29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5102 í B-deild Alþingistíðinda. (3457)

264. mál, húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki vegna þess að ég hafi mikið við þáltill. á þskj. 563 að bæta, en þar er gert ráð fyrir að kannað verði og heilbrmrh. falið að leita nú þegar leiða til að leysa húsnæðisvanda aðstandenda sjúklinga sem þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimilum sínum. Ég reikna þá með að hér sé ekki átt við langdvölum í Reykjavík eingöngu. Það eru sjúkrahús víðar á landinu, fjórðungssjúkrahús og hvað annað.

Ég vil ekki að þessi till. fari í afgreiðslu til nefndar án þess að taka undir hana. Ég held að hún sé góð. Við vitum að vandi sá sem hv. frummælandi taldi upp er til staðar, er mikill og það er kostnaðarsamt fyrir aðstandendur að fylgja sjúklingi, hvort sem það er barn eða fullorðið, til sjúkrahúsdvalar tímabundið eða til langs tíma. Því held ég að við getum reiknað með að hjartalag þm. almennt sé þannig að þessi tillaga verði tvímælalaust samþykkt. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur þm. sé hér, eða ég treysti mér ekki til að benda á neinn þm., sem ekki mundi leggja þessari þáltill. Kvennalistans lið. Alla vega vil ég lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því að Borgarafl. styðji þessa till.