01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5200 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Já, það er sérkennilegt að hlusta á þessa umræðu ef menn hafa þrek til að sitja undir þessu öllu, bera t.d. saman svör hæstv. ráðherra varðandi vaxta- og geymslugjald af landbúnaðarafurðum, en hæstv. fjmrh. sagði nú í örstuttu máli allt annað en hæstv. sjútvrh.

Hæstv. sjútvrh. sagði að aftur ætti að hverfa til hins gamla horfs í þessu efni varðandi vaxta- og geymslugjöld af landbúnaðarafurðum. Hæstv. fjmrh. sagði hins vegar: Það á að endurskoða þetta og skipa nefnd en jafnframt að endurskoða aðra kostnaðarþætti landbúnaðarins. M.ö.o., það getur verið að kerfi vaxta- og geymslugjalda verði breytt, en það á þá landbúnaðurinn sjálfur að borga.

Þarna ber ráðherrunum ekki saman varðandi þetta atriði og verður auðvitað óhjákvæmilegt að ganga nánar eftir því við meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi hvor það er sem hefur stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég fer fram á það að hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. komi sér saman um texta sem verði þá lagður hér upp í ræðustólinn einhvern tíma við 2. eða 3. umr. málsins þannig að þingdeildin viti um hvað var í raun og veru samið í ríkisstjórninni í málinu. Það er bersýnilegt að hæstv. fjmrh. er með allt aðra túlkun á þessu máli en sjútvrh. og munar það sjálfsagt talsverðum upphæðum þegar þetta mál er skoðað.

Ég þakka hæstv. ráðherrum sem hafa talað fyrir svörin sem þeir hafa gefið við þeim spurningum sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa borið fram í dag. Ég skil það svo í fyrsta lagi að ekki verði um að ræða launaskatt á fiskeldi frá og með 1. júlí 1988 þó að kannski megi skilja frv. svo, og það er spurning hvort ekki þarf aðeins að laga orðalag á frv. til þess að þetta sé alveg ótvírætt, því að ég tek auðvitað yfirlýsingar ráðherra góðar og gildar í þessu efni. Það er engin ástæða til annars. En það er spurning hvort nefndin ætti ekki að líta aðeins á orðalag frv. til þess að glöggva sig betur á því eða það sé skýrara hvert menn vilja fara í þessu efni.

Ég tók eftir svari hæstv. fjmrh. varðandi spariskírteinin og tel í sjálfu sér enga ástæðu til þess að ganga frekar eftir því. Sömuleiðis minntist hann aðeins, í tilefni af fsp. minni, á framlög vegna starfsmenntunar verkafólks og ég spurði hann um þetta í dag vegna þess að mig langaði til þess að vita hvernig menn hugsuðu sér að framkvæma þetta. Ég var ekki að amast við málinu nema síður sé. Ég bendi á tillögu sem ég hef flutt hér á tveimur þingum, um rétt launafólks til námsleyfa á launum, sem ég held að sé satt að segja mjög stórt mál. Í Danmörku og Svíþjóð er til kerfi þar sem launafólk á kost á því að sækja nám, starfsnám, líka almennt nám og sömuleiðis félagslegt nám, á launum í 3–4 vikur á 3–4 ára fresti. Til þess er stofnaður sjóður þar. Ég held að þetta sé mjög þarft og brýnt mál og kannski getur þessi starfsmenntunarsjóður orðið einhver vísir að þessu. Ef svo yrði mundi ég að sjálfsögðu fagna því.

Um svar hæstv. ráðherra varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð hef ég ekkert að segja. Ég lít svo á að það séu uppi hugmyndir um að framlengja þau ákvæði sem verið hafa í gildi varðandi hlut Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar um er að ræða greiðslu launa við uppsagnir og fleira af því tagi og ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta.

