01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5254 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að þær umræður sem hér hafa farið fram í dag um þetta dagskrármál séu að mörgu leyti merkilegar. Þær hafa nú staðið nokkuð lengi, enda er málið ekki lítið, sjálf Húsnæðisstofnun ríkisins, stjfrv. sem er til umræðu. Hins vegar verð ég að segja það að margt sem hefur komið fram í umræðunum kemur í rauninni húsnæðismálunum lítið við. Mér datt í hug rétt áður en ég gekk hér í ræðustól að af ekki ósvipuðu tilefni lét fyrrv. alþm. þau orð falla og „síteraði“ í latínu eins og hér var á undan mér gert og talaði um að svona ástand mætti nefna „mala domestica“ eða heimilisböl. Ég ætla í sjálfu sér að leiða hjá mér þær orðahnippingar sem hér hafa farið á milli stjórnarliða. Út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt þegar þrír stjórnmálaflokkar leggja saman að ágreiningur sé. Að minni hyggju er um að ræða tvenns konar ástæðu fyrir þessari stöðu. Annars vegar er um að ræða pólitískan ágreining um mikið mál og þann pólitíska ágreining verður vitaskuld að leysa hér á hinu háa Alþingi með einhverjum hætti.

Hin ástæðan sem mér sýnist vera fyrir þessum orðahnippingum sem hér hafa orðið er meginvandinn í þessum efnum, en hún er kerfið sjálft og í rauninni fjármagnsskorturinn í húsnæðislánakerfinu. Það er þó ekki hægt að segja að fjármagnsskortur sé í landinu, þannig að ekki væri hægt að gera þessum málum skil af þeim ástæðum. Ástæðurnar eru í kerfinu sjálfu.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. gat þess snemma í ræðu sinni að það hefði komið fram í umræðunum, það hefur raunar farið fram hjá mér, að umsóknir hjá húsnæðismálastjórn um þessar mundir væru um 12 000. Hann gat þess líka að umsóknir um lán til bygginga hér á höfuðborgarsvæðinu væru um 78% af þessum lánum. Þetta segir manni svolítinn hluta af þessu máli.

Ég er með fyrir framan mig ársskýrslu Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 1986 og varðandi þennan þátt málsins held ég að væri fróðlegt að líta á örfá atriði þó ekki væri annað en að bera saman tvö ár, t.d. árið 1982 og 1986, með leyfi hæstv. forseta. Ef við tökum t.d. hlutfallslega skiptingu eftir landshlutum, varðandi frumlán á þessum árum, er hún þannig að árið 1982 fara 5,7% þessara lána á Vesturland. Árið 1986 eru þau komin niður í 2,8%. Vestfirðir voru með 5,5% í sinn hlut 1982. Árið 1986 eru þeir komnir niður í 1,5%. Norðurl. v. var með 4,2% 1982. Árið 1986 er það hlutfall komið niður í 2,0%. Norðurl. e. var 1982 með 9,0% frumlánanna. 1986 er það hlutfall komið niður í 2,4%. Austurland var 1982 með 6,8%, 1986 er hlutfall Austurlands komið niður í 3,4%. Suðurland var 1982 með mjög álíka hlutfall og íbúahlutfallið er á Suðurlandi 8,7%, en 1986 var hlutfall Suðurlands komið niður í 5,5%. Reykjanes var með 31% 1982. Það hefur meira að segja fallið árið 1986 niður í 23,7%. Reykjavík hins vegar var 1982 með 29,1% frumlánanna en 1986 58,7%. Og höfuðborgarsvæðið, eins og við gjarnan köllum það, bæði Reykjanes og Reykjavík, er samtals með 1986 82,4% þessara hluta lána Húsnæðisstofnunar.

Ef við lítum á fjöldann, t.d. 1986, eru þessi frumlán Byggingarsjóðs ríkisins 1206 yfir allt landið. Lán til eldri íbúða sama ár eru 2530 og svo til verkamannabústaða tæplega 450 lán. Þetta losar 4000 lán 1986 og þá höfum við svona til viðmiðunar þessar 12 000 umsóknir sem hv. 6. þm. Norðurl. e. gerði hér að umtalsefni áðan. Þetta sýnir kannski í hnotskurn vandann sem, við er að glíma.

