01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5187 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur margt verið sagt um þær efnahagsráðstafanir sem birtast í þessu frv. og þá kjarasamninga sem eru undanfari þessara ráðstafana að nokkru leyti vegna þess að það hefur ávallt legið fyrir að ríkisstjórnin hefur stefnt að því að bíða eftir því hvort skynsamlegir kjarasamningar gætu náðst áður en til efnahagsráðstafana væri gripið. Það er alltaf slæmt þegar rætt er í marga mánuði um hluti sem gera þarf þegar öllum má vera ljóst að hjá því verður ekki komist. Það gerir það eitt að verkum að enn þá verra verður að ná tökum á þróuninni og má með sanni segja að ýmislegt hafi gerst sem hafi orðið þess valdandi á síðasta ári að menn hafa misst tök á ýmsum þáttum efnahagsmála sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Ég skal ekki rifja það upp, enda hafa margir komið inn á nokkra þætti þess.

Það sem er þó mikilvægast að gera sér grein fyrir þegar þessar ráðstafanir eru dæmdar og þeir samningar sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni er það umhverfi sem við búum við og sú framtíð sem við nú sjáum. Menn ræða gjarnan um að hér ríki einhver kreppa og tekjur okkar hafi skerst verulega. Svo er alls ekki. Við Íslendingar höfum verið að auka tekjur okkar mikið á undanförnum árum og áratugum. Það er athyglisvert að útflutningstekjur sjávarútvegs fara yfir 1 milljarð dollara á sl. ári, en ætli sé lengra síðan en svona um 1970 að útflutningstekjur voru rétt um 100 millj. dollara eða aðeins 1/10 af því sem þær eru í dag. Ætli það séu margar þjóðir í heiminum sem hafa fengið jafnmikla tekjuaukningu á jafnskömmum tíma. Ég býst við því að slíks séu fá dæmi, enda höfum við Íslendingar verið að gera meira á þessum stutta tíma en nokkur önnur þjóð og hér hefur verið byggð upp margvísleg þjónusta við almenning í landinu. Sumt af því er skynsamlegt og annað er óskynsamlegt eins og gengur, en þar er það okkar val sem ræður mestu um hvernig ferst úr hendi.

Þær aðstæður sem við sjáum nú fyrir okkur eru í fyrsta lagi þær að á sl. ári var markaðsverð hækkandi, aflabrögð góð og þær væntingar voru almennt í þjóðfélaginu að það mætti auka tekjur hinna ýmsu stétta í þjóðfélaginu og allir vildu, eins og ávallt er, auka sinn hlut. Viðskiptahalli var mikill eða um 7 milljarðar kr. sem er allt of mikið við slíkar aðstæður. Þá hefði þurft á því að halda að nota það fjármagn til að byggja upp og draga úr skuldum, sérstaklega í framleiðsluatvinnuvegunum. Svo varð því miður ekki. En þegar gera á samninga við þær aðstæður að draga þarf úr viðskiptahalla, markaðsverð fer lækkandi, minnkandi afli og þær almennu væntingar í þjóðfélaginu að enn megi auka tekjur og bæta kaupmátt er úr vöndu að ráða og það er allt annað en auðvelt að ná þar ásættanlegri niðurstöðu þegar við blasir að tekjur okkar í heild þurfi að skerðast. Þá þarf á því að halda að freista þess að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, eins og gjarnan er nú sagt, þótt það gangi stundum illa. Það hefur verið gert í þeim samningum sem nú hafa verið gerðir, en það er forsenda að slíkt geti haldið, að þeir sem meira hafa og eftir munu koma í samningum sætti sig við þá niðurstöðu og afsali sér hækkun á launum þannig að um raunverulega kjarajöfnun verði að ræða í þjóðfélaginu, en ekki aðeins upphaf að nýrri öldu víxlhækkana verðlags og kaupgjalds. Sú hætta er fyrir hendi og það mun á alla reyna, bæði aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórn, Alþingi og fleiri, að koma í veg fyrir að svo verði.

Útflutningsatvinnuvegirnir hafa í reynd enga burði og langt frá því til að greiða launahækkanir. Það er held ég flestum ljóst og viðurkennt bæði á Alþingi og annars staðar. Til þess að svo mætti verða þurfti að skapa þeim meiri tekjur. Það er gert í fyrsta lagi með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, með gengisbreytingu, með því að fella niður launaskatt og reyna að draga úr kostnaði eftir því sem hægt er. Með þeim hætti ætti að vera hægt að standa við þessa samninga. Því er hins vegar ekki að leyna að hér er teflt á tæpasta vað og afkoma fiskvinnslunnar ekki nægilega góð. Þannig er gert ráð fyrir því að hagnaður í vinnslunni samtals verði miðað við 3% arðsemiskröfu núll og miðað við 6% arðsemiskröfu 11/2, en hins vegar verði tap í frystingu á bilinu 31/2–5% þegar áhrif þessara breytinga verða komin fram. Það mun taka nokkurn tíma og þar af leiðandi ætti frystingin að búa við betri kost nú í upphafi tímabilsins en í lok þess.

