29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5096 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Frsm. atvmn. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Vegna gagnrýni ýmissa þm. vildi ég enn undirstrika eins og ég gat um áðan þegar ég svaraði: Þetta er fyrst og fremst að gera könnun á kostnaði, en líka, jú, eins og bent hefur verið á að leitað verði leiða til framkvæmda við verkið. Að sjálfsögðu verður ekki farið í þetta verk fyrr en fé liggur til þess og þá fyrst og fremst að sunnlenskir þm. verði sammála um að fara í þetta verk. Og verði ekki búið að finna aðra tekjustofna þá liggur það ljóst fyrir að það verður af vegafé. En ég gat þess í minni frumræðu hér um þetta mál fyrr á þinginu að æskilegt væri að finna tekjustofna til að lýsa upp vegi. Og ég gat þess líka þá, og nefndi ýmsa vegi sem m.a. hv. 1. þm. Vesturl. nefndi hér áðan, sem þyrfti að lýsa ásamt Hellisheiðinni. En Hellisheiðin er mjög mikil umferðaræð og eina umferðaræðin til Suðurlands. Þarna eru oft vond veður og þarna hafa orðið hættuleg slys. Þess vegna mælir margt með því að í þetta verði farið sem allra fyrst.

Það eru fleiri en þm. Suðurl. sem eru á þessari till. Nokkrir hv. þm. Reykv. eru og flm.till. Hún fékk stuðning í nefndinni, eins og kemur fram í nál., og ég vænti þess að till. verði samþykkt.