Í fimmta lagi nefndi hæstv. fjmrh. húsnæðislánin. Ég spurði: Er gert ráð fyrir hækkun vaxta af húsnæðislánum? Hann sagði nei við því. Það er ekki gert ráð fyrir því og þá er ég raunar ekki bara að tala um frv. Hann sagði hins vegar að í gangi væri endurskoðun á húsnæðislögunum. Það væri væntanlegt álit eftir 10 daga. Hvað eru menn þá að þvælast með þennan 100 millj. kr. niðurskurð inni í þessu plaggi ef eitthvert álit er að koma eftir 10 daga? Hvað eru menn að eyða hérna heilum degi í Nd. í umræður um kaupleigu þegar stjórnarflokkarnir eru ekki einu sinni sammála þar sem það er ætlun ríkisstjórnarinnar að endurskoða allt húsnæðiskerfið hérna næstu daga og það er einhver nefnd vísra manna undir forustu Kjartans Jóhannssonar, þess ágæta manns, (Gripið fram í: Og vísa.) og vísa, vissulega, þó að alþýðuflokksmenn hafi ekki alltaf kunnað að meta hann sem slíkan, en ég geri það, og allt gott um það að segja. En af hverju í ósköpunum eru menn þá að kýla þessi mál og breytingar á húsnæðiskerfinu í gegn með þessum hætti? Ég sé ekki rökin fyrir því. Ég er satt að segja ekkert undrandi þó að hæstv. félmrh. leggi fram bókun í ríkisstjórninni þar sem hún mótmælir þessu. Ég er hins vegar mjög leiður yfir því að hún skuli ekki hafa komið hingað í deildina til að svara spurningum. Ég tek auðvitað yfirlýsingar forseta um að félmrh. hafi farið heim vegna veikinda góðar og gildar, að sjálfsögu, dettur ekki annað í hug, en bendi á að auðvitað ræður félmrh. málaflokknum. Auðvitað getur hún neitað að láta skera niður Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Auðvitað getur hún neitað því sem hún vill í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga líka. Það er náttúrlega ekki marktækt ef ráðherra málaflokksins leggur fram bókun og síðan kemur fjmrh., allt annar ráðherra úr allt öðru ráðuneyti og gerir tillögur um það að breyta þeim málaflokki sem hæstv. félmrh. fer með. Ég orðaði það þannig í dag að þetta jafngilti því að hæstv. fjmrh. væri að setja félmrh. af í þessu máli og þannig er það vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. félmrh. í þessu efni, annaðhvort sem fjmrh. eða sem formaður Alþfl. nema hvort tveggja sé. En þannig er það.

Ég tók eftir því að hæstv. félmrh. var hér í umræðum í allan dag í Nd. og fannst það satt að segja alveg afleitt að hún skyldi ekki treysta sér til að skjótast hingað augnablik til að svara spurningum mínum t.d. um þetta: Um hvað er bókunin? Er hæstv. félmrh. á móti meðferðinni á byggingarsjóðunum eða Jöfnunarsjóðnum eða hvoru tveggja? Vill hæstv. fjmrh. koma hér upp á eftir og lesa bókunina? Hver er bókunin? Hverju er hæstv. ráðherra að mótmæla? Ég vil fá upplýsingar um það. Ef þetta er alvörustjórnarfrumvarp, en svo er að skilja á hæstv. viðskrh. sem flutti alvarlegustu ræðu dagsins eins og venjulega, er auðvitað nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar um það hver er afstaða einstakra ráðherra í þessu máli og þar á meðal hæstv. félmrh. Ég vil fá bókunina. Út með hana! Hvaða leyniplagg er þetta? Er þetta ekki plagg ríkisstjórnarinnar eða er þetta plagg sem Alþfl. einn fer með, Alþýðuflokksdeildin í ríkisstjórninni?