Það verður ekki séð að frv. sem hér er á dagskrá, stjórnarfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins, frv. um kaupleiguíbúðir, taki að nokkru marki á þessum vanda sem þarna er um að ræða. Ég get fyrir minn hlut tekið undir meginkjarnann í hugsun eða tilgangi þessa frv. Ég tel að það að koma upp kaupleigukerfi sé af hinu góða og sé í rauninni sjálfsagt að hafa slíkt kerfi í gangi hér á landi. En það er tilgangslaust í rauninni að koma á slíku kerfi á meðan húsnæðislánakerfið sem fyrir er, hinn almenni byggingarsjóður, Byggingarsjóður verkamanna og allt kerfið er í rauninni þannig sett að það getur ekki með nokkru móti komið til móts við þarfir þeirra sem þjónustunnar þurfa að njóta. Ástæðurnar eru sjálfsagt margar. En frumástæðan er lánskjaravísitalan sem hér hefur oft borið á góma. Lögin nr. 13 frá 1969 eru þess eðlis og hafa þau áhrif að þau verka sem hemill fyrst og fremst á landsbyggðaruppbygginguna. Hvers vegna skyldi það nú vera? Auðvitað er það vegna þess að það er helst hér á höfuðborgarsvæðinu sem íbúðarhús hafa haldið verðgildi sínu. Úti á landsbyggðinni hafa þau ekki gert það og það er af þeirri ástæðu m.a. sem lánskjaravísitalan er ekki viðunandi.

Tveir hv. alþm. úr stjórnarliði hafa nú nýverið lagt fram frumvörp hér á hinu háa Alþingi í þessu sambandi. Stjórnarandstaðan hefur einnig lagt fram frumvörp þannig að það er augljóst mál að það er vakandi vilji fyrir því hér í þinginu að á þessu sé tekið. En þó svo að frv. sem er til umræðu væri samþykkt næði það engum tilgangi eins og ætlast er þó til öðruvísi en að fjármagn sé fyrir hendi eins og komið hefur fram í máli margra manna hér í dag.

Nú er það svo að fyrr á þessu þingi hafa komið fram frv. um húsnæðismál, lögð fram af ýmsum aðilum. Ég get ekki látið hjá líða að minna á þau frv. sem samflokksmenn mínir, hv. þm. Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson í Ed. og Ingi Björn Albertsson og fleiri hér í Nd., hafa lagt fram um húsnæðismál, annars vegar um húsbanka og hins vegar um húsnæðisstofnun. Ég er ekki viss um að menn almennt hér á hinu háa Alþingi hafi hirt um að gera sér grein fyrir kjarnanum í þessum frv. og í því sem þar er lagt til. Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða leið sem leysir, ef samþykkt verður, þann vanda að meginhluta sem hér er við að etja og ástæðurnar eru í fyrsta lagi þríþættar.

Í tillögum Borgarafl. er gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnun ríkisins verði breytt í verulegum atriðum og hlutverki hennar breytt þannig að hún hafi einungis með að gera tvo málaflokka. Annars vegar veiti hún lán til íbúðabygginga þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn. Hinn þátturinn sem Húsnæðisstofnun ríkisins á að annast að tillögu Borgarafl. er lán til allra félagslegra íbúða, hvaða nöfnum sem nefnast, hvort heldur er um að ræða byggingarsamvinnufélög eða Byggingarsjóð verkamanna, kaupleiguíbúðir eða hvað annað sem í boði væri. Þessi tvenns konar hlutverk eiga að vera í höndum Húsnæðisstofnunar að tillögu Borgarafl. Gert er ráð fyrir því að eins og ástæður eru hjá okkur í dag sé þetta verkefni um 40% af markaðnum, 40% þess sem hér er um að ræða. En hvernig á þá að leysa hin 60% sem eftir eru?

