29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5087 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

108. mál, opinber ferðamálastefna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í tillgr. er talað um að hraðað verði störfum nefndar sem skipuð var í júní 1987 til þess að undirbúa slíka stefnumörkun, þ.e. stefnumörkun í ferðamálum.

Það hagar þannig til að þessi nefnd var sett saman á sl. sumri og fyrir eindregin tilmæli fyrrv. samgrh. tók ég að mér formennsku í nefndinni. Nefndin hóf störf á sl. hausti, hélt nokkra fundi, athugaði þetta mál og sendi út erindi til nokkurra aðila. En á miðju síðasta sumri urðu stjórnarskipti eins og kunnugt er. Ég hafði því samband við hæstv. núv. samgrh. í upphafi þessa þings og innti hann eftir því hvort sú nefnd sem hér um ræðir ætti að halda áfram störfum. Hann talaði þá um að rétt væri að fara hægt í það á meðan verið væri að athuga ný viðhorf í þessum málum.

Ég mun að sjálfsögðu haga mínum störfum í samvinnu eða samráði við ráðuneyti og hæstv. núv. samgrh. En þar sem ég hygg að ýmsir viti að þessi nefnd er til og e.t.v. einnig að ég sé formaður hennar, þá vildi ég láta það koma fram, því að nefndin mun að sjálfsögðu ekki starfa neitt að ráði nema í samráði við þá aðila sem ég nefndi.