Síðan eru útskýringar hæstv. fjmrh. á þessu Jöfnunarsjóðsmáli. Þær eru náttúrlega svo dæmalausar. Hann segir: Sveitarfélögin voru með röfl. Af því að þau voru með röfl hættum við við þetta en lækkum um leið framlagið í Jöfnunarsjóðinn um 398 millj. Sveitarfélögin mega í raun og veru bara þakka fyrir að hanga þó eftir með 268 millj. kr., með þessa skerðingu á Jöfnunarsjóðnum, niður um 398 millj. kr. Þetta er auðvitað fullkomin rökleysa. Auðvitað ætti hæstv. fjmrh. að ákveða að skila skerðingunni til sveitarfélaganna þar sem dæmið gekk ekki upp. Þannig átti hæstv. ráðherra að taka á málinu. Hann átti að segja: Veitum þessu fé í tiltekin verkefni, skilum mismuninum til Jöfnunarsjóðs, 268 millj. kr. Það væri í raun og veru það eina sem væri eðlilegt að gera í þessu sambandi. En þessi ofboðslega talnaleikfimi sem hæstv. ráðherra er hér með og segir nánast að sveitarfélögin megi bara þakka fyrir að það verði ekki tekið meira af þeim. Þetta er skrýtið þegar hæstv. fjmrh. ætlar á sama tíma að fara að ræða við sveitarfélögin um að þau skeri niður framkvæmdir sínar. Þá geri ég ráð fyrir að sveitarfélögin komi með reikninga samkvæmt þeim greinum sem liggja fyrir í þessu frv.

Ég segi að lokum varðandi þetta mál að ég vil auðvitað ræða þessi mál við hæstv. félmrh. nánar. Ég vona að hún verði komin til heilsu þegar við hittumst aftur við 2. umr. málsins hvenær svo sem hún fer fram. Ég legg á það mjög mikla áherslu að hún komi hér til viðræðna í deildinni og auðvitað má hugsa sér að fara fram á það að hæstv. ráðherra verði kallaður fyrir fjh.- og viðskn. hv. deildar. Það hefur áður gerst að ráðherra hafi verið kallaður fyrir nefndir til viðræðna og það má auðvitað vel gera það nú þar sem mikið liggur við.

Varðandi kaupmátt launa sem hæstv. fjmrh. ræddi hér aðeins. Það sem ég sagði var ósköp einfaldlega þetta: Kaupmáttur launa milli áranna 1987 og 1988 skerðist meira en nemur falli þjóðartekna á sama tíma. Það er óvefengjanlegt. Fall þjóðartekna er 11/2% og fall kaupmáttar, samkvæmt þeim útreikningi sem hv, þm. Karvel Pálmason las hér upp í dag, er 3%, þ.e. fall kaupmáttar innan ársins 1988. Hins vegar er það alveg óvefengjanlegt að ... (Dómsmrh.: Nei, hv. 3. þm. Vestf. las þetta ekki rétt.) Bíddu nú við, hv. 3. þm. Vestf. fór með nokkrar tölur sem ég skal lesa, (Dómsmrh.: Hann sagði að meðalkaupmátturinn hefði breyst um 3% samkvæmt þessu milli ára, en að hann væri varinn innan ársins.) Innan ársins? Það sem hv, þm. Karvel Pálmason sagði var einfaldlega þetta: Við höfðum kröfur um óbreyttan kaupmátt frá árinu 1987. Milli áranna 1987 og 1988 lækkar kaupmáttur um 3% eins og hann sagði og eins og stendur hér í plaggi Þjóðhagsstofnunar líka varðandi kaupmátt ráðstöfunartekna, en það er ómótmælanlegt að kaupmáttur lægsta kauptaxtans lækkar frá nóvember 1987 til nóvember 1988 um 8–10%. Ég skora á hæstv. viðskrh., sem stendur þarna í dyrum, að leggja fram upplýsingar um þróun kaupmáttar lægstu taxta frá desember 1986 til loka þess samningstíma sem var verið að ganga frá núna. Ég skora á hæstv. ráðherra að gera það vegna þess að hér er um alveg óvefengjanlega hluti að ræða. Það sem hins vegar kann að vera að menn átti sig ekki á er það að í nýju kjarasamningunum eru ákvæði um aldurshækkanir og orlofsbreytingar og desemberuppbót sem lyfta mjög stórum hópi fólks umfram það sem hinar hreinu taxtabreytingar gera. Þegar ég er að tala um 31 500 kr. er ég að tala um þá hækkun sem verður í prósentum á hinum hreinu kauptöxtum byrjenda, þeirra sem eru að hefja störf á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna er kaupmáttarskerðingin milli áranna 1987 og 1988 meiri en nemur falli þjóðarteknanna. Það er óvefengjanlegt. Af því að hæstv. iðnrh., sem ég var ekkert að biðja um að svara mér einu eða neinu, fór að halda einhverja dómadagsprédikun um næstsíðustu ríkisstjórn og var með sagnfræðilegar upprifjanir í dag er best að ég fari aðeins yfir það þó að hann sé því miður illa fjarri góðu gamni. (Fjmrh.: Hann er farinn.) Hann er farinn, já, en það gæti verið að sumir fleiri hefðu gott af því að heyra það. Hæstv. fjmrh. verður að þola að sitja undir því. Öðru eins hefur maður setið undir frá honum um dagana.

