02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5273 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. ræddi frv. ítarlega á fundi sínum í morgun og vil ég þakka nefndarmönnum gott samstarf á þessum fundi. Til viðtals við nefndina komu Tómas Árnason og Bjarni Bragi Jónsson Seðlabanka, Már Elíasson Fiskveiðasjóði, Davíð Gunnarsson Ríkisspítölunum, Gunnlaugur Sigmundsson Þróunarfélagi Íslands, Gunnar Þorsteinsson Verðlagsstofnun, Halldór Jónatansson, Jóhann Már Maríusson og Örn Marinósson Landsvirkjun, Eggert G. Þorsteinsson Tryggingastofnun, Magnús E. Guðjónsson og Sigurgeir Sigurðsson Sambandi ísl. sveitarfélaga, Sigurður Guðmundsson og Hilmar Þórisson Húsnæðisstofnun og Þórður Friðjónsson Þjóðhagsstofnun, en með nefndinni störfuðu Gunnar Hall Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Bolli Bollason fjármálaráðuneyti.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og mun minni hl. skila séráliti sem útbýtt verður innan skamms, en meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv.

Fulltrúi Kvennalista, Ingibjörg Daníelsdóttir, sat fund nefndarinnar, en Jóhann Einvarðsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt fór staða útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisatvinnuveganna versnandi á síðustu mánuðum sl. árs og fyrstu tvo mánuði þessa árs. Þess vegna var nauðsynlegt í tengslum við nýja kjarasamninga að grípa til víðtækra ráðstafana í ríkisfjármálum og lánsfjármálum og aðgerða til að treysta stöðu útflutningsatvinnuveganna og er það frv. sem hér er flutt í samræmi við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf um efnahagsaðgerðir á Alþingi sl. mánudag.

Ég þarf í rauninni ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að til slíkra aðgerða sé gripið. Það hefur orðið vart við það í öllum þeim opinberu umræðum sem fram hafa farið síðustu mánuði að jafnt stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar hafa gert sér grein fyrir því að versnandi viðskiptastaða Íslendinga, bæði vegna minnkandi aflabragða og vegna erfiðleika á erlendum mörkuðum vegna gengisþróunarinnar erlendis, hefur valdið því að sá mikli bati sem verið hafði undanfarin missiri hlaut að snúast upp í andhverfu sína þannig að við verðum nú að grípa til aðhaldsaðgerða. Þetta er í rauninni ekkert nýtt hér á landi. Við þekkjum þetta frá sögunni. Þetta eru reglubundnar sveiflur sem við höfum búið við, Íslendingar, og verðum að lifa með og ég met það svo að aðilar vinnumarkaðarins sem stóðu að kjarasamningunum á dögunum hafi metið stöðuna svo að nauðsynlegt yrði nú að grípa til varnaraðgerða til að verja þann kaupmátt sem er hjá hinum lægst launuðu þannig að hann mætti haldast óbreyttur á þessu ári frá því sem var um síðustu áramót og er þar í rauninni ekki um háar tölur að ræða borið saman við það sem við höfum oft séð í kjarasamningum. Það hefur á hinn bóginn nú valdið nokkrum kvíða og áhyggjum að þessi samningur hefur verið felldur í a.m.k. tveim verkalýðsfélögum og einnig er komið í ljós nú þegar að nokkurs óróa kann að gæta á vinnumarkaðnum að öðru leyti. Þetta kemur inn á það, sem hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson sagði í þessum ræðustól í gær, að verkalýðshreyfingin hefur veikst á undanförnum árum þannig að hún er ekki jafnvel í stakk búin og áður að gera heildarkjarasamninga því að auðvitað er það svo, þegar kakan minnkar sem á að skipta, að nýir kjarasamningar hljóta fyrst og fremst að snúast um hvernig launakjörum einstakra starfshópa eða starfsgreina, einstakra stétta skuli háttað fremur en hitt að hægt sé samtímis að hækka laun allra þegar versnar í ári. Við sjáum það líka á þeim mikla viðskiptahalla sem við blasti að þjóðin hafði í heild sinni lifað um efni fram. Það er auðvitað rétt, sem ýmsir hafa bent á, að verulegur hluti þessa greiðsluhalla stafar af vaxtagreiðslum erlendra lána, tæpir 7 milljarðar ef ég man þá tölu rétt, sem sýnir okkur hversu háskaleg sú stefna er að auka stöðugt við erlendu lánin heldur hljótum við þvert á móti að spyrna við fótum og reyna að haga okkur í samræmi við tekjur þjóðarbúsins og afrakstur þess á hverjum tíma.

