29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5109 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur undanfarnar vikur haft í undirbúningi ráðstafanir til þess að treysta stöðu útflutningsatvinnugreina og samkeppnisiðnaðar og jafnframt í þeim tilgangi að draga úr þenslu til þess að freista þess að lækka viðskiptahalla og draga úr erlendri skuldasöfnun. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var tekin ákvörðun um að þessar efnahagsráðstafanir, sem þannig eru gerðar til þess að styrkja stöðu útflutningsframleiðslunnar og draga úr þenslu, tengdust niðurstöðu kjarasamninga þannig að heildarákvarðanir í þessum efnum gætu legið fyrir á einum og sama tíma. Ríkisstjórnin hefur á fundi sínum í dag tekið ákvarðanir í þessum efnum og gefið út svohljóðandi yfirlýsingu:

Ríkisstjórnin hefur ákveðið samstilltar aðgerðir á sviði gjaldeyrismála, ríkisfjármála og lána- og peningamála. Tilgangur aðgerðanna er að bæta starfsskilyrði útflutningsatvinnuveganna og hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Einn þáttur þessara aðgerða er lækkun á gengi krónunnar um 6% sem Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar. Stefnan í gengismálum verður framvegis við það miðuð að gengi krónunnar verði haldið stöðugu. Á grundvelli stefnunnar í gengismálum og með þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir mun draga úr verðbólgu á síðari hluta ársins. Forsenda þess er að þeirri almennu stefnu, sem mörkuð hefur verið í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið gerðir, verði fylgt í öðrum samningum.

Aðgerðir til að bæta stöðu útflutningsgreina:

1. Uppsafnaður söluskattur verður að fullu endurgreiddur fyrirtækjum í fiskvinnslu og útgerðum skipa sem greiðsluskyld eru til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, þó ekki vegna sjófrystingar og útflutnings á óunnum fiski. Endurgreiðsla þessi nemur 587 millj. kr. umfram það sem fjárlög ársins 1988 gera ráð fyrir.

2. Launaskattur í sjávarútvegi og samkeppnisgreinum iðnaðar fellur niður frá 1. júlí 1988. Þessi aðgerð svarar til 200 millj. kr.

3. Skuldum sjávarútvegsfyrirtækja við ríkissjóð og greiðslum vegna lána ríkissjóðs sem afgreidd voru frá Fiskveiðasjóði 1984 verður breytt í lán til lengri tíma. Áætlað er að skuldbreytingar þær sem hér um ræðir létti greiðslustöðu þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga um 370 millj. kr. á árinu 1988.

4. Áfram verður unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í útflutningsgreinum í samstarfi við viðskiptabanka, Byggðastofnun og aðrar lánastofnanir.

5. Seðlabankinn beitir sér fyrir því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að vaxtamunur, sem bankarnir taka vegna gengisbundinna afurðalána, lækki um a.m.k. 0,25%. Seðlabankinn beitir sér einnig fyrir því að umsjónar- og eftirlitsgjald vegna afurðalána verði lækkað í fyrra horf hjá þeim bönkum sem hækkuðu gjaldið árið 1987.

6. Seðlabankinn mun beina því til bankanna að þeir leysi með sveigjanlegum hætti rekstrarvandamál þeirra fyrirtækja sem þurfa á afurðalánafyrirgreiðslu umfram 75% af verðmæti birgða að halda.

7. Tilhögun á greiðslu vaxta- og geymslugjalds sauðfjárafurða verður endurskoðuð.

8. Olíuverð lækkar 1. mars með hliðsjón af stöðu innkaupajöfnunarreiknings, verði birgða og horfum um þróun olíuverðs á alþjóðamarkaði.

Bætt starfsskilyrði launafólks:

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks og mun ríkissjóður leggja fram fé á árinu 1988 í þessu skyni. Ákvæði laga og reglugerðar um greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fastráðins fiskvinnslufólks verða endurskoðuð í samráði við hlutaðeigandi samtök.