Staðreynd málsins er sú að á árunum 1979–1982 er kaupmáttur kauptaxta á bilinu 93–99 miðað við 100 1978. Á árunum 1984–1986 er kaupmátturinn á bilinu 69,5–72. Á árinu 1987 hækkar hann verulega, þessi kaupmáttur kauptaxta. En á sama tíma hækka þjóðartekjur á mann að raungildi - það væri kannski rétt að fá eitthvað af þessum snillingum hér í salinn - um 15%, á árunum 1979–1986, og sennilega um 23–24% á árunum 1979–1987. En meðan þjóðartekjur á mann hækka að raungildi um 25% lækkar kaupmáttur kauptaxta sennilega um 15%. Og mér er spurn: Hvar ætli mismunurinn liggi? Hverjir ætli hafi hirt mismuninn í kaupmætti kauptaxta annars vegar og hins vegar í vaxandi þjóðartekjum á þessum tíma? Þess vegna þýðir auðvitað ekkert fyrir menn eins og hv. varaþm. Sjálfstfl. að vera að ráðast hér sérstaklega að þeirri ríkisstjórn sem annar varaformaður Sjálfstfl. stýrði hér fyrr á öldinni og ég átti sæti í vegna þess að þá var kaupmáttur kauptaxta að jafnaði 10–15% hærri en hann var á síðustu árum og ef maður tekur aukningu þjóðarteknanna inn f myndina er munurinn í raun meiri. Ég er ekkert að gleðja forsetann með því að láta kalla f hæstv, iðnrh. eða fara fram á það vegna þess að ég vil greiða fyrir þingstörfum að vanda. Hins vegar hefði hæstv. iðnrh. gott af því að heyra þennan lestur og meira til.

Síðan nefndu þeir félagar, bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., spurninguna um það hvað ætti að gera og það er alltaf þetta tal í þessu kerfisgengi hér: Það eru mótsagnir í því sem þið eruð að segja. - Auðvitað eru mótsagnir í því sem menn eru að segja, bæði við og þeir, og það eru meira að segja mótsagnir í því sem þið eruð að gera, auðvitað, vegna þess að efnahagsráðstafanir eins og þessar raðast saman úr mörgum mismunandi þáttum. Hvað er að gerast hér? Í efnahagsmálum var hér áður oft talað um niðurfærslu verðlags, niðurfærsluleið, uppfærsluleið og millifærsluleið. Hvað er hér að gerast? (Gripið fram í: Félagsmálapakki.) Sem er ein leið líka en sem er liður í millifærsluleið. Það eru þrjár meginleiðir. Hvað er hér að gerast?