Einn liðurinn í frv. er einmitt sá að draga úr erlendum lántökum, annars vegar með því að skerða erlendar lántökuheimildir um 300 millj. kr. og hins vegar með því að tvöfalda lántökugjaldið á þessu ári. En ég legg áherslu á að gert er ráð fyrir því og raunar ákveðið að þetta lántökugjald falli niður um næstu áramót. Hér er þess vegna um tímabundnar ráðstafanir að ræða til að draga úr spennunni á þessu ári og reyna að draga úr þeirri framkvæmdagleði sem hvarvetna lýsir sér í þjóðfélaginu, en ég man það frá mörgum umræðum á Alþingi að varað hefur verið sérstaklega við því að við höfum ekki kunnað okkur hóf í fjárfestingu og á það eins við nú og á öðrum tímum þegar gripið er til aðgerða til að treysta stöðu útflutnings- og samkeppnisatvinnuveganna sem er höfuðatriðið í hverju þjóðfélagi, ég tala nú ekki um þjóðfélagi eins og okkar sem er lítið og viðkvæmt og má segja að við minnstu vindgáru á gjaldeyrismörkuðum erlendis sé hætta á verulegum sveiflum hér heima. Um þetta þarf ekki að fjölyrða.

Ég vil taka það fram vegna ummæla sem féllu hér í gær að eins og frv. liggur fyrir er gert ráð fyrir því og raunar ákveðið að launaskattur verði ekki greiddur af þeim störfum sem tengjast fiskeldisstöðvum. Ég kannaði það sérstaklega við starfsmenn fjmrn. og þeir fullvissuðu sig um að það væri alveg afdráttarlaust í lögunum svo að ekki þarf um það að ræða.

Eins og frv. ber með sér er kostnaðarauki vegna ráðstafana í ríkisfjármálum til að styrkja stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna um 800 millj. kr. og er þeim mætt með því að afla nýrra tekna, draga úr útgjöldum og eins og fram kemur er hér gert ráð fyrir því að sveifarfélögin taki að sínum hluta þátt í þessum aðgerðum með því að lögfesting frv. um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er slegið á frest. Við vitum það þm. að þessar aðgerðir eru í samræmi við þá kröfu sem fram hefur komið, ekki síst frá útflutningsatvinnuvegunum, að annað sé óeðlilegt en að nokkuð sé dregið úr opinberum framkvæmdum við skilyrði eins og þessi og þegar harðnar á dalnum hjá þeim sem leggja til útflutningstekjurnar sem okkar þjóðfélag byggir á.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta frekar. Mér finnst þó rétt og skylt að taka fram í sambandi við það sem hér er sagt um að Fiskveiðasjóður skuli fresta svo sem framast sé unnt lánveitingum til nýsmíða og kaupa á fiskiskipum að ég vænti þess að Fiskveiðasjóður láti sitja fyrir að hægt verði að vinna að nýsmíði fiskiskipa hér á landi ef slíkir samningar komi upp, enda er hér um svo mikið fjármagn að tefla að það getur engum úrslitum ráðið. Hér er verið að tala um umsóknir upp á 21/2 milljarð ísl. kr. þannig að ljóst er að nægilegt svigrúm er til að heimila smíðar fiskiskipa hér innan lands ef til þeirra þarf að koma.

Ég dreg enga dul á að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga lýstu óánægju sinni yfir þessum efnahagsaðgerðum og afhentu nefndinni samþykkt stjórnar þeirra samtaka svohljóðandi, herra forseti:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um skerðingu á lögbundnu framlagi ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 260 millj. kr. frá nýsamþykktum fjárlögum, auk árlegrar skerðingar á þessum framlögum allt frá árinu 1984. Áformum um fyrri áfanga í breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er skotið á frest og með því sköpuð óvissa í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telur að framangreindar aðgerðir muni hafa mjög neikvæð áhrif á samskipti sveitarfélaganna og ríkisins.“

