01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5195 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum fyrir árið 1988. Þessi umræða hefur tekið ýmsum myndum og hefur verið farið vítt og breitt um efnahagsástandið eins og það er í dag, kjarasamninga, stöðu atvinnuvega og þá sérstaklega stöðu fiskvinnslunnar. En þær aðgerðir sem þetta frv. boðar eru að meginstefnu til stuðnings þeirri grein atvinnulífsins.

Hér áðan lýsti fulltrúi Borgarafl., hv. 7. þm. Reykn., skoðun Borgarafl. á frv. en ummæli hans hafa að mörgu leyti verið gagnrýnd og þá sérstaklega af 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni. Vil ég því í upphafi koma nokkrum orðum að því.

Sá kjarasamningur sem gerður var rétt fyrir helgi fól í sér 13–15% hækkun launa á einu ári. Með þeim aðgerðum, sem nú hafa verið boðaðar með frv., er fyrst gengið út frá því, sem raunar hefur komið fram, að verði 6% gengisfelling og síðan ýmsar tilfæringar með frv. 6% gengisfelling þýðir að vöruverð á innfluttum framleiðsluvörum hækkar með margföldum áhrifum þegar til nokkurs tíma er litið, um 9–10%.

Varðandi innlenda framleiðslu var verið að boða í dag að landbúnaðarvörur hækki um 4–9%. Það eru fleiri þættir sem eru að hækka. Tryggingaiðgjöld eru að hækka um 60% þessa dagana svo að sú kjarabót sem í kjarasamningunum felst vegur lítið upp á móti þessum hækkunum, bara þeim hækkunum sem núna sjást beint. En ekki skal dregið í efa að þeir menn sem eru í fyrirsvari fyrir verkalýðshreyfinguna hafi reynt að gera sitt besta í því að ná sem bestum samningum fyrir sitt fólk. Það er vitað að mjög þröngt er í búi núna í þjóðfélaginu og sérstaklega hjá fiskvinnslugreinum.

Hverjar eru ástæðurnar? Ástæðurnar eru þær að sú ríkisstjórn sem sat og sem situr nú hefur ekki haldið þannig á spöðunum að þessi grein geti búið við fullnægjandi skilyrði, þannig að hún geti greitt mannsæmandi laun. Fastgengisstefnan hefur leitt þetta af sér ásamt því að ekki hefur verið gripið til ráðstafana til að bæta stöðu þessarar sérstöku greinar með því að létta af henni ýmsum kostnaðarhækkunum en rétt er að til þeirra hefur aðallega verið stofnað hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hæstv. viðskrh. hélt góða ræðu um það að nú væri þetta allt á réttri leið og árangur jafnaðarstefnunnar væri að koma í ljós. Benti hann aðallega á því til stuðnings að nú væru vextir að lækka. Það er þannig með vexti að þeir eru tvenns konar, annars vegar raunvextir sem sjást best á vísitölubundnum kjörum og hins vegar nafnvextir sem eru á hinum almennu skuldabréfum og almennu reikningum í bankakerfinu. Í raun réttri felst ekki í þeirri vaxtalækkun sem hefur orðið nein raunvaxtalækkun heldur er bankakerfið aðeins að laga sig að þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að miðað við vísitölur hefur verðbólgan lækkað og þá er mjög eðlilegt að nafnvextir lækki líka. Það mætti kannski líkja þessu við það að maðurinn er jafnstór hvort sem hann stendur uppi á stól eða ekki.

Ég get verið sammála hæstv. viðskrh. í því að auðvitað gilda lögmál hagfræðinnar hérna eins og annars staðar. Ef það væri ekki væri hér mjög óeðlilegt ástand. Hins vegar er annað sem gildir hér en ekki annars staðar. Það er það að atvinnuvegir og ástand er miklu sveiflukenndara en í öðrum ríkjum vegna þess m.a. að við erum háðir duttlungum erlendra markaða og miðum lífskjör okkar við það sem gerist þar.

Það sem ég vildi koma inn á til viðbótar er það að auðvitað viðurkennum við sem aðrir að sú aðgerð að fella gengið hafi verið nauðsynleg og raunar teljum við í Borgarafl. að ekki hafi verið gengið nógu langt þegar á þjóðhagsstærðir og afkomu er litið. Þegar litið er á það sem gert er, 6% gengisfellingu, verður líka að líta til þess til hvaða ráðstafana hefur verið gripið og hvort þær leiðir komi til með að jafna það sem á vantar. Ég tel að svo sé ekki og tel að þessar aðgerðir séu bara stundarlausn en ekki lausn til frambúðar. Það liggur alveg ljóst fyrir að tekjur fiskvinnslunnar næstu mánuði koma ekki til með að hækka út af því að það eru engin teikn þess á lofti erlendis að verð á okkar afurðum hækki eða þá að gengi gjaldmiðla komi til með að breytast umfram það sem nú er. Ég held að það sé alveg ljóst að til sams konar aðgerða verði gripið innan skamms.

Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar frv. en vek þó máls á því sem fram kom í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. um niðurskurð sem er á framlögum til hans ráðuneytis og þá varðandi lyfjakostnað. Að sjálfsögðu fagna ég því að þetta komi ekki til með að lenda á þeim sem borga lyfin, heldur komi þetta til með að leiða til hagræðingar í rekstri og að hæstv. ráðherra ætli að sjá til þess að læknar komi til með að ávísa í auknum mæli á íslensk lyf. Þetta er þá kannski dæmi um það hvað er hægt að spara í ríkisrekstrinum. Þá vaknar líka sú spurning hvort ekki hafi mátt, bæði er fjárlögin voru gerð og núna, í staðinn fyrir að leggja á álögur, athuga hvort ekki sé eitthvað hægt að laga í ríkisrekstrinum.

Fleira vildi ég ekki taka fram að svo komnu, en ég vona að þetta frv. hljóti góða afgreiðslu í þeirri nefnd þar sem þetta kemur til afgreiðslu og að vel verði farið ofan í saumana á þeim liðum sem þarna eru. Ég fagna því að ríkisstjórnin ætlar að fara að gera eitthvað í þeim málum sem hvíla svo þungt á okkar landi.