26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5078 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður komst þannig að orði að hann ætlaði ekki að hjálpa samgrh. í sambandi við það með hvaða hætti hann raðaði niður varðandi vegamál og sagði svo að það kæmi sjálfsagt að því að þessi vegur yrði lagður, enda þótt hann reiknaði með að samgrh. væri á móti því. Ég átta mig ekki á því hvernig kemur ofan frá himninum til þessa ágæta þm. afstaða einhverra manna í máli sem ekki hefur verið talað í og hv. þm. er að flytja hér í fyrsta skipti.

Ég efast ekki um að þar fylgir hugur máli hjá hv. þm. með vilja til þess að láta gott af sér leiða. Ég kemst hins vegar ekki hjá því þegar þessi tillaga er rædd að benda á nokkur atriði. Ég er sammála því sem fram kom varðandi Reykjanesbrautina og því sem að var vikið að gera þyrfti til lagfæringar einmitt vegna hættu til að skapa öryggi. Að þessum málum er unnið. Það eru þó sérstaklega, þegar verið er að tala um leiðina úr Hafnarfirði suður að stöð Leifs Eiríkssonar, tveir vegkaflar sem þar hafa verið erfiðir öðrum fremur, þ.e. kaflinn í gegnum Kúagerði og svo suður á Fitjum suður við Njarðvík. En ef við tökum Reykjanesbrautina eins og hún lá þar til fyrir tveimur árum að vegurinn á milli Hafnarfjarðar og Breiðholtsins var opnaður, þá voru þessir kaflar ekki þar sem slysatíðnin var mest. Það er Arnarneshæðin sem er langerfiðasti kaflinn í sambandi við slysatíðni. Þar á að hefja mikla vegagerð á þessu ári og gert ráð fyrir að þar verði unnið og framkvæmdir með svipuðum hætti og vegurinn í gegnum Kópavog.

Engu að síður verðum við að horfa á og einmitt gera okkur grein fyrir hvar skynsamlegast er að nota það fjármagn sem við höfum. Rétt fyrir áramótin flutti ég erindi hjá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og vakti athygli á þeim vegaframkvæmdum sem þyrfti að sinna á þessu svæði. Eitt af þeim atriðum var einmitt tvöföldun á Reykjanesbrautinni frá Hafnarfirði og suður að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það voru fjöldamörg önnur verkefni og þegar að er gáð kom það skýrt fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Reykn., að samkvæmt mati þeirra manna sem best eru að sér í sambandi við vegarlagningu er umferðin núna um Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði suður til Keflavíkur um það bil 4000 bílar, þ.e. helmingurinn af þeim fjölda sem talið er að tvöföld akbraut geti borið þannig að það skortir 4000 bíla umferð í viðbót til að ná þessu marki.

En ef við skoðum annan kafla á þessum sama vegi, þ.e. frá Breiðholtinu til Hafnarfjarðar, sem var opnaður fyrir tveimur árum, er þar 9000 bíla umferð í dag. Allt það fólk — ég segi ekki allt, flest, mjög margt, mjög stór hluti umferðarinnar til Keflavíkur fer þar um líka. Og af því að 1. flm. tillögunnar nefndi atvinnumálin á Suðurnesjum, þá er þessi kafli vegarins ekki síður þýðingarmikill en þegar komið er suður fyrir Hafnarfjörð. Þannig er hægt að virða fyrir sér, ef fjármagn er fyrir hendi, hvar best er að koma því fyrir. Það er ekki samgrh. sem útdeilir því eða raðar því. Það er Alþingi sjálft. Það var atriði sem ég vildi vekja athygli á að lög nr. 6 1977, um vegamál, gera skýrt ráð fyrir því hvernig að vegamálum skuli unnið, hvernig farið skuli með ákvarðanatöku á framkvæmdum í þeim efnum. Áður en þessari umræðu lýkur vildi ég vekja athygli á þessu því að í 10. gr. vegalaganna er skýrt tekið fram um þetta. Með leyfi forseta les ég:

"Samgrh. leggur að fengnum tillögum vegamálastjóra till. til þál. um vegáætlun fyrir Alþingi. Í tillögunni skal gerð grein fyrir fjáröflun þeirri sem fyrirhuguð er á áætlunartímabilinu og útgjöld sundurliðuð eftir helstu framkvæmdaflokkum skv. lögum þessum.“

Þegar búið er að sundurliða samkvæmt flokkunum eftir vegakerfinu er tillagan til meðferðar í fjvn. sem skiptir fjármagninu á einstaka vegi. Og þá kemur: „Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveða skiptingu útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þál. um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.“

Svo bætist við: „Sé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í þáltill. um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunarinnar á sama hátt og að framan getur.

Er þál. um vegáætlun hefur gilt í tvö ár skal hún tekin til endurskoðunar og jafnframt samin áætlun fyrir tvö ár til viðbótar þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi áætlun fyrir a.m.k. tvö ár.“

Ég vek athygli á þessari grein vegna þess að tillagan, eins og hún hér er orðuð, eins og henni er hér ætlað að verða samþykkt, getur ekki staðist það lagaákvæði sem ég var að lesa upp. Það er tvennt til, það er að breyta lögunum eða við meðferð málsins í nefnd sé texta tillögunnar breytt. Þess vegna vildi ég vekja athygli á þessu því að í staðinn fyrir að láta nú þegar hefja undirbúning að verki er hægt að gera könnun á ákveðnum hlutum vegna verks og þess vegna skynsamlegt, þegar tillagan verður til skoðunar í þeirri nefnd sem hún á að fara til, að orðalag hennar verði skoðað sérstaklega og þannig mætti vilji flm. e.t.v. ná fram að ganga.

Áður en Alþingi lýkur í vor fjallar fjvn. um skiptingu þess vegafjár sem er umfram það sem tekið er og skipt hafði verið í vegáætlun þeirri sem gildir fyrir fjögur ár nú, en á næsta ári, þ.e. á þinginu 1988–1989, verður lögð fram ný vegáætlun og væru einhverjir þeir hlutir fyrir hendi sem yrðu samþykktir vegna þessarar tillögu eða sem brtt. við hana hefur að sjálfsögðu Alþingi möguleika á því að taka það mál þá til meðferðar og ganga frá því með lögformlegum hætti og á ég þar við ef Alþingi sjálft er tilbúið til þess að láta fjármagn til þessarar vegagerðar og þá í vegáætlunni grundvallað á þeim tekjum sem vegáætlun gerir ráð fyrir og lög standa til í sambandi við tekjur til vegagerðarinnar.

Þetta vildi ég láta koma fram því að það er heldur ekki nægjanlegt fyrir einn sem á að framkvæma að sagt sé í lokin: Leitað verði leiða til þess að afla fjár til verksins utan vegáætlunar. Spurningin er: Á að leita að vegafénu utan vegáætlunar eða á að leita að fé til þess að framkvæma hlutinn utan vegáætlunar sem lög gera ekki ráð fyrir?

Þetta vildi ég sagt hafa einfaldlega til þess ef vera mætti í nefndinni sem fjallar um þetta að gerðar yrðu þær breytingar að þetta gæti allt saman orðið eins og vegalögin gera ráð fyrir.

Í viðræðum áðan benti ég á, af því að flm. gerði ekki tillögu um nefnd, að tillögu um vegáætlun, fjármögnun og útgjöld, er ævinlega vísað til fjvn.