29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5116 í B-deild Alþingistíðinda. (3467)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Sem aðrir þm. stjórnarandstöðunnar höfum við ekki haft mikinn tíma til að skoða og íhuga þessar tillögur ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir, en það þarf ekki að eyða miklum tíma í að lesa það plagg sem hæstv. forsrh. kynnti fyrir þingheimi áðan. Ríkisstjórnin hefur ekki náð neinum tökum á efnahagsmálunum þrátt fyrir þessar aðgerðir.

Það læðist sá grunur að að hér sé um að ræða ráðstafanir eða tillögur til að reyna að blekkja sérstaklega verkalýðinn í landinu sem gengur nú til kosninga um gerða kjarasamninga. Það er ekki örgrannt um að það sé verið að reyna að telja fólki trú um að með þessu fari allt að ganga betur. Þegar betur er að gáð sýnist mér að það verði þvert á móti, að horfur séu á að nú fari að ganga miklu verr.

Ef staldrað er við 6% gengisfellingu er alveg ljóst að með henni einni saman er tekið til baka allt það sem náðist í kjarasamningunum sem undirritaðir voru af hálfu samninganefndarinnar rétt fyrir helgina. Launafólkið þarf ekkert að fara í grafgötur með það að með þessum aðgerðum er búið að taka allt til baka sem náðist í kjarasamningunum.

Það var skelfilegt að heyra þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. kom með áðan, að viðskiptahallinn stefni í 13–14 milljarða kr. og þrátt fyrir þessar efnahagsráðstafanir verði hann eftir sem áður 10 milljarðar kr. Aðeins þessi eina upplýsing segir betur en álit annað að ríkisstjórnin hefur engin tök á efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ef farið er út í einstök atriði þessarar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir verkar það hjákátlega að tala um að verðlag og verðbólga muni nú lækka og það stefni ekki í nema 15% hækkun verðlags á árinu þegar þessar efnahagsaðgerðir miða þvert á móti að því að hækka verðlag.

Að vísu er margt jákvætt í þessum aðgerðum og munum við taka heils hugar undir það. T.d. er talað um að reynt verði að breyta skuldum sjávarútvegsfyrirtækja við ríkissjóð, lengja lán og bjóða upp á skuldbreytingar. Hér rifjast upp fyrir hv. þingheimi hugmyndir hv. 5. þm. Reykv. Alberts Guðmundssonar um pennastrikið margfræga og virðist vera að ríkisstjórnin hafi eitthvað gluggað í þær hugmyndir þegar hún var að semja þessar tillögur sínar.

Launaskattur í sjávarútvegi og í samkeppnisgreinunum, þ.e. samkeppnisgreinum iðnaðar, verður felldur niður frá og með 1. júlí 1988. Þegar frv. til laga um launaskatt var lagt fyrir þingið í haust voru þm. Borgarafl. á móti launaskatti. Að sjálfsögðu fengum við ekki stuðning við þær tillögur okkar, en okkur þykir þó vænt um að ríkisstjórnin hefur séð að sér og er nú sammála okkur hvað þetta atriði varðar.

Að það verði unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í útflutningsgreinum í samstarfi við viðskiptabanka, Byggðastofnun og aðrar lánastofnanir hlýtur að teljast jákvætt. Ef einhver leið er til þess að ná niður þessum hrikalega viðskiptahalla, sem virkar ógnvænlegur, verður að styrkja útflutningsgreinarnar, en leggja minni áherslu á hömlulausan innflutning eins og hér hefur verið undanfarin missiri og mánuði.

Seðlabankinn ætlar að beina því til bankanna að þeir leysi með sveigjanlegum hætti rekstrarvandamál þeirra fyrirtækja sem þurfa á að halda afurðalánafyrirgreiðslu umfram 75% af verðmæti birgða. Hér er verið að tala um að viðskiptabankarnir taki upp eðlilega viðskiptahætti gagnvart fyrirtækjum sínum og hljótum við að taka undir það.

Þá er talað um að breyta tilhögun greiðslu vaxta og geymslugjalds sauðfjárafurða eða að það verði endurskoðað. Við beinum því til ríkisstjórnarinnar að hún láti um leið endurskoða með hvaða hætti greiðslur fyrir sauðfjárafurðir berist til bænda. Við höfum verið að fást við eitt vandamál, sem er stórt hjá þeim sem eiga þar aðild að, en það er að bændur í Dýrafirði hafa enn ekki fengið greitt fyrir sínar sauðfjárafurðir. Væri óskandi að það væri reynt að leysa vandamál þessara bænda. Rifjast þá upp fyrir mér setning úr Gísla sögu. Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar, sagði Vésteinn í Gísla sögu.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks. Mun ríkissjóður leggja fram fé á árinu 1988 í þessu skyni. Enn fremur er talað um að endurskoðuð verði ákvæði laga og reglugerða um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fastráðins fiskvinnslufólks. Af hverju ekki iðnverkafólks? Af hverju ekki almenns verkafólks? Af hverju er það ekki haft með? Ég held að ríkisstjórnin ætti að kynna sér betur þáltill. þm. Borgarafl. í Sþ. um launabætur til hinna lægst launuðu því að mér segir svo hugur um, og þar er ég alveg sammála hv. 7. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, að að loknum þessum ráðstöfunum, þegar þær hafa náð fram að ganga, verður enn meira launamisrétti í landinu en verið hefur og það verður enn sárara fyrir láglaunafólkið að lifa í þessu landi.

