01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5178 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þeir þm. stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað í dag og reyndar ýmsir þeirra sem töluðu við utandagskrárumræðurnar í Sþ. í gær, hafa fundið efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar flest til foráttu. Ég ætla ekki að elta ólar við allt það sem missagt kann að hafa verið í máli þeirra en hlýt þó að benda á að aðfinnslur stjórnarandstöðunnar eru æði mótsagnakenndar. Annars vegar er fundið að því að með efnahagsaðgerðunum sé ekki unninn bugur á ýmsum vanda sem nú steðjar að í íslenskum efnahagsmálum: Verðbólga verði áfram mikil, sömuleiðis viðskiptahallinn og afkoma útflutningsgreinanna sé ekki tryggð. Hins vegar er því haldið fram að launahækkanir þær, sem Verkamannasambandið og Alþýðusamband Vestfjarða hafa nýlega samið um við vinnuveitendur, skili verkafólki ekki nógum kaupmáttarauka og einnig er kvartað undan því að útgjöld ríkisins séu skorin niður og stefnt að minni framkvæmdum á vegum hins opinbera en áður voru áformaðar.

Auðvitað er það æskilegt að gera allt í senn, draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, tryggja góða afkomu útflutningsgreinanna, auka kaupmátt launa og standa í miklum framkvæmdum. En það er hreinn barnaskapur að halda að þetta sé unnt við núverandi aðstæður. Ræða hv. 3. þm. Vestf. var gott dæmi um það hvernig forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, hvernig forusta Verkamannasambandsins og Alþýðusambands Vestfjarða lítur miklu raunsærri og skynsamari augum á það sem við blasir í íslenskum efnahag en fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað.

Hvernig á að snúast við þessum að mörgu leyti erfiðu aðstæðum? Það er mikilvægt, eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh., að þeir tveir stefnumarkandi kjarasamningar sem nýlega hafa verið gerðir, kjarasamningur Verkamannasambandsins og kjarasamningurinn á Vestfjörðum, verði undirstaða að farsælli framvindu í efnahags- og kjaramálum við þessar aðstæður. Ef það tekst, og það er tilgangur þessa frv. sem hér liggur frammi að það megi takast, þá er ástæða til að vera bjartsýnn um framtíðina. Ábyrgð þingsins í þessu máli er stór.

Það er auðvitað alveg rétt að við horfum fram á viðskiptahalla á árinu sem gæti stefnt í 3–4% af landsframleiðslunni. Ég hirði ekki um að tala um tölurnar sem hér hafa verið ræddar af meiri nákvæmni en það. Við eigum enn eftir að vinna nokkuð að þótt þær aðgerðir verði samþykktar sem hér hafa verið fram lagðar. Við þurfum að halda aftur af ýmsum útgjaldaáformum sem ekki er enn unnt að festa í tölur.

Það er auðvitað alveg rétt að það er hætt við nokkrum hallarekstri í sumum greinum sjávarútvegs. Það er enn því miður við að búast að verðbólgan verði 15–16% frá upphafi til loka þessa árs og það er rétt að það verður nokkur skerðing kaupmáttar frá meðaltali síðasta árs þegar á allt er litið. Þetta eru auðvitað ekki æskilegar horfur. Þetta eru auðvitað óviðunandi horfur til lengdar. En ég spyr hv. þingdeildarmenn: Hverjar væru horfurnar ef ríkisstjórnin hefði ekki hafst að? Hverjar væru horfurnar ef ekki hefðu tekist þeir kjarasamningar sem eru að mörgu leyti forsenda þess sem hér er unnið að á þessum dögum?

Eins og hæstv. fjmrh. minnti á kemur þessi staða nú upp í lok óvenjulegs uppgangsskeiðs. Á síðasta ári fóru þjóðarútgjöldin fram úr þjóðartekjum sem kom fram í því að verðbólga og viðskiptahalli fóru vaxandi. Við horfum nú fram á það að þjóðartekjur á þessu ári verði í besta falli óbreyttar frá því síðasta. Þetta stafar ekki af ákvörðunum stjórnvalda, heldur af því að nú er þess ekki að vænta að ytri skilyrði þjóðarbúsins batni enn frá því sem verið hefur. Því miður eru horfur á að þróunin snúist frekar öndverð okkur á þessu ári fremur en þau batni. Við þurfum í öllum efnahagsákvörðunum að taka mið af þessum staðreyndum.

