01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5220 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég hefði alla jafna ekki séð ástæðu til að standa upp og taka til máls í þessu máli ef aðdragandi málsins hefði ekki verið með nokkuð óvenjulegum hætti undir það síðasta.

Eins og kunnugt er var frv. þessu útbýtt í þinginu fyrir viku, en þá án þess að fyrir hefði legið endanleg og formleg heimild þingflokks sjálfstæðismanna. Nú er það að vísu svo að í því efni og um það sem fór milli manna áður en frv. var lagt fram gætir einhvers misskilnings sem þó hefði ekki þurft að koma neitt að sök vegna þess að það hefði nákvæmlega engu breytt fyrir framgang frv. í þinginu ef það hefði verið lagt fram einum, tveimur eða þremur dögum síðar en varð vegna þess að það hafði ekkert komið til umræðu fyrr en í dag. En óðagotið við að koma þessu máli inn í þingið var svo mikið að það mátti ekki bíða þess að formlegar tilkynningar um framlagningu kæmu fram með venjubundnum hætti.

Ég hefði eflaust ekki séð ástæðu til þess að gera þetta að umtalsefni hér ef það hefði ekki verið þannig að um eitt mikilvægt atriði í frv., sem ég taldi að búið væri að ná samkomulagi um, er þannig háttað að orðalag er að okkar dómi sjálfstæðismanna ekki fullnægjandi. Því hefðum við að sjálfsögðu reynt að fá breytt við nánari umfjöllun ef tími hefði gefist til þess. En þar sem við fengum ekki að sjá endanlegt orðalag á þessu viðkvæma atriði gafst okkur ekki tækifæri til að gera við það okkar athugasemdir.

Þetta vildi ég segja hérna í tilefni sérstaklega af grein sem minn ágæti sessunautur og samstarfsmaður, 5. þm. Norðurl. v., skrifar í Morgunblaðið í morgun vegna þess að þar er því miður ekki allur sannleikurinn sagður og ég tel mig til þess knúinn að upplýsa hvað þarna fór fram áður en ég vík að efni frv.

Við sem sátum í tiltekinni undirbúningsnefnd stjórnarflokkanna, tveir fulltrúar félmrh. og tveir frá hinum stjórnarflokkunum, vorum búnir að komast að munnlegu samkomulagi, eftir að vísu þó nokkur fundahöld og þó nokkrar breytingar sem gerðar voru á frv., fyrst og fremst að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna.

Við náðum munnlegu samkomulagi á þriðjudeginum í síðustu viku, eins og réttilega kemur fram í greininni, og það var síðan borið undir þingflokka á miðvikudag. Ég tilkynnti hv. 5. þm. Norðurl. v. í fljótheitum (því hann var í símanum þegar ég ræddi við hann, en við erum hlið við hlið úti í Skjaldbreið), skaut því að honum að við hefðum samþykkt þetta.

En auðvitað liggur það fyrir í öllum samskiptum þingflokkanna að eðlilegar og tilteknar venjur gilda. Ég gerði reyndar síðan sérstakar ráðstafanir með því að ég hringdi í hinn nefndarmann félmrh., hennar hægri hönd í þessu máli, starfsmann ráðuneytisins, og tjáði honum á fimmtudagsmorgni að málið væri samþykkt, en ég þyrfti sem nefndarmaður okkar í þessari nefnd auðvitað að fá að sjá lagatextann sem ætlunin væri að leggja fram, þarf raunverulega ekki að taka slíkt fram, og í öðru lagi vildi þingflokkurinn fá frv. til athugunar. Menn vildu fá að sjá frv. og lesa það áður en það yrði lagt fram. Þessi vitneskja komst til ráðuneytisins og ráðherrans, það á ekkert að fara milli mála, þó ég hafi þurft að bregða mér bæjarleið á vegum þingflokksins um þessa helgi, að við þyrftum að fá frv. til athugunar og endanlegrar afgreiðslu.

