29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5098 í B-deild Alþingistíðinda. (3453)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með flm. þessarar þáltill. á þskj. 111 um að setja upp lýsingu á Suðurlandsvegi um Hellisheiði.

Ég held að það sé öllum ljóst að við höfum tæplega efni á, jafnvel þó þm. kjördæmisins kæmu sér saman um að fjárveitingin rynni öll í það verk, þá höfum við tæplega efni á að fara í þessa framkvæmd nú. Ég held að það liggi alveg jafnljóst fyrir að við verðum í framtíðinni að lýsa upp fjallvegi okkar. Ég held að það sé alveg ljóst að það komi að því að þessir dimmu vegir milli landshluta verði upp lýstir. Við höfum til þess orkuna. Og ég sé ekkert að því að ríkisstjórninni verði falið að kanna á þessu stigi máls, á þessum tímamótum sem við erum á núna, árið 1988, að það sé farið að kanna kostnaðinn við það og hugsa til þess að í framtíðinni verði þetta gert. Og vonandi verður ekki langt þangað til að farið verður að framkvæma í þessum málum.

Ef það liggur fyrir einhver kostnaðaráætlun, einhver niðurstaða sem er í þá átt sem till. gerir ráð fyrir, á vegum Vegagerðarinnar þá er það ágætt, þá er það minna verk að gera hana nútímalegri, hafa hana til dagsins í dag eða kannski eitthvað til framtíðar. Og það er fyllilega tímabært eins og till. segir til um að fara að leita leiða til að framkvæma verkið. Hér er ekki talað um annað en bara að athuga málin með því hugarfari að það hlýtur að koma að því einhvern tíma í náinni framtíð að þessar nauðsynlegu framkvæmdir verði settar í gang og að við verðum að hugsa til leiða til að framkvæma þær. Og það sem gerir till. góða er að hún er ekki um að hlaupa í framkvæmdir þegar í stað. Hún er till. um að búa okkur undir framtíðina.

Þess vegna mæli ég eindregið með þessari till. eins og hún liggur frammi og bið mína samflokksmenn um að styðja hana. Ég skil ekki hvers vegna menn mæla á móti þessari till., nema það sé af öfund, af því þeir hafi ekki verið beðnir um að vera meðflm.