29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5095 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Sjálfsagt er hér um mjög gott mál að ræða og ekkert við það að athuga að menn hafi áhuga fyrir að auka öryggi í umferðinni á þennan hátt. En það sem kemur mér til að ganga hér upp er fyrst og fremst það að mér finnst að atvmn. hafi horft fram hjá vissum staðreyndum í þessum máli. Þá á ég við að ef talið er nauðsynlegt að Alþingi geri ályktun um þennan þátt, lýsingu þessa vegar, hefði verið miklu nær að útfæra þetta nánar þannig að það yrði þá gerð úttekt á kostnaði og möguleikum á því að lýsa upp helstu vegi í gegnum eða við þéttbýli eða milli þéttbýlisstaða. Ég nefni hættulega vegi milli staða, t.d. veginn frá Ísafirði til Hnífsdals og Bolungarvíkur. Ég nefni vegi milli þéttbýlisstaða eins og Ólafsvíkur og Rifs og Hellissands. Ég nefni vegi eins og Keflavíkurveginn. Og síðast en ekki síst veginn upp í Mosfellssveit sem margumtalaður er. Það hefði verið eðlilegt finnst mér að ef Alþingi fer að hafa afskipti af þessum málum á þennan hátt, að lýsa yfir vilja sínum, þá hefði átt að taka þetta talsvert víðtækar og láta þá gera allsherjarkönnun á því og setja það upp í einhverja forgangsröð af vegagerðarmönnum hvað væri hægt að gera í þessum málum. Ég geri ekki ráð fyrir að þm. Suðurlands, sem hafa að sjálfsögðu og eðlilega mikinn áhuga fyrir þessu máli, ætlist til þess að farið verði að rýra þeirra skammt af nýbyggingarfé með því að nota það í lýsingu veganna. Þeir hafa sjálfsagt ætlast til að það yrði gert á annan hátt og nefndin hefur að sjálfsögðu tekið undir það og þess vegna finnst mér að hún hefði átt að taka málið á þennan hátt um leið.