29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Mig langar að lokum að gera örstutta athugasemd varðandi sölu Dagstjörnunnar til Útgerðarfélags Akureyringa, en fram hefur komið að útborgun í skipið muni greiðast með skreið. 20 millj. kr. útborgun í skipið verður greidd með skreið sem Útgerðarfélag Akureyringa ætlar að afhenda fyrri eiganda skipsins. Þessi sami eigandi skipsins, sem nú er að selja skipið til Akureyrar, mun skulda Suðurnesjamönnum miklu hærri upphæðir fyrir skreið sem þeir hafa lagt inn til hans og falið honum til sölu. Það má vel vera að hér sé lagalega rétt að farið en ég vil bara vekja athygli á því að mér finnst þetta siðferðilegt hneyksli ef það er svo að hægt er að kaupa skipið með því að greiða fyrstu útborgun með skreið en sami aðili, sem er að selja skipið, skuldar heimamönnum á Suðurnesjum miklu hærri upphæðir fyrir skreið.