Svo mörg eru þau orð. Ég dreg enga dul á það og það hefur valdið mér vonbrigðum að frv. um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skuli ekki hafa fengið afgreiðslu í Nd. og þýðir ekki um það að sakast úr því sem komið er, en á hinn bóginn vil ég líka minna á að að sumu leyti er mun betur fyrir tekjustofnum sveitarfélaganna séð nú en áður þar sem staðgreiðslukerfi skatta veldur því að tekjuskattshluti sveitarfélaganna er nú verðtryggður gagnstætt því sem áður var sem er auðvitað mikil trygging fyrir sveitarfélögin og mun þegar fram í sækir mjög treysta rekstrargrundvöll sveitarfélaganna. Hitt er svo aftur annað mál að bæði sveitarstjórnarmenn og einnig við alþm. erum mjög fúsir til að nota allt það svigrúm sem við höfum hverju sinni til að stuðla að auknum framkvæmdum hins opinbera. Ég get auðvitað vel skilið að sveitarstjórnarmenn skuli taka því illa að svigrúm sveitarfélaganna til fjárfestingar skuli skert með þessum lögum nú, en þá er á hitt að líta að eftir mikinn þenslutíma eins og verið hefur, þegar raunvextir eru mjög háir í landinu, þegar við erum að berjast við að halda niðri erlendum skuldum, er ekki óeðlilegt að meiri kröfur en ella séu gerðar til þess að þeir menn sem bera ábyrgð á stjórnarstefnunni reyni eftir megni að draga svo úr opinberum framkvæmdum sem nokkur kostur er. Auðvitað eru þær kröfur, sem uppi eru á hverjum stað, allar til hinna nýtustu mála. Auðvitað mundum við vilja, sem meiri hlutann skipum hér á Alþingi, verja miklu meiri fjármunum til nýframkvæmda en hægt er á hverju ári, en ég hygg að allir þeir þm. sem staðið hafa að ríkisstjórn og allir þeir flokkar sem ábyrgð hafa borið á ríkisstjórn eigi það sammerkt að hugurinn hefur stefnt hærra en möguleikarnir hafa verið og eins er það nú. Og ég ítreka það sem ég áðan sagði: Meðan staða atvinnuveganna er ekki traustari en raun ber vitni er nauðsynlegt að fyllsta aðhalds sé gætt í opinberum framkvæmdum.

Ég veitti því athygli þegar hv. 7. þm. Reykv. talaði hér í gær að hann sló því föstu að sú gengisstefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt sé nú hrunin með þeim aðgerðum sem hér er verið að fjalla um. Þetta er auðvitað grundvallarmisskilningur. Ég hygg að honum hefði ekki þótt það mikil breyting á gjaldmiðli okkar Íslendinga á þeim tíma sem hann var viðskrh. og bankamálaráðherra þó inn í slíkar efnahagsaðgerðir hefði komið jafnsaklaus tala og 6% og minnist ég þess raunar frá þeim tímum að hann vildi ekki fella sig við að notað væri orð eins og gengisfelling eða gengissig um breytingar á verðmæti gjaldmiðilsins í takt við það sem við erum nú að tala um og fann upp nýyrðið gengisaðlögun. Það orð er að því leyti lýsandi að þær ráðstafanir sem við erum nú að gera fela fyrst og fremst í sér að reyna að aðlaga efnahagskerfið þeim rekstrarskilyrðum sem útflutningsatvinnuvegirnir búa við. Hitt kann að vera rétt hjá hv. þm. að við Íslendingar berum nú ekki gæfu til að gæta þeirrar hófstillingar sem nauðsynleg er þegar aftur harðnar í ári hjá okkur. Það hefur oft komið fyrir. Við höfum lifað það upp aftur og aftur að á víxl hafa gengið kauphækkanir einstakra stétta og gengisfellingar, að þessi gagnkvæmni hafi skrúfað upp verðbólguna og þannig í rauninni skekkt þann grundvöll sem okkar efnahagslíf byggist á. Ég hygg líka að ef við viljum vera sanngjarnir getum við metið það svo með fullum rétti að ef meira jafnvægi eða bara sæmilegt jafnvægi hefði verið í efnahagslífi okkar Íslendinga síðan 1971 væru aðstæður allar aðrar í þjóðfélaginu en nú er. Það er auðvelt að sýna fram á að erlendar skuldir væru minni og það er auðvelt að færa sterkar líkur fyrir því að kaupmáttur allra væri mun meiri en verið hefur. Sannleikurinn er auðvitað sá að þessi óstöðugleiki, sú mikla verðbólga sem við höfum búið við hefur farið logandi eldi um sparifé landsmanna og raunar líka um eigið fé ýmissa fyrirtækja þannig að eiginfjárstaða þeirra er verri en vera skyldi með þeim afleiðingum að þau eru verr undir það búin en ella að standa undir erfiðleikum eða áfalli í rekstri ef upp kemur. Við sjáum líka að sjávarútvegurinn er mjög viðkvæmur einmitt fyrir þessum ytri skilyrðum. Á stundum hrannast upp verulegar skuldir hjá sjávarútveginum. Það er ekki í fyrsta skipti sem það hefur gerst nú að skuldasöfnun hafi orðið í sjávarútvegsgreinum og á öðrum tímum tekst á undraskömmum tíma að laga rekstrarstöðu þessara fyrirtækja mjög verulega eins og raunar kemur berlega fram í því hversu mikil aukning verður í fjárfestingu útflutningsatvinnugreinanna þegar aftur árar betur.

