29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5113 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það eru ekki nema tveir klukkutímar eða svo síðan við fengum upplýsingar um til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hygðist grípa í tengslum við þá kjarasamninga sem núna hafa nýlega verið undirritaðir. Þess vegna er þess ekki að vænta að við eigum kost á því að meta þessar ráðstafanir í einstökum atriðum, enda munu fara fram umræður um þessi mál í einstökum atriðum næstu daga í tengslum við þingmál sem hæstv. ríkisstjórn mun leggja fyrir á Alþingi. Hins vegar eru nokkur atriði þegar skýr í þessum efnum og nauðsynlegt að mínu mati að ræða þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem hér eru kynntar í tengslum við kjarasamningana sem nýlega hafa verið undirritaðir og eru nú til meðferðar í verkalýðsfélögunum.

Það sem liggur fyrir varðandi kjarasamningana er að mínu mati þrennt: Það er í fyrsta lagi að kaupmáttur lægstu launataxta mun ekki hækka heldur lækka. Kaupmáttur allra lægstu launataxtanna mun lækka frá nóvember 1987 til nóvember 1988 um 810%. Í öðru lagi er ljóst á þessum kjarasamningum að verðtryggingin er mjög veik í samningunum. Í þriðja lagi liggur einnig fyrir að í þeim eru margvíslegir þættir sem erfitt er að meta, t.d. aldurshækkanir, breyting á orlofi og yfirvinnu. Allt eru þetta þættir sem skipta verulegu í kjörum fólks en erfitt að meta í einstökum atriðum. Aðalatriðið er þó það: Kaupmáttur lægstu taxtanna lækkar.

Í annan stað hljótum við í þessu sambandi síðan að horfa á ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Þær eru í fyrsta lagi gengislækkun um 6%. Þar með er fastgengisstefnan, sem var kynnt sem hornsteinninn undir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, hrunin. Fastgengisstefnan er úr sögunni, heyrir sögunni til sem áróðursbragð sem var sett upp fyrir kosningarnar 1987, haldið áfram fram eftir árinu 1987 og fram á árið 1988. Sú stefna er hrunin.

Í öðru lagi kynnir hæstv. forsrh. ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það á að endurgreiða söluskatt til sjávarútvegs. Ríkisstjórnin er hætt við að leggja launaskatt á. Það á að fella hann niður á samkeppnisgreinum í sjávarútvegi frá og með 1. júlí nk. Þetta er áfangi, þetta er viðurkenning á því að ríkisstjórnin gerði mistök við skattaákvarðanir sínar á sl. ári. En það er hrapallegt til þess að vita að í raun er það láglaunafólkið sem borgar þessa skattalækkun til sjávarútvegsins. Það er matarskattur sem er tekinn til að greiða niður vanda sjávarútvegsins í landinu.

Í þriðja lagi fylgja þessum ákvörðunum upp á 700–800 millj. kr. útgjöld úr ríkissjóði ákvarðanir um að skera niður vissa þætti í útgjöldum ríkissjóðs. Það er í fyrsta lagi 100 millj. kr. framlag til Byggingarsjóðs ríkisins, í öðru lagi 125 millj. kr. til Vegagerðar ríkisins og í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að leggja skatt á sveitarfélögin. Ríkisstjórnin ákveður að hætta við áform sín um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og í stað þess að skila sveitarfélögunum þessum peningum, eins og hefði átt að gera samkvæmt verkaskiptingunni eins og hún var, hirðir ríkisstjórnin þá alla í ríkissjóð. Þetta eru kaldar kveðjur til sveitarfélaganna sem þessa dagana eru að ganga frá sínum fjárhagsáætlunum, m.a. að reyna að ná endum saman til að aura einhverju upp í verklegar framkvæmdir eða þjónustuverkefni eins og t.d. dagvistarstofnanir. Í rauninni er þátturinn um sveitarfélögin í þessum yfirlýsingum, sem hér hafa komið fram frá hæstv. forsrh., einn ljótasti kaflinn í þessum ráðstöfunum og í rauninni er meðferðin á félmrn., bæði að því er varðar sveitarfélögin og húsnæðismálin, hrikaleg í þessu dæmi.