Frv. sem við erum nú að ræða er mikilvægt skref til þess að skapa skilyrði fyrir jafnvægi í þjóðarbúskapnum og tryggja þá kjaramálastefnu sem mörkuð hefur verið í þeim tveimur verkamannasamningum sem þegar hafa verið gerðir. Við þurfum að rétta hlut þessa fólks og þeirra greina sem það vinnur við. Það er tilgangur þessa frv. eins og glöggt kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf. Ríkisstjórnin hefur í reynd þegar gert fjölmargt sem í þessa átt hnígur til þess að sporna gegn misvægi í þjóðarbúskapnum, og hún hefur gert það bæði fyrr og með ákveðnari hætti en fyrri ríkisstjórnir. Þetta á við um fjárlög og lánsfjárlög fyrir árið 1988 og stjórn peningamála undanfarin missiri.

Sumar ráðstafanir, sem stjórnin hefur staðið fyrir, hafa ekki verið sársaukalausar og ekki til þess fallnar að kaupa henni stundarvinsældir. Þær hafa engu að síður verið nauðsynlegar. Það var t.d. alveg óhjákvæmilegt að stokka upp tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs til þess að hægt væri að ná hallalausum fjárlögum. Strangt aðhald að peningamálum, en því fylgja óhjákvæmilega um sinn háir raunvextir, hefur líka verið nauðsynlegt til þess að draga úr þenslu. Þær efnahagsráðstafanir, sem stjórnin grípur nú til í tengslum við kjarasamninga Verkamannasambands og vinnuveitenda, eru rökrétt framhald af fyrri ráðstöfunum hennar í efnahagsmálum. Þær eru líka rökrétt viðbragð, á réttum tíma, til þess að bregðast við vanda í tæka tíð. Til þeirra var ekki gripið fyrr en í sjónmáli voru kjarasamningar sem gátu samrýmst hjöðnun verðbólgu og bætt kjör hinna lægstlaunuðu. Þetta var margyfirlýst af stjórnarinnar hálfu.

Ég ætla ekki að vera langorður um þessar ráðstafanir almennt, enda hafa bæði forsrh. og ekki síst fjmrh. hér í dag kynnt þær í smáatriðum. Ég ætla hins vegar að víkja nokkrum orðum að þeim þáttum sem beinlínis snerta viðskrn., en þar á ég við stefnuna í gengismálum, stefnuna varðandi erlendar lántökur og varðandi vexti og fjármagnsmarkað.

Ég vík þá fyrst að gengisstefnunni. Það var, það er og það verður brýn nauðsyn enn um sinn að bæta kjör lægst launaða fólksins í landinu, þess fólks sem dregist hefur aftur úr öðrum í launum á síðustu missirum. Ég vil leggja áherslu á að það er einfaldlega rangt sem hv. 7. þm. Reykn. hélt hér fram áðan, að með þessum samningum og þeim aðgerðum, sem við erum nú að ræða, hafi þessum kjörum verið svipt til baka. Þetta kom mjög glöggt fram í ræðu hv. 3. þm. Vestf. Ég óttast það að prófessorinn hafi ekki litið rétt á reiknistokkinn þegar hann setti upp sitt dæmi því það er alveg víst að þessir kjarasamningar verja kjör þessa fólks, halda því í horfi, meðan aðrir verða að sætta sig við nokkuð skarðan hlut. Þetta er málið sem við erum að ræða í hnotskurn. En það var einfaldlega ekki hægt að ná þessum árangri nema með því að bæta starfsskilyrði þeirra atvinnugreina sem þetta fólk starfar við, einkum fiskvinnsluna. Það er ekki fastgengisstefnan sem er undirrót vanda útflutningsgreinanna, heldur eiga hinar innlendu kostnaðarhækkanir á síðasta ári þar langstærsta sök.

Hv. 3. þm. Vestf. lýsti því vel hvernig launamarkaðurinn fór á uppboð í aðdraganda kosninganna í fyrra, hvernig jólaföstusamningarnir voru sprengdir upp og hvernig lántökur og ógætilegar framkvæmdir kyntu undir þeirri þróun. En nú er svo komið að það er ekki úr að skorast að lækka gengi krónunnar nokkuð til að bæta afkomu þessara greina og gera þeim kleift að hækka laun hjá sínu fólki. Að sama skapi skipti miklu máli að þessi gengislækkun yrði eins lítil og nokkur kostur var til að koma í veg fyrir að ný verðbólgualda skylli yfir. Þess vegna var farin sú leið að endurgreiða útflutnings- og samkeppnisgreinum uppsafnaðan söluskatt og létta nokkuð greiðslubyrði þeirra af lánum með skuldbreytingum.