Hinn ágæti og mæti starfsmaður félmrn., og ég vil nota tækifærið og taka undir ummæli ráðherrans varðandi hans störf í þessu efni, sem hafa að mínum dómi verið alveg til fyrirmyndar, og ég væni hann síst af öllum um einhver undirmál í þessu, mun hafa lagt hart að sér við að gera þær breytingar á texta þessa máls sem nauðsynlegar voru, en sendir þær síðan, að því er fram kemur, í þinghúsið eftir að allir eru héðan farnir á föstudag. Þess vegna berst mönnum þetta ekki í hendur, starfsmanni þingflokksins, (ÁrnG: Þetta er eins og stríðsáætlun.) fyrr en á mánudag og mér ekki fyrr en ég kem frá útlöndum nokkrum dögum seinna. Allt þetta hefði ekki þurft að vera neitt mál ef ráðherrann hefði getað setið á sér og látið þetta bíða í örfáa daga þangað til menn væru búnir að leggja blessun sína yfir þetta. En auðvitað minna þessi vinnubrögð um margt á ýmislegt annað sem maður hefur þurft að horfa upp á í sambandi við vinnubrögð þessa hæstv. ráðherra. Ég get ekki leynt því. (Félmrh.: Dæmi.) Ég skal t.d. lesa bréf sem framkvæmdastjórum þingflokka Sjálfstæðis- og Framsfl. var sent í þinghléi í janúar út af þessu máli. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta. Þar segir:

„Frv. til laga um kaupleigu hefur nú verið til meðferðar í þingflokkunum frá því um mánaðamótin nóvember-desember. Hér með er óskað eftir því að athugasemdir við frv., ef einhverjar eru, verði sendar undirritaðri eða Inga Val Jóhannssyni í félmrn. fyrir þriðjudaginn 26. jan. nk.“ — Þetta er sent 21., sem sagt rétt fyrir helgi, og menn eiga að gjöra svo vel að vera búnir að svara þessu rétt eftir helgi. Þarna er reyndar ranglega tekið fram að þetta hafi verið sent okkur um mánaðamótin nóvember-desember. Það er rétt sem segir í grein hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar í blaðinu í morgun að eintökin af þessu eru dagsett 7. des. Slík vinnubrögð í þinghléi ern fyrir neðan allar hellur.

Ég hafði einsett mér að sitja á mér og vera ekki að hafa orð á þessu, en eftir það sem á undan er gengið tel ég fullkomna ástæðu til þess. Þetta minnir reyndar á það þegar hæstv. ráðherra talaði um það við okkur nokkra stjórnarliða að senda okkur til yfirlestrar reglugerðir þær sem hún hugðist gefa út í framhaldi af nýsettum lögum um húsnæðismál fyrir jólin. Hún sendir þessar reglugerðir á síðasta degi, á fimmtudegi, þegar þinghlé er gert, seint um daginn, og gefur þær síðan út morguninn eftir. Þetta er ekki beint til marks um eðlilegan eða góðan samstarfsvilja.

En það er eins og það sé rauður þráður í þessum vinnubrögðum að það sé nóg að henda pappírum í fólk og segja: Þú ert búinn að sjá þetta og ef þú segir ekkert við þessu er það samþykkt. Það er tónninn, því miður, í grein míns ágæta félaga, hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar, í morgun. Þar er tekið fram, með leyfi forseta: „Á föstudag er lagatextinn tilbúinn og sendur niður í Alþingi til sjálfstæðismanna í samræmi við það samkomulag að þeir sæju hann áður en frv. yrði lagt fram sem var áætlað á mánudaginn.“ Auðvitað var það ekki til þess eins að sjá frv. Það var auðvitað til þess að fara yfir það og gera athugasemdir ef einhverjar eru. Menn verða þá að fá eitthvert tóm til þess. (GHelg: Þetta eru alvanaleg vinnubrögð, herra þingmaður.) Nei, ekki þar sem ég þekki til. (GHelg: Þetta eru alvanaleg vinnubrögð.) Ég vil biðja þm. að vera ekki að blanda sér í það sem hún veit ekkert um.

Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að ég uni því afar illa að liggja undir þeim grun eða þeim ásökunum, hvort heldur það er í Morgunblaðinu eða annars staðar, að hafa ekki unnið mín störf að þessu máli af heilindum og samviskusemi. Það er þá við einhverja aðra að tala um slíkt mál. (SJS: Er það gefið í skyn í Mogganum?) Það segir í þeirri grein sem ég var að vitna í. (SJS: Er það ekki ritstjórn ...?) Hv. þm. þarf ekki að vera að snúa út úr því. Nóg hefur hann til að snúa út úr almennt séð þó hann sé ekki að snúa út úr þessu. (SJS: Liggur illa á ræðumanni?) Nei, nei. (Forseti: Hv. ræðumaður hefur orðið.) (Gripið fram í: Það skulum við vona.) Ég taldi óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að koma þessum athugasemdum á framfæri. En ég vil jafnframt geta þess að í þessari undirbúningsnefnd, sem við sátum í sex manns, tókst á endanum ágætt samkomulag um þau ágreiningsefni sem þarna voru uppi þannig að það má segja að þessi uppákoma öll hafi verið hreinn óþarfi og framkoma ráðherrans að því leyti til afskaplega óheppileg og ekki síst fyrir hana sjálfa og hennar málefni hér.