Fjórði þátturinn varðandi tekjuöflun ríkisins eru svo lántökugjöld á erlendar lántökur sem eru skynsamleg ráðstöfun og sömuleiðis sú ákvörðun að auka við skatta á þau fyrirtæki sem hafa grætt í góðæri undanfarinna ára. Skattar á félög og lántökugjöld er talið að munu gefa um 290 millj. kr. Það er skynsamlegt út af fyrir sig.

Síðasti þátturinn í þessum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar er svo aftur það að hún gerir ráð fyrir því að breyta vöxtum með pólitískri ákvörðun sinni. Þar er allt of skammt gengið. Þar munu atvinnuvegir og einstaklingar áfram bera hrikalega þunga vaxtabyrði. Staðreynd er engu að síður hitt, að þetta er í fyrsta sinn sem ákvæði gildandi laga eru notuð til að fyrirskipa vaxtalækkun. Ég tel að það sé mikilvægt atriði, mikilvægur áfangi í sókn gegn frjálshyggjumönnunum sem sögðu í þinginu fyrir nokkrum dögum: Það má undir engum kringumstæðum taka ákvörðun um að lækka vextina.

Niðurstaða mín, herra forseti, eftir að hafa horft á þessi mál núna aðeins skamma stund, er þessi:

1. Kaupmáttur lægstu launa er fyrir neðan allar hellur og fer lækkandi og við þessar aðstæður er bæði rökrétt og eðlilegt að fram komi tillögur og hugmyndir um að lögbinda hærri lágmarkslaun þar sem ljóst er að verkalýðshreyfingin í landinu virðist ekki hafa afl til þess að verja kjör láglaunafólksins.

2. Annað verður ekki séð en að ríkisstjórnin leysi ekki meginvanda atvinnuveganna á þessu ári og þá á ég sérstaklega við vanda frystingarinnar. Hún hefur orðið að þola vegna frelsisins í vaxtamálum 70% hækkun á sínum vöxtum frá því sem var í lok ársins 1986. Ég tel ekki að vandi frystingarinnar sé í rauninni leystur með þessum ráðstöfunum. Þvert á móti ætla ég að spá því, herra forseti, að vandinn muni enn fara vaxandi þegar líður á árið og ríkisstjórnin muni jafnvel síðar á þessu þingi leggja fram nýjar tillögur um ráðstafanir í efnahagsmálum.

Þessi yfirlýsing, sem ég setti á blað þegar ég hafði séð textann, staðfestist enn þá betur í ræðu hæstv. forsrh. þar sem hann viðurkennir að þrátt fyrir þessar ráðstafanir verði viðskiptahalli á þessu ári sennilega í kringum 10 milljarðar kr. og út úr tölum hans gat ég ekki lesið annað en það að frystingin yrði þrátt fyrir þessar ráðstafanir rekin með 4–6% halla miðað við stöðuna eins og hún er í dag.

3. Ráðstafanirnar eru fálmkenndar. Þær skortir heildarsvip. Þær eru líka afurð ríkisstjórnar sem er ósamstæðari en flestar aðrar ríkisstjórnir sem setið hafa hér frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Ráðstafanirnar eru langt frá þeim yfirlýsingum sem t.d. ráðherrar Framsfl. hafa gefið á undanförnum árum um óhjákvæmilegar aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum.

Í fjórða lagi er ljóst að ráðstafanirnar fela í sér hrikalega meðferð á sveitarfélögunum og reyndar á málaflokkum félmrh. sérstaklega, bæði Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Byggingarsjóði ríkisins.

Í fimmta lagi er ljóst: Ríkisstjórnin viðurkennir: Fastgengisstefnan er hrunin, grunnur hennar í rauninni löngu hruninn.

Í sjötta lagi er hins vegar rétt að viðurkenna að ríkisstjórnin lýsir að nokkru leyti yfir uppgjöf sinni á ákveðnum sviðum með ákvörðunum sínum í vaxta- og skattamálum, en þar er skemmra gengið en þurft hefði að vera.

Herra forseti. Við blasir alls staðar misvægi, ranglæti og vaxandi launamisrétti í þessu þjóðfélagi þar sem einn krefst 30 millj. kr. í launauppbót á fimm árum meðan það tekur aðra þúsund mánuði eða 83 ár að vinna fyrir sömu upphæð. Og þó situr ríkisstjórn í landinu þar sem jafnaðar- og samvinnumenn ættu að geta haft tögl og hagldir.