26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5076 í B-deild Alþingistíðinda. (3426)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Sem annar meðflm. að þessari tillögu langar mig til að leggja nokkur orð í belg. Það væri kannski fyrst að staldra við þær kostnaðartölur sem getið er um í grg. með tillögunni, en þar er sagt að það geti kostað allt að 1 milljarði kr. að leggja nýjan akveg við hliðina á gamla veginum, byggja nauðsynleg umferðarmannvirki þar sem um er að ræða innáakstur á hraðbrautina og útafakstur af henni, sömuleiðis gatnamót ýmiss konar, og svo má ekki gleyma einu atriði, en það er gert ráð fyrir því að það verði lýsing með allri akbrautinni, þ.e. með öllum veginum frá Hafnarfirði og til Keflavíkurflugvallar. Þeir sérfræðingar sem við höfum leitað álits hjá telja eðlilegt og nauðsynlegt að vegurinn verði með lýsingu alla leiðina.

Nú er ekki þar með sagt að það þurfi að ljúka öllum þessum áföngum í einu og er kannski rétt að sundurgreina hvernig kostnaði gæti verið skipt milli hinna ýmsu áfanga. Það að tvöfalda akveginn sem slíkan án þess að um væri að ræða að gengið yrði frá veginum sem fullkominni hraðbraut í líkingu við það sem við þekkjum erlendis frá er talið að muni kosta 600 millj. kr. ef miðað er við þau verð sem Vegagerðin gengur út frá. Hins vegar er talið að hér mætti ná miklum sparnaði með útboðum, jafnvel að þessi framkvæmd, þessi áfangi gæti farið allt niður í 300–400 millj. kr.

Í þeim viðræðum sem við höfum átt við sérfræðinga Vegagerðarinnar hafa þeir metið stöðuna þannig að ef þetta verkefni yrði boðið út í einu lagi, að tvöfalda veginn til Keflavíkur, og stór verktaka fyrir tæki fengju að gera tilboð í að ljúka þessari framkvæmd eins og þeim teldi best henta er viðbúið að þetta mundi kosta jafnvel um 300 millj. kr. Þess vegna er kannski svolítið villandi að sjá aðeins þessa einu tölu, 1 milljarð kr., en það er sá heildarkostnaður þegar búið er að ljúka öllum áföngum og allir kostnaðarþættir eru metnir til hins ýtrasta. T.d. lýsing brautarinnar, sem við teljum að sé um 50 km löng, kostar nærri 200 millj. kr., en til gamans, af því að hér var verið að flytja þáltill. um að koma upp lýsingu yfir Hellisheiðina, er talið að lýsing þjóðvegar sem þessa muni kosta um 3–31/2 millj. kr. fyrir hvern km. Ef ætti að byggja brautina og gera hana þannig úr garði að hún flokkaðist sem hraðbraut eftir bestu erlendu fyrirmyndum má ætla að þau nauðsynlegu umferðarmannvirki sem yrðu því samfara muni kosta um 150–250 millj. kr.

En við erum fyrst og fremst að tala um sjálfa tvöföldunina því við leggjum áherslu á að gera veginn þannig úr garði að slysahætta á veginum minnki og svo hitt að sjálfsögðu að umferðarmagn geti aukist verulega. Það er talað um að þegar bílaumferð er komin í um 8000 bíla á dag þurfi að tvöfalda veg sem Reykjanesbraut. Tölurnar sem við komumst að og eru sýndar í grg. okkar fyrir árið 1987 sýna að umferðin er komin vel yfir 5000 bíla á dag. Það er því ekki ólíklegt að fyrir árið 1990 megi jafnvel búast við því að umferðin verði komin í um 8000 bíla á dag sem er einmitt sú tala sem er höfð til viðmiðunar þegar taka ber ákvörðun um að tvöfalda brautina. Þannig er í náinni framtíð að koma að því að þetta verður nauðsynlegt.

Ég veit vel að menn hugsa sem svo: Við höfum ekki peninga til allra þessara framkvæmda. Það eru ótal vegarkaflar á landinu sem þarf að ljúka fyrst. Ég ætla ekki að taka að mér hér að hjálpa hæstv. samgrh. að raða upp í forgangsröð öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem ég veit að honum er ætlað að leysa, en ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri mjög skynsamlegt að verja fyrst 300–400 millj. kr. til þess að ljúka við tvöföldun brautarinnar. Þau rök sem við tilgreinum í grg. með tillögunni eru að mínu mati mjög mikilvæg, þ.e. uppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum, þessi samgöngubót sem gæti orðið til þess að gera Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið að einu og hinu sama atvinnusvæði. Ég held að þetta sé kannski ein mikilvægasta röksemdin fyrir þessari framkvæmd.

Þá höfum við lagt töluverða vinnu í að rannsaka ástand vegarins og þá slysahættu sem fylgir Reykjanesbrautinni vegna þeirra aðstæðna sem oft eru þar sérstaklega á veturna, en mikil hálkumyndun á Reykjanesbraut er landfrægt fyrirbrigði og mjög alvarleg slys hafa orðið af þeim völdum. Það er því e.t.v. mjög sterk röksemd fyrir því að það þurfi að leggja út í þessa framkvæmd þó ekki væri nema til þess að reyna að draga úr slysahættunni á brautinni.

Að lokum er alveg ljóst að eftir því sem áhrif flugstöðvarinnar koma fram að fullu má búast við því að það verði mikið stökk í umferðinni á Reykjanesbraut. Ég er á því að við eigum eftir að sjá það á næstu árum að umferð fari vaxandi og mun hraðar en hefur gerst hingað til. Það kann að koma að því, hvort sem hæstv. samgrh. líkar betur eða verr, að hann neyðist til að fara út í þessa framkvæmd þó ég þykist fullviss um að hann sé henni mótfallinn í dag.