29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5094 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Frsm. atvmn. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég harma að hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur ekki lesið þessa tillögu nægilega vel. Tillgr. er svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á kostnaði við að lýsa upp Suðurlandsveg“ o.s.frv.

Það stendur nú ekkert til að fara að gera þetta á morgun. Þetta er könnun og upplýsingar, en að sjálfsögðu kemur einhvern tímann að því að þetta verði gert, vonandi sem fyrst. Það þarf að afla tekjustofna til þessa verks og það þarf víðar ljós eins og ég gerði grein fyrir í framsögu þegar ég mælti fyrir málinu fyrr á þinginu. Það þarf að sjálfsögðu að lýsa upp fleiri vegi en þennan. En þarna er aðeins um að ræða að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á kostnaðinum og leita leiða við framkvæmd verksins.