Ég lét þess getið áðan að við hefðum sennilega ekki gert mikið veður út af þessu ef texti frv. hefði á endanum í þeim atriðum sem við gerðum athugasemdir við verið fullnægjandi. Ég ætla ekki að lesa það bréf sem við sendum félmrh., ég ætla ekki að tefja fundartímann á því, í kjölfar þess að frv. var lagt fram, en hún fékk sérstakt bréf frá þingflokki sjálfstæðismanna vegna þess. (Félmrh.: Er ekki ágætt að fá það lesið?) Jú, jú, ég skal lesa það þá. Það er svona, stílað á félmrh., með leyfi forseta:

„Vegna framlagningar frv. yðar um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, með síðari breytingum, 301. mál, vill þingflokkurinn taka fram eftirfarandi:

1. Ekki lá fyrir skrifleg heimild þingflokksins til að leggja frv. fram sem stjfrv. þegar það var lagt fram. Það hefur verið föst venja í núverandi stjórnarsamstarfi eins og áður að heimild þingflokka til að leggja fram stjfrv. er veitt með bréfi frá framkvæmdastjóra þingflokks.

2. Þegar gengið var frá munnlegu samkomulagi fulltrúa stjórnarflokkanna um hin mörgu ágreiningsefni í upphaflegu frv. ráðherra var skýrt tekið fram af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. að gefast yrði tóm til að yfirfara þær breytingar á texta frv. sem um var samið áður en frv. yrði lagt fram. Á raunar að vera óþarfi að taka slíkt fram svo sjálfsagt sem það er í samstarfi á milli flokka.

3. Komið hefur í ljós að þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá upphaflegum drögum eru að dómi þingflokksins ekki allar í fullnægjandi samræmi við hið munnlega samkomulag fulltrúa flokkanna. Hjá slíku hefði eflaust mátt komast hefðu eðlileg og venjubundin vinnubrögð verið viðhöfð áður en frv. var lagt fram. Þannig var ákvæði j-liðar 4. gr. ekki í skýru samræmi við samkomulag flokkanna né skýringar við þessa grein í athugasemdum frv. Sama er að segja um 1. málsgr. e-liðar 4. gr. Einnig hefur nýjum málsgreinum verið bætt inn í frv. sem fulltrúar flokkanna hafa ekki séð áður og öðrum breytt án samráðs.

4. Þingflokkurinn telur óhjákvæmilegt að um fullnægjandi breytingar á frv. semjist án tafar og leggur því til að þeim aðilum sem upphaflega var falið að ná samkomulagi um málið verði falið að ná endanlegu samkomulagi um frumvarpstextann og frv. svo breytt prentað upp.

Virðingarfyllst.

Sigurbjörn Magnússon,

framkvæmdastjóri.“

Það er nú þannig að hér er verið að tala um mál sem sérstaklega var samið um milli stjórnarflokkanna á sl. sumri. En það frv. sem upphaflega var lagt fram gekk á hinn bóginn í ýmsum atriðum verulega lengra en það samkomulag. Þess vegna sáum við sjálfstæðismenn ástæðu til að gera skriflegar athugasemdir við frv. og tillögur um málsmeðferð.

Það á ekkert að þurfa að taka það fram að þegar þannig er að málum staðið vilja menn auðvitað fá tækifæri til að yfirfara hinn endanlega frumvarpstexta. Við gerðum þá tillögu í þessu bréfi um málsmeðferð að þeir aðilar sem unnu þetta mál í nefndinni settust niður og leiðréttu það sem leiðrétta þyrfti að okkar dómi og málið yrði síðan prentað upp og því dreift hér aftur eins og algengt er í þinginu. Við höfum hins vegar ekki fengið neitt svar við þessu bréfi. Önnur leið hefði verið sú að gera fullnægjandi grein fyrir þessum atriðum í framsöguræðu og reyna að leysa málið í þingnefnd. En ég verð því miður að segja að mér fannst skýringar ráðherra við þessi atriði ekki nægilega góðar og kem ég þá að því, þó svo ég vilji þar með engan veginn útiloka að um þetta geti náðst samkomulag í nefndinni, enda var efnislega búið að því þannig að mig undrar mjög að hún skuli ekki, ráðherrann hæstv. og virðulegur, taka þetta alveg skýrt fram.