Þær ráðstafanir sem hér er verið að framkvæma eru í raun og veru blanda af þessu þrennu. Það er um að ræða gengislækkun eða uppfærslu, það er um að ræða millifærslu í sambandi við söluskatt í sjávarútvegi og það er um að ræða niðurfærslu að því er varðar lækkun launaskatts í sjávarútvegi þannig að auðvitað er það þannig þegar menn eru að grípa til efnahagsráðstafana eða þegar menn eru að gagnrýna efnahagsráðstafanir, þá geta menn út af fyrir sig sagt: Það er mótsögn í hlutunum. En þannig er nú okkar þjóðfélag, það er fullt af mótsögnum og spurningin er sú í rauninni í þessu efni: Vildu menn ganga lengra eða skemmra í einhverjum þeim aðgerðum sem hér hafa verið nefndar og hér eru tillögur um? Ég vil nefna sem dæmi: Ég tel að það hefði átt að ganga miklu lengra í millifærslu, miklu lengra í skattlagningu á versluninni, miklu lengra í skattlagningu á milliliðunum og flytja þá fjármuni til í þjóðfélaginu til þess að jafna lífskjör í landinu. Og í annan stað átti að gera ráðstafanir til þess að lækka vexti með beinum stjórnvaldsákvörðunum. Þessar ráðstafanir hefðu skilað kjarabót annars vegar til láglaunafólksins og hins vegar hefðu þær þýtt betri afkomu útflutningsatvinnuveganna og þar með þörf fyrir minni gengislækkun en ella hefði verið. Þegar ég er að segja hér í dag að ég spái því að vinnslan muni koma til ríkisstjórnarinnar á miðju ári og segja: Við viljum meiri gengislækkun, þá er það yfirlýsing sem byggist á því að vinnslan er núna rekin með halla og frystingin er rekin með halla. Og það er ekki vegna þess að ég sé hér að gera tillögur um gengislækkun, eins og hæstv. fjmrh. var að segja hér áðan eða viðskrh. Ég er að vekja athygli þeirra á þeim staðreyndum að við lifum á fiski og ef fiskvinnslan í þessu landi er á hausnum, ef fiskvinnslan í þessu landi tapar, þá rekum við ekki þjóðarbúið. Svo einfalt er það. Og það þýðir ekkert að sýna fínar tölur um verðbólgu og fallegan ríkissjóð ef fiskvinnslan ekki gengur. En það er eins og þessir menn skilji það ekki og læri það heldur aldrei, sem er makalaust með tilliti til þess að þeir ættu að hafa a.m.k. sumir hverjir lífsreynslu sem dygði í þessu efni.

Hæstv. fjmrh. sagði á einhverjum fundi í Keflavík núna fyrir nokkru og slegið var upp í blaði: „Gengisfelling núna væri óðs manns æði.“ Samkvæmt því er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um gengislækkun óðs manns æði og hæstv. fjmrh. framkvæmir hér óðs manns æði. Auðvitað liggur málið ekki þannig. Auðvitað er það þannig að hann áttaði sig á því að lokum að það varð að viðurkenna staðreyndir. Það var búið að halda þannig á málum að vinnslan stóð illa og stendur enn illa.

Ég ætla aðeins að nefna hér eitt atriði úr ræðu hæstv. fjmrh. Það var þetta: Halda menn að það hefði verið betra núna ef við hefðum ekki lagt á skattana, hætt við að leggja á launaskattinn og hætt við þetta með söluskattinn í sjávarútveginum um áramótin? Halda menn að það hefði verið betra? Var ekki betra að hafa gert það og láta þá halda að þeir væru að vinna eitthvað með því að sleppa þeim við þetta núna? — Macchiavelli kom nýlega út í íslenskri þýðingu. Kannski hæstv. fjmrh. hafi lesið ágæta þýðingu eftir Ásgrím Albertsson. „Að deila og drottna“, heitir þetta, „drottinn gaf og drottinn tók“. Þessi uppsetning mála er auðvitað svo ósvífin, svo yfirgengilega ósvífin að segja: Ég lagði skatta á sjávarútveginn til þess að ég hefði eitthvað um að semja þegar þeir kæmu til mín að væla um gengislækkun eftir nokkrar vikur. Það var það sem hæstv. fjmrh. var að segja. Þessi uppsetning mála er auðvitað svo ósvífin að engu tali tekur.