Auðvitað er þetta ekki nægilega góð niðurstaða fyrir fiskvinnsluna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið hægt að ná betri niðurstöðu sem stendur og það skipti fiskvinnsluna mun meira máli að það verði hægt að hemja kostnaðarhækkanir á næstunni og standa við þær fyrirætlanir og þær fyrirætlanir standist að fjármagnskostnaður fari lækkandi sem skiptir fiskvinnsluna afar miklu máli. Hins vegar er afkoman mismunandi eftir því hvort um frystingu á þorski er að ræða eða ýmsum öðrum tegundum og ég minni einnig á það að hér er um meðaltöl að ræða sem reiknuð eru út af Þjóðhagsstofnun á grundvelli reikninga fiskvinnslunnar þannig að sumir standa betur og aðrir verr. Það liggur alveg ljóst fyrir að víða í fiskvinnslunni er tiltölulega lítið eigið fé og það hefur gengið illa að sætta menn á að þessi atvinnugrein þurfi á því að halda að búa við góða eiginfjárstöðu þannig að hún geti þolað áföll ef til þeirra kemur.

Ýmsar aðrar aðgerðir eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að launaskrið verði á næstunni. Þess vegna skiptir miklu máli að samdráttur verði í fjárfestingum og sveitarfélög og sérstaklega Reykjavíkurborg taki þeim tilmælum vel að hemja fjárfestingarútgjöld. Það kemur fram í þessum aðgerðum að það er gert ráð fyrir að ýmislegt verði gert til að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og leysa rekstrarfjárþörf þeirra. M.a. mun Byggðastofnun vinna áfram að úttekt á ýmsum fyrirtækjum. Það kemur jafnframt fram að Seðlabankinn muni beina því til bankanna að þeir leysi með sveigjanlegum hætti rekstrarvandamál þeirra fyrirtækja sem þurfa afurðalánafyrirgreiðslu umfram 75% af verðmæti birgða að halda. Í því sambandi vil ég nefna að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins á verulegt fjármagn inni í Seðlabankanum og eðlilegt að Seðlabankinn greiði meir fyrir þeim bönkum sem veita sjávarútveginum þjónustu. Sérstaklega er þar um að ræða Landsbanka Íslands, en sá banki og ýmsir aðrir bankar sem þjónusta sjávarútveginn hafa í reynd ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita sjávarútveginum þá þjónustu sem hann þarf á að halda. Með tilliti til þeirra aðstæðna að sjávarútvegurinn á verulegt fjármagn inni í Seðlabankanum er eðlilegt að til þess sé ætlast að bankinn greiði betur fyrir útlánastarfsemi til sjávarútvegsins og er það mál til meðhöndlunar við bankann.

Ég vænti þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm. Svavars Gestssonar þegar hann spurði um afkomu f sjávarútvegi og einnig að því er varðar afurðalánin. Hann spurði þessara tveggja spurninga. Hann spurði einnig um það með hvaða hætti ætti að endurskoða geymslu- og vaxtakostnað, þ.e. tilhögun á greiðslu vaxta og geymslugjalds sauðfjárafurða. Það er þannig með þetta mál að það var gerð breyting á þessari greiðslu þannig að greitt er við sölu á afurðum en ekki af birgðum sem hefur skapað mikinn vanda hjá þeim afurðasölufyrirtækjum sem lengst liggja með birgðir. Þau hafa enga burði til að standa undir því án fyrirgreiðslu ríkissjóðs eða banka. Í þessu felst að það verði gerð sú breyting að þessum fyrirtækjum verði gert kleift að standa við sínar skuldbindingar, þ.e. að fjármagna með einum eða öðrum hætti þessa byrði þannig að þau séu svipað stödd og þau voru fyrir breytinguna.

