrst og fremst fólgin í dreifingu slíkra efna um hafið í kjölfar slyss í kjarnorkuknúnum skipum og kafbátum.

Til þess að gera sér betur grein fyrir því hvers kyns farartæki er hér um að ræða langar mig til að bera saman stóran kjarnorkuknúinn kafbát og stóran skuttogara eins og við þekkjum þá. Stór kjarnorkuknúinn kafbátur er u.þ.b. 170 m langur. Skuttogari hins vegar er yfirleitt 70 m langur eða 100 m styttri. Rúmtak stórs kjarnorkuknúins kafbáts er u.þ.b. 20 000 lestir á meðan rúmtak skuttogarans er u.þ.b. 1000 lestir sem er 20 sinnum minna. Afi kjarnorkuknúins kafbáts er á bilinu 40–90 mw., en getur orðið allt að 200 mw. sem er jafnt afli Búrfellsvirkjunar. Afl stórs skuttogara hins vegar er u.þ.b. 2 mw. sem er 20–100 sinnum minna afl.

En hver er geislamengunarhætta ef slys verður í kjarnorkuvél kafbáts? Til þess að geta metið það ætla ég að bera saman kjarnorkuver á landi og kjarnorkuvélina í skipi eða kafbát af þeirri tegund sem ég lýsti áðan. Fjöldi kjarnorkuvera á landi er u.þ.b. 400 og fjöldi stórra kjarnorkuknúinna kafbáta er af svipuðum toga. Talið er að um 400 slíkir bátar séu á ferðinni. Afl kjarnorkuvers í landi er u.þ.b. 1000 mw., en afl vélar í kafbátnum er 50 mw., en getur farið upp í 200 mw., eins og ég sagði áðan, eða 20 sinnum minna. Munurinn er ekki meiri. Eldsneytið sem notað er í kjarnorkuveri á landi fyrir 1000 mw. aflstöð er u.þ.b. 100 tonn af úraníum af hreinleikanum u.þ.b. 3% af úraníum-235 á meðan eldsneyti sem notað er í kjarnorkuvélina í skipinu eða kafbátnum er u.þ.b. 0,1 tonn af mjög hreinsuðu úraníum eða u.þ.b. 90% af úraníum-235.

Hlutfall eldsneytis sem slapp út í andrúmsloftið við slysið í kjarnorkuverinu í Tsjernóbíl var u.þ.b. öll eðalgös, 10–20% joðs og sesíums og 3–4% flestra annarra hættulegra geislavirkra efna eða að heildarhlutfalli u.þ.b. 10% alls eldsneytisins. Hins vegar mundi hlutfall eldsneytis, sem færi út í sjóinn og andrúmsloftið við kjarnabráðnun í kjarnaofni skips eða kafbáts, vera nálægt 100%.

En hverjar eru líkurnar á mengunarslysi um borð í kjarnorkuknúnum kafbát í samanburði við hættuna á kjarnorkuslysi í kjarnorkuveri á landi? Í kjarnaofni er magn dótturefna, en í þeim felst mesta mengunarhættan, í réttu hlutfalli við afl ofnsins annars vegar og tímann sem liðinn er frá eldsneytisskiptum hins vegar. Meta má mengunarhættuna sem margfeldi afls og þessa hlutfalls dótturefna sem berst út í umhverfið við alvarlegt slys, sem er 100% af 50 mw. afli kafbátsvélar eða 50 en 10% af 1000 mw. aflvél kjarnorkuvers sem er 100. Því má búast við að u.þ.b. helmingur þess magns af geislavirkum efnum, sem fer út í andrúmsloftið við kjarnorkuslys í kjarnorkuveri, geti losnað út í hafið við kjarnorkuslys í kjarnorkuvél í kjarnorkuknúnum kafbáti. Kjarnorkuver skipa og kafbáta eru sögð mun öruggari en kjarnorkuver á landi og kemur þar m.a. til stærðarmunurinn. Þar á móti kemur að kjarnorkuknúin herskip og kafbátar eru hlaðin vopnum og sprengiefni, eldsneyti fyrir eldflaugar og öðru sem stríðsrekstri tilheyrir. T.d. gætu mistök eða alvarleg bilun við flugtak langdrægrar eldflaugar frá kafbáti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Því má búast við að hætta á slysi í kafbáti sé ekki minni en hættan á kjarnorkuslysi í kjarnorkuveri á landi.

Við þetta má bæta að vindhraðinn í andrúmslofti er u.þ.b. 10 sinnum meiri en hraði hafstrauma og hættulegasta geislunin dvínar ört með tímanum. Mengun af völdum kjarnorkuslysa á höfunum verður því staðbundnari en mengun af völdum slysa á landi og jafnframt miklu sterkari svo langt sem hún nær.

Við kjarnorkuslysi í hafinu er nánast ekkert hægt að gera. Litlir sem engir möguleikar eru á að hreinsa upp mengunina. Hún verður einfaldlega að dreifast með straumum og dvína með tíma.

En hafa orðið einhver kjarnorkuslys á höfunum fram til þessa? Það er talið að Bandaríkjamenn hafi misst tvo kjarnorkuknúna kafbáta með áhöfn. Einnig er talið að kjarnorkuknúinn bandarískur kafbátur með 16 eldflaugum hafi farist á Suður-Atlantshafi 1986. Þá hefur orðið vart við leka geislavirkra efna frá bandarískum kafbátum þó ekki hafi komið til alvarlegra slysa. Og talið er að Sovétmenn hafi misst a.m.k. einn kafbát. Einnig er vitneskja fyrir því að fjórum sinnum a.m.k. hafi leki frá kjarnaofnum sovéskra kafbáta valdið mannskaða. Gervitungl Bandaríkjamanna hafa orðið vör við sovésk skip á Barentshafi með kafbáta í margra kílómetra fjarlægð í togi sem bendir til að þar hafi orðið kjarnorkuslys. Kjarnorkuver í skipum og kafbátum Sovétmanna eru talin standa verum Bandaríkjamanna langt að baki og fréttir hafa borist til Vesturlanda um að margir sjómenn í sovéska sjóhernum þjáist af geislaveiki af völdum slysa um borð í herskipum og kafbátum. Raunar minna fregnir um ástand kjarnorkuvera í sovéska sjóhernum um margt á lýsingar á öryggi í sovéskum kjarnorkuverum til rafmagnsframleiðslu á landi sem birtust á Vesturlöndum eftir slysið í Tsjernóbíl.

Nú er mál að linni. Það er mitt mat að Íslendingar verði að beita öllum brögðum til að fá réttar upplýsingar um umferð kjarnorkuknúinna báta um hafsvæðið umhverfis landið. Og löngu er tímabært að við neytum réttar okkar yfir íslensku hafsvæði og bönnum umferð slíkra báta.

Fyrir þinginu liggur nú frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum á þskj. 68. Flm. eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Einarsdóttir. Mín skoðun er sú að ekki megi dragast að það frv. verði að lögum. En þar til svo verður vil ég benda hæstv. utanrrh. á að nýta sér aðild okkar að kjarnorkuáætlunarnefnd Atlantshafsbandalagsins til að benda á þessa hættu, ef hún er ekki kunn nefndarmönnum, og fara fram á að ferðum kjarnorkuknúinna báta um íslenska landhelgi verði tafarlaust hætt.