Ég tók vel eftir því, herra forseti, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér í dag og lagði á það áherslu að niðurstaða alls þessa, sem við erum að ræða hér um, byggðist ekki síst á því hver töggur væri í ríkisstjórninni. Og vafalaust er það alveg rétt. Það er þannig frá hnútunum gengið í þeim kjarasamningum sem nýlega var gengið frá að það er sagt sem svo: Ef Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandið semja um hærra kaup, þá á að taka upp samninga Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Og svo er bætt við því sem ég kalla öfugt BSRB-ákvæði. Það er sagt: Ef samið verður um hærra kaup við opinbera starfsmenn, þá skal hið sama ganga þarna yfir líka. Með þessu er í raun og veru búið að taka ákvörðun um það í þessum tilteknu samningum Verkamannasambandsins að reyra allan vinnumarkaðinn ef hægt er inn í það munstur sem þar er verið að skrifa niður.

Hv. þm. Karvel Pálmason spurði hvað hefði átt að gera. Var hægt að ná lengra? Um það skal ég ekkert segja. Ég veit ekki hvort það hefur verið til í stöðunni að sækja stórkostlegar kauphækkanir t.d. með verkfallsátökum eða þvílíku. Ég skal ekkert um það segja. Ég læt mönnum eins og hv. þm. Karvel Pálmasyni alveg eftir að dæma það og meta mikið frekar en ég get gert. En ég vil hins vegar segja að ég tel að það hefði verið hægt að ná lengra ef verkalýðshreyfingin öll hefði getað stillt sig betur saman. Og nú er ég ekki að kenna mönnum um það að menn ákváðu að fara hver fyrir sig í þessa samninga. En ég held að reynslan sé sú að því aðeins tekst okkur að lyfta raunverulega lægsta kaupinu að verkalýðshreyfingin taki á í sameiningu. Það sé gamla og góða boðorðið: Einn fyrir alla og allir fyrir einn.

Ég vona að í framhaldi af því sem gerðist á vinnumarkaðnum 1987 og virðist vera að gerast núna, þá muni menn læra að vinna betur saman en tekist hefur á undanförnum missirum. Það er svo merkilegt að þessi lexía samstöðunnar virðist bresta og týnast, einkum á hagvaxtartímum. Við getum séð þetta aftur og aftur á undanförnum áratugum að þegar um hefur verið að ræða hagvöxt og aukningu þjóðarframleiðslu, þá hefur samstaðan brostið og menn hafa viljað fara hver fyrir sig og ná í hver handa sér. Auðvitað er það hroðalegt fyrir verkalýðssinna eða sósíalista eins og ég tel mig vera að upplifa það aftur og aftur í sambandi við umræður um kjaramál að metingurinn um að vera aðeins hærri en sá næsti er oft ríkari en þörfin fyrir að standa sem hluti af heild. Og auðvitað sjáum við það í þessum samningum og í launamálunum á síðasta ári. Verkalýðshreyfingin hefur verið að veikjast sem afl, sem heildarafi og þetta sjáum við því miður mjög víða.