Ég hef orðið var við að sá misskilningur er nokkuð útbreiddur að við leggjum til að bankakerfið leysi það mál, hið almenna bankakerfi. Það er ekki rétt. Við leggjum til að til þess að leysa vanda þessara 60% markaðarins verði stofnaður einn banki, húsbanki, rétt eins og gert hefur verið hvarvetna annars staðar á Norðurlöndum. Þessum banka er ætlað að starfa á þeim grundvelli nákvæmlega eins og t.d. er í Danmörku þar sem þeir fjármagna útlán sín með útgáfu sérstakra húsbréfa sem þeir hafa einkarétt á að gefa út og selja á frjálsum peningamörkuðum. Í rauninni er þar um að ræða venjuleg verðbréf eða spariskírteini sem húsbankinn býður til sölu í samkeppni á fjármagnsmarkaðinum. Ef húsbréfin eru fullkomlega traust og áreiðanleg í líkingu við verðtryggð spariskírteini ríkisins ættu ekki að vera vandkvæði á því að selja þau á hagstæðu verði fyrir stofnunina, þannig að nægilegt fjármagn verði til útlána hverju sinni. Þar sem útlán húsbankans byggja eingöngu á sölu húsnæðisbréfanna verður að vera jöfnuður milli útgáfu og sölu húsbréfa og útlána. Fyrir hvert nýtt útlán þarf að gefa út og selja húsbréf. Oftast er þetta gert á þann veg á Norðurlöndunum að röð húsnæðisbréfa er sett á markað með reglulegu millibili og lánsumsóknir afgreiddar í takt við útgáfu bréfanna. Þó er jafnalgengt hjá dönsku húsnæðisbönkunum að húsbréfin séu seld frá degi til dags og lánsumsóknir afgreiddar á sama hátt. Biðraðir eftir húsnæðislánum er þar óþekkt fyrirbrigði. Lánsumsókn er venjulega afgreidd og lánið veitt innan viku frá því að hún barst. Þetta er kjarni málsins. Eins og kerfið er hjá okkur í dag, eins og lagt er í rauninni til að það sé, eins og málin voru afgreidd nú í desember sl., er gert ráð fyrir annars vegar tveggja ára biðtíma og hins vegar hugsanlega 5–6 ára biðtíma. Aðalatriði málsins er það að koma á því jafnvægi að fram hjá þessum biðtíma verði komist.

Ég hef enn ekki komið að þeim kjarna málsins sem ég tel þó mestu skipta, en það er að finna lausn í þessum efnum sem leysir lánskjaravísitöluna af hólmi. Ég ætla þó að það sé merkasta nýmælið sem kemur fram í tillögum Borgarafl. Þar er lagt til að tekið sé upp sams konar lánakerfi, rétt eins og á Norðurlöndunum þar sem nú er mjög farið að tíðka vaxtaaðlögunarlán. Húsnæðislán í því formi ryðja sér þar mjög til rúms. Þau byggja á því að fyrir t.d. 40 ára veðlán er samið um fasta vexti til ákveðins tíma, t.d. 5 ára í senn. Gengi skuldabréfsins er háð vöxtunum sem samið er um í upphafi hvers vaxtatímabils og þar með er ljóst hver lánsupphæðin er. Við upphaf næsta vaxtatímabils er á ný samið um fasta vexti til næstu 5 ára. Er þá gamla lánið endurgreitt með nýju láni og síðan koll af kolli. Afborgunarrunan er hins vegar miðuð við 40 ára lánstíma og lánið er í raun veitt til þess tíma þótt það sé endurreiknað á t.d. 5 ára fresti. Þannig er tekið tillit til verðlagsþróunar á skynsamlegan hátt. Lántakandinn situr ekki uppi með lán þar sem lánsupphæðin, þ.e. skuldin, hækkar í sífellu þrátt fyrir stöðugar afborganir. Það er kjarni þessa máls. Hér gerir lánskjaravísitalan það að verkum að höfuðstóllinn hækkar út frá allt öðrum forsendum en veðið sem er fyrir láninu. Þess munu dæmi að veðið hefur orðið minna að verðgildi en lánið. Það er kjarni þessa máls. Út úr þessu kerfi verðum við að komast.

Það lánakerfi sem hér er verið að leggja til varðandi kaupleiguíbúðirnar er að minni hyggju ágætis leið. Meinið er hins vegar það að það er ekki hreyft við þessum grunnvanda húsnæðiskerfisins sem hér er í dag. Það er alveg sama hvaða kerfi við reynum að koma upp. Ef við ekki hreyfum við grunnvandanum er ekki árangurs að vænta.