29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5097 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa nokkrar umræður spunnist um þessa till. Ég sé ekkert athugavert við það að þessi till. verði samþykkt. Fjallvegir eru misjafnlega dimmir og eðlilegt að hver hugsi um þann veg sem hann fer oftast. En vitanlega verður það þá að koma niður á fjárveitingunum eftir því sem viðkomandi þm. raða þeim niður.

Það eru auðvitað sumar heiðar bjartari en aðrar. Ég get þess að gamni mínu t.d. að það er svo með Laxárdalsheiði í Dölum að þegar farið er yfir hana til Hrútafjarðar þá birtast ljósin í Hrútafirðinum um leið og þau hverfa í Laxárdalnum. Það eru sennilega ekki allar heiðar svo bjartar. En auk þessa get ég ekki stillt mig um annað en minna á það gamalkunna heilræði að það er líka dálítið gott fyrir vegfarendur ef þeir sem búa nálægt vegi láta lifa ljós í glugganum. Og ég ætla að enda þessi orð mín með því, með leyfi hæstv. forseta, að fara með vísu eftir borgfirskan bónda, sem hann svaraði eitt sinn vini sínum, þegar hann bauð honum heim til sín um kvöld í Reykjavík:

Ég mun ugglaust til þín tifa

tám úr skugganum.

En verði mugga láttu lifa

ljós í glugganum.