Hæstv. viðskrh. sagði: Hornsteinninn hefur ekki brotnað heldur verið færður til og múraður fastur á ný. Já, það er ástæða til að bregða fyrir sig myndmáli þegar komið er að efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Ekki vissi ég að hæstv. viðskrh. kynni sérstaklega með múrverk að fara. En hann sagði nokkuð merkilegan hlut í framhaldi af þessu sem ég veit ekki hvort allir hv. þm. hafa tekið eftir, mjög merkilegan hlut, í rauninni mjög alvarlegan hlut og væri gaman að fá um það umræður hér í þinginu einhvern tíma. Ég minni á að það er til skýrsla um peningamál, gengismál og vaxtamál frá Seðlabankanum frá því fyrir áramótin sem væri kannski ástæða til að taka einhvern tíma til umræðu í Sþ. Hæstv. ráðherra sagði að menn væru að ræða um það að tengja íslensku krónuna við erlenda myntkörfu eða við SDR og við þekkjum þessar umræður. Hvað þýðir þetta í raun og veru? Það þýðir það að svigrúm okkar til sjálfstæðrar ákvörðunar um gengið, og þar á meðal hlutföllin milli útflutnings og innflutnings, það svigrúm minnkar. Svigrúm okkar til sjálfstæðrar efnahagsstjórnunar frá þessum bæjardyrum séð minnkar. Um leið getur auðvitað hæstv. ráðherra komið hér og sagt: Þetta stuðlar að því að við náum stöðugleika hugsanlega í verðlagi hér í þessu landi svipað og er í þeim löndum sem við þá tengjum okkur við. En þá stöndum við enn frammi fyrir þeirri staðreynd að við erum auðvitað oft að breyta hér gengi, fella hér gengi til þess að breyta og rétta við tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu milli útflutnings og innflutnings vegna þess að við erum svo háð útflutningi á Íslandi og útflutningsframleiðslu að við þurfum aftur og aftur að gera ráðstafanir til að rétta þetta við.

Ég játa það alveg að ég er býsna íhaldssamur í þessu efni. En ég mundi satt að segja í fyrsta lagi gjarnan vilja fá upplýsingar um það hvað menn eru að hugsa. Ég vildi lesa í gegn pappíra ef menn eru með einhverja í þessu efni, en ég mundi fyrir fram vilja gjalda varhug við þessu atriði. Mér fannst þetta satt að segja eitt það merkilegasta sem hæstv. viðskrh. sagði - fyrir nú utan það að hann sagði að lögmál hagfræðinnar giltu líka hér á Íslandi og það kom út af fyrir sig engum á óvart að það gæti gerst af og til. En það er dálítið öðruvísi hagfræðin í 250 þúsund manna þjóðfélagi heldur en 25 milljón manna eða þaðan af stærra.

Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau góðu svör sem hann veitti mér og okkur. Ég vil segja það af minni hálfu að ég er tilbúinn til þess að aðstoða hann við það að taka á þessum vanda sem hann nefndi varðandi lyfin og sérfræðiþjónustuna. Þetta voru mikil mistök að opna fyrir það að menn gætu farið til sérfræðinga án ávísana frá heimilislæknum. Það voru mjög alvarleg mistök. Það er búið að kosta ríkissjóð stórfé. Og ég held að ég láti það koma hér fram að ég er líka tilbúinn til að segja það við hæstv. heilbrrh. að ég held að það þurfi að skrúfa fyrir þessa krana á ríkissjóð sem er búið að raða hérna niður allan Laugaveginn á þessum sérfræðistofum, þar sem menn sitja og tjakka út seðla úr ríkissjóði af því að þeir eru sérfræðingar og ríkissjóður ræður ekkert við. Það er í raun og veru rosalegt að sjá þessar tölur sem maður fréttir af varðandi laun læknastéttarinnar, sérstaklega sérfræðinganna og sem stjórnarnefndarmaður í stjórnarnefnd ríkisspítalanna er ég tilbúinn að hjálpa þar til. Ef það hins vegar tækist að skrúfa þennan kostnað eitthvað niður, sem ég vona að hæstv. ráðherra takist og ég vona að við hjálpum honum öll til þess, þá tel ég að það ætti að afturkalla eitthvað af þessari lyfjahækkun sem átti sér stað um áramótin upp að allt að 100%. Það var í raun og veru engin röksemd að hækka lyfin þó að EFTA og Efnahagsbandalagið krefðust þess að innlend lyf væru á sama verði og erlend.