Aðgerðir til að hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun:

Ríkisútgjöld verða lækkuð um 300 millj. kr. á þessu ári. Útgjöld til vegamála lækka um 125 millj. kr. Framlög í byggingarsjóði ríkisins lækka um 100 millj. kr. Önnur útgjöld lækka um 75 millj. kr. Áformum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verður frestað um ár. Við það styrkist fjárhagur ríkissjóðs um 267 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 1988. Gjald á erlendar lántökur verður tvöfaldað. Tekjuskattur félaga verður hækkaður. Samanlagt skila þessar ákvarðanir ríkissjóði 290 millj. kr. á árinu. Gjald á erlendar lántökur fellur niður frá og með næstu áramótum. Erlendar lántökur fjárfestingarlánasjóða og ýmissa annarra aðila verða lækkaðar um 300 millj. kr. Lántökur opinberra aðila eru lækkaðar um 100 millj. kr., þar af hjá Landsvirkjun um 75 millj. kr. og Þróunarfélagi Íslands um 25 millj. kr. Þá er lántökuheimild til smíði Herjólfs lækkuð um 25 millj. kr. Erlendar lántökur atvinnuvegasjóða eru lækkaðar um 175 millj. kr., þar af hjá Fiskveiðasjóði vegna útlána 75 millj., hjá Iðnlánasjóði 75 millj. kr. og hjá Iðnþróunarsjóði um 25 millj. kr.

Fylgt verður fast eftir framkvæmd gildandi reglna um erlendar lántökur. Hvað varðar lán sem háð eru sérstökum leyfum verður við það miðað að heildarfjárhæð slíkra lánsheimilda verði haldið innan tiltekinna marka á hverjum ársfjórðungi.

Fiskveiðasjóði verður falið að fresta svo sem framast er unnt lánveitingum til nýsmíði og kaupa á fiskiskipum. Ríkisstjórnin mun beina því til sveitarfélaga og annarra framkvæmdaaðila að dregið verði úr framkvæmdum eftir því sem föng eru á. Mun ríkisstjórnin óska eftir viðræðum um þetta við Samband ísl. sveitarfélaga og aðra viðkomandi aðila. Vextir og fjármagnsmarkaður:

Nafnvextir innlánsstofnana lækka almennt 1. mars um 1–4% eða um 2% að meðaltali. Seðlabankinn hefur ákveðið að lækka eigin vexti í viðskiptum við innlánsstofnanir um 2%. Fjmrn. hefur ákveðið frekari lækkun forvaxta ríkisvíxla um 1%. Í kjölfar efnahagsaðgerðanna verða raunvextir á spariskírteinum ríkissjóðs lækkaðir. Seðlabankinn mun beina því til innlánsstofnana að þær reikni dráttarvexti sem dagvexti í stað þess að reikna fulla mánaðarvexti fyrir brot úr mánuði. Ákvæði laga um dráttarvexti verða síðan endurskoðuð. Lagt verður fram frv. um starfsemi fjármálastofnana annarra en innlánsstofnana sem m.a. tryggi hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum. Jafnframt verður lagt fram frv. um skattskyldu fjárfestingarlánasjóða og veðdeilda banka. Með þessum aðgerðum eru sköpuð bætt skilyrði fyrir jafnvægi í þjóðarbúskapnum sem er undirstaða framfara og batnandi lífskjara.

Þetta er sú yfirlýsing sem ríkisstjórnin hefur gefið út í dag og í henni felast þær ákvarðanir sem nú hafa verið teknar. Þær fela í sér breytingar á fjárlögum og lánsfjárlögum. Hæstv. fjmrh. mun í framhaldi af þessum ákvörðunum flytja frv. hér á hinu háa Alþingi, sem lagt verður fram á morgun, sem felur í sér breytingar á fjárlögum og lánsfjárlögum í samræmi við þær ákvarðanir sem hér hafa verið teknar.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa að undanförnu setið við samningaborð og lokið samningsgerð. Samningar eru nú til meðferðar hjá verkalýðsfélögum og eru bornir undir fundi verkalýðsfélaganna. Í þessum samningum hefur verið leitast við að bæta stöðu þeirra sem eru í lægri hluta launastigans. Jafnframt hefur verið að því stefnt með þessum samningum að þeir gangi ekki gegn því markmiði að verðbólga geti lækkað á árinu og í þriðja lagi að þeir komi ekki í veg fyrir að unnt verði að bæta rekstrarskilyrði útflutningsgreinanna í landinu.

Augljóst er, þegar þjóðartekjur minnka og hallarekstur hefur verið á helstu útflutningsgreinum, að erfitt er um vik að samræma þessi markmið í heild sinni. Ég tel að eftir atvikum hafi tekist vel til með þá kjarasamninga sem fyrir liggja og af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þess verið freistað að bæta svo sem nokkur kostur er stöðu útflutningsframleiðslunnar. Hér er um að ræða verulega lækkun á sköttum sem leggjast á kostnað útflutningsframleiðslunnar. Samtals lækka þessir skattar um tæpar 800 millj. kr., en á móti koma skattar sem leggjast á tekjur og skattur sem leggst á erlent fjármagn sem tekið er inn í landið, um tæpar 300 millj. kr. Í heild er hérna um að ræða nettóskattalækkun um 500 millj. kr.

