01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5252 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér nú ekki að taka til máls um þetta dagskrármál. En ráðherrann hefur komið því svo fyrir að mér er ómögulegt annað en segja hér nokkur orð.

Í fyrsta lagi las hæstv. ráðherra í upphafsorðum sínum bréf sem hann segir að mér hafi verið sent. Ég hef að vísu ekki fengið þetta bréf í hendur, en það kunna nú að vera eðlilegar skýringar á því, og ráðherrann gaf mér ljósrit af bréfinu svoleiðis að ég hef það hér fyrir framan mig. Efni bréfsins er að gagnrýna ummæli mín sem ég hafði við blaðamann Morgunblaðsins þann 26. þ.m.

Rómverjar sögðu: De gustibus non disputandum est, þ.e. að það sé erfitt að deila um smekksatriði. Ég lét það í ljósi að mér félli ekki uppsetning á þessu frv. og ég stend alveg við það að ég tel að hún sé ekki heppileg. Þetta er ekki skýr eða skilmerkileg uppsetning. Og það geta menn sannfærst um ef þeir fletta frv. Fjórða grein er t.d. fimm bls. að lengd og átján undirliðir. Það er miklu eðlilegra form og heppilegra að setja þetta upp sem sérstakan kafla, því þetta er sérstakur lagakafli, og láta þar koma fram greinarnar og greiða atkvæði um hverja grein fyrir sig. Það flýtir að vísu fyrir við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. að greiða atkvæði um fimm síður í einu, en ég held að hitt ætti nú ekki að vera ofverkið okkar. Sama gildir um 8. gr. Hún er upp á rúmar fjórar síður og undirliðir þar eru sautján. Að vísu er hægt að brjóta þetta upp í atkvæðagreiðslu og óska eftir atkvæðagreiðslu um hvern tölulið fyrir sig, og verður kannski gert. En ég hygg að það hefði verið aðgengilegra að setja þetta upp með venjubundnum hætti og taka afstöðu til einstakra greina.

Þar fyrir utan, og er nú kannski ekki ástæða til að kenna ráðuneytisfólki um það, þá er uppsetningin á frv. klúðursleg. Það eru lítil línubil og þetta er ekki fagurt prentverk. (Gripið fram í.) Það var einu sinni smiður á Akureyri sem reisti flugturn fyrir Flugmálastjórn og sendi svo reikning: Eitt stykki flugturn. Þetta virkar svona svipað á mig þegar ég sé svona uppsetningu. Það hefur fleirum en mér þótt þessi uppsetning flókin. Stórgáfaður þm. Kvennalistans, hv. þm. Kristín Einarsdóttir, kvartaði undan því hér áðan að hún ætti erfitt með að glöggva sig á þessu frv., þannig að ég er ekki einn um það að vera í vandræðum að ráða í þessar rúnir. Ég geri hins vegar ráð fyrir að Stefán Valgeirsson skilji þetta eins og annað í hvelli. Ráðherrann vildi kenna starfsmanni Alþingis um sem hefði verið ráðunautur sinn við uppsetninguna. En ég blanda mér ekki í það mál.

Mér þótti nú vænt um að starfsfólk ráðuneytisins fór ekki að gera athugasemd við ummæli mín þar sem ég sagði í nefndu blaðaviðtali að Jóhanna Sigurðardóttir væri ákaflega duglegur og samviskusamur ráðherra og allrar virðingar verð að því leyti. Sem betur fór gerðu þau enga athugasemd við þessi ummæli mín og ég er feginn því.

Það er að vísu rétt sem fram kemur í bréfinu að hér er ekki um gjörsamlega fordæmalausa uppsetningu að ræða. Í lögum um breytingu á jarðalögum, nr. 90/1984, þá er 10. gr., sem er um viðurkenningu á nýjum býlum, félagsbúi og jarðaskrá, upp á nærri því tvær síður ásamt með einum átta stafliðum. Þeir eru betur upp settir en hér er í þessu frv., en samt er það nú klúður þó í minna mæli sé.

Þegar Alþingi setur lög þá er eðlilegt að reyna að gera þau sem skilmerkilegast úr garði.

Ég vildi, með leyfi forseta, af því að það er nú verið að vitna til ummæla sem ég viðhafði við blaðamann Morgunblaðsins þann 26. þ.m. fá að lesa í heild það sem eftir mér er haft:

„Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, sagði að einstaklega klaufalega hefði tekist til með framgang málsins og félmrh. verið allt of bráður á sér að henda málinu inn í þingið án þess að hafa til þess ákveðnar heimildir frá samstarfsflokkunum.