Hæstv. sjútvrh. svaraði nokkrum atriðum sem fram komu hér í mínu máli í dag varðandi rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og ég hef þakkað honum fyrir það og hef engu við það að gæta. Það staðfesti í raun og veru það sem vitað er fyrir þá sem vita vilja um þessi efni.

Ég vek athygli á því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan að það er dálítið af kauphækkuninni að fara. Það er ekki bara 6% gengislækkun. Það er líka verið að hækka búvöruverð svo sem við er að búast og svo er 60% hækkun á iðgjöldum bifreiðanna, það kostar nú ekki lítið, þannig að ég er ansi hræddur um það að ef þetta væri reiknað á þann vísitölugrunn, sem vísitölufjölskyldan býr við í dag, þ.e. í mars 1988, þá kæmi þetta dæmi verr út en það gerir samkvæmt þeirri vísitölu sem við höfum búið við á undanförnum árum.

Hæstv. viðskrh. stóð mig að því að vitna vitlaust í seðlabankalögin og það þykir mér afar leitt. Hann sagði að ég hefði vitnað í 11. gr. sem ætti að vera sú 9. Reyndar sé ég það hér á ræðu nokkurri, sem haldin var á Alþingi 16. apríl 1986, að þá var greinin 10. gr. en tilvitnunin er í formann Alþfl. þannig að ég hef mjög sterkan stuðningsmann með mér í þessu efni. Þá var verið að ræða um það hvort ríkisstjórnin ætti að geta lækkað vexti eða fyrirskipað það að vextir væru teknir niður. Ég var að segja það hér í dag að ég fagnaði því að hæstv. viðskrh. hefði drifið sig í það að fyrirskipa í raun og veru vaxtalækkun þannig að eftir hinum frjálsu lögmálum markaðarins þyrfti ekki lengur að bíða.

Hæstv. viðskrh. hélt hér ræðu í dag - eina af þessum löngu ræðum sem ráðherrarnir hafa verið að halda hérna yfir okkur í dag og er allt gott um það að segja því að það er eðlilegt að málið fái ítarlega umræðu - og fór hér í raun og veru fyrst og fremst í ræðustólinn til að sverja það af sér að hann hefði tekið ákvörðun í málinu: Þetta var markaðurinn og aðstæðurnar. Þetta kom mér ekkert við. Þetta heitir auðvitað að ganga býsna langt í afstöðunni og verða kaþólskari en páfinn. Og þetta er líka breyting á afstöðu Alþfl. Þegar seðlabankalögin voru til umræðu 16. apríl 1986, þá fluttum við, ég og hæstv. fjmrh., 20 brtt. við seðlabankafrv. Ég skora á hæstv. viðskrh. að kynna sér þær brtt. Þar kom m.a. fram að við fögnuðum báðir sérstaklega þessari grein seðlabankalaganna, þar sem stendur:

„Seðlabankinn getur bundið ákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum, m.a. til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.“

M.ö.o.: Samkvæmt þessum texta hefur Seðlabankinn sem miðbanki afdráttarlaust vald til íhlutunar um vaxtaákvarðanir. Þessu fögnuðum við alveg sérstaklega, ég og hæstv. fjmrh., að Seðlabankinn hefur þetta íhlutunarvald, ríkisstjórnin hefur þetta íhlutunarvald. Því valdi hefur hæstv. viðskrh. beitt þó að hann kjósi að halda þannig á málum eða láta menn halda það að hann hafi hvergi komið nálægt málinu. Þess vegna er það alveg ástæðulaus hógværð fyrir hann að neita því að hann hafi átt einhvern hlut að því að lækka pínulítið vextina og skipa svo fyrir að svo skyldi gert. Hann ætti þvert á móti að muna þetta, það þakka honum það margir. Ég tel að það sé eitt það skásta við þessar ráðstafanir að þessu ákvæði seðlabankalaganna hefur verið beitt, sem við hæstv. fjmrh. fögnuðum sérstaklega í umræðum á Alþingi 16. apríl 1986.