Ég vil sem sagt leggja áherslu á að með sama hætti og aðilar vinnumarkaðarins vilja með kjarasamningum nú reyna að stuðla að því að hægt sé að verja kaupmátt lægstu launa viljum við fylgja því eftir hér á Alþingi að þetta markmið náist. Það er kjarninn í því sem við erum að gera. Það þýðir ekki að tala um aukinn kaupmátt launa ef atvinnuvegirnir standa ekki undir sér. Það er algerlega út í bláinn. Við vitum það líka af reynslunni að miklar krónutöluhækkanir launa eru af hinu illa eins og ýmsir þeir menn sem nú skipa stjórnarandstöðuna hafa manna gleggst sýnt fram á þegar þeir hafa borið ábyrgðina.

Hitt er aftur auðvelt að segja í þessum ræðustól, að vandalaust sé að bæta kjörin meira en þjóðarbúið stendur undir. Það hefur verið gert áður. Það var gert þegar talað var um samningana í gildi og það var líka sagt þegar slagorðið var Kjarasamningar eru kjarabót. Slagorðið skiptir ekki máli, en þegar þessi umræða var uppi var talað um það að ráðstafanirnar sem gerðar voru í febrúarmánuði 1978 væru af hinu illa. Þá var lofað gulli og grænum skógum. Þó var það sú tilraun sem einna merkust hefur verið til þess einmitt að reyna að rétta hlut þess fólks sem einungis hafði kauptaxtana sjálfa til að lifa af, dagvinnulaunin. En ef kjarasamningarnir fara úr böndunum, ef hver kemur á fætur öðrum, ef launaskriðið nær miklum skriði getum við sagt, er mikið skrið á launaskriðinu, þá þekkjum við það að brátt kemur til mikils óróleika og við vitum að slík þróun bitnar samstundis á þeim sem síst skyldi.

Ég vil í þessu sambandi einnig leggja áherslu á að þessar aðgerðir, sem hér er gert ráð fyrir, eiga að geta stuðlað að því að raunvaxtastig geti lækkað hér á landi eftir því sem á árið líður, auðvitað að því tilskildu að jafnvægið haldist í efnahagsmálunum sem við erum hér að tala um. Við vitum auðvitað að þetta jafnvægi er forsenda þess að vel gangi. Og eitt með öðru sem mun stuðla að því að dragi úr lánsfjárþörfinni eftir því sem á árið liður er það að um næstu áramót er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur verði upp tekinn sem m.a. hefur það í för með sér að söluskattur af fjárfestingu í atvinnurekstri, í húsbyggingum, mannvirkjum atvinnurekstrarins, fellur niður þar sem virðisaukaskatturinn af slíkum framkvæmdum kemur til frádráttar við uppgjör skattsins. Það sýnir okkur að það hlýtur að vera hagkvæmt, og þeim mun hagkvæmara sem á árið líður, fyrir atvinnufyrirtækin að fara sér hægt í slíkum framkvæmdum sem aftur er líklegt til þess að draga úr þenslunni og ætti að valda því að svo létti á lánsfjármarkaðinum að raunvextir eigi að geta lækkað um leið og þeirri stefnu verður fast fram haldið að ríkissjóður verði rekinn án halla.

Vegna þess sem hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson sagði í gær um launaskattinn, þegar hann spurði mig hér út í hliðarherbergi hvort mætti bjóða mér alla skapaða hluti, hvort ég rétti höndina upp með því í desembermánuði sem ég yrði síðan á móti í marsmánuði, þá get ég svarað honum því að ég lét mig hafa það að greiða atkvæði með launaskattinum í desembermánuði og verð að játa að alltaf lifði innan í mér sú von að til þess kynni að koma nú í mars á góu að þessum skatti yrði aflétt af útflutningsatvinnuvegunum þannig að í þetta skipti var mér afskaplega ljúft að snúa snældunni og hlýða þeim boðum sem til mín komu frá hæstv. ríkisstjórn, sem ég vil allt fyrir gera og sem ég veit að leggur sig fram um það að halda svo vel á málefnum þjóðarinnar sem nokkur kostur er.

Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða til að fara um þetta öllu fleiri orðum. Hv. stjórnarandstæðingar hafa að vísu ekki í mín eyru gert svo glögga grein fyrir þessu frv. eftir að við höfðum farið yfir það í morgun að ég viti með fullnustu hvaða afstöðu þeir hafi til frv. Það kom ekki fram á fundi nefndarinnar hvort þeir væru með frv. eða á móti. Þeir vildu skila séráliti. En ég vil í lengstu lög mega vænta þess að þeir láti betri manninn ráða gerðum sínum nú og vilji standa með okkur hinum að lögfestingu frv. eins þarft og það er fyrir okkur alla Íslendinga.