Ég veit að hæstv. heilbrmrh. mun svara þessu með lyf og sérfræðikostnaðinn, en mér þótti athyglisvert að hv. þm. Svavar Gestsson skyldi ekki láta sér detta í hug að e.t.v. mætti lækka eitthvað launin hjá öllum þessum sérfræðingum sem eru að rukka inn þessi gjöld. Það gæti verið betri leið en að láta sér detta það eitt í hug að innheimta þetta af sjúklingum. Það er með eindæmum hvað þessum aðilum hefur tekist að ná til sín í gegnum tíðina. Ég veit að hv. þm. Svavar Gestsson þurfti að standa í þeirri glímu meðan hann var heilbr.- og trmrh. og eftir því sem ég best veit varð honum lítið ágengt í því og hækkuðu laun þessara manna á þeim tíma umfram aðra eins og oft hefur komið fyrir og smátt og smátt hafa þeir farið fram úr öllum velsæmismörkum í krafti aðstöðu sinnar. Það eru einmitt svona aðilar sem þarf að taka á á næstunni og koma í veg fyrir að þeim muni takast eins og oft áður að hrifsa til sín aukin laun þar sem er trúlega um að ræða tekjuhæstu menn þjóðfélagsins.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar aðgerðir, sem hér er farið út í, eru til verulegra bóta, en hins vegar mun verða mjög erfitt fyrir sjávarútveginn að standast þær kostnaðarhækkanir sem hafa orðið þrátt fyrir þetta. Ég minni á að það er nokkur hætta á því að markaðsverð muni lækka þótt vonandi komi ekki til þess þannig að svigrúm til að þola einhverjar hækkanir er þar ekki fyrir hendi. Þar með talið er ekki um það að ræða að fiskvinnslan geti þolað hærra fiskverð við þessar aðstæður sem mun þýða að kjör sjómanna munu standa í stað. Þeir hafa vissulega betri kjör en fiskvinnslufólk almennt og vænti ég þess að þeir muni þola að þeirra kjör standi í stað þrátt fyrir þessar aðgerðir. En vegna lækkaðs olíuverðs mun skiptahlutfall þeirra hækka um 1% eða laun þeirra um 1,4%. Það á svo eftir að koma í ljós hvort takast muni að halda fiskverði í skefjum. Þar duga ekki eingöngu tilskipanir því að þar geta menn að sjálfsögðu samið sín í milli og hluti af því verði ræðst á markaði og þar ræður lögmál framboðs og eftirspurnar að nokkru leyti. En ég á von á að fiskvinnslan muni sýna mikið aðhald í því að bjóða ekki hátt verð fyrir fisk. Þess eru vissulega dæmi að ýmsir aðilar í fiskvinnslu hafa verið að borga hærra verð en þeim er mögulegt að standa við.

Það er einnig mikilvægt fyrir sjávarútveginn að auka kostnaðaraðhald og koma sér saman um að greiða ekki hækkun á þjónustugjöldum. Ef aðilar í fiskvinnslunni standa saman um slíkt ætti þeim að geta orðið nokkuð ágengt. Hitt er svo annað mál að menn vita oft lítið hver af öðrum í því sambandi, en með því að auka sameiginlegt kostnaðaraðhald og eftirlit í sjávarútveginum ætti að vera betur mögulegt að halda kostnaði í skefjum. Það eru mörg dæmi þess að aðilar hafa hækkað sína gjaldskrá og komist upp með það til lengri tíma. Dæmi um það er gjaldskrá bankanna sem nýlega var hækkuð þrátt fyrir að um annað hafi verið rætt fyrir nokkru. Bankarnir hafa hins vegar tekið þeim tilmælum, sem komið hafa frá ríkisstjórninni í því sambandi, og ákveðið að breyta því til fyrra horfs.

Það hefur mikið verið talað í þessum umræðum um kjarajöfnun og menn réttilega á það bent að besta kjarajöfnunin í þessu landi væri að jafna húshitunar- og rafmagnskostnaðinn. Sá kostnaður er vissulega orðinn óbærilegur fyrir marga úti á landsbyggðinni. Undir það vil ég gjarnan taka, en ég vil hins vegar minna á að eina raunhæfa leiðin til að jafna þann kostnað er að leggja á orkuskatt sem jafnar aðstöðuna í landinu. Þetta hefur oft verið rætt á hv. Alþingi og aldrei náðst um það raunhæf samstaða. Það er svo að auðvitað hafa þessar framkvæmdir víða í landinu verið allt of dýrar, en ef menn meina eitthvað með því að vilja jafna orkukostnaðinn í landinu verður að leggja þar á einhvern jöfnunarskatt þannig að þeir sem minnst greiða greiði meira og þeir sem mest greiða greiði minna.

Ég hef tekið eftir því að þm. Reykjavíkur hafa minnst á það hér í umræðunum að þennan kostnað þyrfti að jafna og ég vænti þess að þeir geti tekið undir það með ýmsum þm., sem eru fulltrúar fólks úti á landsbyggðinni, að eina leiðin til þess að svo megi verða er að þeir sem minnst greiða sætti sig við nokkurn skatt í þessu sambandi því að ríkissjóður er ekki aflögufær. Þangað er ekkert að sækja og ekkert annað en sjálfsblekking að halda að það sé hægt að sækja verulega jöfnun á húshitunarkostnaði í gegnum þann sjóð án frekari tekna eins og nú standa sakir.

Það sem ástæða er til að hafa mestar áhyggjur af í sambandi við þessar aðgerðir og þá framtíð sem við sjáum fyrir okkur er allt of mikill viðskiptahalli. Sá viðskiptahalli getur ekki staðist til lengdar. Hann verður að minnka, en hann verður ekki minnkaður í einu höggi. Hann ætti hins vegar að vera sönnun þess að það var ekki hægt að komast hjá þeim aðgerðum sem nú er farið út í. Ef eitthvað er ganga þær ekki líkt því nógu langt. Það þýðir einfaldlega það, þessi mikli viðskiptahalli, að við erum að eyða umfram okkar tekjur og í framtíðinni verður það verkefni okkar að jafna þennan halla. Þess vegna er alls ekki hægt að reikna með því á næstunni og trúlega á næstu árum að við Íslendingar getum bætt kjör okkar. Viðskiptahalli hefur verið svo lengi viðloðandi að það verður mikið og langvarandi verkefni að greiða upp þær skuldir sem þannig hafa safnast.