Það er mjög athyglisvert að sjá að framlag í Byggingarsjóð ríkisins verður lækkað um 100 millj. kr. Við veltum því fyrir okkur hvort hér væri um að ræða framlagið vegna kaupleiguíbúðanna, hvort þar með væri nú hætt við þær. En væntanlega fæst það upplýst síðar.

Að fresta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. þá verði endanlega hætt við að glíma við það frv. sem við höfum verið að fást við á hinu háa Alþingi. Þetta er ekkert annað en það sem stjórnarandstaðan lagði til vegna þess að frv. er svo illa undirbúið og unnið að það hlaut að verða að fresta því. Við fögnum því að sjálfsögðu að ríkisstjórnin hafi loksins séð að sér og samþykkt þessa hugmynd og tillögu stjórnarandstöðunnar um að taka frv. til gagngerðrar endurskoðunar og lagfæringar og leggja það síðan fyrir þegar búið er að því.

Við erum ekkert sérlega hrifnir af því, þm. Borgarafl., að hamla mjög gegn erlendum lántökum fyrirtækja. Það getur auðveldlega orðið til þess að vöruverð í landinu hækki, einfaldlega vegna þess, að þrátt fyrir allt eru mörg fyrirtæki háð því að fá erlend lán til vöruinnkaupa sinna og til ýmissa stofnfjárfestinga. Það er því ekkert víst að þetta sé svo mjög hagstætt. Það getur vel verið að þetta verði til þess að verðlag í landinu hækki. Þrátt fyrir allt verðum við að flytja inn ýmsar vörur og við verðum að endurnýja tækjabúnað okkar í ýmsum fyrirtækjum. Það getur vel verið að þessi fyrirtæki verði þá að leita á „gráa“ peningamarkaðinn í staðinn með himinháum vöxtum. Ekki lækkar það verðlag í landinu.

Um er að ræða að það verða sett algerlega ný lánsfjárlög. Það rifjast upp fyrir mér tillaga minni hl. í hv. fjh.- og viðskn. Ed., en við lögðum það til að lánsfjárlögum yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar af því að við töldum að lánsfjárlögin, eins og þau voru að lokum samþykkt frá hinu háa Alþingi hér um áramótin, væru ekki raunhæf. Hér hefur hæstv. ríkisstjórn enn á ný orðið að taka til greina tillögur stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Orðið að taka þessi lánsfjárlög aftur til ríkisstjórnarinnar og endurvinna þau nákvæmlega eins og við lögðum til, þm. stjórnarandstöðunnar.

Þá er Fiskveiðasjóði falið að fresta eins og framast er unnt lánveitingum til nýsmíða og kaupa á fiskiskipum. Það hefur verið upplýst að verulegur hluti þess viðskiptahalla, sem við eigum við að glíma, er óstjórnleg smíði fiskiskipa erlendis og viðhald fiskiskipa og annarra skipa erlendis. Það væri nær að reyna þá að flytja þessa skipasmíði inn til landsins og lækka þar með að verulegu leyti erlendan kostnað þess vegna. Væri sú aðgerð til að lækka viðskiptahallann svo um munar um leið og rennt væri traustari stoðum undir atvinnulíf landsmanna. Væri óskandi að hæstv. ríkisstjórn mundi huga betur að því máli.

Að lokum er svo fjallað um vexti og fjármagnsmarkaðinn. Það er talað um að nafnvextir innlánsstofnana muni nú almennt lækka um 1–4%. Skömmu eftir síðustu mánaðamót lækkuðu vextir og hæstv. ráðherrar komu fram í sjónvarpi og börðu sér á brjóst og sögðu að nú væri þetta allt saman farið að verka, nú væri þetta að komast í rétt horf. En þá bar svo við að það voru einungis innlánsvextir og vextir af skuldabréfum sem lækkuðu, en raunvextir af lánskjaravísitölulánum voru algerlega óbreyttir. Það eru þau lán sem flestir þurfa að taka. Þessi vaxtalækkun kom aðeins fram á mjög litlum hluta peningamarkaðarins. Eftir sem áður var langstærsti hluti útlánamarkaðarins með óbreyttum vöxtum.

Það er talað um að lækka raunvexti á spariskírteinum ríkissjóðs. Það væri gaman að fá að vita hve mikið. En það kemur væntanlega fram þegar frv. verður lagt fram á hinu háa Alþingi.

Að lokum er sagt að Seðlabankinn muni beina því til innlánsstofnana að þær reikni dráttarvexti sem dagvexti í stað þess að reikna fulla mánaðarvexti fyrir brot úr mánuði. Við erum mjög hlynntir því að þessu verði breytt með þeim hætti sem hér er lagt til. Hér er um að ræða mjög jákvæða aðgerð sem við tökum heils hugar undir, þm. Borgarafl., og hefði átt fyrir löngu að vera búið að taka til endurskoðunar ákvæði laga um dráttarvexti.

Ég verð því miður að ljúka máli mínu með því að segja að þessar aðgerðir eru ekki líklegar til að koma neinu þaki yfir efnahagsmál okkar. Ég tek undir það, sem var sagt áðan, að við megum búast við því að innan fárra vikna eða mánaða hljóti að koma til enn þá kröftugri efnahagsaðgerða. Þær munu eflaust koma enn þá verr við launafólkið í landinu því að það virðist vera haft út undan þegar hæstv. ríkisstjórn er að reyna að leysa efnahagsmál landsins.