01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5197 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum við þessar umræður sem sjálfsagt er að svara. Fyrsta spurningin var um það hvort ekki væri öruggt að launaskattur yrði felldur niður af fiskeldi, fiskirækt, svo sem boðað hefur verið um niðurfellingu launaskatts, 1%, af sjávarútvegi, fiskiðnaði, frá og með 1. júlí og svarið er það að svo er. Það sem kann að valda misskilningi er að sérstaklega er getið mannvirkjagerðar við fiskirækt, en mannvirkjagerð og byggingarstarfsemi bera að sjálfsögðu áfram launaskatt, 3,5%.

Í annan stað var spurt hvenær væri að vænta lækkunar vaxta á spariskírteinum og þá um hve mikið. Við þessu er ekki unnt að gefa svar að svo stöddu. Ætlunin er að meta nú næstu dagana ástand á peningamarkaði eftir lækkun nafnvaxta. Ákvörðun um þetta verður tekin innan tíðar, en hún hefur ekki verið tekin og því er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega hversu mikil sú vaxtalækkun verði.

Spurt var um ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar um framlag af hálfu ríkisins vegna starfsmenntunar launafólks. Eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vestf. var þetta þáttur af samningagerðinni af hálfu Verkamannasambandsins við vinnuveitendur. Ákveðið er að verja til þessarar starfsemi 35 millj. kr. Reglur um aðild annarra að þeim sjóði verða ekki settar nema með nánu samráði við Verkamannasambandið, en þetta er hliðstætt við námskeiðahald og starfsmenntun í fiskiðnaði sem gaf góða raun fyrr. Hitt ákvæðið sem varðaði Atvinnuleysistryggingasjóð er um það að framlengja lög og reglur um hlut Atvinnuleysistryggingasjóðs við að greiða kauptryggingu þeirra starfsmanna sem þátt taka í námskeiðum eins og t.d. námskeiðum í fiskvinnslunni. Að öðru leyti er þess að geta að á vegum félmrn. er nefnd starfandi sem á að skila tillögum um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er vitað að í fjárlögum eru framlög til þessarar starfsemi undir tveimur öðrum liðum og mikið meira er ekki um það að segja að svo stöddu.

Þá var það fullyrt af hálfu hv. 7. þm. Reykv. að í ræðu minni hefðu falist tillögur um hækkun vaxta af húsnæðislánum. Það er misskilningur eða ranghermi. Eins og menn sjá af þessari tillögugerð er engin ákvörðun tekin um hækkun vaxta af húsnæðislánum. Ég vék að því varðandi húsnæðismálin í ræðu minni áðan að innan 10 daga eða svo væri að vænta álitsgerðar eða niðurstaðna frá þeirri nefnd sem hæstv, félmrh. hefur skipað og falið að taka til endurskoðunar ýmsa undirstöðuþætti húsnæðismálanna. Að sjálfsögðu er ekki við því að búast að nefndin skili eftir tiltölulega skamman tíma eða um það bil einn mánuð heildstæðum tillögum um nýtt húsnæðislánakerfi. Fremur er um að ræða að þar verði mótuð stefna, skilgreint hvaða þættir það eru sem þarf að taka til endurskoðunar og meðan málin eru á því stigi er ekki tímabært að taka ákvarðanir um frekari breytingar á grundvelli óbreytts kerfis.

Spurt var sérstaklega um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þær tölur sem hafa verið birtar í því efni eru í fskj. III með frv. Þar er gerð grein fyrir forsendum fjárlagafrv. og fjárlaga 1988 um tilfærslu verkefna til sveitarfélaga. Eins og menn vita var upphaflega gert ráð fyrir því að tilfærslurnar fælu í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin að upphæð um 200 millj. kr. Í meðförum Alþingis var síðan dregin til baka tilfærsla tónlistarfræðslu sem nemur tæplega 52 millj. kr. Að öðru leyti er hér um að ræða upphæð sem nemur 31 millj. kr. um það bil og skiptist hún þannig: Dagvistarheimili 60 millj., Félagsheimilasjóður 15 millj., Íþróttasjóður 25 millj., húsfriðun, byggða- og minjasöfn 8,3 millj., málefni fatlaðra, vatnsveitur, heimaþjónusta aldraðra, landshafnir. Það sem um er að ræða er það að af þessum 398 millj. sem komu í hlut sveitarfélaganna í auknum framlögum, þá gerist það nú að sá kostnaður sem hefði fallið á sveitarfélögin ef frv. hefði orðið að lögum nemur um 130 millj. kr., en þessi kostnaður fellur nú að sjálfsögðu á ríkið við það að frv. nær ekki fram að ganga. Að öðru leyti eru dregin til baka þau framlög umfram þetta upp á 260 millj. kr. sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir samkvæmt samningum og samkomulagi við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga og voru lögð fram sem auknir fjármunir til sveitarfélaga til þess að greiða fyrir verkaskiptingunni. Menn geta nefnilega ekki gert hvort tveggja í senn: beitt sér gegn því að verkaskiptingin nái fram að ganga og síðan harmað það að auknir fjármunir til sveitarfélaganna, sem áttu að greiða fyrir þeirri verkaskiptingu, geri það ekki þegar samkomulag næst ekki um málið.