Það er ekki rétt sem hv. 7. þm. Reykv. hélt hér fram að fastgengisstefnan, sem hann kallaði hornstein efnahagsstefnu stjórnarinnar, væri hrunin. Það sem rétt er í þessu efni er að þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir gefa enn færi á verulegri hjöðnun verðbólgu á síðari hluta ársins. Hornsteinninn hefur ekki brotnað. Hann hefur verið færður lítillega til og múraður fastur á ný. Fari svo, sem von er til, reynist unnt að halda genginu stöðugu, en það er til lengri tíma litið forsenda stöðugleika í okkar verðlagsmálum og það er sannarlega stefna stjórnarinnar að halda genginu stöðugu ef þess er nokkur kostur. Í því sambandi er m.a. unnið að athugunum á því að tengja gengi krónunnar við erlenda myntkörfu fremur en inn lenda, t.d. við mynteiningu Evrópuþjóðanna eða sérstök dráttarréttindi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Niðurstöðu í þessum athugunum er að vænta á þessu ári.

Stöðugleiki í gengisskráningunni er mikilvægur til þess að stuðla að hjöðnun verðbólgu. Það er í reynd aðaltilgangur þessara aðgerða að freista þess enn að breyta verðlagsþróun hér á landi í það horf sem er meðal annarra Evrópuþjóða. Og ég tek undir það með hv. 3. þm. Vestf. að spyrja hv. 7. þm. Reykv.: Á hvað er hann að hrópa þegar hann kallar þessar aðgerðir ónógar handa frystingunni? Á hvað er hann að hrópa? Vill hann láta fljóta yfir hvern stein eða eins og mig minnir að hann orðaði það sjálfur, róa fyrir hverja vík til að koma vinnslunni upp fyrir hagnaðarmark sem hann telur hæfilegt? Hver verða þá kjör fólksins í landinu, má ég spyrja? Frystihúsin þurfa líka að laga sig að breyttum aðstæðum ekki síður en almenningur. Ég vil minna þennan hv. þm. á að hann hefur nú og í fyrri umræðunni um efnahagsmál gert sig til harðasta málsvara þess sem hann einu sinni kallaði útgerðarauðvaldið. (SvG: Það verður nú einhver að hugsa um útgerðarauðvaldið.) Já, já.

Ég vík þá að erlendum lántökum. Á síðasta ári fóru erlendar lántökur langt fram úr því sem gert hafði verið ráð fyrir á lánsfjárlögum þessa árs. Fyrir þessari miklu aukningu í erlendu lántökunum í fyrra voru ýmsar samverkandi ástæður. Mestu máli skipti að á síðasta ári buðust erlend lán á hagstæðum kjörum vegna mun meiri verðlagshækkana hér innan lands en erlendis á sama tíma og gengi krónunnar var þá haldið stöðugu. Þá er einnig ljóst að brotalöm var á framkvæmd áætlana um erlendar lántökur. Með upptöku gjalds á erlendar lántökur á miðju síðasta ári leitaðist stjórnin við að stemma stigu við innstreymi erlends lánsfjár. Þetta gjald jafnaði þó engan veginn mun á innlendum og erlendum lánskjörum. Nú er lagt til að tvöfalda þetta gjald. Jafnframt er því lýst yfir að gjaldið verði fellt niður frá og með næstu áramótum til að stuðla að því að þeir sem hyggja á erlendar lántökur fresti frekar áformum sínum. Þá er unnið að því í viðskrn. að framvegis verði miklu fastar fylgt eftir reglum og áætlunum hins opinbera um erlendar lántökur. M.a. verður við það miðað að heildarfjárhæð lána, sem háð eru sérstökum leyfum, verði haldið innan ákveðinna marka á hverjum fjórðungi ársins. Í þessu sambandi er mikilvægt að frá og með lánsfjárlögum fyrir þetta ár eru erlendar lántökur allra fjárfestingarlánasjóðanna háðar sérstökum leyfum, eins og hjá öðrum fyrirtækjum, en þeir sækja nú ekki erlend lán samkvæmt sérstökum lagaheimildum.

