26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5082 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Júlíus Sólnes:

Virðulegur forseti. Ég vildi kannski byrja á því að biðja hæstv. ráðherra velvirðingar á því að ég hafi ætlað honum að hann væri á móti þessari tillögu. Það var ekki þannig hugsað af minni hálfu, heldur gerði ég honum upp þann hug að hann væri e.t.v. mótfallinn því að setja fjármuni í þessa framkvæmd á undan öðrum framkvæmdum. Ég þykist vita að hæstv. samgrh. eigi í erfiðleikum með að fjármagna allar þær vegaframkvæmdir sem honum er ætlað að standa fyrir.

Ég vil minna á að hér á þinginu fyrr í vetur hafa verið fluttar áþekkar tillögur um vegaframkvæmdir án þess að það hafi valdið því að menn hafi haft af því miklar áhyggjur hvort þær væru eðlilegar og réttmætar með tilliti til þess sem hæstv. ráðherra sagði áðan um hvernig bæri að standa að tillöguflutningi um vegamál og vegagerð. Í kosningabaráttunni sl. vor bentum við frambjóðendur Borgarafl. á að það væri orðið tímabært að taka skipan vegamála til gagngerrar endurskoðunar, sérstaklega með hvaða hætti er staðið að því að deila hinu takmarkaða vegafé landsmanna niður á framkvæmdir í hinum ýmsu kjördæmum. Það hefur vakið mikla furðu mína árum saman að sjá þann leik sem hér fer fram ár hvert er þm. hinna ýmsu kjördæma eru kvaddir saman á fund með sérfræðingum Vegagerðarinnar til þess að fara yfir tillögur Vegagerðarinnar um vegaframkvæmdir í hverju kjördæmi fyrir sig og taka um það ákvörðun hvernig raða skuli niður framkvæmdum innan hvers kjördæmis. Þetta hefur orðið til þess á undanförnum árum að vegakaflar á milli kjördæma hafi orðið út undan því að þeir útvega engin atkvæði. Þetta hefur einnig orðið til þess að tefja eðlilegar framkvæmdir innan sumra kjördæma með því að það hefur verið lögð meiri áhersla á þvervegi í kjördæmunum sem hugsanlega tengja saman þéttbýlisstaði en ekki nægjanlega tekið tillit til hagsmuna heildarinnar. Þess vegna höfum við verið þeirrar skoðunar að það beri að endurskoða frá grunni með hvaða hætti er staðið að því að ákveða vegaframkvæmdir og vil ég aðeins gera grein fyrir þessu í örstuttu máli.

Við viljum að vegaframkvæmdir verði flokkaðar í þrjá meginflokka.

Í fyrsta flokki verði svokölluð þjóðfélagsleg verkefni sem skipta alla þjóðina máli en ekki einstök kjördæmi. Eitt slíkt verkefni er einmitt Reykjanesbrautin milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Sá vegur er ekkert sérmál Reykjaneskjördæmis. Hann er vegur sem varðar alla þjóðina því að um þennan veg fara allir íbúar þessa lands á leiðinni til og frá Keflavíkurflugvelli. Þess vegna er þessi vegarframkvæmd ekkert sérmál Reykjaneskjördæmis. Sem slík á hún því ekki heima á dagskrá þegar þm. Reykn. eru að koma saman til þess að deila því takmarkaða fé sem því kjördæmi hefur verið ætlað, heldur á að útvega fjármagn til þessa verkefnis svo sem annarra þjóðfélagslegra vegaverkefna án tillits til kjördæmapots.

Í öðru lagi á að flokka vegi sem tilheyra landshlutum og eru eðlilegar framkvæmdir vegna samgangna innan landshluta. Í stað þess að láta þm. kjördæmanna ásamt sérfræðingum Vegagerðarinnar í Reykjavík um að ákveða hvernig eigi að verja fé til hinna ýmsu vegaframkvæmda í hinum ýmsu landshlutum á að sjálfsögðu að fela heimamönnum þetta verkefni, þ.e. yfirstjórn viðkomandi landshluta sem gæti hæglega verið sveitarstjórnarmenn eða nefndir þeirra. Þær eiga að taka um það ákvarðanir með hvaða hætti framkvæmdum skuli háttað og í hvaða forgangsröð innan viðkomandi landshluta.

Í þriðja flokki kæmu síðan sýslu- og sveitavegir í líkingu við það sem verið hefur.

Þessi lýsing sem ég hef komið hér með, þ.e. hvernig þessu er háttað eins og núverandi lög gera ráð fyrir, er aldeilis ófullnægjandi að mínu viti og leiðir beinlínis til þess að oft er um rangar ákvarðanir í vegaframkvæmdum að ræða.

Þetta vildi ég segja með hliðsjón af orðum hæstv. ráðherrans þegar hann var að fjalla um tillöguflutning sem slíkan, að leggja til að fé verði veitt til ákveðinna vegaframkvæmda. Að ekkert fari á milli mála að till. er einmitt í samræmi við skoðanir okkar og stefnumörkun okkar í samgöngumálum sem byggir á allt öðrum ákvarðanagrunni en nú er viðhafður. Það kann vel að vera að það kalli á það að við munum þá flytja brtt. við nefnd lög um vegaframkvæmdir sem hæstv. ráðherrann gat um áðan.

Að lokum vil ég þakka fyrir annars málefnalega umræðu um þessa till. okkar og ég hef sannfærst um að hæstv. ráðherra er sammála okkur um það að þessi framkvæmd er nauðsynleg. Hugsanlega greinir okkur á um tímasetningu hennar. Ég vil þó aðeins minna hæstv. ráðherrann á að í grg. okkar kemur fram að mesta dagsumferð á Reykjanesbraut er komin yfir 5000 bíla. Ég spái því að það verði örskammur tími, hugsanlega ekki nema tvö til þrjú ár þangað til þessi dagsumferð er komin yfir 8000 bíla markið.

Að lokum vil ég taka undir og styðja þá tillögu að þáltill. sem slíkri verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.