01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5184 í B-deild Alþingistíðinda. (3492)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Ingibjörg Daníelsdóttir:

Herra forseti. Góðærið hefur gengið sitt skeið. Hátíðinni er lokið, hátíð sem til var komin vegna hagstæðra ytri skilyrða. Einstök aflaár, lækkandi verð á olíu, lækkaðir erlendir vextir ásamt hækkandi afurðaverði sköpuðu einstaklega hagstæða afkomu íslensku þjóðarinnar. En hvernig var svo farið með auðinn, okkar bættu afkomu?

Það vildi svo illa til að á síðasta ári fóru saman skattlaust ár og kosningar. Kosningaárið leiddi til þess að ríkisstjórnin missti sjónar á markmiðum sínum og fór að stunda blekkingar og bruðl til að ganga í augu kjósenda. Skattlausa árið hvatti alla til aukinnar þátttöku í atvinnulífinu og þeir sem áður stunduðu litla vinnu juku við sig, heimavinnandi fóru í auknum mæli til launavinnu og sama gilti um skólafólk sem frestaði þá skólagöngu sinni. Þenslan þaut af stað og launaskrið sigldi í kjölfarið á eyðslunni og vissulega hafa margir aldrei haft það betra. En þenslan kom ekki til allra landshluta og launaskriðið skilaði sér ekki til allra stétta. Hluti launafólks mátti líða þó nokkra kjaraskerðingu á síðasta ári. Það var þeirra hlutur sem meiningin var að bæta með þeim kjarasamningum sem sagðir eru kalla á þessar aðgerðir.

Vissulega er sumt jákvætt í þessum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Markmiðin eru af hinu góða. Það er nauðsynlegt að draga úr viðskiptahalla og bæta hag þeirra atvinnuvega sem sjá okkur fyrir útflutningsvörum. Einnig hafa stjórnvöld nú viðurkennt ýmis feilspor í fyrri aðgerðum og stigið sum þeirra til baka. Má þar t.d. nefna niðurfellingu launaskatts og endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts. Þessar aðgerðir eru sjálfsagðar þótt betra hefði verið að fara að ráðum okkar og leggja þennan skatt alls ekki á nú fyrir nokkrum vikum.

Það sem er athugavert við þessar aðgerðir eru þær leiðir sem notaðar eru til að ná settu marki og koma þær sér flestar mjög illa fyrir allan almenning í landinu og þá sérstaklega það fólk sem býr úti á landsbyggðinni.

Utan Reykjavíkur býr stærsti hluti þess hóps sem telst til láglaunafólks ef við miðum við íbúafjölda. Þeir sem eru með lægstu launin tapa mestu þegar gengisfelling verður því þeir eru enn verr undir það búnir að hluti launa þeirra sé étinn af verðbólgunni heldur en hinir sem meira bera úr býtum. Því má segja að þessi gengisfelling bitni harðast á þeim sem búa utan höfuðborgarinnar. Er það raunar undarlegt að alltaf þurfi að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og sýnir það að enn er frumskógarlögmálið í fullu gildi meðal mannanna.

Það er hastarlegt að taka þá litlu leiðréttingu sem láglaunafólk var að fá á launum sínum áður en blekið er þornað á undirskriftum samninganna. Hefur þetta ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér hjá þeim sem lægstar tekjur hafa og er það manni hulin ráðgáta hvernig ætlast er til að lágtekjufólk nái endum saman.

Þær bætur sem launafólki eru lofaðar í tengslum við þessar aðgerðir eru líklegar til þess að vera aðeins marklaus orð á pappír. Þar eru loforðin óljós og það læðist að manni sá grunur að þess sé gætt að hafa a.m.k. eina undankomuleið opna þegar til efndanna kemur. Notað er orðalag eins og „mun beita sér fyrir“ og „reglur verða endurskoðaðar“.

Framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er stórlega skert og er það annað dæmið um niðurskurð við landsbyggðina. Gegnir það mikilli furðu að árlega sé hægt að skerða enn meira framlag í þennan sjóð þar sem það er lögbundið. Í staðinn fá sveitarfélög aðeins 15 millj. kr. í Félagsheimilasjóð skv. 7. gr. frv.

Við kvennalistakonur höfum alltaf borið velferð barna fyrir brjósti og höfum miklar áhyggjur af gífurlegum skorti á dagvistarheimilum úti um allt land. Í því sambandi höfum við ítrekað flutt tillögur um að gert verði átak í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til þessa málaflokks, m.a.s. er mörgum sveitarfélögum gert ókleift að framkvæma á þessu sviði þar sem Jöfnunarsjóðurinn er svo stórlega skertur.

