29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5095 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því hvernig unnið hefur verið að þessum tveim síðustu tillögum sem hér hafa verið lagðar fram til afgreiðslu. Sjálfsagt eru þær báðar góðra gjalda verðar. En hingað til hefði ég haldið að þegar formenn nefnda hafa afgreitt mál út úr nefnd og þm. nefndarinnar undirritað það, þá hljóti aðrir þm. að ætlast til að þessi mál hafi komið til umræðu í þingflokkunum og grænt ljós verið gefið fyrir afgreiðslu þeirra. Það er auðvitað alveg fráleitt að nefndir skili hér nál. sem samþykkt hafa verið af öllum nefndarmönnum og síðan kemur einn þm. eftir annan úr hinum ýmsu þingflokkum og mótmælir harðlega afgreiðslu málsins. Ég held að við hljótum að verða að treysta því þegar mál koma úr nefndum að um þau hafi verið fjallað í þingflokkum og stuðningur viðkomandi þingflokka liggi að baki. Annars er hér eingöngu um að ræða mál örfárra þm.

Ég vil vekja athygli á því að í þessari umræddu tillögu, sem vissulega er allra góðra gjalda verð, eru fjórir af fimm hv. þm. sem undirrita nái. af Suðvesturlandi. Vitaskuld vitum við öll að framkvæmdir á borð við þessa eru brýn nauðsyn í öllum kjördæmum þannig að ég get vel skilið hv. þm. landsbyggðarinnar sem e.t.v. telja þetta mál ekki meira forgangsverkefni en svo mörg önnur.

En þess vegna kom ég nú hingað, virðulegi forseti, að ég kannast ekki við að um þessi mál hafi t.d. verið fjallað í mínum þingflokki og eru þó fulltrúar frá okkur að báðum málunum. Ég vil mælast til þess að það verði brýnt fyrir hv. þm. að ræða mál í þingflokkunum áður en þau koma hér inn í þingsali til afgreiðslu.