Það sem um er að ræða númer eitt er að þegar aðili sem hefur leigt kaupleiguíbúð og hyggst síðan festa kaup á henni eftir ákveðinn tíma á að gjaldfella hið sérstaka 15% viðbótarlán sem framkvæmdaaðilinn hefur fengið úr Byggingarsjóði ríkisins. (Félmrh.: Það kemur fram.) Það kemur ekki fram með skýrum hætti, ráðherra. Það á að gjaldfella það og greiða á fimm árum. Og það sem meira er: það á að gera það með markaðsvöxtum, með þeim vöxtum sem lífeyrissjóðirnir lána fé sitt á inn í húsnæðiskerfið. (Félmrh.: Á það að vera í lagataxtanum?) Það er ekki fullnægjandi, ef ég gæti fengið frið fyrir ráðherranum, virðulegum, að segja í þingræðu að það sé „ekki óeðlilegt“ að það eigi að miða við þá vexti sem lífeyrissjóðirnir veita fé sitt til húsnæðiskerfisins á. Það á að standa skýrum stöfum. Það er ekki nóg að vitna til þess að ríkisstjórnin fari með þetta vald. Ég skal útskýra með nokkrum orðum hvers vegna við leggjum mikla áherslu á þetta atriði vegna þess að hér var eitt af þessum stóru ágreiningsmálum milli flokkanna á ferðinni.

Það sakar þá ekki að geta þess að í upphaflegu frv. var gert ráð fyrir að einstaklingar sem eignast húsnæði í gegnum kaupleigukerfið ættu rétt á mun meiri og mun hagstæðari lánafyrirgreiðslu úr hinum opinberu byggingarsjóðum en hinn almenni borgari. Við sögðum sjálfstæðismenn og það var tekið undir það af fleirum: Svoleiðis gengur ekki. Það gengur ekki að veita venjulegu fólki að hámarki 70% lán úr Byggingarsjóði ríkisins, ef það er að byggja eða kaupa íbúð, en öðrum, sem hafa valið sér það form að festa kaup á íbúð í gegnum kaupleigukerfið, 85% lán. Það stenst ekki. Það var fallist á þetta. Það var ákveðið að hið sérstaka viðbótarlán upp á 15% skyldi gjaldfellt, endurgreitt með fullum markaðsvöxtum á fimm árum. Ef þetta kemur ekki nægilega skýrt fram þegar nefndin gengur frá þessu frv. tel ég mér alveg óhætt að fullyrða að þetta mál verður ekki afgreitt úr nefndinni með okkar samþykki.

Ég get hins vegar sagt það að ég tel að minn ágæti félagi, sem lagði sitt af mörkum til að ná samkomulagi, hv. 5. þm. Norðurl. v., og starfsmaður ráðuneytisins sem vann í þessu og aðrir nefndarmenn töldum okkur vera komna að samkomulagi. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að við náum saman um þetta þrátt fyrir þá misklíð sem orðin er og ég harma mjög. En á það mun reyna í störfum þingnefndarinnar.

Ég held að hæstv. ráðherra verði að fara að átta sig á því að hún er ekki ein á ferð í þessu máli. Hún er í ákveðnu samstarfi og það gengur ekkert, þó ráðherrann hafi gert fyrirvara í gær við efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem snúa að henni sjálfri eða hennar ráðuneyti, að halda sig sífellt við að það þurfi ekkert að taka tillit til samstarfsflokkanna. Það hefði áreiðanlega heyrst hljóð úr horni hjá hæstv. fjmrh. ef hæstv. samgrh. hefði gert fyrirvara við sinn þátt efnahagsráðstafananna, vegamálin, eða ef hæstv. heilbrmrh. hefði gert „prívat“ athugasemdir við að hann þyrfti að skera eitthvað niður í sínu ráðuneyti í kjölfar þessara ráðstafana. En það er eins og það sé allt á sömu bókina lært. Þessi ráðherra telur sig hafa algera sérstöðu um vinnubrögð og annað sem tíðkast og ekki þurfa að temja sér hinar venjulegu samskiptavenjur sem gilda milli flokka í stjórnarsamstarfi á Alþingi.