Að öðru leyti er ekki margt um þetta að segja því til viðbótar sem þegar hefur fram komið. Sérstaklega vil ég þó gera athugasemd við það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði um þróun kaupmáttar launa og þjóðartekna þar sem hann hélt því fram að kaupmátturinn hefði verið minni en vöxtur þjóðartekna. Það er ástæða til þess að rifja þetta upp. Þjóðartekjur hafa aukist sem hér segir á næstliðnum árum: Um 71/2% 1986, 8% 1987. Það er gert ráð fyrir allt að 2% samdrætti í þjóðartekjum árið 1988. Þannig hafa þjóðartekjur á þessum þremur árum aukist um 131/2%. Um kaupmátt launa er það að segja að hann jókst um 91/2% 1986, 18% 1987 og áætlað er að hann lækki að meðaltali í samanburði við árið 1987 um 3% á árinu 1988. Niðurstaðan er þess vegna sú að á sama tíma og þjóðartekjur hafa á þessum þremur árum aukist um 131/2% hefur kaupmáttur launa aukist um 25%.

Í ræðu sinni áðan vakti hæstv. viðskrh. athygli á því hversu mótsagnakennd sú gagnrýni er sem frv. hefur sætt af hálfu stjórnarandstæðinga. Annars vegar er talað um hrun fastgengisstefnu og hv. 7. þm. Reykv. lýsir því yfir sem sinni skoðun og sínu mati að þörf sé meiri gengisfellingar. Hann gerist því talsmaður meiri gengisfellingar. Í hinu orðinu harma menn háa verðbólgu og láta uppi óskir um það að menn nái fastari tökum á verðbólgunni og verðbólga fari lækkandi. Síðan segja menn í öðru orðinu að það beri að harma að dregið sé úr framkvæmdum og fjárfestingum, en í hinu orðinu fárast menn yfir miklum viðskiptahalla. Þetta er náttúrlega býsna mótsagnakennt og kjarni málsins er kannski þessi, ef menn vilja meta það hverra kosta var völ: Vildu menn meiri gengisfellingu og þar af leiðandi meiri verðbólgu og þar af leiðandi meiri tilfærslu frá launafólki til atvinnuvega? Er það kröfugerðin af hálfu stjórnarandstöðunnar? Voru menn reiðubúnir að fórna þeim markmiðum sem þeir setja sér um að ná niður verðbólgu á seinni hluta árs, en það samrýmist að sjálfsögðu ekki... (Gripið fram í.) það samrýmist að sjálfsögðu ekki, hv. 7. þm. Reykv., svo mikilli gengisfellingu.

Þegar menn segja: Það hefði kannski verið skynsamlegt að taka undir með stjórnarandstöðunni við afgreiðslu tekjuöflunarfrumvarpa fyrir jól, t.d. með því að falla frá launaskatti og endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti þá, er ástæða til að spyrja: Halda menn að það hefði gengið betur að ná samkomulagi um hvort tveggja í senn, trausta stöðu ríkisfjármála og aðgerðir til þess að bæta rekstrarstöðu og greiðslugetu fiskiðnaðar og sjávarútvegs, ef það hefði verið gert þá? Eða er ekki líklegra að aðgerðir af því tagi þá þegar hefðu leitt til þess að kröfugerðin um gengisfellingu hefði orðið enn þá meiri? Ég er reyndar alveg sannfærður um það að svo er.

Það er deginum ljósara að samkomulagið hefði ekki getað tekist með þeim hætti sem það þó hefur gerst ef ríkisstjórnin hefði hvikað frá þeim ásetningi sínum fyrir jól að gera það sem í hennar valdi stóð til þess að treysta fjárhag ríkisins því að það er forsenda þess að þetta samkomulag tókst.

Herra forseti. Ég held að ég hafi með þessum athugasemdum svarað gagnrýni og fyrirspurnum. Nei, það var ein fsp. enn, herra forseti. Það var spurningin um vaxta- og geymslugjald, hvað yfirlýsingin um það sem birtist í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar merki. Hún merkir kannski ekki mikið ein og sér, en því er yfirlýst að af hálfu fjmrn., landbrn. og viðskrn. verður sett á laggirnar nefnd til þess að fara ofan í saumana á rekstrarvanda afurðastöðva landbúnaðarins, en af minni hálfu felur það jafnframt í sér að þá verði einnig teknir til endurskoðunar aðrir veigamiklir kostnaðarþættir ríkissjóðs vegna landbúnaðarmálanna, ekki hvað síst þeirra ákvæða búvörulaga sem skuldbinda ríkissjóð til þess að greiða verðbætur á landbúnaðarafurðir þrátt fyrir það að þær hafa þegar verið staðgreiddar og teljast þess vegna vera seldur varningur í eigu afurðastöðva og sú greiðsluskylda miðuð við 15. des. ár hvert.

Herra forseti. Ég læt umræðu um þetta mál lokið af minni hálfu.