Óljóst er hvar niðurskurður til vegamála á að koma, en þessi skerðing á framlagi til vegamála hlýtur þó að skoðast sem bein árás á búsetu úti um landið. Það er deginum ljósara að gott vegakerfi er ein af forsendum þess að byggð haldist í landinu. Þeir íbúar landsbyggðarinnar, er búa við hina frægu malarvegi, sem oft er líkt við þvottabretti, greiða í raun mun hærri gjöld í ríkissjóð en þeir sem aka á hinum malbikuðu. Gerist þetta vegna þess hve malarvegabílarnir endast illa og koma þessar greiðslur því vegna aðflutningsgjalda og annarra tolla sem leggjast á bifreiðar og varahluti. Það hefur einnig geysileg áhrif á þróun atvinnuveganna úti um landið að vegakerfið sé í góðu lagi.

Í þessum efnahagsráðstöfunum er gert ráð fyrir að sparnaður vegna framlaga til lyfjakostnaðar og sérfræðiþjónustu verði upp á 30 millj. Hver borgar mismuninn? Eru það sjúklingarnir? Og hverjar verða afleiðingarnar? Það eru mörg spurningarmerki við þessa tölu og þær afleiðingar sem þetta hefur í för með sér. Einnig undrast maður að framlag til K-byggingar sé skert um 20 millj. og spyr maður sjálfan sig hvort um sparnað sé í rauninni að ræða þegar til lengri tíma er litið. Á ég þá við ef fólk fær ekki fullnægjandi læknisþjónustu þegar um jafnillræmdan sjúkdóm er að ræða og krabbamein.

Maður hlýtur að spyrja hvort ekki hafi verið hægt að spara á öðrum stöðum. Ráðherrar gátu litið sér nær og reynt að spara í yfirbyggingunni. Það hefði mátt fresta dýrum framkvæmdum í húsnæðismálum hins opinbera, t.d. stofnkostnaðar hjá aðalskrifstofu sjútvrn., hönnunarkostnað vegna byggingar alþingishúss o.fl. Þá má einnig minna á ferða- og risnukostnað og uppbyggingu tölvuþjónustu hjá því opinbera. Er það raunar einkenni á þessum ráðstöfunum að niðurskurðarhnífnum er beitt eins langt frá þeim aðilum sem standa í þessum niðurskurði og mögulegt er.

Ekki batnar hagur húsbyggjenda við þessar nýju aðgerðir og hefur hann þó verið bágur fyrir. Rekur mann í rogastans að svo auðvelt sé að rífa niður það sem hæstv. félmrh. byggði nú fyrr í vetur. Þetta ber reyndar með sér að ríkisstjórnin hafi lent í frosti er grunnurinn að stjórnarsamstarfinu var steyptur og nú séu frostskemmdirnar að koma verulega í ljós. Með skerðingu til húsnæðiskerfisins er enn ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Það eru ekki hinir betur settu í þjóðfélaginu sem eiga það undir jákvæðu svari við lánsumsókn hvort þeir koma þaki yfir höfuðið á sér, heldur hinir sem hafa miðlungslaun og lægri. Það þyrfti e.t.v. ekki að skerða framlag til húsnæðiskerfisins um 100 millj. ef skattþrepin væru tvö, eins og Kvennalistinn hefur lagt til, eða jafnvel þrjú. Einnig drægi það úr þenslu í þjóðfélaginu ef skattþrepin væru fleiri en eitt.

Það er góðra gjalda vert að lækka vexti og löngu tímabært, en hættan er sú að þetta verði skammgóður vermir því tilraunir til að beina erlendum lántökum á innlendan markað eru líklegar til þess að þvinga upp vexti innan lands vegna eftirspurnar umfram framboð á markaði og þá er líklegt að vaxtalækkunin verði uppurin og vel það. Við það bætist að hækkun lánskjaravísitölu fyrir áhrif gengisfellingarinnar mun hækka öll lán sem tengjast þeirri vísitölu. Almenningur sem og fyrirtæki standa því frammi fyrir aukinni greiðslubyrði af skuldum sínum.

Hæstv. forseti. Íslandssagan segir okkur að oftast dynji á okkur einhverjar hörmungar á næstsíðasta tug hverrar aldar. Árið 1783 voru móðuharðindin, á árunum 1880–1890 var veðurfar mjög kalt og féllu menn úr hungri eða flúðu til Ameríku. Óneitanlega veltir maður fyrir sér hvernig sagan muni greina frá síðustu tugum þessarar aldar og jafnvel læðist sá grunur í hugann að ekki verði svo ýkja bjart yfir þeim kafla Íslandssögunnar.