„Við ákváðum á þingflokksfundi í gær að bregða ekki fæti fyrir frv. og gera ekkert vesen út af þessu. Við hefðum getað heimtað að málið yrði tekið upp að nýju, en gerðum það ekki. Við erum þó með óbundnar hendur um að flytja brtt. sem ég held að þurfi raunar að gera á þessu frv. Ef menn skoða það er lagatextinn ákaflega viðvaningslega gerður, ógreinilegur og undarlegur, t.d. eru sumar greinar upp á margar blaðsíður“, sagði Páll.“

Síðan lét ég þess getið að Jóhanna Sigurðardóttir væri ákaflega duglegur og samviskusamur ráðherra og væri allrar virðingar verð að því leyti.

"„Hins vegar er hún ekki tillitssöm við samstarfsmenn sína og leggur ekkert á sig til að ná samkomulagi. Hún veit hvað hún vill og vill fá viljann sinn nú eða strax. Og ef hún ætlar sífellt að vaða yfir allt og alla þá auðvitað endar það með því að menn þreytast og hætta að láta eftir svona keipum og segja einhvern tímann stopp.

En hér er um að ræða nokkuð mikið mál. Þetta hefur mjög víðtæk áhrif á húsnæðiskerfið og þarna er opnuð leið sem menn sjá ekki alveg fyrir sér hvert leiðir. Það aukast ekkert peningar í húsnæðiskerfinu. Peningarnir sem í kaupleiguna fara eru teknir úr öðrum lánaflokkum. Við búum við ákaflega fullkomið kerfi í Byggingarsjóði verkamanna og það kerfi býður þá tilsvarandi hnekki ef peningum verður varið í stórum stíl í kaupleiguíbúðir. En kaupleigan var kosningamál hjá Alþfl. og því er kannski ekkert óeðlilegt þó Jóhönnu langi til að láta eitthvað liggja eftir sig í húsnæðismálum“, sagði Páll Pétursson.“ — Hef ég nú lokið þessum lestri.

Ég tel að viðbrögð okkar framsóknarmanna við þessu máli, eða þeirri aðgerð félmrh. að leggja frv. fram með þeim hætti sem hún gerði, hafi verið ákaflega mild og full af tillitssemi við ráðherrann. Við hefðum að sjálfsögðu getað krafist þess að hún afturkallaði frv. Það gerðum við ekki. Við hefðum getað sent henni skriflega ofanígjöf, eins og Sjálfstfl. gerði. Það gerðum við ekki. Hins vegar komumst við náttúrlega ekki hjá því að taka það fram að við erum ekkert handjárnaðir, við tökum enga ábyrgð á því að koma þessu frv. óbreyttu í gegn. Það liggur svona í málinu og ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta.

Ég verð að segja að ég varð hissa að sjá grein hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar í Morgunblaðinu í dag. Hún heitir: „Hjá vondu fólki á Snæfellsnesi.“ Ekki veit ég nú hvernig honum datt í hug að setja þessa fyrirsögn á grein sína. En þessi grein verður heldur ekki til að greiða fyrir þessu máli né heldur sú ræða sem hann flutti hér áðan. Ég held að það sé allt of mikill misskilningur hjá hv. þm. Þó tók nú steininn úr í viðtali sem hv. þm. hafði við Sjónvarpið í fréttatíma í gærkvöldi. Þar var nú bókstaflega eins og hann hefði verið á annarri reikistjörnu. Ég a.m.k. frábið mig því að hann lýsi því í sjónvarpi hvaða framsóknarmenn samþykki eða ~þingflokkur framsóknarmanna samþykki eða samþykki ekki. Það er okkar framsóknarmanna að greina frá því hvað við höfum samþykkt og ekki samþykkt því að hv. þm. er sannarlega enginn blaðafulltrúi eða „speaker“ fyrir okkur. Hann misskilur sýnilega allt of margt til að við getum treyst honum til þess.

Í umræðum í haust um frv. um húsnæðismál lagði ég það á mig að reyna að upplýsa hæstv. félmrh. um hvaða boðleiðir ég teldi að ættu að liggja á milli þingflokka ef um heilt og hnökralaust samstarf ætti að vera að ræða. Því miður hefur hæstv. ráðherra ekki tekið mark á mér og setur sér sínar eigin reglur og því getur hún ekki gengið að vísum stuðningi okkar framsóknarmanna við þetta mál eins og það er fyrir lagt. Við erum ekki skuldbundnir að knýja þetta mál í gegnum þingið óbreytt. Og það vildi ég að hér kæmi fram.