Ráð er fyrir því gert að sú gengisbreyting sem hér hefur verið gerð, sú lækkun á sköttum sem gerð hefur verið í þágu útflutningsframleiðslunnar og sú skuldbreyting sem ákveðin er bæti rekstrarstöðu sjávarútvegsins um rúma 3 milljarða kr. á þessu ári.

Ráð er fyrir því gert að verðbólga hækki um rúmlega 15% frá upphafi til loka þessa árs miðað við þær forsendur sem gengið er út frá eftir þessar ráðstafanir og í ljósi þeirra kjarasamninga sem fyrir liggja. Einkaneysluútgjöld í heild munu væntanlega dragast saman og gæti samdrátturinn numið 1,5%.

Ljóst er að einn meginvandinn sem við höfum átt við að etja er vaxandi viðskiptahalli. Við þær aðstæður sem við búum við er um margt erfitt að ráðast til atlögu við þennan vanda, ekki síst vegna þess að óhjákvæmilegt hefur verið að bæta launakjör þeirra sem lakast eru settir í þjóðfélaginu og reikna má með að launahækkanir fari upp launastigann að verulegu leyti í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kjarasamningum.

Þjóðhagsstofnun hefur í sínum vinnugögnum reiknað með því að viðskiptahallinn áður en til aðgerða var gripið gæti orðið um 13–14 milljarðar á þessu ári. Með þessum ráðstöfunum er þess vænst að dregið verði úr viðskiptahalla um a.m.k. 3 milljarða kr. þannig að viðskiptahallinn verði rúmir 10 milljarðar eða um 4,5% af landsframleiðslu. Þessi viðskiptahalli er of mikill og ekki viðunandi til frambúðar, en hér hefur verið stigið fyrsta skrefið til að ná þessum halla niður samhliða því að ákvarðanir eru teknar sem miða að lækkun verðbólgu. Þau bættu skilyrði í þjóðarbúskapnum eiga að gefa okkur vonir um að við getum stigið markvisst fleiri skref í þessu efni eftir því sem betra jafnvægi næst á öðrum sviðum í þjóðarbúskapnum og náð fullum jöfnuði áður en of langt um líður.

Að því er varðar áhrif þessara aðgerða á afkomu sjávarútvegsins var reiknað með því að fiskvinnslan að meðaltali væri tekin með 5% tapi í janúar eins og Þjóðhagsstofnun hefur metið rekstrarskilyrði sjávarútvegsins. Með þessum ráðstöfunum er þetta tap að meðaltali komið niður í 1,5%. Það er þess vegna ljóst að fiskvinnslan að meðaltali býr áfram við mjög þröngan kost. Auðvitað er hér um að ræða meðaltalstölur. Ýmis fyrirtæki eru sjálfsagt verr stödd en önnur þá rekin með hagnaði miðað við þessi skilyrði. En hér hefur verið stigið mjög verulegt skref í þá veru að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins.

Þess er að vænta að um leið og verðbólga lækkar lagist staða útflutningsframleiðslunnar og hún eigi þá hægara um vik að ná tökum á þeim rekstrarvanda sem hún stríðir við og þjóðarbúið í heild eigi þá hægara um vik að bregðast við þeim vanda. Auðvitað er það óþolandi að höfuðatvinnugreinar landsmanna séu reknar með halla til lengri tíma. En við þessar aðstæður skiptir mestu máli að aðgerðir í efnahagsmálum í heild miði að því marki að ná niður verðbólgu. Koma í veg fyrir stöðugar kostnaðarhækkanir innan lands. Höfuðvandi útflutningsframleiðslunnar felst í því að við höfum búið við of mikla verðbólgu. Höfuðkrafa útflutningsframleiðslunnar hlýtur því að vera sú að ná verðbólgunni niður. Með þeim kjarasamningum, með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, í ríkisfjármálum og peningamálum sem gerðar hafa verið á okkur að takast að ná verðbólgu niður á þessu ári frá því sem hún hefur verið að undanförnu.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera í aðalatriðum grein fyrir þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið í dag. Frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum, sem er bein afleiðing af þessum ákvörðunum, verður lagt fram hér á Alþingi á morgun og væntanlega munu efnisumræður um einstök atriði sem þá þætti varða fara fram undir þeim dagskrárlið þegar frv. kemur til meðferðar á hinu háa Alþingi.