Á síðasta ári var líka sett innlend fjármögnunarkvöð á lántökur kaupleigufyrirtækjanna. Ég mun á næstunni láta kanna hvaða áhrif þessi kvöð hefur haft og hvort nauðsynlegt er að breyta reglunum að þessu leyti. Það er afar brýnt að okkur takist að hefta ótæpilegt innstreymi erlends lánsfjár á næstunni. Erlent lánsfé var olía á þenslubálið á síðasta ári og við verðum að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig Að því miða ráðstafanir stjórnarinnar.

Ég vík svo nokkuð að vaxtamálum sem menn hafa hér margir vikið að. Á undanförnum vikum hafa margir gerst talsmenn þess að vextir yrðu lækkaðir með valdboði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hef haldið því fram að nafnvextir héldust hér háir vegna mikillar óvissu í verðlagsmálum en raunvextirnir héldust hér háir vegna jafnvægisleysis á lánsfjármarkaði. Forsenda þess að vextir gætu lækkað væri því annars vegar að horfur í verðlagsmálum skýrðust og hins vegar að betra jafnvægi kæmist á milli framboðs og eftirspurnar á fjármagnsmarkaðnum. Nú hefur verulega dregið úr óvissu um þróun verðlags á næstunni, bæði vegna þess að fyrri aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru nú farnar að skila árangri í minnkandi verðhækkunum og vegna þess að stefnan í kjarasamningum fyrir þetta ár hefur nú verið að skýrast og ljóst er orðið að hún gefur færi á hjaðnandi verðbólgu er líða tekur á árið.

Hv. 7. þm. Reykv. hélt því fram áðan að raunvaxtakostnaður fiskvinnslunnar og útgerðarinnar hefði hækkað um 70% í fyrra (Gripið fram í.) og vitnaði til hæstv. utanrrh. í því sambandi. (SvG: Já, það er rétt.) Ekki ætla ég að staðfesta þá tilvitnun, en vil bara nefna það að samkvæmt tölum Seðlabankans nam allur vaxtakostnaður sjávarútvegsins á sl. ári 15% miðað við heildarskuldir hans eins og þær voru á árinu. Þegar litið er á verðlagsþróun á sama tíma þá hækkaði verðlag hér á landi um 25%. Því er algjörlega ljóst að raunvextir sjávarútvegsins voru þegar á heildina er litið neikvæðir svo verulega munaði í fyrra og hafa áreiðanlega lést þegar rétt er reiknað á hinu liðna ári. Þetta eru staðreyndirnar í málinu. En það er auðvitað alveg rétt að þarna er ákaflega misjafnt milli fyrirtækja og ég mæli því ekki bót að bankarnir hafi tekið meira en þeir þurftu af afurðalánunum á þessu ári og geri það að nokkru leyti enn, enda er það ein af tillögum í þessum aðgerðum að aftur verði snúið með þá gjaldtöku sem ótæpileg var. En þetta er til marks um það hversu fráleitar fullyrðingarnar eru um vaxtakjörin í landinu.

Sannleikurinn er sá að langstærstur hluti af rekstrarlánsfé sjávarútvegsins er tekinn á alþjóðavöxtum. Hann er einfaldlega tekinn á heimsmarkaðsvöxtum að stofni til. Að vísu er bætt þarna við vaxtamun bæði hér og þar og hann er of mikill. Og um það er ég sammála hv. 7. þm. Reykv. að við þurfum að finna leiðir til þess að draga úr þessum kostnaði með því að gera okkar bankakerfi skilvirkara og betra. En það er líka athyglisvert, eins og hæstv. iðnrh. reyndar benti á, að eiginlega eina atriðið í þessum tillögum sem hv. 7. þm. Reykv. fagnaði var hækkun á fjármagnskostnaði. Það er nefnilega tvöföldun á lántökugjaldinu af erlendum lánum. Það er auðvitað alveg rétt að þetta felur í sér að sínu leyti nokkra hækkun á fjármagnskostnaði, en þetta verða menn þó að þola vegna þess að það er alveg víst að þessi gjaldtaka þjónar því að hefta innstreymi erlends lánsfjár um sinn og það er nú nauðsynlegt. Það er athyglisvert að þetta er nú að mati hv. 7. þm. Reykv. það jákvæðasta í því sem hér er fram lagt.

En það sem er að gerast hér er blátt áfram það að lögmál hagfræðinnar gilda líka á Íslandi eins og í öðrum löndum þótt hv. 7. þm. Reykv. þverskallist við að viðurkenna það og þykist ekki sjá það.

Í framhaldi af þessari verðlagsþróun hafa nafnvextir innlánsstofnana byrjað að lækka, fyrst 21. febr. og svo aftur í dag og það er reiknað með enn frekari lækkun þeirra fram til miðs mars. Samtals hafa nafnvextir óverðtryggðra útlána þegar lækkað um 4–5%. Innlánsvextir hafa lækkað nokkru minna eða um 3% að meðaltali þannig að nokkuð virðist hafa dregið úr vaxtamun í bankakerfinu að undanförnu. Hér skiptir einnig miklu máli að Seðlabankinn mun beina því til innlánsstofnana að þær reikni dráttarvextina framvegis sem dagvexti í stað þess að reikna fulla mánaðarvexti fyrir brot úr mánuði. Jafnframt hefur Seðlabankinn lækkað sína eigin vexti af lánsviðskiptum um 7–10% frá því sem var fyrir 21. febr. og forvextir ríkisvíxlanna hafa lækkað um rúmlega 4% frá sama tíma.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þær vaxtalækkanir sem hér um ræðir hafa lánastofnanirnar sjálfar ákveðið. Þetta er í samræmi við þá stefnu stjórnarinnar að vaxtaákvarðanirnar skuli fyrst og fremst vera í höndum innlánsstofnananna sjálfra eins og reyndar er mælt fyrir um í lögum frá Alþingi.

Hv. 7. þm. Reykv. taldi að ríkið hefði beitt því sem hann tvívegis vitnaði til sem 11. gr. seðlabankalaganna. - Ég vænti þess að hv. 7. þm. Reykv. sé að hlusta á mál mitt. (SvG: Já, já.) Þegar hv. þm. vitnaði tvívegis til 11. gr. seðlabankalaganna hefur hann væntanlega átt við 9. gr. laganna, og þá 2. mgr. hennar sérstaklega. (SvG: Já, það var 11. í frv.) Já, það er nefnilega það. En ég vildi nú hugga hann með því að þótt hann hafi vitnað í vitlausa grein, þá gerir það ekkert til því tilvitnunin var hvort sem er tóm vitleysa þar sem stjórnin hefur alls ekkert beitt þessari lagagrein. Hún hefur hins vegar beitt sér fyrir lækkun vaxta með almennum ráðstöfunum og það er það sem máli skiptir. Hún hefur lagt grunn að raunverulegri vaxtalækkun með jafnvægi í ríkisfjármálum, með aðhaldssemi í sínum ráðstöfunum og nú vill hún hnykkja á því með því sem hér er fram lagt. Hún mun halda þessu áfram og beita sér fyrir þessu af alefli.

En það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að raunvextir innlánsstofnana hafa enn ekki lækkað eins og nafnvextirnir. Það er mikilvægt að þeir geri það. Það er margt sem bendir til þess að betra jafnvægi sé að komast á fjármagnsmarkaðinn. Þannig hafa raunvextir á bankabréfum og almennum skuldabréfum byrjað að lækka að undanförnu. Einnig hefur verið mikil og góð sala í spariskírteinunum hjá ríkissjóði það sem af er ári og það bendir til þess að nú bjóðist ekki yfirleitt betri ávöxtun á fjármagnsmarkaði en þar er um að ræða, þegar búið er að taka tillit til annarra þátta eins og t.d. áhættu. Nú fyrst er því von til þess að raunvextir geti almennt byrjað að lækka og er þess að vænta að á næstunni verði raunvextir af spariskírteinum ríkissjóðs lækkaðir eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt og gert grein fyrir hér áðan. Það verður mikilvæg vísbending um framhaldið þegar þar að kemur. En það væri óskynsamlegt að grípa nú með valdboði inn í ákvörðun raunvaxta á hinum almenna markaði og tefla þannig í tvísýnu þeim árangri sem þegar hefur náðst til þess að efla sparnað og draga úr óhóflegri eftirspurn eftir lánsfé.

Þróunin að undanförnu sýnir að við höfum náð vendipunkti í efnahagsmálum. Árangurinn af jafnvægisstefnu stjórnarinnar er að koma í ljós. Nú ríður á að fylgja þessum árangri eftir. Þess vegna er það mjög mikilvægt að þetta frv., sem við ræðum hér í dag, verði samþykkt hið allra fyrsta og ég ítreka það eins og kom glöggt fram í máli hv. 3. þm. Vestf.: Ábyrgð þingsins er mikil í þessu máli, ábyrgð stjórnarinnar er mikil í þessu máli. Hún hefur axlað hana, hún hefur borið þetta mál fram og býst nú til þess að ljúka málinu svo skjótt sem kostur er.